Fara í efni

Hestahald

Hrossabændur þurfa að uppfylla eftirfarandi kröfur:

Öll hross, eldri en 10 mánaða, skulu vera skráð í gagnagrunninn WorldFeng og örmerkt.

  • WorldFengur, upprunaættbók íslenska hestsins, er jafnframt opinber hjarðbók hrossa hér á landi  
  • Eigandi er umráðamaður yfir hrossinu nema annað sé tekið fram og ber ábyrgð á skráningum hrossa í sinni eigu/umsjá og að þau séu örmerkt
  • Tilgreina skal sérstaklega umráðamann fyrir hross sem eru í sameign eða í eigu félaga og einnig fyrir hross sem eru í eigu fólks sem býr erlendis og ólögráða barna
  • Eigandi getur skráð annan aðila tímabundið sem umráðamann, sem t.d. hefur hrossið í hagagöngu/vetrarfóðrun eða þjálfun
  • Umráðamaður ber ábyrgð á að hestahaldið uppfylli ákvæði reglugerðar um velferð hrossa (910/2014)
  • Umráðamaður ber ábyrgð á skilum á skýrsluhaldi og haustskýrslu búfjáreftirlits
  • Matvælastofnun fer með eftirlit með merkingum og skráningum búfjár

Velferð hrossa á útigangi

Íslenski hesturinn hefur lifað í íslenskri náttúru um aldir og er sérlega vel í stakk búinn til að ganga úti allan ársins hring. Helstu kostir útigangs felast í frelsinu þar sem náttúrulegt atferli hrossa fær notið sín. Líkamlegum þörfum þeirra er einnig betur mætt á útigangi og ber þar fyrst að nefna hreyfinguna sem er öllum hrossum mikilvæg, einkum ungviðinu sem er að vaxa og byggja upp stoðkerfið. Næringarnám hrossa verður gjarnan fjölbreyttara og heilbrigðara og hrossin eiga auðveldara með hitastjórnun enda búin þykkum vetrarfeldi. Því er æskilegt að hross sem ekki eru notuð til reiðar séu haldin á útigangi og á það ekki síður við um folöld en önnur hross. Ekki er æskilegt að halda fylfullar hryssur á húsi né láta þær kasta í aðþrengdu umhverfi hesthúsa.

Hross eru allt sumarið að undirbúa sig fyrir komandi vetur þó haustið sé mikilvægasti tíminn í því tilliti. Að hausti þurfa öll hross, sem ætlað er að ganga úti frameftir vetri eða vetrarlangt, að hafa aðgang að góðri beit og mikilvægt að þau nái að safna nokkrum fituforða. Fitulag undir húð er einangrandi og eins þurfa hross á fitu að halda til brennslu á meðan stórviðri ganga yfir.

Helstu mælikvarðar á velferð hrossa  eru holdafar og heilbrigði en auk þess er litið til atferlis og upplits hrossanna. Samræmt mat á holdafari er byggt á holdastigunarkvarða sem þróaður hefur verið fyrir íslenska hestinn og góð reynsla er komin á.

Fóður skal að magni, gæðum og næringarinnihaldi fullnægja þörfum hrossa til vaxtar og viðhalds. Þetta getur kallað á flokkun hjarðarinnar eftir fóðurþörfum, sem ráðast einkum af framleiðslu (vexti, mjólkurframleiðslu, fósturþroska) og holdafari. Mjólkandi hryssur og unghross í vexti eru í mestri þörf fyrir fóður meðan fullorðin geldhross í góðum holdum þrífast vel af litlu. Engin krafa er um að síðastnefndi hópurinn standi í heyi enda getur það fljótt leitt til offóðrunar. Mikilvægt er að útigangshross hafi aðgang að beit samhliða gjöf, ef snjóalög leyfa, svo þau séu ekki með öllu háð fóðurgjöfinni. 

