Næringar- og heilsufullyrðingar
Fullyrðingar er varða matvæli eru algengar á umbúðum, í auglýsingum, á netsíðum og víðar. Strangar reglur gilda um notkun fullyrðinga. Algengt er að fullyrðingar vísi til þess að varan eða innihaldsefni hennar hafi jákvæð áhrif í næringarfræðilegum eða heilsufarslegum skilningi. Slíkar fullyrðingar nefnast næringar- og heilsufullyrðingar.
Næringarfullyrðingar eru fullyrðingar um jákvætt næringarlegt gildi matvæla. Þetta eru t.d. fullyrðingar um að matvæli innihaldi næringarefni eins og vítamín, steinefni, prótein eða trefjar, og fullyrðingar um næringarefni sem fjarlægð eru úr matvælum eða magn þeirra skert, þar sem þau eru almennt ekki talin æskileg til neyslu í miklu magni, eins og t.d. mettuð fita eða viðbættur sykur. Dæmi: "inniheldur járn" .
Heilsufullyrðingar eru fullyrðingar um að tengsl séu milli heilbrigðis/heilsu og ákveðins matvælaflokks, ákveðinnar matvöru eða eins af innihaldsefnum þeirra.
Dæmi:
Járn stuðlar að eðlilegum flutningi súrefnis um líkamann.
Fullyrðingaskrá Evrópusambandsins
Til að halda utan um leyfilegar næringar- og heilsufullyrðingar hefur framkvæmdastjórn Evrópusambandsins komið á fót fullyrðingaskrá. Upplýsingar í fullyrðingaskránni eru á ensku.
Fullyrðingaskráin er aðgengileg almenningi og gildir skráin um allt Evrópusambandið. Í henni kemur eftirfarandi fram:
- listi yfir leyfilegar næringarfullyrðingar og skilyrðin sem gilda um þær
- listar yfir leyfilegar heilsufullyrðingar og skilyrðin sem gilda um notkun þeirra
- listi yfir heilsufullyrðingar, sem hefur verið hafnað, ásamt ástæðum fyrir höfnun þeirra
- heilsufullyrðingar, sem eru leyfðar á grundvelli gagna, sem njóta einkaleyfisverndar, eru skráðar í sérstökum viðauka við fullyrðingaskrána.
Matvælafyrirtæki mega nota heilsufullyrðingar sem eru tilgreindar á fullyrðingalistunum í samræmi við skilyrðin sem gilda um þær svo framarlega sem notkun þeirra sé ekki takmörkuð með gagnavernd.
Íslenskir listar yfir leyfilegar næringar- og heilsufullyrðingar
Matvælastofnun hefur tekið saman lista á íslensku yfir leyfðar næringar- og heilsufullyrðingar: