Lífrænir bændur
Lífræn ræktun er aðferð til landbúnaðarframleiðslu sem stefnir að því að framleiða hráefni í matinn okkar með náttúrulegum efnum og aðferðum. Þetta þýðir að lífræn ræktun reynist hafa lítil áhrif á umhverfið þar sem reglurnar hvetja til:
- ábyrgrar notkunar á orku og nátturuauðlindum
- viðhaldi fjölbreytileika tegunda
- vernda vistkerfi svæðisins
- bæta frjósemi jarðvegarins náttúrulega
- viðhalda vatnsgæðum á svæðinu
Til viðbótar setja reglur um lífræna ræktun miklar kröfur til dýravelferðar og skylda bændur
til að uppfylla ákveðnar þarfir dýranna vegna eðlislægrar hegðunar þeirra.
Merkja má matvæli með Evrópulaufinu ef ræktun og framleiðsla uppfyllir kröfur reglugerða EES og það hefur verið vottað af til þess bæru yfirvaldi. Hér á landi er einn aðili með faggildingu til að votta lífræna framleiðslu. Það er Vottunarstofan Tún.
Bændur eru hvattir til að kynna sér aðgerðaáætlun MAR um eflingu lífrænnar framleiðslu, sjá nánar hér: https://www.stjornarradid.is/efst-a-baugi/frettir/stok-frett/2024/08/27/Adgerdaaaetlun-um-eflingu-lifraennar-framleidslu-gefin-ut/
Meginreglur í lífrænni ræktun
Lífræn ræktun er aðferð til landbúnaðarframleiðslu sem stefnir að því að framleiða hráefni í matinn okkar með náttúrulegum efnum og aðferðum. Það er mælt fyrir um ítarlegar lágmarkskröfur í reglugerðum og fela þær í sér að lífræn ræktun þarf að vera fjölhæf starfsemi þar sem notaðar eru náttúrulegar endurnýjanlegar auðlindir svo sem húsdýraáburður, skiptiræktun, belgjurtir og fóðurjurtir sem stuðla að bættri frjósemi jarðvegs og viðhalda til lengri tíma.
Strangar kröfur um áburð, fóður og plöntuvarnarefni
Bannað er að nota tilbúinn áburð og kemísk plöntuvarnarefni. Dýralyf er eingöngu heimilt að nota eftir greiningu og uppáskrift dýralæknis og er biðtími vegna afurðanýtingar tvöfaldur miðað við hefðbundinn búskap. Búfé skal fá lífrænt fóður, helst skal fóðrið ræktað á staðnum þegar því er við komið en þó með tilteknum undantekningum.
Erfðabreyttar lífverur eru bannaðar
Bannað er með öllu að nota erfðabreyttar lífverur og afurðir þeirra á öllum stigum lífrænnar ræktunar og framleiðslu
Búfjárrækt stuðlar að jafnvægi á býlinu
Búfjárrækt er óaðskiljanlegur hluti af starfsemi margra býla með lífrænum búskap. Búfé skal stuðla að því að skapa jafnvægi í framleiðslukerfinu með því að uppfylla þörf plöntunnar fyrir næringarefni og auka magn lífræns efnis í jarðveginum.
Öll dýr í lífrænni búfjárrækt skulu hafa aðgang að útisvæðum. Stærð hjarðar skal vera í réttu hlutfalli við tiltækt grassvæði. Þetta er til að koma í veg fyrir vandamál með ofbeit, rof og mengun jarðvegs og vatns.
Þekking á og virðing fyrir eðli dýra eru grunnurinn að lífrænni búfjárrækt.
Eitt af markmiðum í lífrænni framleiðslu er að tryggja góða velferð dýra, einkum að uppfylla tegundabundnar atferlisþarfir dýranna. Evrópskar reglur um lífræna ræktun eru hæsta stig dýravelferðar sen þekkjast.
Vottun og aðlögun að lífrænum reglum
Þeir sem hafa áhuga á að fara út í lífrænan landbúnað eða eru þegar í ræktun með lífrænum ræktunaraðferðum byrja á að tilkynna um starfsemina í þjónustugátt Mast eyðublað nr. 4.49 Tilkynning um lífræna framleiðslu.