Umráðamenn hrossa þurfa að fylgjast vel með veðurspám og gefa hrossum með eins til tveggja sólarhringa fyrirvara fyrir óveður, þar sem beit er ekki næg. Hafa þarf í huga að snöggar fóðurbreytingar, sér í lagi úr grófu fóðri í sterkara, auka hættu á meltingartruflunum sem geta endað með hrossasótt. Því getur verið varhugavert að gefa fyrstu heygjöf vetrarins rétt fyrir mikið óveður þar sem ekki er auðvelt að fylgjast með heilbrigði hrossanna eða koma þeim til hjálpar. Þá getur verið tryggara að þau standi af sér veðrið og fái góða gjöf þegar slotar, enda hafi þau verið á beit og ekki svöng þegar veðrið skall á.

Hross á útigangi

Það getur orkað tvímælis að flytja hross úr hólfum þar sem þau þekkja sig vel í meira skjól og aðþrengdar aðstæður stuttu fyrir óveður enda hætta á að það valdi stressi og taki frá hrossunum möguleikann á að undirbúa sig sjálf. Sama getur átt við um ýmsar aðrar skyndi aðgerðir, t.d. að reka heilu stóðin inn í skemmur eða annað húsnæði sem ekki uppfyllir þarfir um rými og loftræstingu. Stundum geta þó framangreindar aðgerðir átt við og það verða bændur og aðrir umráðamenn hrossa að meta miðað við aðstæður á hverjum stað.

Hross geta uppfyllt þarfir sína fyrir vatn með því að éta snjó en oft og tíðum tekur fyrir aðgang að vatni í fannfergi. Mjólkandi hryssur eru í mestri vökvaþörf en aðrir viðkvæmir hópar eru ungviði í vexti og hross sem fyrir aldurs sakir eru farin að ganga á vöðva og/eða með undirliggjandi efnaskiptasjúkdóma. Í frostatíð verður snjórinn óaðgengilegur og við þær aðstæður getur þurft að vatna hrossum eða brjóta upp snjó fyrir þau. Mikilvægt er að auka ekki frekar á vatnsþörfina með saltgjöf, bætiefnum steyptum í melassa eða próteinríku fóðri á meðan vatn er af skornum skammti. Hægt er að gefa slíkt í annan tíma.

Hross eru einna viðkvæmust fyrir blautviðri, sérstaklega kalsarigningum að hausti og vori þegar þau eru ekki í fullum vetrarfeldi. Þá skiptir miklu að hrossin séu á skjólgóðu landi eða hafi aðgang að manngerðum skjólveggjum. Það á þó ekki endilega við í verstu vetrarveðrum þegar snjór safnast í skjólsæla staði með miklu kófi þar í kring. Þar vilja hross alls ekki standa og getur raunar verið hætta búin í aftakaveðrum. Þá reynist betur að hross hafi aðstæður til að hópa sig saman á berangri þar sem blæs undan þeim. Taglið ver afturendann sem þau snúa undantekningalaust upp í veðrið á meðan höfuðið er lágreist í skjóli búksins. Folöldin eru vel varin í skjóli mæðra sinna, gjarnan mitt inni í hópnum og þar kemur annað ungviði sér einnig fyrir. Hætt er við að einstaklingar sem eiga undir högg að sækja í hópnum, t.d. gömul hross, lendi á jaðrinum. Þurfa umráðamenn að vera vakandi fyrir því en alla jafna skiptast hrossin á við að standa áveðurs. Fleira sem snýr að atferli hrossa mætti nefna; þau forðast greinilega allar aðþrengdar aðstæður, sviptivinda sem einkum myndast í kringum mannvirki og hvers kyns hávaða. Að öðru leyti stjórnar aðgengi að fóðri miklu um hvar þau halda sig. Því er mikilvægt að velja heppilega gjafastaði út frá veðurhorfum, taka mið af landslagi og halda hrossum þar sem slysahætta er sem minnst.

Hross á útigangi

Við eftirlit og mat á aðbúnaði hrossa á útigangi skal litið heildstætt á þá þætti sem hafa áhrif á velferð hjarðarinnar, svo sem fóðurástand, hárafar og annað heilbrigði, landgæði, skjól og veðurfar á svæðinu. Þar sem hross eru grönn (undir reiðhestholdum) skal gerð ríkari krafa um gæði hrossaskjóla, samhliða bættri fóðrun. Að sama skapi er krafan vægari ef hrossin eru í mjög góðu standi. Þar sem ungviði (folöld og/eða trippi) er haldið í sér hópum er meiri þörf á skjóli og æskilegt að hægt sé að hýsa slíka hópa í vondu veðri.

