Fara í efni

Ársskýrsla 2020

Eftirlit

Eftirfarandi súlurit sýnir hlutfall skoðunaratriða sem metin eru í lagi í eftirliti á árinu 2020, eftir starfsgreinum: 

Starfsgreinar - frammistaða

Hér eru birtar gagnvirkar heildarniðurstöður eftirlits Matvælastofnunar eftir starfsgreinum 2020:

Ath. Ekki var hægt að reikna tölfræði fyrir eftirlit með fiskeldi 2020 þar sem ekki var búið að innleiða starfsgreinina í eftirlitsgagnagrunn Matvælastofnunar í upphafi árs. 

Árið í orðum

Matvælastofnun fór í gegnum viðamiklar skipulagsbreytingar á árinu 2020 með nýju skipuriti sem kjarnar vinnu stofnunarinnar betur. Auk nýrrar Starfseiningar forstjóra eru svið Matvælastofnunar í dag fjögur, þ.e. Neytendavernd og fiskeldi, Dýraheilsa, Markaðsmál og Samhæfing og þjónusta. Árið 2020 var viðburðaríkt eins og hjá flestum fyrirtækjum, stofnunum og einstaklingum, en COVID-19 heimsfaraldurinn reyndist Matvælastofnun nokkuð erfiður. Eftirlit stofnunarinnar dróst töluvert saman í byrjun faraldursins þar sem ekki var talið öruggt að framkvæma eftirlit og ekki var mikið vitað um faraldurinn og þróun hans. Í ljósi betri þekkingar og með samtölum við hagsmunasamtök eftirlitsþega, þá tókst í sameiningu að finna lausnir við helstu áskorunum til að uppfylla eftirlitsskildu stofnunarinnar. Sú vinna sýnir að samtal og sameiginlegar lausnir hagnast báðum aðilum. Fleiri áskoranir tengdar COVID-19 komu upp og má sem dæmi nefna smit í dönskum minkabúum. Þar brást Matvælastofnun hratt við og framkvæmdi sýnatökur á öllum minnkabúum landsins þar sem ekki fannst neitt smit. Ítrekað var þar við loðdýraræktendur að gæta að öllum smitvörnum til að lágmarka áhættu á að smit berist inn í búin.

Nýr forstjóri tók við stofnunninni 1. ágúst 2020 en það er Hrönn Ólína Jörundsdóttir sem tók við góðu starfi Jóns Gíslasonar sem var forstjóri stofnunarinnar frá stofnun 2008, og Landbúnaðarstofnunar fyrir það. Stofnunin þakkar Jóni kærlega fyrir ánægjulegt samstarf, vel unnin störf gegnum árin og þá uppbyggingu sem hann leiddi frá upphafi stofnunarinnar og við þróun verkefna hennar. Í kjölfar ráðningu nýs forstjóra, þá hófst stefnumótun stofnunarinnar til fimm ára á haustmánuðum og verður henni haldið áfram árið 2021. Í stefnumótun til fimm ára verður horft til innri uppbyggingar stofnunarinnar og kerfa sem starfmenn þurfa til að sinna sínum verkefnum, fjárhagslegri hagræðingu og rekstri og að lokum uppbyggingu eftirlits með hagkvæmni og hagræðingu til hliðsjónar ásamt uppbyggingu á landsbyggðinni.

Fjöldi eftirlitsumdæma stofnunarinnar breyttist á árinu þar sem umdæmið Vesturland var lagt niður og því svæði skipt milli Suðvestur og Norðvestur umdæma. Var breytingin gerð til að hagræða og hlúa betur að þjónustudýralæknum á landsbyggðinni og styrkja þeirra störf. Á árinu 2021 er í kjölfarið fyrirhuguð breyting með því að leggja niður umdæmið Austur og mun það svæði þá skiptast milli umdæmanna Norðaustur og Suður, sem um leið breytist í Suðaustur umdæmi.

