Transfitusýrur
Transfitusýrur eru ein gerð harðrar fitu í matvælum en mikil neysla á þeirri gerð fitu er þekkt fyrir að auka líkur á hjarta- og æðasjúkdómum
Hvernig myndast þær?
Transfitusýrur eru ýmist í matvælunum frá náttúrunnar hendi eða vegna þess að þær hafa myndast við vinnslu/meðhöndlun. Þær koma fyrir á þrennan hátt í matvælum og myndast:
- þegar lin fita er hert að hluta (fljótandi fita gerð hörð)
- í vömb jórturdýra fyrir tilstilli baktería sem þar er að finna
- við háan hita í steikingarfeiti
Áhrif á heilsu
Ekki má gleyma því að þó að transfitusýrur séu hér til umræðu að önnur hörð fita hefur líka óæskileg áhrif á heilsufar og það er því mikilvægt að draga úr neyslu á allri harði fitu.
Magn transfitusýra
Hámarksgildi
Á Íslandi var í gildi reglugerð nr. 1045/2010 en hún setti bann við notkun transfitusýra í matvæli en hámarksgildi var við 2 g/100g fitu í matvælum öðrum en dýraafurðum sem innihalda transfitu frá náttúrunnar hendi.
Með ESB reglugerð nr. 2019/649 var innleidd í öllum aðildarríkjum í Evrópu reglugerð sem takmarkað notkun transfitusýra í matvælum. ESB reglugerðin var innleidd hérlendis árið 2020 með reglugerð nr. 124/2020 en skv. henni skal...
Innihald transfitu, annarrar en transfitu sem kemur fyrir frá náttúrunnar hendi í fitu úr dýraríkinu, í matvælum sem eru ætluð fyrir lokaneytendur og matvælum sem eru ætluð til afhendingar í smásölu ekki fara yfir 2 g á 100 g af fitu.
Hámarkið allt að 2 g í 100 g fitu gildir í matvælum sem eru ætluð lokaneytendum og matvælum sem eru ætluð til afhendingar í smásölu. Hins vegar stjórnendur matvælafyrirtækja mega afhenda öðrum stjórnendum matvælafyrirtækja matvæli með hærra magn transfitu eingöngu ef matvæli séu ekki ætluð fyrir lokaneytendur eða ekki ætluð fyrir afhendingu í smásölu.
Stjórnendur matvælafyrirtækja sem afhenda öðrum stjórnendum matvælafyrirtækja matvæli sem eru ekki ætluð fyrir lokaneytendur eða ekki ætluð fyrir afhendingu í smásölu skulu tryggja að stjórnendum matvælafyrirtækja, sem hafa fengið matvælin afhent, séu veittar upplýsingar um magn transfitu, annarrar en transfitu sem kemur fyrir frá náttúrunnar hendi í fitu úr dýraríkinu, ef það magn fer yfir 2 grömm á 100 grömm af fitu.
Merkingar
Um merkingar á matvælum fer samkvæmt reglugerð um miðlun upplýsinga um matvæli til neytenda. Samkvæmt því er hvorki skylt né leyfilegt að geta um magn transfitusýra á umbúðum matvæla.
Aftur á móti er skylt að merkja matvæli með innihaldslýsingu (með fáeinum undantekningum). Þar koma fram þau hráefni sem notuð eru við framleiðsluna og skulu þau talin upp í minnkandi magni. Með því að skoða innihaldslýsing má iðulega finna út hvort líklegt sé að varan innihaldi transfitusýrur. Gera má ráð fyrir að viðkomandi vara innihaldi transfitusýrur ef á umbúðum stendur að hún innihaldi fitu sem er hert að hluta eða hálfhert. Á erlendum tungumálum stæði partially hydrogenated oil, delvist hærdet fedt/olie, delvis härdet olje/fett eða delvis hydrogenert olje/fett. Ef eingöngu kemur fram að fitan sé hert (hydrogenated, hærdet, härdet) er ekki hægt að vita hvort hún er hert að hluta eða alveg hert og innihaldi þá ekki transfitusýrur.