Leiðbeiningar um útigang hrossa og undirbúning fyrir stórviðri vetrarins:

  • Flokka hross eftir fóðurþörfum tímanlega að hausti og tryggja öllum hópum hentuga beit og/eða fóðrun. Mikilvægt að útgangshross séu í ríflegum reiðhestholdum (3,5) að hausti og vetrarfóðrun skal taka mið af holdafari.
  • Halda útigangshross á rúmgóðu beitilandi með breytilegu landslagi og/eða manngerðu skjóli.
  • Ormahreinsa viðkvæma hópa eða alla hjörðina eftir aðstæðum og í samráði við dýralækni.
  • Draga úr slysahættum.
  • Auka eftirlit með útigangshrossum í aðdraganda óveðurs og á eftir.
  • Huga sérstaklega að einstaklingum sem standa höllum fæti í aðdraganda óveðurs. Þetta á sérstaklega við um eldri hross sem farin eru að ganga á vöðva og/eða hafa þróað með sér efnaskiptasjúkdóma.  
  • Gefa hrossum, sem þá þegar eru komin á gjöf, með góðum fyrirvara fyrir yfirvofandi stórviðri. Gefa á opnu svæði. Meta þörfina/áhættuna fyrir aðra hópa eftir aðstæðum.
  • Vitja hrossa strax og færi gefst eftir óveður, fóðra og vatna eftir þörfum.
  • Leita til dýralækna vegna veikra hrossa og laskaðra.

Ábendingar frá almenningi gegna mikilvægu hlutverki við eftirlit með velferð hrossa og er hægt að koma ábendingum á framfæri á heimasíðu Matvælastofnunar.  

Ítarefni

Vöktun á landlægum sjúkdómum í hrossum

Tilkynningar- og úttektarskylt hestahald í atvinnuskyni

Reglugerð um velferð hrossa kveður á um úttektarskyldu Matvælastofnunar á margskonar hestahaldi í atvinnuskyni. Ábyrgðarmönnum slíkrar starfsemi ber að tilkynna starfsemina til Matvælastofnunar eigi síðar en 30 dögum áður en hún hefst og einnig ber að tilkynna starfsemi sem hófst fyrir gildistöku reglugerðarinnar. Tilgangurinn er að treysta smitvarnir og viðbrögð við smitsjúkdómum og að auðvelda eftirlit með velferð hrossa.

Eftirfarandi ákvæði gilda um tilkynningar- og úttektarskylda starfsemi:

Landsmót hestamanna

  • Öll hross skulu undirgangast heilbrigðisskoðun skv. fyrirkomulagi sem samþykkt hefur verið af Matvælastofnun
  • Sértæk viðbragðsáætlun, samþykkt af Matvælastofnun, ef upp kemur grunur um smitsjúkdóm

Íslandsmót í hestaíþróttum

  • Öll hross skulu undirgangast heilbrigðisskoðun skv. fyrirkomulagi sem samþykkt hefur verið af Matvælastofnun
  • Sértæk viðbragðsáætlun, samþykkt af Matvælastofnun, ef upp kemur grunur um smitsjúkdóm

Tæknivædd þjálfunarstöð

  • Þeir sem reka tæknivæddar þjálfunarstöðvar fyrir hross og/eða starfsmenn þeirra skulu auk grunnþekkingar á eðli og þörfum hrossa, geta sýnt fram á þekkingu á þjálfunarlífeðlisfræði hrossa eða sambærilega menntun
  • Stöðugt eftirlit skal vera með hrossum meðan á þjálfun þeirra stendur í vélknúnum tækjum eða í öðrum búnaði þar sem hross geta enga björg sér veitt, fari eitthvað úrskeiðis, s.s. í sundlaugum
  • Þar sem hross eru þjálfuð á vatnsbrettum eða í sundlaugum skal gæta sérstakra smitvarna. Hindra skal að sjúkdómsvaldandi bakteríur vaxi í vatni sem notað er við slíka þjálfun með grófhreinsun vatnsins og klórun eða annarri efnameðhöndlun og halda yfir það dagbók
  • Í dagbókina skal einnig skrá hvaða hross eru þjálfuð með þessum hætti og heilbrigði þeirra. Dagbókin skal aðgengileg eftirlitsaðilum samkvæmt reglugerð þessari í allt að tvö ár

