Fara í efni

Íblöndun

Margvísleg næringarefni og önnur innihaldsefni eru notuð í mörgum tilgangi við matvælaframleiðslu. Til dæmis getur vítamíni verið bætt í matvæli með það markmið í huga að auka næringargildi þeirra en á sama tíma getur sama vítamín verið notað í matvæli sem aukaefni. Talað er um íblöndun (e. food fortification) þegar næringarefnum, þ.e. vítamínum og steinefnum (þ.m.t. snefilefni), er aukalega bætt í matvæli við framleiðslu þeirra. Magn vítamína og/eða steinefna í matvörum er í þessum tilvikum þar af leiðandi hærra en í upprunalegum matvælum.

Food fortification eða íblöndun bætiefna er þegar ...

vítamína, steinefna og/eða öðrum efnum er blandað í matvæli. Þar má m.a. nefna (lífsnauðsynlegar) amínó- eða fitusýrur, trefjar, bætibakteríur (próbíotika), bætibakteríuörvandi efni (prebíótika) eða plöntu- og jurtaútdráttur eins og koffín.

Á markaði eru mörg matvæli þar sem vítamínum og steinefnum eða öðrum efnum hafa verið blandað í en algengustu matvælaflokkarnir eru drykkjarvörur og morgunkorn. Til dæmis eru vítamín A, C og E mikið notuð í ávaxtasafa, B-vítamín í vatnsdrykki og koffín í svokallaða orkudrykki. D-vítamíni er oft bætt í mjólk og mjólkurvörur og þar sem ekki fæst nægjanlegt magn af joði úr almennri fæðu er algengt að bæta því í matarsalt.

Reglugerð um íblöndun vítamína og steinefna og tiltekinna annarra efna í matvæli („Reglugerð um íblöndun“) fjallar um matvæli sem hafa verið bætt aukalega með vítamínum, steinefnum og öðrum efnum.

Gildandi reglugerð

Vegna þess að íblöndun vítamína, steinefna og annarra efna í matvæli var mismunandi í hinum ýmsu Evrópulöndum, þ.m.t. á Íslandi, þótti nauðsynlegt að setja samræmdar reglur á vettvangi Evrópusambandsins.

Evrópska og íslenska reglugerðin

Innan Evrópusambandsins gildir reglugerð Evrópuþingsins og -ráðsins (EB) nr. 1925/2006 um íblöndun vítamína og steinefna og tiltekinna annarra efna í matvæli. Hún tók gildi þann 19. janúar 2007 og kom til framkvæmda þann 1. júlí 2007.

Á Íslandi hefur þessi reglugerð verið innleidd með reglugerð nr. 327/2010 um gildistöku reglugerðar Evrópusambandsins nr. 1925/2006. Hún tók gildi hérlendis þann 6. mars 2010.

Breytingar

Reglugerð nr. 327/2010 hefur verið breytt nokkrum sinnum en helst ber að nefna eftirfarandi breytingar:

Reglugerðir nr. 1166/2011, nr. 914/2012 og nr. 964/2014 breyta viðauka reglugerðar nr. 327/2010. Reglugerð nr. 453/2014 sem er séríslensk setur sérstakar reglur um íblöndun koffíns í matvælum. Reglugerð nr. 124/2020 innleiðir reglugerð er varðar transfitusýrur og ákvæði um tilkynningarskyldu var fellt niður með reglugerð nr. 206/2021. 

Nánar um allar þær breytingar er hægt að skoða hérna.

Gildissvið reglugerðarinnar

Reglugerðin gildir um valfrjálsa íblöndun vítamína og steinefna og tiltekinna annarra efna í matvæli almennt. Ákvæði reglugerðarinnar varðandi vítamín og steinefni gilda þó ekki um fæðubótarefni (reglugerð nr. 624/2004) eða þar sem skylt er að bæta í vítamínum og steinefnum, t.d. skv. reglugerð um matvæli sem eru ætluð ungbörnum og smábörnum (reglugerð nr. 834/2014). Þegar vítamínum eða steinefnum er bætt í matvæli sem aukaefni gildir ekki reglugerð um íblöndun heldur þarf íblöndunin þá að vera í samræmi við reglugerð nr. 978/2011 um aukaefni í matvælum.

