Flutningar og sjúkdómavarnir í nautgripum
Til að hindra útbreiðslu sjúkdóma þurfa kúabændur og nautgriparæktendur að:
- Virða reglur um flutning nautgripa milli varnarhólfa.
- Kynna sér lög um dýrasjúkdóma og reglugerð um garnaveiki.
- Skrá alla flutninga og tryggja að hjarðbók gefi rétta mynd af stöðu hjarðarinnar.
- Nota lágþrýstiþvott í stað háþrýstiþvotts við þrif á umhverfi nautgripa.
- Stunda ábyrgar smitvarnir í tengslum við nautgripi; handþvottur (sótthreinsun með handspritti eingöngu er ekki nægjanlegt, ætíð skal þvo hendur fyrst) og stígvélaþvottur er afar mikilvægur til að draga úr líkum á dreifingu smitefna.
Flutningur nautgripa yfir varnarlínur
Flutningur á nautgripum yfir varnarlínur er ekki leyfisskyldur. En sérstök rannsókn á heilbrigði þeirra þarf að fara fram (sbr. 25 gr laga nr 25/1993 um dýrasjúkdóma) og er þá sérstaklega horft til stöðu garnaveiki á því svæði sem flytja skal frá. Einnig er horft til þess hvort veiruskita sé í gangi á þeim tíma sem flutningurinn er áætlaður.
Þessi rannsókn á heilbrigði getur farið fram á tvennan hátt.
- Hægt er að hafa samband við hlutaðeigandi héraðsdýralækni og fá samþykki hans fyrir flutningnum.
- Hægt er að ráðfæra sig við praktiserandi dýralækni og fá hjá honum vottorð um heilbrigði gripanna sem síðan er hægt að framvísa til starfsmanna Matvælastofnunar ef óskað er.
Koma ferðamanna og bænda á bæi
Á síðari árum hefur færst í vöxt að ferðamenn komi á bændabæi og nýti sér ferðaþjónustu bænda um lengri eða skemmri tíma.
Jafnframt hafa skipulagðar bændaferðir til útlanda færst í vöxt. Í slíkum ferðum er yfirleitt farið í heimsóknir á bóndabæi eða landbúnaðarsýningar þar sem dýr eru sýnd.
Með auknum straumi ferðamanna til landsins og ferðum bænda erlendis (og innanlands) er aukin hætta á útbreiðslu smitsjúkdóma í dýrum.
Eftirtalin atriði er vert að hafa í huga til að draga úr smithættu:
- Gestir skulu varast að hafa með sér grófbotna skó, stígvél eða annan búnað sem notaður hefur verið í umhverfi dýra.
- Komi gestir beint frá bóndabæ erlendis eða hafi verið í snertingu við dýr rétt fyrir komuna til landsins, er óæskilegt að þeir umgangist dýr á Íslandi fyrstu 48 klukkustundirnar.
- Við heimsókn í gripahús ættu allir gestir að klæðast hreinum utanyfirfötum og stígvélum eða skóhlífum, annað hvort einnota eða fatnaði búsins. Til viðbótar er gott að hafa sótthreinsandi skóbað við inngöngu í gripahúsin.
- Gott er að setja upp viðvörunarskilti á áberandi stöðum til að vekja fólk til umhugsunar.
- Dýrum skulu ekki gefnar matarleifar.
Ferðist fólk um landbúnaðarsvæði skal það setja öll föt, sem notuð eru við heimsóknir á bú, í plastpoka strax að lokinni notkun og þvo í þvottavél eða þurrhreinsa í efnalaug strax eftir heimkomu. Skófatnað þarf einnig að þrífa og síðan sótthreinsa með VirkonS® eða öðrum sambærilegum efnum, sem má fá hjá dýralæknum og verslunum sem selja vörur til landbúnaðarins. Klór er ekki virkt gegn öllum veirum t.d. gin- og klaufaveikiveiru.
Virðum reglur um innflutning á:
Bóndi ver þitt bú!
Enginn getur varið hann betur en þið sjálf og enginn ber meiri ábyrgð á því. Hleypið engum sem er að koma erlendis frá inn í fjósið, fjárhúsið, svínahúsið, hesthúsið, alifuglahúsið, kanínuhúsið, minkahúsið o.s.frv. nema nauðsynlegt sé og gætið þess að viðkomandi sýni smitgát. Verið sjálfir góð fyrirmynd.
Úðasmit með háþrýstiþvotti
Matvælastofnun telur að háþrýstiþvottur á umhverfi nautgripa geti verið ein af smitleiðum STEC smits yfir í fólk. Stofnunin vekur athygli bænda og annarra framleiðenda á því að úði frá háþrýstiþvotti á smituðu umhverfi geti dreift smitefnum og valdið sjúkdómi í dýrum og mönnum.
Á Íslandi og víðar er hefð fyrir því að nota háþrýstiþvott í landbúnaði. Í úðanum sem myndast við háþrýstiþvott geta verið sveppir, bakteríur, veirur, sníkjudýr eða önnur smitefni sem berast auðveldlega í fólk og dýr, t.d. með því að anda úðanum að sér. Auk þess leggst úðinn á yfirborðsfleti og mengar þá. Smit getur þá orðið við snertingu. Fólk í landbúnaði þarf að gera sér grein fyrir þessu og endurskoða starfsvenjur sínar þannig að komið verði í veg fyrir óþarfa dreifingu smits. Það sama getur átt við í matvælaiðnaði.
Lágþrýstiþvottur (20-22 bör) hefur kosti umfram háþrýstiþvott (um og yfir 100 bör) að því leiti að hvorki myndast úði né dreifast óhreinindi eins mikið, þannig er lágþrýstiþvottur betri kostur til þvotta í landbúnaði. Í landbúnaði eru óhjákvæmilega smitefni og ætíð ætti að gera ráð fyrir að smitefni geti verið hættuleg heilsu manna og dýra. Í öllu falli ætti ekki að nota háþrýstiþvott þar sem nálægð er mikil milli dýra og manna og/eða matvæla, því úðinn fer víða. Aldrei skal þvo gripahús með háþrýstingi þegar dýr eru inni og nota skal grímur til að verjast úðasmiti.
Sýking af völdum sníkjudýrsins Cryptosporidium parvum meðal dýralæknanema í Danmörku árið 2012 er gott dæmi um hvað getur gerst við háþrýstiþvott í smituðu umhverfi. Við frágang eftir verklega kennslu með kálfa sem voru með niðurgang var kennslurýmið háþrýstiþvegið. Allir sem þar voru inni veiktust, alls 24 manns. Smitið barst að öllum líkindum með úðanum sem myndaðist við þvottinn, sem viðstaddir önduðu að sér.
Matvælastofnun hvetur bændur og þá sem eru ábyrgir fyrir matvælaöryggi til að skoða þrifa- og sótthreinsiaðferðir sem viðhafðar eru og leita ráða um tæki og efni sem í boði eru á markaðnum og henta vel til notkunar í landbúnaði og við meðferð matvæla.