Fara í efni

Almennar reglur um matvælasnertiefni

Efni og hlutir sem snerta matvæli mynda fjölbreytt og nokkuð flókið svið. Mörg  mismunandi efni eru notuð s.s. plast, pappír, málmar, viður, lökk, lím, prentlitir og fleira.  Efnin sem notuð eru eru ýmist notuð ein og sér eða með öðrum t.d. í marglaga fjöllaga fjölefna hlutum s.s. dæmigerðri mjólkurfernu sem samsett er úr plasti, pappír, álfilmu, lími og prentlitum. Enn fremur eru mörg mismunandi efni notuð við framleiðsluna s.s. einliður og aukefni (t.d. mýkingarefni í plast), litarefni og leysar.

Efni og hlutir í snertingu við matvæli eru hugsanlegur uppruni mengunar í allar gerðir matvæla  þar sem flest matvæli komast venjulega í snertingu við efni og hluti s.s. í gegnum framleiðslubúnað, vinnslutæki, síló og rörakerfi, umbúðir og áhöld og fleira.

Öll efni og  hlutir sem eru í snertingu við matvæli eða er ætlað að komast í snertingu við matvæli þurfa að uppfylla þá löggjöf sem um þau gilda. Innra eftirlit fyrirtækja, hvort sem er framleiðenda, dreifingaraðila eða matvælafyrirtækja sem nota vörurnar, skal koma í veg fyrir mengun frá efnum og hlutum í matvælum.

Tvær reglugerðir fjalla um þær almennu reglur sem gilda um öll efni og hluti í snertingu við matvæli.  Þetta eru s.k. grunnreglugerð og reglugerð um góða framleiðsluhætti.

Grunnreglugerð

Reglugerð Evrópusambandsins nr. 1935/2004 var innleidd í íslenska löggjöf með reglugerð 398/2008. Þessi grunnreglugerð (e. framework regulation) setur almenn skilyrði um efni og hluti í snertingu við matvæli og gildir um allar tegundir efna og hluta sem: 

  • Er ætlað að komast í snertingu við matvæli
  • Eru nú þegar í snertingu við matvæli
  • Má búast við að komist í snertingu við matvæli eða að efnisþættir þeirra berist í matvæli við eðlileg og fyrirsjáanleg notkunarskilyrði

Gildir þó ekki um :

  • Fornmuni
  • Efni til hjúpunar eða húðunar sem eru hluti af matvælunum og er neytt með þeim
  • Fastan vatnsveitubúnað fyrir almenning eða til einkanota

Helstu kröfur í grunnreglugerð

  • Að efni og hlutir í snertingu við matvæli séu örugg þ.e. að ekki flæði frá þeim efnisþættir í slíku magni að það gæti stofnað heilbrigði manna í hættu eða hafi í för  með sér óviðunandi breytingu á samsetningu matvæla eða spilli skynmatseiginleikum þeirra (lykt, bragð).
  • Efni og hlutir í snertingu við matvæli séu framleidd samkvæmt góðum framleiðsluháttum (GFH; e. GMP).
  • Efni og hlutir í snertingu við matvæli séu merkt á tiltekinn hátt.  Sjá nánar á upplýsingasíðu Matvælastofnunar um merkingar efna og hluta.
  • Merkingar, auglýsingar og kynningar efna og hluta villi ekki um fyrir neytendum.
  • Upplýsingar um rétta notkun efnisins eða hlutarins fylgi ef slíkt er nauðsynlegt.
  • Efni og hlutir séu rekjanleg í gegnum framleiðslukeðjuna.

Sérreglur

Grunnreglugerðin skilgreinir 17 flokka efna sem hægt er að setja sér reglur um þ.e. 

Virk efni og hlutir og gaumefni og –hlutir, Límefni, Leir, Korkur, Gúmmí , Gler, Jónaskiptaresín, Málmar og málmblendi, Pappír og pappi, Plast, Prentlitir, Endurgerður sellulósi, Sílíkon, Textílefni, Lakk og yfirborðsmeðferðarefni, Vax, Viður.

Nú þegar eru til sérreglur um leirhluti, endurgerðan sellulósa, plast og endurunnið plast og virk efni og hlutir og gaumefni og –hlutir.  Grunnreglugeðin skilgreinir virk efni og hluti og gaumefni og –hluti og setur fram sérkröfur varðandi þau.

Samræmisyfirlýsingar og gögn til staðfestingar á samræmi

Grunnreglugerðin gerir kröfu um að í þeim tilfellum sem settar eru sérreglur um flokka efna skal þeim efnum fylgja skrifleg yfirlýsing, s.k. samræmisyfirlýsing, um að þau séu í samræmi við reglur sem um þau gilda. Hér má lesa nánar um samræmisyfirlýsingar. Einnig skulu viðeigandi gögn vera tiltæk til að staðfesta samræmið og skulu þau gögn vera aðgengileg lögbærum yfirvöldum.

Leyfisveitingaferli

Grunnreglugerðin fastsetur það ferli sem farið skal eftir þegar sótt er um notkun efna sem ekki eru á lista yfir leyfileg efni (slíkir listar eru í dag einungis til fyrir plast).

Reglugerð um góða framleiðsluhætti

Samkvæmt grunnreglugerð um efni og hluti í snertingu við matvæli (ESB 1935/2004; IS 398/2008) skulu efni og hlutir vera farmleidd í samræmi við góða framleiðsluhætti.  Reglugerð Evrópusambandsins nr. 2023/2006 var innleidd í íslenska löggjöf með reglugerð 568/2008. Þessi reglugerð setur reglur um góða framleiðsluhætti (GFH, e. GMP) að því er varðar framleiðslu, vinnslu og dreifingu efna og hluta sem ætlað er að komast í snertingu við matvæli, að undanskilinni framleiðslu grunnefna (e. raw material).  Sett er krafa um gæðatryggingakerfi, gæðaeftirlitskerfi og skjalahald.

Gæðatryggingakerfi 

  • Skal vera skjalfest og tryggja að lokaafurð sé í samræmi við reglur sem um hana gilda.
  • Val á hráefnum skal vera þannig að lokaafurð sé í samræmi við reglur. 
  • Mismunandi aðgerðir við framleiðslu skulu framkvæmdar í samræmi við fyrirmæli og verklagsreglur.

Gæðaeftirlitskerfi

  • Nær yfir eftirlit með framkvæmd og árangri og segir fyrir um ráðstafanir um úrbætur ef mistekst að beita GFH.  Felur t.d. í sér að að gerðar séu prófanir á lokaafurð.
  • Skjalahald
  • Forskriftir, framleiðsluformúlur og vinnsluferli séu skjalfest.

Prentlitir

Reglugerð um góða framleiðsluhætti setur fram sértækar kröfur um GFH þegar notaðir eru prentlitir.

  • Prentlitir skulu notaðir á þann hátt að þeir, eða efni frá þeim, berist ekki yfir á þá hlið sem kemst í snertingu við matvæli
  • Prentað efni og hlutir skulu meðhöndluð og geymd þannig að prentlitir og efni frá þeim berist ekki yfir á þá hlið sem kemst í snertingu við matvæli

Endurunnið plast

Reglugerðin setur fram sérstakar kröfur um gæðatryggingakerfi þegar kemur að endurvinnslu plasts sem nota á í efni og hlutir í snertingu við matvæli.

Ítarefni

Uppfært 19.03.2020
Getum við bætt efni síðunnar?