Oft er samsetning tiltekinna matvælaflokka undir gildissviði annarra sérreglna og þegar það á við gilda í þessum tilvikum báðar reglugerðir. Í sumum tilvikum gera þessar sérreglur sérstakar kröfur um íblöndun vítamína, steinefna og annarra efna í matvæli. Þegar þetta á við hafa skyldukröfur þessara reglugerða forgang umfram ákvæði í reglugerð um íblöndun. 

Reglugerðin um íblöndun gildir sem sagt með fyrirvara um sértæk ákvæði sem mælt er fyrir um í reglugerðum um:

  • fæðubótarefni,
  • matvæli sem eru ætluð ungbörnum og smábörnum, matvæli sem eru notuð í sérstökum læknisfræðilegum tilgangi og þyngdarstjórnunarfæði í stað alls annars fæðis,
  • nýfæði og innihaldsefni í nýfæði (e. Novelfood),
  • erfðabreytt matvæli,
  • aukaefni og bragðefni,
  • leyfilegar, vínfræðilegar vinnsluaðferðir og vinnslu (e. Oenological practices and processes).

Takmarkanir varðandi íblöndun

Ekki má blanda skv. 4.gr. reglugerðarinnar vítamínum og steinefnum í óunnin matvæli. Dæmi um slíkt eru ávextir, grænmeti, kjöt, kjúklingur og fiskur. Þá má ekki blanda vítamínum og steinefnum í drykkjarvörur sem innihalda 1,2% eða meira af alkóhóli miðað við rúmmál.

Leyfileg vítamín og steinefni til íblöndunar

Reglugerðin segir til um hvaða vítamínum og steinefnum er leyfilegt að blanda í matvæli. Aðalskilyrðið er að vítamínin og steinefnin séu örugg. Þau þurfa auk þess að vera í því efnafræðilega formi (e. vitamin formulations og mineral substances) sem líkaminn getur nýtt sér. Samkvæmt reglugerðinni er eingöngu leyfilegt að blanda þeim vítamínum og steinefnum sem eru tilgreind í viðauka I og í þeim formum sem tilgreind eru í viðauka II.

Til útskýringar: Leyfilegt er að nota B1-vítamín í matvæli (skv. viðauka I). Vítamínið kemur sem þíamínhýdróklóríð og þíamínmónónítrat. Bæði form eru leyfileg skv. viðauka II reglugerðarinnar en líka aðeins þau en engin önnur.

Breytingar á viðaukum

Viðaukum I og II hefur nú þegar verið breytt með reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 1170/2009, nr. 1161/2011 og nr. 119/2014 þar sem nokkrum efnum hefur verið bætt við listana í viðaukunum. 

Á Íslandi hefur ESB reglugerð nr. 1170/2009 verið innleidd með reglugerð nr. 1166/2011.

ESB reglugerð nr. 1161/2011 hefur verið innleidd með reglugerð nr. 914/2012 

ESB reglugerð nr. 119/2014 hefur verið innleidd með reglugerð nr. 964/2014.

Fleiri ESB reglugerð hafa verið innleidd og er hægt að skoða þær breytingar hérna.

Hér að neðan er listi yfir vítamín og steinefni ásamt þeim vítamínsamsetningum og steinefnaformum sem heimilt er að bæta í matvæli skv. viðauka I og II reglugerðar nr. 327/2010. Athuga ber að listinn inniheldur nú þegar breytingar skv. reglugerð nr. 1166/2011, reglugerð nr. 914/2012 og reglugerð nr. 964/2014 og er aðeins hugsaður sem vinnuskjal. Matvælastofnun bendir á að villur kunna að vera í PDF-skjalinu. Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og birtum texta í stjórnartíðindum gildir textinn í stjórnartíðindum.

Lágmarksmagn vítamína og steinefna

Í reglugerðinni er þess krafist að íblöndun vítamína og steinefna í matvæli leiði til tiltekins lágmarksmagns þessara efna í þeim. Sé magn efnanna í þessum matvælum óverulegt eða of lítið gagnast það neytendum ekki og gæti því íblöndunin talist villandi. Lágmarksmagn vítamína og steinefna í íblönduðum matvælum skal samræmast marktæku magni þessara næringarefna sem þarf að vera í matvælum til að gefa megi næringarefnin upp í næringargildismerkingu (næringaryfirlýsing).

