Hundahald
Hér er að finna leiðbeiningar um hundahald:
Ætti ég að fá mér hund?
Langar þig í hund? Það að fá sér hund eða annað gæludýr er stór ákvörðun sem getur haft áhrif á líf þitt í langan tíma, mögulega næstu 15 árin. Það er því að mörgu að huga áður en ákvörðunin er tekin með þeirri ábyrgð sem hún felur í sér. Því miður er það nefninlega svo að margir losa sig við hundinn sinn afþví kannski var enginn tími til að sinna þörfum hans. Kannski hentaði ekki tegundin eða hundurinn varð þér erfiður afþví að hann fékk ekki uppfylltar þarfir sínar. Lög um velferð dýra gera ráð fyrir að sá sem sé með dýr í umsjá sinni búi yfir eða afli sér grunnþekkingar á þörfum og umönnun viðkomandi dýrategundar og búi yfir nægjanlegri getu til að annast dýrið í samræmi við lögin og reglugerð um velferð gæludýra.
Það er nauðsynlegt að ígrunda ákvörðunina vel áður en hún er tekin:
Hef ég tíma?
Hundar eru félagsdýr sem vilja vera með flokknum sínum sem mest (eigandi og heimilisfólk verður flokkur hundsins). Hundur getur oftast verið einn heima þegar hann hefur fengið þjálfun og aðlögun til þess, en ekki skal samt skilja hunda eftir eina lengur en 8 klst í senn. Ef hundurinn er mikið einn yfir daginn hefur hann þörf til á félagslegri samveru á kvöldin. Hvolpur yngri en 16 vikna skyldi ekki vera lengur einn og án eftirlits en 3 klst í senn.
Það þarf að viðra fullorðinn hund að minnsta kosti þrisvar yfir daginn þannig að hann geti gert þarfir sínar og fái þá hreyfingu sem er nauðsynleg tegundinni. Sumar tegundir þurfa meiri örvun og hreyfingu en aðrar, svo það er mikilvægt að fræðast um þá tegund sem þú hefur í hyggju. Gott er að vera hundapassari fyrir aðra áður en tekin er ákvörðun um að fá sér sinn eigin hund til að kynnast því í raun að hafa hund.
Passar fyrir fjölskyldu mína að hafa hund?
Oft eru það börnin í fjölskyldunni sem eiga þann draum að eignast hund, eða annað dýr. En óheimilt er að fela börnum undir 18 ára aldri að bera einum ábyrgð á gæludýri og eru því forráðamenn þeirra ábyrgir fyrir meðferð og meðhöndlun dýrsins. Hafa ber í huga hvort að það geti passað að hafa með hund í þær tómstundir sem fjölskyldan stundar, ef þær eru tímafrekar eða fela í sér mikil ferðalög. Það getur verið áskorun á barnaheimilum að finna tíma fyrir börnin og á sama tíma uppfylla þarfir heimilishundsins. Ef það eru börn í fjölskyldunni er líka gott að kanna áður hvernig tegundin almennt hentar með börnum, en það er breytilegt eftir tegundum og ræktun.
Passar fjölskyldunni að fá sér hvolp og óhjákvæmilega nota mikinn tíma í uppeldi og aðlögun hvolpsins, eða væri betra að ættleiða fullorðinn hund í heimilisleit?
Hvernig verða fríin? Getur hundurinn komið með, hefur þú eitthvað bakland með pössun, eða ertu tilbúin til að greiða fyrir vistun á hundahóteli?
Býrðu ein(n)?
Ef að maður er einn og fær sér hund er mjög skynsamlegt að hafa eitthvað bakland sem getur aðstoðað með hundinn ef upp koma veikindi hjá eiganda, eða nauðsynleg fjarvera vegna vinnu eða annars.
Hefurðu þau fjárráð sem þarf?
Það að hafa hund kostar töluvert af peningum. Kostnaður við fóður, bæli, skálar, nagbein og dót getur verið drjúgt en ofan á það bætist skráningargjöld hjá sveitarfélaginu, dýralæknakostnaður við örmerkingu, skráningu, bólusetningar, ormahreinsanir og fleira, svo ekki sé talað um ef upp kemur slys eða sjúkdómur. Mælt er með að fara með hvolpa á hvolpanámskeið, hvort sem eigandi er reyndur eða byrjandi, því þessi námskeið eru ekki síður fyrir hvlopinn en eigandann í umgengni við aðra bæði fólk og hunda. Slíkar námskeið lækka einnig skráningargjöld hjá sveitarfélögum og skilar sá kostnaður sér því beint til baka. Einnig er mjög skynsamlegt að tryggja hundinn ef kostur er á vegna slysa eða sjúkdóma. Hægt er að afla sér frekari upplýsinga um skilyrði hjá tryggingarfélögunum.
Þegar ákvörðun hefur verið tekin
Ef þú hefur ígrundað vel og ert enn ákveðinn í að það sé rétt ákvörðun að fá sér hund borgar sig að taka sér góðan tíma til að undirbúa. Undirbúningur hefst með því að velja sér tegund sem hentar, leita að góðum ræktanda, kynna sér efni um uppeldi og þjálfun á hundum, huga að hvaða tímasetning passar best að fá hundinn á heimilið svo hægt sé að gefa þeirri aðlögun nægilegan tíma og huga að lausu plássi á námskeiðum. Gott getur verið að fá ráð frá Hundaræktarfélögum og tegundarklúbbum í þessari vegferð.
Ræktun
Það er mikil ábyrgð að rækta dýr og mikilvægt að ræktendur noti aðeins heilbrigð dýr í góðu líkamlegu ástandi til undaneldis. Einnig er mikilvægt er að þau séu ekki notuð til undaneldis fyrr en þau hafa til þess líkamlegan þroska, að jafnaði er það ekki fyrr en við annað lóðatímabil. Ekki skal nota tíkur yngri en 18 mánaða til undaneldis. Tryggja skal að tíkin fái nægjanlega hvíld milli gota, að jafnaði 1-2 lóðatímabil. Tík sem tvisvar hefur gengist undir keisaraskurð má ekki nota áfram til undaneldis.
Óheimilt er að þvinga fram pörun þar sem tíkin sýnir augljós merki um óþægindi eða hræðslu.
Óheimilt er að nota hund í ræktun sem þekkt er að haldinn sé arfgengum sjúkdómi, með alvarlega skap- eða hegðunargalla eða aðra eiginleika sem haft geta áhrif á heilbrigði afkvæma eða skert eðlilegar lífslíkur og/eða skert lífsgæði þeirra.
Hvolpafullar eða mjólkandi tíkur og ungviði
Hvolpafullri tík skal útbúa viðhlítandi hvíldarpláss í rólegu umhverfi sem hún getur lagað sig að tímanlega fyrir got. Skylt er að fylgjast náið með sérhverri hvolpafullri tík sem komin er að goti. Þá skal hafa reglulegt eftirlit yfir daginn með nýgotinni tík fyrstu tvær vikurnar eftir got og skal hún ásamt hvolpum sínum njóta næðis þann tíma. Ef tík er stressuð hefur það oft mikil áhrif á hegðun hennar og hvolpana.
Mjólkandi tíkur þurfa að geta hvílt sig frá hvolpunum þegar þær hafa þörf á því og sú þörf eykst eftir því sem hvolparnir eldast og tíkin byrjar að venja þá undan. Tíkin skal ætíð hafa aðgang að legurými sem er óaðgengilegt fyrir hvolpana.
Til að hvolpar þroskist eðlilega og læri táknmál hunda og umgengni þá er mikilvægt að þeir fái að vera undir handleiðslu móður að minnsta kosti til átta vikna aldurs. Í undantekningartilfellum og þá aðeins vegna óviðráðanlegra aðstæðna, er heimilt að aðskilja hvolp frá tík áður en hann hefur náð átta vikna aldri.
Umráðamaður skal sinna hvolpi daglega til að venja hann við samskipti við manninn og fjölbreytt umhverfi. Hvolpur yngri en 16 vikna skal ekki skilinn eftir einn og án eftirlits lengur en þrjár klst. í senn.
