Kattahald
Ætti ég að fá mér kött?
Það að fá sér kött er stór ákvörðun sem getur haft áhrif á líf þitt í langan tíma, mögulega næstu 15 árin. Það er því að mörgu að huga áður en ákvörðunin er tekin með þeirri ábyrgð sem hún felur í sér. Því miður er það nefnilega svo að margir losa sig við köttinn sinn af því að ekki var nægur tími til að sinna þörfum hans. Kannski varð kötturinn erfiður þar sem hann fékk ekki uppfylltar þarfir sínar. Lög um velferð dýra gera ráð fyrir að sá sem er með dýr í umsjá sinni búi yfir eða afli sér grunnþekkingar á þörfum og umönnun viðkomandi dýrategundar og búi yfir nægjanlegri getu til að annast dýrið í samræmi við lögin og reglugerð um velferð gæludýra.
Það er nauðsynlegt að ígrunda ákvörðunina vel áður en hún er tekin.
Hef ég tíma?
Kettir eru félagsdýr og flestir heimiliskettir sækjast eftir félagsskap heimilisfólksins. Köttur getur oftast verið einn heima þegar hann hefur aðlagast slíku, en óheimilt er að skilja ketti eftir eina og eftirlitstlausa lengur en í einn sólarhring í senn. Kettlingur yngri en 16 vikna má ekki vera lengur einn og án eftirlits en 6 klst í senn.
Passar fyrir fjölskyldu mína að hafa kött?
Oft eru það börnin í fjölskyldunni sem eiga þann draum að eignast kött. En óheimilt er að fela börnum undir 18 ára aldri að bera einum ábyrgð á gæludýri og eru því forráðamenn þeirra ábyrgir fyrir meðferð og umönnun dýrsins.
Passar fjölskyldunni að fá sér kettling sem krefst mikillar umönnunar fyrstu vikurnar eða væri betra að ættleiða fullorðinn kött í heimilisleit?
Hvernig verða fríin? Getur kötturinn komið með, hefur þú eitthvað bakland með pössun, eða ertu tilbúin/n til að greiða fyrir vistun á dýrahóteli?
Býrðu ein(n)?
Fyrir þá sem búa einir mjög skynsamlegt að hafa eitthvað bakland sem getur aðstoðað með köttinn ef upp koma veikindi hjá umráðamanni eða mikillar fjarveru vegna vinnu eða annars.
Hefurðu þau fjárráð sem þarf?
Töluverður kostnaður getur fylgt því að eiga kött. Kostnaður við fóður, bæli, skálar og leikföng getur verið drjúgur en ofan á það bætist dýralæknakostnaður við örmerkingu, skráningu, bólusetningar, ormahreinsanir og fleira, svo ekki sé talað um ef upp kemur slys eða sjúkdómur. Skynsamlegt getur verið að tryggja ketti vegna slysa eða sjúkdóma en flest tryggingafélög bjóða upp á slíkar tryggingar.
Þegar ákvörðun hefur verið tekin
Þegar ákvörðun um að fá sér kött hefur verið tekin borgar sig að gefa sér tíma til undirbúnings og athuga hvernig köttur hentar heimilisaðstæðunum, ungur kettlingur eða fullorðinn, hreinræktaður eða blendingur, snögghærður eða loðinn.
Hægt er að leita til og afla upplýsinga hjá kattaræktunarfélögum, kattaathvörfum eða samtökum sem sinna heimilislausum dýrum í leit að heimili.
Umönnun katta
Um almenna umönnun katta er hægt að lesa undir Umönnun og sjúkdómavarnir
Vistarverur katta
Samkvæmt reglugerð um velferð gæludýra eru settar lágmarkskröfur til þess aðbúnaðar sem köttum er veitt. Óheimilt er að loka dýr í litlu og/eða gluggalausu rými. Óheimilt er að geyma kött í flutningsbúri eða í flutningstæki, sjá Flutningur og aðbúnaður katta í flutningstæki. Upplýsingar um lágmarksbúrastærðir o.fl. er að finna í viðauka II í reglugerð um velferð gæludýra
Tryggja skal ketti aðgengilegt svefn- og hvíldarpláss sem er laust við raka, dragsúg og hávaða. Undirlag skal vera þurrt, hreint og mjúkt. Ef fleiri kettir eru í rýminu skulu allir geta legið í legurými samtímis í flatri hliðarlegu.
Ekki skal tjóðra kött nema í undantekningartilvikum og þá einungis í brjóstól, undir eftirliti og í skamma stund.
Kattasandkassa skal haldið vel hreinum og skal hann innihalda nægt efnismagn til að köttur geti rótað yfir saurinn.
