Flutningur á heyi, hálmi og torfi innanlands
Flutningar á heyi, hálmi og torfi yfir varnarlínur eru í sumum tilfellum háðir leyfum Matvælastofnunar. Sumir flutningar krefjast ekki leyfis og aðrir flutningar eru hreinlega bannaðir út frá ákvæðum reglugerða og laga.
Skv. reglugerð um garnaveiki nr. 911/2011 er óheimilt að flytja af garnaveikibæjum búfjáráburð og hey, heyköggla, hálm, túnþökur og gróðurmold af landi sem húsdýraáburður hefur verið borinn á eða jórturdýr gengið á.
Skv. reglugerð um útrýmingu á riðuveiki nr. 651/2001 þá er óheimilt að flytja milli bæja innan riðusýktra svæða og áhættusvæða hvaðeina, sem getur borið smitefni milli staða, svo sem hey, heyköggla og hálm, húsdýraáburð, túnþökur og gróðurmold. Í ákveðnum tilfellum getur héraðsdýralæknir veitt leyfi en þá þarf hey að vera í plöstuðum stórböggum eða rúllu. Þökur má aðeins nota á svæðum þar sem sauðfé kemst ekki að.
Skv. lögum um dýrasjúkdóma er óheimilt að flytja hey og annað sem getur borið smitefni, frá riðusýktum svæðum yfir á hrein svæði. Matvælastofnun er heimilt að takmarka eða banna flutning dýra, vöru eða tækja milli eða innan sóttvarnarsvæða telji stofnunin að það valdi eða sé líklegt til að valda útbreiðslu sjúkdóma meðal dýra. Því er flutningur á heyi, heykögglum, hálmi, húsdýraáburði, túnþökum, gróðurmold sem og landbúnaðartækjum yfir á líflambasölusvæði alltaf bannaður nema með leyfi héraðsdýralæknis.
Ekki er þörf á leyfi þegar þessar vörur eru fluttar yfir varnarlínur frá hreinum svæðum með tilliti til riðu- og garnaveiki.