Þjónustugátt Mast, hér þarf að skrá sig inn með rafrænum skilríkjum. https://umsokn.mast.is/
Í kjölfarið fá þeir nánari upplýsingar og er komið í samstarf við Vottunarstofuna Tún, en Mast hefur framselt allt eftirlit með lífrænni framleiðslu til þeirra.
- Heimasíða Túns http//www.tun.is
- Netfnag vegna fyrirspurna: organic@tun.is
- sími 511-1330
Ráðgjafamiðstöð landbúnaðarins veitir einnig ráðgjöf um aðlögun að lífrænum reglum.
Aðlögun að lílfrænum reglum
Býli sem vill hefja lífræna ræktun þarf að fara í gegnum ferli sem kallað er aðlögun að lífrænum reglum. Á þessum tíma, skal fylgja lífrænum aðferðum en afurðir má ekki enn selja sem lífrænar. Lengd aðlögunar fer eftir því hvers lags ræktun er stunduð en best er að land og bústofn fari samtímis í gegnum aðlögun. Lengd aðlögunartíma fyrir land er að finna í reglugerð ESB 2018/848 í viðauka II hluta I, lið 1.7.1 og er þessi:
- 3 ár fyrir Fjölærar jurtir, berjarunna, rabarbara og söfnun villtra jurta
- 2 ár fyrir ræktað land fyrir beit og fóður (Ræktað graslendi og ræktunarland einærra plantna)
- 2 ár fyrir sáningu eða útplöntun einærra nytjaplantna (korn, grænmeti)
- 2 ár fyrir sáningu eða gróðursetning í gróðurhúsi þar sem áður var hefðbundin ræktun.
Hægt er að sækja um að stytta þennan tíma, eða fá afturvirka aðlögun, ef rekstraraðili getur sýnt fram á að land sem er náttúrulegt eða í notkun sem landbúnaðarland hafi síðustu 3 ár ekki verið meðhöndlað með efni eða áburð sem bannað er í lífrænni ræktun. Sótt er um til Mast í gegnum þjónustugátt, umsókn 4.41.
Hvað varðar dýr er gert ráð fyrir að allt býlið gangi í gegnum aðlögun á sama tíma. Þá er aðlögunin 24 mánuðir ef allt land sem nýtt er til beitar og fóðurs er aðlagað samtímis og búfé að mestu fóðrað á heimafengnu fóðri. Aðlögun dýra er tímabil sem fóður og aðbúnaður dýra er að öllu í samræmi við lífrænar reglur og að því loknu teljast dýrin og afurðir frá dýrunum vera vottuð lífræn.
Styrkir til lífrænna bænda
Í búvörusamningum er gert ráð fyrir sérstökum styrkjum fyrir bændur til aðlögunar að lífrænum reglum.
Þá hefur Matvælaráðherra gefið út aðgerðaáætlun um eflingu lífrænnar matvælaframleiðslu.
Ráðuneytið veitir nánari upplýsingar varðandi styrki fyrir lífræna ræktun.
Undanþágur
Möguleikar á undanþágum frá reglum eru mjög takmarkaðir og miða fyrst og fremst að því að tryggja velferð dýra þó upp komi óvæntar aðstæður, sjúkdómar eða veður. Í reglugerð Reglugerð 1235/2023 um sérstakar reglur um undanþágur vegna hamfara eða annarra sérstakra aðstæðna er að finna heimildir til veitingar undanþágu frá reglum um lífræna ræktun.
Algengustu undanþágubeiðnir hafa verið vegna sáðvöru en erfitt getur reynst að fá vottaða lífræna sáðvöru sem hentar íslenskum aðstæðum.
Einnig eru möguleikar á undanþágum vegna innihaldsefna og aukefna í matvæli ef ekki er hægt að tryggja stöðuga vinnslu vegna erfiðleika með hráefni. Miklar hömlur eru á þessari gerð undanþágu og mikil krafa um gögn til að styðja veitingu undanþágu sem gildir í takmarkaðan tíma.
Sótt er um undanþágur í gegnum þjónustugátt Mast. http://www.umsokn.mast.is
4.40 „Umsókn um notkun á hefðbundnu fræi eða útsæði til lífrænnar ræktunar“
4.41 „Umsókn um undanþágu skv. heimild í reglum um lífræna framleiðslu“