Rétt notkun umbúða
Röng notkun umbúða og íláta getur leitt til þess að óæskileg efni berist úr þeim í matvælin. Það hvaða efni og hversu mikið af þeim getur komist í matvæli úr umbúðum og ílátum er háð gerð þeirra, hitastigi, tíma og gerð matvælanna.
- Notið aðeins ílát og umbúðir sem eru ætlaðar til að snerta matvæli
- Ekki nota sorppoka eða innkaupapoka
- Ekki nota plastílát undan efnavöru eða hreinlætisvörum
Val á umbúðum
Leitið eftir merkingum sem gefa til kynna að viðkomandi hlutur eða efni sé ætlað undir eða til að snerta matvæli s.s.
- Textanum „fyrir matvæli“
- „glas og gaffal“ merkinu
- Vöruheiti sem gefur til kynna ætlaða notkun s.s. „matvælapokar“ eða „bökunarpappír“
Athugið að merkingar þurfa ekki endilega að vera prentaðar á sjálfa hlutina, heldur geta verið á ytri umbúðum eða á tilkynningum við vörurnar. Ef umbúðir og ílát eru aðeins gerð til að geyma ákveðna tegund matvæla á það að koma fram í merkingum.
- Ef leiðbeiningar um rétta notkun hlutar fylgja skal ávalt fylgja þeim
Endurnotkun umbúða – umbúðir af skyndibita
Margvísleg ílát og umbúðir af matvælum má nota aftur til að geyma matvæli eftir að þau hafa verið þvegin vel. Þó þarf að hafa í huga að samsetning og sýrustig þeirra matvæla sem geymd sé ekki mjög frábrugðið því sem áður var í umbúðunum og hitasig sé svipað
- Ílát undan ís og mjólkurvörum er hentug til að frysta matvæli eða geyma í kæli
- Forðist að nota mjúk og/eða lituð plastílát fyrir feit og heit matvæli
- Glerílát sem ekki fara til endurvinnslu má nota heimavið
- Geymið ekki matvæli í umbúðum af skyndibita
- Bakið ekki í gömlum mjólkurfernum eða sælgætisdósum
Ekki er mælt með því að geyma matvæli til lengri tíma í umbúðum utan af skyndibita, s.s. í pítsukössum, pappírspokum og frauðplastkössum. Umbúðir sem notaðar eru undir skyndibita eru í flestum tilfellum framleiddar með það í huga að tíminn sem matvælin snerta umbúðirnar sé fremur stuttur og eiga þá að vera örugg miðað við þá notkun. Það er hinsvegar ekki víst að þær séu öruggar til að geyma matvæli lengur en nokkrar klst eða til að endurhita í. Í einhverjum tilfellum kann þó að vera að sérstakar merkingar fylgi sem taka fram hvernig er óhætt að endurnota umbúðirnar. Á sama hátt eru fernur undan mjólk eða dósir undan sælgæti að öllum líkindum ekki framleitt með það í huga að í þeim sé bakað og því er ekki ráðlegt að gera það.
Í örbylgjuofn?
Þegar matvæli eru hituð í örbylgjuofn skal gæta sérstaklega að því að nota einungis ílát og umbúðir sem eru ætluð til þess.
- Matarfilmu sem má fara í örbylgjuofn
- Plastílát sem eru ætluð til að þola örbylgjuofn
- Almennt má nota gler og postulín í örbylgjuofn
- Aðeins má nota álpappír og málmílát ef örbylgjuofninn er til þess gerður
- Ekki melamín skálar eða ílát í örbylgjuofn
Gler
- Gler hentar undir öll matvæli. Athugið þó vel hvaða hitastig glerið þolir.
- Ef glerkrukkur með lokum sem ekki eru úr gleri eru notaðar, látið krukkurnar standa uppréttar þannig að matvælin komist ekki í snertingu við efnið í lokinu
Kristall
- Geymið ekki vín eða önnur súr matvæli í kristalsflöskum,
- Kristall inniheldur allt að 24% blý og ef geymd eru súr matvæli í honum þá flæðir blý út í þau, því meira eftir því sem þau eru súrari. Magn blýs sem flæðir eykst eftir því sem matvælin eru lengur i snertingu við kristalinn.
Álpappír
- Álpappír hentar vel fyrir margvísleg matvæli t.d. kjöt, ost og smjör.
- Notið ekki ílát úr áli eða álpappír fyrir súr matvæli s.s. sítrónur, ávaxtagrauta, súrsaðar gúrkur, tómatvörur o.s.frv.
- Súr matvæli geymast best í gleri (ekki kristal) eða plastílátum. - Notið ekki álpappír yfir málmílát ef raki er til staðar
Ef álpappír er notaður yfir ílát úr öðrum málmum (s.s. silfur, stál eða járn) og raki er til staðar getur orðið efnahvarf sem veldur því að álpappírinn leysist upp, verður götóttur, og ál situr eftir á matvælunum. Notið því frekar viðeigandi plastfilmu yfir slík ílát.
Plast
Veljið plastílát og filmur af gaumgæfni og notið eingöngu hluti sem ætlaðir eru til snertingar við þau matvæli og aðstæður sem um ræðir hverju sinni.
- Flestar plastfilmur og ílát henta ágætlega fyrir ávexti, grænmeti og brauðvörur
- Sumar filmur og ílát henta fyrir fiturík matvæli
- Notið frystipoka fyrir frystivörur
- Hendið gömlum slitnum eða sprungnum/brotnum plastílátum
Pappír og pappi
Notið eingöngu pappír í beinni snertingu við matvæli sem er ætlaður til slíks brúks s.s. merktur með glas og gaffalmerki. Endurunninn pappír hentar sjaldnast til snertingar við matvæli (hann getur t.d. innihaldið leifar af prentsvertu o.fl.).
- Notið endurunninn pappír með aðgát
- Notið ekki dagblöð í beinni snertingu við matvæli
- Litríkar prentaðar munnþurkur (servéttur) eru ekki endilega ætlaðar til snertingar við matvæli
Niðursuðudósir
- Geymið ekki mat í niðursuðudósum efir að þær hafa verið opnaðar.
- Þegar dósir eru opnaðar rofnar lakkið sem er yfir málminum og snerting getur orðið milli málmsins (s.s. tin) og matvælanna. Þetta getur gefið
málmbragð af matnum.
- Hitið ekki mat í niðursuðudósum (nema þær séu sérstaklega til þess gerðar).
- Við hitun dósa t.d. á eldi eða á grilli getur hitastigið orðið slíkt að óæskileg efni geta flætt úr lakkinu inní dósinni.
Leirhlutir
Glerungur á leirhlutum getur innihaldið blý og kadmíum og ríkulega litskreyttir leirhlutir geta einnig gefið frá sér mikið magn af þungmálmum.
- Aldrei skal nota leirhluti undir matvæli nema að fullvissa sig um að þeir séu ætlaðir til snertingar við matvæli, sérstaklega ef um er ræða ávaxtagrauta, ávaxtasafa og vín.
Viður
- Notið ekki fúavarið byggingatimbur í snertingu við matvæli, ekki heldur sem skurðarbretti
- Ef þörf er á að meðhöndla viðarbretti eða annann eldhúsbúnað úr viði með olíu, notið eingöngu til þess gerða olíu (eða matarolíur)