Undaneldi og umönnun kettlingafullrar læðu og ungviðis
Óheimilt er að nota læðu til undaneldis nema hún sé heilbrigð, hafi náð til þess líkamlegum þroska og ekki yngri en 12 mánaða. Læðu sem tvisvar hefur gengist undir keisaraskurð má ekki nota áfram til undaneldis.
Óheimilt er að nota kött í ræktun sem þekkt er að sé haldinn arfgengum sjúkdómi eða eiginleikum sem geta haft áhrif á heilbrigði afkvæma, skert eðlilegar lífslíkur og/eða lífsgæði þeirra.
Umönnun kettlingafullrar eða mjólkandi læðu og ungviðis.
Kettlingafullri læðu skal útbúa hvíldarpláss í rólegu umhverfi sem hún getur lagað sig að tímanlega fyrir got. Skylt er að fylgjast náið með sérhverri kettlingafullri læðu sem komin er að goti. Fylgjast skal reglulega með nýgotinni læðu. Fyrstu tvær vikurnar eftir got skal nýgotin læða njóta næðis ásamt kettlingum sínum. Ef læða er stressuð hefur það oft mikil áhrif á hegðun hennar og kettlingana og getur hún farið að reyna flytja þá úr stað til að fá betra næði. Mjólkandi læður þurfa að geta hvílt sig frá kettlingunum þegar þær hafa þörf á því og sú þörf eykst eftir því sem kettlingarnir eldast og læðan byrjar að venja þá undan. Mjólkandi læða skal hafa aðgang að legurými sem er óaðgengilegt fyrir kettlinga.
Búr þar sem læða með kettlinga er höfð skulu uppfylla lágmarkskröfur skv. 2.1 tl. 2. liðar viðauka II í reglugerð um velferð gæludýra.
Til að kettlingar þroskist eðlilega og læri táknmál kattaog umgengni við eldri dýr, þá er mikilvægt að þeir fái að vera undir handleiðslu móður að minnsta kosti til átta vikna aldurs. Í undantekningartilfellum og þá aðeins vegna aðstæðna sem krefjast þess, er heimilt að skilja kettling frá læðu áður en hann hefur náð átta vikna aldri.
Kettlingur yngri en 16 vikna skal að jafnaði ekki skilinn eftir einn og án eftirlits lengur en sex klst. í senn.
Flutningur og aðbúnaður katta í flutningstæki
Þeir sem flytja gæludýr skulu tryggja að ferðamáti og staðsetning dýrs í farartæki misbjóði hvorki heilsu þess né þoli meðan á ferð stendur og tryggt sé að dýr valdi ekki hættuástandi við akstur. Hafa skal eftirlit með líðan dýrs meðan á ferð stendur til að tryggja velferð þess.
Óheimilt er að flytja veik eða særð gæludýr eða gæludýr komin að goti, nema verið sé að koma dýrinu til og frá dýralækni eða koma dýrinu til bjargar með öðrum hætti.
Sé gæludýr flutt í flutningsbúri skal það vera með heilum botni og vera það rúmt að gæludýrið geti staðið í því, snúið sér við, legið og hvílst. Í botni búrsins skal vera mjúkt og rakadrægt undirlag til að liggja á. Á búrinu skulu vera göt eða rimlar sem tryggja góða loftræstingu og útsýni.
Dvöl hunda, katta og kanína í farartæki á ferð skal ekki vera lengri en sex klukkutímar í senn án hvíldar, en sé ferðatíminn lengri skal veita þeim aðgang að fersku vatni, tækifæri til hreyfingar og að sinna nauðsynlegum þörfum sínum. Fóðrun skal vera minnst á 24 klst. fresti, en oftar ef um ungviði eða dýr með aukna fóðurþörf er að ræða.
Óheimilt er að flytja gæludýr í farangursrými bifreiðar nema hægt sé að fylgjast með líðan þess úr farþegarými meðan á ferð stendur.
Á ferðum með skipum eða bílaferjum sem vara lengur en sex klst. ber að geyma dýrið í búri þar sem umráðamaður getur fylgst með því. Búrið þarf að uppfylla skilyrði um flutningsbúr. Ef ferð mun vara lengur en 24 klst. þarf flutningsaðili að tryggja að viðbragðsáætlun sé til staðar ef upp koma alvarleg veikindi eða slys. Á styttri ferðum á sjó skal tryggja öryggi gæludýrs þannig að það geti ekki fallið útbyrðis og sé varið fyrir kulda og bleytu.
Aðeins í undantekningartilvikum og í samráði við dýralækni er heimilt að nota róandi/kvíðastillandi lyf fyrir flutning. Skulu þá fylgja dýrinu skriflegar upplýsingar um tegund lyfs, magn og tímasetningu inngjafar.
Tilkynningarskylt kattahald