Eitt stærsta riðutilfelli síðari ára kom upp á Norðurlandi eystra sem reyndist nærsamfélaginu þar gríðarlega erfitt. Hægt var að rekja smitin milli bæanna og vonandi komast fyrir frekari smit, en vel verður fylgst með svæðinu áfram. Í heildina greindist riða á fjórum bæjum í Skagafirði og voru alls um 2.500 gripir skornir. Samkvæmt reglugerð skal skera niður allt fé á búum þar sem riða hefur komið upp sem liður í að útrýma riðu á landinu. Umfangsmikil sýnataka fór fram í öllu Tröllaskagahólfi ásamt kortlagning á flutningi sauðfjár innan hólfsins.

Brexit er verkefni sem kemur inn á starfsemi stofnunarinnar í töluverðu mæli en eftirlit með heilbrigðisvottorðum frá 3ju ríkjum er fyrirferðarmikið verkefni hjá stofnunninni. Í og með að Bretland er ekki lengur aðili að Evrópusambandinu frá og með 1. janúar 2021 og flokkast þar af leiðandi sem 3ja ríki, þá var fyrirséð að starfsemi sviðs Markaðsmála (skrifstofu inn- og útflutningsmála) myndi aukast umtalsvert og hófst sú skipulagning á árinu. Áskorun var þó að gera sér grein fyrir hvort inn- og útflutningur til Bretlands yrði sambærilegur og meðan Bretland var í Evrópusambandinu.

Fyrsta áhættumat áhættumatsnefndar atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins var lagt fram að beiðni Matvælastofnunar og fjallaði það um neyslu ungmenna í 8.-10. bekk á orkudrykkjum sem innihalda koffín og afleiðingar þeirrar neyslu. Matvælastofnun telur að vinna nefndarinnar geti markað viss kaflaskil og skotið styrkari stoðum undir ákvörðunartöku stofnunarinnar þegar nauðsynlegt er að byggja hana á traustu mati á tiltekinni áhættu og mögulegum afleiðingum hennar fyrir neytendur, dýr eða plöntur.

Rekstur

Ársreikningur

Rekstur Matvælastofnunar dróst lítillega saman á árinu 2020 en veltan var 1,84 milljarðar og þar af er framlag ríkisins rúmlega 1,4 milljarðar. Tap ársins nam 83,1 mkr í samanburði við 1,4 mkr tap árið á undan og er ljóst að framundan eru erfiðir tímar í rekstri stofnunarinnar og stofnunin getur ekki lengur mætt þeim stórfellda niðurskurði sem gerður er á stofnunina.

Þess má geta að flokkun tekna og gjalda í rekstrarreikningnum sem hér er birtur er örlítið frábrugðin flokkun í birtum ársreikningi stofnunarinnar hjá Fjársýslu ríkisins en þrátt fyrir það er niðurstaða ársins sú sama enda aðeins breyting á milli innri flokka.

Rekstur 2020

Matvælastofnun sinnir greiðsluþjónustu til sjálfstætt starfandi dýralækna vegna þjónustu við bændur og námu greiðslur árið 2020 alls 288,2 mkr. Er þessi greiðsluþjónusta orðin rúmlega 20% af framlagi ríkisins til Matvælastofnunar og skiptist hún í þrennt; dýralæknaþjónustu í dreifðum byggðum til að tryggja bændum aðgang að dýralækni, bakvaktaþjónustu dýralækna og akstursjöfnunargjald vegna ferða dýralækna.

Starfsfólk

Mannauður 2020

Vöktun

Hlutfall matvælasýna í lagi

Hlutfall matvælasýna í lagi

Varnarefnaleifar í matvælum

Hlutfall sýna sem tekin eru af innlendum og erlendum matvælum á markaði á Íslandi án leifa varnarefna eða með leifar innan hámarksgildis:

Varnarefnaleifar í grænmeti og ávöxtum

Varnarefni yfir hámarksgildum

Línur afmarka hvert sýni - eitt sýni getur verið með fleira en eitt efni yfir mörkum:

Vöktun á varnarefnaleifum 2020

Frumframleiðsla matjurta er undir eftirliti heilbrigðiseftirlits sveitarfélaganna sem einnig hefur eftirlit með innflutnings- og dreifingarfyrirtækjum. Matvælastofnun skipuleggur sýnatökur vegna varnarefnaleifa, bæði í innfluttum matjurtum og innlendri ræktun. Sýnatökur og viðbrögð við niðurstöðum yfir hámarksgildum eru á hendi heilbrigðiseftirlits sveitarfélaganna.

