Sala og dreifing á áburði
Þeir sem vilja flytja inn eða framleiða hér á landi áburð eða jarðvegsbætandi efni verða að tilkynna það til Matvælastofnunar og skulu allar vörur skráðar hjá Matvælastofnun áður en kynning, dreifing og sala hefst.
- Öllum sem flytja inn eða framleiða áburð ber að gefa Matvælastofnun upplýsingar um sölu áburðar og magn kadmíum sem flutt hefur verið inn. Yfirlýsing um kadmíuminnihald ólífræns áburðar þarf að liggja fyrir áður en sala hefst. Innihald kadmíums (Cd) á að vera minna en 50 mg kadmíum í hverju kílói fosfórs (P). Þessi yfirlýsing á að fylgja vörunni á öllum heildsölustigum og hefur kaupandi rétt á að sjá hana.
- Merkja ber áburð og jarðvegsbætandi efni greinilega með vörulýsingu. Merkingar og texti á hugsanlegum fylgiseðlum eiga að vera á íslensku. Ef merking á umbúðum er ekki á íslensku skal tryggja kaupanda tilsvarandi upplýsingar á fylgiseðli á íslensku. Fylgiseðlar með lausri vöru skulu alltaf vera á íslensku. Sjá nánar um merkingar í greinum 11. - 17. í reglugerðinni.
- Óæskileg efni í áburði:
1. Magn kadmíums í ólífrænum áburði má ekki fara yfir 50 mg Cd pr. kg P.
2. Magn bíurets í þvagefni (urea) má ekki vera hærra en gefið er upp í viðauka 1.
3. Klórinnihald má ekki fara yfir þau mörk sem skráð eru í viðauka 1. - Innheimt er eftirlitsgjald af öllum áburði til að standa straum af kostnaði við rekstur Matvælastofnunar og er það 0,1% af innflutningsverði (cif) innfluttrar vöru en 0,1% af söluverði (án VSK) innlendrar vöru.
- Frekari upplýsingar um innflutning og merkingar á áburði er að finna í bréfi til innflytjenda og framleiðenda áburðar.