Endurhæfingarstöð fyrir hross

  • Endurhæfing hrossa vegna álagssjúkdóma eða annarra veikinda á endurhæfingarstöð skal eingöngu eiga sér stað að lokinni sjúkdómsgreiningu og samkvæmt tilvísun frá dýralækni

Tamningastöð

  • Tilkynningarskylda

Hestahald þar sem framkvæmd er blóðtaka úr hrossum til framleiðslu afurða

  • Tilkynningarskylda

Hestaleiga

  • Umráðamanni hestaleigu ber að skrá tíðni og tímalengd notkunar á hverju hrossi
  • Dagbókin skal aðgengileg eftirlitsaðilum samkvæmt reglugerð þessari hvenær sem þurfa þykir

Reiðskóli

  • Umráðamanni reiðskóla ber að skrá tíðni og tímalengd notkunar á hverju hrossi.
  • Dagbókin skal aðgengileg eftirlitsaðilum samkvæmt reglugerð þessari hvenær sem þurfa þykir

Nánari upplýsingar: 

Holdastigun íslenskra hrossa

Holdastigun hrossa

Flokkun útigangshrossa eftir fóðurþörfum

Fóðurþarfir hrossa eru afar breytilegar og ráðast meðal annars af framleiðslu, vexti og holdafari. Því er mikilvægt að flokka hross yfir gjafatímann.

Mjólkandi hryssur og trippi sem eru að vaxa og þroskast þurfa mest að bíta og brenna. Þessi hross má gjarnan fóðra saman enda þurfa þau alla jafna góða gjöf með vetrarbeitinni. Reiðhesta og önnur geldhross þarf að flokka eftir holdafari og fóðra í samræmi við það.

Útigangshross í reiðhestsholdum (holdastig 3) eða slakari, þurfa góðan aðgang að fóðri, bæði beit og gjöf. Hinsvegar er óþarfi og jafnvel heilsuspillandi að gefa hrossum sem fara vel feit inn í veturinn (holdastig 4 eða hærra), að því gefnu að þau hafi aðgang að þokkalegri beit. Við jarðbönn og þar sem beit er rýr, þurfa öll hross einhverja gjöf. Hross þurfa að aðlagast fóðurbreytingunni sem verður þegar byrjað er að gefa þeim hey og því er æskilegt að gefa fremur lítið í byrjun og gjarnan af síðslegnu.

Íslenski hesturinn er holdsækið hrossakyn sem hefur tilhneygingu til að þróa með sér efnaskiptaröskun í líkingu við sykursýki 2 (insúlínviðnám) við jafnan og óþarflega mikinn aðgang að fóðri allan ársins hring. Hrossum á norðlægum slóðum er eðlislægt að fitna á sumrin og leggja af yfir veturinn. Í raun er það svo að hross sem fitna að sumrinu verða að ganga á forðann yfir veturinn til að viðhalda heilbrigðum efnaskiptum. Insúlínviðnám (einnig kallað „Equine Metabolic Syndrome“) eykur mjög hættuna á hófsperru, sem er sársaukafullur sjúkdómur og oftast ólæknanlegur.

Út frá sjónarmiði dýravelferðar er best að hross í ríflegum holdum leggi af smám saman yfir veturinn. Hross á vetrarbeit hafa nóg við að vera og híma síður í bið eftir fóðri. Melting á sinu skilar mikilli hitamyndun og alla jafna líður hrossum á vetrarbeit vel, jafnvel þó aðeins harðni á dalnum.

En ekki eru öll hross feit í vetrarbyrjun. Hross sem hafa verið í mikilli notkun svo sem ferðahross, keppnishross og hestleiguhestar, sem aðeins eru í reiðhestsholdum síðsumars, ná oft ekki að fitna að haustinu og eru því illa undirbúin fyrir útigang að vetri. Best er að bregðast við með því að byrja snemma að gefa þeim með beitinni. Auk þess þurfa þau að hafa aðgang að góðu skjóli. Sérstaklega þarf að huga að gömlum hestum þar sem ætla má að glerungur tannanna sé að miklu leyti uppeyddur. Það ber að fella hesta sem þrífast ekki af þeim sökum. Leita skal læknishjálpar ef einstaka hross þrífast ekki þrátt fyrir fóðrun.