Þegar efni greinast yfir hámarksgildi er málum fylgt eftir með stöðvun dreifingar ef varan er enn til og er framleiðanda eða innflutningsaðila gefinn kostur á að staðfesta niðurstöðu með nýju sýni. Þeim birgðum sem til eru er fargað ef niðurstaðan er staðfest. Ef varan er hugsanlega til á heimili neytenda og talin geta valdið þeim skaða, þá er hún innkölluð frá neytendum.

Þegar um innflutta vöru er að ræða er fylgst með næstu sendingum frá sama aðila. Dreifingarbann er á þeim sendingum þar til niðurstöður berast. Sendingum er fargað ef niðurstöður sýna leifar yfir hámarksgildi.

Ástæður þess að varnarefnaleifar eru yfir hámarksgildi geta verið mismunandi. Í flestum tilfellum erlendra vara hefur ástæðan verið sú að stífari reglur eru um notkun varnarefna innan EES en í Bandaríkjunum, Asíu eða Afríku. Því er í sumum tilfellum verið að stöðva dreifingu á vörum sem hugsanlega hefðu talist innihalda löglegt magn leifa í upprunalandinu.

Efnaleifar í dýraafurðum

Efnaleifar í dýraafurðum

Matvælastofnun útbýr árlega efnaleifaáætlun um eftirlit með efnaleifum og aðskotaefnum í afurðum dýra í frumframleiðslu og frumframleiðsluafurðum. Sýnatökur og viðbrögð við niðurstöðum yfir hámarksgildum eru á ábyrgð Matvælastofnunar.

Ef magn leifa er yfir hámarksgildum eða ef grunur leikur á um ólöglega meðferð (með efni sem er bannað að gefa dýrum), skal afla upplýsinga sem þarf til að bera kennsl á dýrið og býlið sem það kemur frá.

Grípa skal til viðeigandi ráðstafana og/eða rannsókna á býlinu sem dýrið kemur frá til að leita orsaka þess að efnaleifar eru yfir hámarksgildum. Gerðar eru ráðstafanir til að vernda almannaheilbrigði í samræmi við niðurstöður rannsókna, t.d. með því að banna að dýr eða afurðir fari frá hlutaðeigandi býli eða afurðastöð í tiltekinn tíma.

Ef um ítrekuð brot er að ræða skal fjölga sýnatökum á dýrum og afurðum frá býlinu í a.m.k. 6 mánuði og halda eftir afurðum og skrokkum uns niðurstöður liggja fyrir. Ef niðurstöður eru yfir hámarksgildum skulu afurðir/ skrokkar dæmdir óhæfir til manneldis.

Ef rannsókn til að skýra uppruna óleyfilegra efna sýnir að efnin eru að öllum líkindum af náttúrulegum uppruna (t.d. ógeltir grísir) og undir ráðlögðum styrk þarf ekki frekari viðbrögð.

Nánari upplýsingar er að finna undir Efnaleifar í dýraafurðum á vef Matvælastofnunar.

Skimun fyrir dýrasjúkdómum

Dýrasjúkdómaskimun 2020

Súnur

Súnur 2020

Nánari upplýsingar er að finna undir Súnur og sýklalyfjaónæmi á vef Matvælastofnunar.

Inn- og útflutningur

Árið 2020 hefur um margt markast af sóttvarnaraðgerðum vegna COVID-19. Gripið var til ítarlegra varnaraðgerða bæði til að verja starfsfólk og til að starfsemin raskaðist sem minnst ef til þess kæmi að starfsfólk smitaðist. Í þessum tilgangi var starfsfólki skipt upp í tvo hópa.  Unnið var heima annan hvern dag. 