Umönnun hunda
Um almenna umönnun hunda er hægt að lesa undir Umönnun og sjúkdómavarnir
Vistarverur hunda
Samkvæmt reglugerð um velferð gæludýra eru settar lágmarkskröfur til þess aðbúnaðar sem hundum er veitt. Óheimilt er að loka dýr í litlu og/eða gluggalausu rými. Óheimilt er að geyma hund í flutningsbúri eða í flutningstæki, sjá Flutningur og aðbúnaður hunda í flutningstæki. Ef hundar dvelja í innistíum eða innibúrum skal það vera nægilega hátt til að hundarnir geti staðið á afturfótunum án þess að reka sig upp undir, en þó aldrei lægra en 1,3m. Sjá annars lágmarksstærði í vistaverum hunda í viðauka II í reglugerð um velferð gæludýra
Tryggja skal hundi aðgengilegt svefn- og hvíldarpláss sem er laust við raka, dragsúg og hávaða. Undirlag skal vera þurrt, hreint og mjúkt. Ef fleiri hundar eru í rýminu skulu allir geta legið í legurými samtímis í flatri hliðarlegu.
Bannað er að tjóðra hunda, nema í undatekningartilfelli og þá undir eftirliti.
Hundar í útigerði skulu hafa aðgang að svæði sem veitir skugga og skjól fyrir vindi og úrkomu. Ef ekki er beinn aðgangur að innirými skal vera legurými í útigerði sem helst þurrt í úrkomu. Undirlag í útigerði skal vera þannig að þar safnist ekki vatn eða for.
Hundar sem eingöngu eru haldnir utanhúss
Fæstir hundar og hundategundir eru til þess fallnir að vera eingöngu haldnir utanhúss við íslenskar aðstæður. Einungis er heimilt að halda hunda utanhúss allan sólarhringinn sem til þess eru ræktaðir ( s.s. sleðahundar), hafa til þess líkamlegt atgervi og hafa fengið hæfilega aðlögun. Hundarnir þurfa að vera með fullþróaðan vetrarfeld með þéttan undirfeld og vatnsfrávísandi yfirfeld, ásamt þéttum feldi undir bógum, bringu, kvið og rakkar einnig á forhúð og pung. Tíkur með hvolpa og hvolpar undir 6 mánaða aldri skal ekki halda einungis utanhúss yfir vetrarmánuðina.
Hundar sem eru eingöngu haldnir utanhúss þurfa einnig að vera í góðu holdafari og er æskilegt að þeir séu í holdastuðli 5 samkvæmt viðauka III í reglugerð um velferð gæludýra. Óheimilt er að halda hund eingöngu utanhúss sé hann í holdastuðli 3 eða lægra.
Hundar sem eingöngu er haldinn utanhúss skulu hafa aðgang að hundahúsi sem veitir skjól fyrir vindi, sól og úrkomu. Legurými skal vera þurrt og mjúkt. Kröfur um stærð hundahúss og hundagerðis koma fram í viðauka II reglugerðar um velferð gæludýra.
Flutningur og aðbúnaður hunda í flutningstæki
Mikilvægt er að tryggja öryggi hunds í flutningum af öllu tagi. Laus hundur í bíl er sjálfur í mikilli hættu ef til árekstrar kemur, en skapar einnig stóra hættu fyrir bílstjóra og farþega í bílnum. Til að tryggja öryggi hunds í flutning eru ýmist notuð flutningsbúr sem þá eru fest með öruggum hætti, eða hundur er settur í beisli sem fest í öryggisbelti bifreiðar.
Sé gæludýr flutt í flutningsbúri skal það vera með heilum botni og vera það rúmt að gæludýrið geti staðið í því, snúið sér við, legið og hvílst. Í botni búrsins skal vera mjúkt og rakadrægt undirlag til að liggja á. Á búrinu skulu vera göt eða rimlar sem tryggja góða loftræstingu og útsýni.
Það er óheimilt að geyma hund í flutningsbúri eða í flutningstæki nema með vissum undantekningum. Ef verið er með hundinn á hundasýningum, hundakeppnum, hundaprófum eða vinnu til gagns og þjálfun fyrir framangreint. Þá skal viðra hundinn á minnst 3 klst. fresti. Á keppnis- og þjálfunarstöðum og eins á ferðalögum er heimilst að geyma hund í búri eða lausan í flutningstæki yfir nótt ef hitastig leyfir, en að hámarki 8 klst.. Við flutning milli staða í öðrum tilvikum en ofangreint skal dvöl hunds í kyrrstæðu ökutæki ekki vara lengur en 3 klst.