Að framansögðu má ljóst vera hversu áríðandi er að flokka útigangshross eftir fóðurþörfum og haga gjöf í samræmi við það. Reglulega þarf að taka á hrossum og holdastiga til að fylgjast með viðgangi þeirra.

Flutningur hrossa

Við flutning á hestum á hestakerru skal vera slá á milli hesta sem veitir þeim stuðning, ef þeir standa þversum eða á ská. Folöldum er heimilt að standa með mæðrum sínum í stíu. Ef stefna hestanna er í akstursstefnu eða stefna þeirra er minna en 30 gráður frá akstursstefnu skal vera brjóstslá fyrir framan hestana.

Tannröspun hrossa

Það er algengur misskilningur að tennur hesta vaxi alla ævi þeirra. Sannleikurinn er sá að glerungurinn er fullmyndaður um það leyti sem hver tönn er tekin í notkun. Fyrsta varanlega tönnin er komin í gagnið þegar trippi eru veturgömul en sú síðasta við 5 vetra aldurinn. Þá hefst rótarvöxtur þeirra en ekki bætist við glerunginn. Tönnin er þá að mestu ofan í tannbeininu en hún gengur upp úr því smám saman í hlutfalli við slit tannarinnar. Glerungurinn þarf að endast hestunum alla ævi og án hans geta þeir ekki þrifist.

Tannröspun hrossa

Jaxlar hesta eiga að vera hrjúfir og með brodda á jöðrunum. Þeir eru harðasti hluti tannanna og takmarka slit þeirra. Sýnt hefur verið fram á  að séu þeir raspaðir slitna aðrir hlutar tannanna hraðar.

Óeðlilega miklir broddar geta verið til óþæginda fyrir hesta. Þeir eiga  alla jafna rætur að rekja til annarra undirliggjandi vandamála sem áríðandi er að greina og meðhöndla. Annars er hætt við að áhrif röspunar verði tímabundin.

Því fer fjarri að það geri hestum gott að slétta framtennur þeirra. Útlit þessara tanna endurspeglar flókna ferla í líffræði munnsins og getur gefið vísbendingar um að þar sé ekki allt með felldu. Misslit framtanna er ekki þekkt sem frumorsök. Minniháttar ójöfnur eru fullkomlega eðlilegar.

Inni í tönnunum er holrúm með taugum og æðum. Áríðandi er að ekki sé opnað fyrir aðgang baktería að tannholinu en það mun með tíð og tíma valda rótarbólgu með tilheyrandi sársauka og í flestum tilfellum kosta hestana lífið. Þar sem glerungurinn er þynnstur eru ekki nema 3 mm í tannholið.

Sýkingar í tönnum eru lengi að búa um sig og valda ekki alltaf greinilegum einkennum. Því sjá hestaeigendur ekki auðveldlega sambandið milli tannraspana og varanlegra tannskemmda. Hestar með tannskemmdir éta oft hægar en önnur hross og halda illa holdum. Þeir geta orðið mjög erfiðir til reiðar, vondir í beisli, og stjórnlausir. Oft eru misskilin viðbrögð eigenda slíkra hesta að raspa tennur þeirra. Algengasta sjúkdómsgreiningin í munni íslenskra hesta eru tannholdssjúkdómar sem gjarnan tengjast losi á tönnum. Í slíkum tilfellum gera tannraspanir illt verra.

Tilhneiging hefur verið til að ofmeta þátt tannbrodda sem orsök særinda í munni reiðhesta. Seinni tíma rannsóknir sem og kerfisbundnar skoðanir á munni íslenskra keppnishesta styðja ekki þá kenningu.

Við notkun á hestum til reiðar ber okkur að aðlaga búnað og reiðmennsku að munni hestsins, þannig að ekki hljótist skaði af, fremur en að sverfa tennur hestsins.

Uppfært 15.03.2021
Getum við bætt efni síðunnar?