Á árinu tóku gildi nýjar reglur varðandi innflutning hunda og katta. Helstu breytingar voru að einangrun var stytt úr 28 dögum í 14 daga. Þá voru gerðar ýmsar breytingar varðandi undirbúning dýranna fyrir komu til landsins. Veruleg vandkvæði voru á innflutningi þessara dýra vegna mjög takmarkaðra flugsamganga. Áttu margir innflytjendur erfitt með að koma dýrum sínum til landsins vegna þessa. Áhrifanna gætti sérstaklega hjá þeim sem stóðu í búferlaflutningum til Íslands. Af þessum sökum var reynt að hliðra til með komur dýranna eins og frekast var unnt, en þó án þess að slaka á sóttvörnum. Nokkur fækkun varð á fjölda innfluttra hunda og katta.  Ekki er ólíklegt að COVID-19 og takmarkaðar flugsamgöngur hafi haft þar áhrif.

Breyting varð á lögum nr. 25/1993 um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, þannig að frá og með 1. janúar 2020 var heimilt að flytja inn hrátt kjöt frá ríkjum innan Evrópska efnahagssvæðisins. Með þessu hætti Matvælastofnun að hafa eftirlit með slíkum innflutningi. 

Nokkur fækkun var í fjölda útgefinna heilbrigðisvottorða með sjávarafurðum sem mögulega skýrist af loðnubresti og lokun vinnslna víðs vegar um heim, einkum Kína.

Aðdragandi Brexit setti sinn svip á starfsemi sviðsins. Má þar helst nefna óvissu um samning milli ESB og Bretlands, sem síðar kom í ljós að hefði tiltölulega lítil áhrif á heilbrigðiseftirlit með afurðum sem sæta eftirliti frá þriðju ríkjum. 

Mikill áhugi vaknaði á innflutningi á hampfræi í á árinu. Áhugahópur um framgöngu málsins var stofnaður. Settur var á laggirnar vinnuhópur samsettur af fulltrúum ráðuneyta og stofana sem vann að reglugerð um málið

Innflutningur

Alls voru fluttar inn 256 sendingar af dýraafurðum og lífrænum afurðum frá 3ju ríkjum árið 2020. Slíkar sendingar lúta innflutningseftirliti á landamærastöðvum.

Innflutningsvottorð 2020

Í mars 2020 tók gildi ný reglugerð um innflutning hunda og katta sem fólk í sér þónokkrar breytingar á innflutningsskilyrðum. Dvöl í einangrun var stytt úr 4 vikum í 2 vikur en ýmsar breytingar voru gerðar á heilbrigðiskröfum, m.a. er nú lögð meiri áhersla á meðhöndlun gegn sníkjudýrum. En á sama tíma og nýjar reglur tóku gildi varð gífurleg röskun á flugi til landsins vegna Covid-19. Þetta olli innflytjendum hunda og katta miklum vandræðum og hafði mjög mikil áhrif á innflutning allt árið 2020. Alls voru fluttir inn 259 hundar og 65 kettir á árinu.

Innflutingur hunda og katta

Innflutingur hunda og katta eftir tegundum og löndum

Útflutningur

Árið 2020 voru gefin út 4.377 vottorð vegna útflutnings afurða eða lifandi dýra á sviði markaðsmála. Um er að ræða fækkun frá árinu áður (5.252) en þar munar mest um vottorð vegna sjávar- og fiskeldisafurða. Ekki er krafa um vottun vegna dýraafurða sem fluttar eru til landa innan EES.

Útflutningsvottorð

314 stóðhestar, 991 geldingar og 1.015 hryssur, alls 2.320 hross, voru flutt út árið 2020:

 Hrossaútflutningur

Ábendingar og fyrirspurnir

Ábendingar

825 ábendingar bárust MAST á árinu:

Ábendingar 2020

Fyrirspurnir

1.259 fyrirspurnir bárust MAST á árinu:

Fyrirspurnir 2020

Uppfært 09.11.2021
Getum við bætt efni síðunnar?