Ef sérstakar aðstæður krefjast þess má tímabundið geyma hund í flutningsbúri, en þó aldrei lengur en 3 klst.
Í þéttbýli og á þjóðvegum er óheimilt að flytja hund á opnum palli í flutningstæki, nema þá stutta vegalengt. Þá skal þá hundurinn vera í búri með tryggum festingum eða hundurinn bundinn með bringubeisli sem er tryggilega fest í ökutæki. Óheimilt er að flytja gæludýr í farangursrými bifreiðar nema hægt sé að fylgjast með líðan þess úr farþegarými meðan á ferð stendur.
Þrátt fyrir að meðalhiti á Íslandi sé ekki mjög hár er mikilvægt að gera sér grein fyrir að hitinn inni í bifreið getur orðið mikill ef sólin skín og því miður hefur það komið fyrir hér á landi að hundar geymdir í bíl ofhitnuðu og létu lífið. Það er alfarið á ábyrgð umráðamanns að tryggja öryggi hunds í bifreið og ekki má skilja eftir hund í flutningstæki án eftirlits ef talið er að hitastig geti farið yfir 25 gráður Celsius.
Mikilvægt er að þjálfa hvolpa við að ferðast í bíl í litlum skrefum með jákvæðum hætti, þannig að honum líði vel í bílnum áður en farið er að skilja hann eftir einan. Aldrei má skilja hund eftir einan í flutningstæki ef hann sýnir merki um vanlíðan.
Ef ferðast er með hund á sjó er mjög mikilvægt að tryggja öryggi gæludýrs þannig að það geti ekki fallið útbyrðis og sé varið fyrir kulda og bleytu.
Fyrir flutning í flugvélum gilda alþjóðastaðlar flugfélanna, sjá viðauka II í reglugerð um velferð gæludýra.
Aðeins í undantekningartilvikum og í samráði við dýralækni er heimilt að nota róandi/kvíðastillandi lyf fyrir flutning. Skulu þá fylgja dýrinu skriflegar upplýsingar um tegund lyfs, magn og tímasetningu inngjafar.
Lausir hundar
Samkvæmt lögum um velferð dýra skal umráðamaður dýrs gera ráðstafanir til að handsama dýr sem hafa sloppið úr haldi. Sveitarfélögum er skylt að að aðstöðu til að halda dýr og taka laus dýr í vörslu sína, lesa af þeim örmerki og gera ráðstafanir til að hafa upp á umráðamanni. Ef umráðamaður vitjar ekki dýrsins innan viku, eða sveitarfélagi tekst ekki að hafa upp á dýrinu innan tveggja vikna er sveitarfélaginu frjálst að ráðstafa dýrinu eða aflífa. Ef dýrið er ekki örmerkt er sveitarfélaginu heimilt að ráðstafa dýrinu eftir tvo sólarhringa. Það er því afar mikilvægt fyrir umráðamenn hunda og þeirra velferð að þeir séu örmerkti og skráðir í miðlægan gagnagrunn eins og er skylt samkvæmt reglugerð um velferð gæludýra. Sjá Merking og skráning.
Ef hundur bítur
Skv. lögum um velferð dýra ber umráðamönnum dýra að vernda dýr sín fyrir hættum og meiðslum eins og kostur er.
- Þegar hundar bíta fólk skal tilkynna það til lögreglu sé talin ástæða til
- Þegar hundar bíta önnur dýr og/eða fólk þá er það í flestum tilfellum brot á samþykktum sveitarfélaga. Hægt er að leita til heilbrigðiseftirlits viðkomandi sveitarfélags sé talin ástæða til
- Ef grunur leikur á að hundur bíti vegna illrar meðferðar hans þá ber að tilkynna grun um illa meðferð á dýrum til Matvælastofnunar
- Senda ábendingu vegna gruns um illa meðferð á hundi
Tilkynningarskylt hundahald