Dýr notuð í vísindaskyni
Umsóknir um leyfi til dýratilrauna ber að senda til Matvælastofnunar. Þær eru aðgengilegar á þjónustugátt MAST. Umsóknir þurfa að berast fyrir þann 30. hvers mánaðar til að tryggja afgreiðslu fyrir lok næsta mánaðar. Athugið engin meðhöndlun er á umsóknum í desember, júní og júlí. Til að fá meðhöndlun umsókna í nóvember þarf umsóknin að hafa borist fyrir 30. október. Umsóknir sem berast á tímabilinu 31. október til 30. desember verða meðhöndlaðar í lok janúar næsta árs. Til að fá meðhöndlun fyrir sumarfrí (í lok maí) þarf umsókn að hafa borist fyrir 30. apríl. Umsóknir sem berast á tímabilinu 30. apríl til 30. júlí verða meðhöndlaðar í lok ágúst.
Samkvæmt 33. gr. laga 55/2013 um velferð dýra hefur Matvælastofnun heimild til að innheimta leyfisgjald fyrir þau leyfi sem stofnunin veitir. Fyrir hverja tilraun sem Matvælastofnun veitir leyfi fyrir, skal leyfishafi greiða fjárupphæð í samræmi við gjaldskrá Matvælastofnunarinnar.
- Umsókn – Leyfi til dýratilrauna: 73.635 kr
- Breyting á umsókn v/leyfi til dýrtilrauna: 24.545 kr.
- Flýtimeðferð á umsókn v/leyfi til dýratilrauna: 103.438 kr.
Ráðherra fer með yfirstjórn mála er varðar velferð dýra. Matvælastofnun fer með framkvæmd stjórnsýslunnar og hefur eftirlit með því að ákvæðum laga og reglugerða sé fylgt. Matvælastofnun er skylt að leita álits Fagráðs um velferð dýra um stefnumótandi ákvarðanir og umsóknir um leyfi til dýratilrauna.
Fagráðið hittist reglulega og tekur til umfjöllunar umsóknir um leyfi til dýratilrauna og leyfi fyrir aðstöðu fyrir tilraunadýr og tilraunastöð. Nefndin starfar samkvæmt lögum um velferð dýra og reglugerð um vernd dýra sem eru notuð í vísindaskyni.