Hvað telst marktækt magn vítamína og steinefna kemur fram í 2. lið A. hluta XIII. viðauka reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 1169/2011 um miðlun upplýsinga um matvæli til neytenda (ísl. reglugerð nr. 1294/2014) og er eftirfarandi:

  • 15% af næringarviðmiðunargildum í 100 g eða 100 ml þegar um er að ræða vörur aðrar en drykkjavörur. 
  • 7,5% af næringarviðmiðunargildum í 100 ml þegar um er að ræða  drykkjarvörur.
  • 15% af næringarviðmiðunargildum í skammti ef pakkningin inniheldur einungis einn skammt.

Varan þarf sem sagt að innihalda vítamín og/eða steinefni í magni sem nemur a.m.k. 7,5 % eða 15%  af næringarviðmiðunargildum í 100 ml eða 100 g vörunnar. Þetta lágmarksmagn  endurspeglar heildarmagn vítamínanna og steinefnanna sem eru í lokaafurð, þ.e.a.s. einnig þau vítamín og steinefni sem eru í vörunni frá náttúrunnar hendi áður en af íblönduninni varð. 

Dagleg viðmiðunarneysla vítamína og steinefna (næringarviðmiðunargildi, NV) fyrir fullorðnamá finna í töflu í XIII. viðauka við ESB reglugerð nr. 1169/2011 og skal hún notuð til viðmiðunar við merkingar. 

Hámarksmagn vítamína og steinefna

Vegna þess að magn vítamína og steinefna sem blandað er í matvæli getur verið afar mismunandi og þar sem inntaka þeirra í of miklu magni getur haft skaðleg áhrif á heilbrigði getur þótt nauðsynlegt að setja hámarksmagn fyrir vítamín og steinefni. Framkvæmdastjórn ESB er heimilt að leggja fram tillögur um ásættanlegt hámarksmagn fyrir einstök vítamín og steinefni en sú vinna hefur ekki enn verið hafin.

Á meðan engin hámörk hafa verið sett fyrir vítamín og steinefni þarf Matvælastofnun að meta hvernig hún getur tryggt að íblönduð matvæli séu ekki hættuleg heilsu manna vegna of hás magns vítamína og/eða steinefna. Í umfjöllun um ásættanlegt hámarksmagn styðst Matvælastofnun við álit vísindanefnda Matvælaöryggisstofnunar Evrópu (EFSA, European Food Safety Authority) um efri þol-/öryggismörk (tolerable Upper Levels of intake, UL) fyrir vítamín og steinefni sem gefin voru út árið 2006.

Efri þolmörkin (UL) sem EFSA hefur sett mun verða viðmið framkvæmdastjórnarinnar og aðildaríkjanna þegar hámarksmagn vítamína og steinefna verða í framtíðinni sett fyrir íblönduðu matvæli.

Í töflunni hér að neðan er samantekt á efri öryggismörkum (UL) fyrir fullorðna og börn fyrir vítamín og steinefni samkvæmt áliti EFSA. Fyrir þau vítamín og steinefni þar sem engin gildi eru, hefur ekki verið hægt að meta efri öryggismörk.

Micronutrient 
Age
1-3 years
Age
4-6 years
Age
7-10 years
Age
11-14 years
Age
15-17 years
Adults
Vitamin A (µg)  800  1100  1500  2000  2600  3000 g
Vitamin D (µg)  25/50e  50  50  100  100  100 
Vitamin E (mg)  100  120  160  220  260  300 h
Niacin (mg) a  150  220  350  500  700  900 f
Vitamin B6 (mg)  5  7  10  15  20  25
Folic acid (µg) b  200  300  400  600  800  1000
Calcium (mg) c   2500c  2500  2500  2500  2500  2500 
Magnesium (mg) d  65 d  250  250  250  250  250
Zinc (mg)  7  10  13  18  22  25
Copper (mg)  1  2  3  4  4  5 f
Iodine (µg)  200  250  300  450  500  600 i
Selenium (µg)  60  90  130  200  250  300

a The ULs only apply for nicotinamide.

b Does not include dietary folate from natural sources.

c The SCF does not recommend an age-differentiation of the UL for calcium.

d The UL only applies for magnesium supplements and for magnesium present in water. No UL was established by the SCF in 2001 for children under 4 years due to insufficient data. The UL for this age group was established by the US Institute of Medicine in 2003.

e For infants up to one year of age, the UL is 25 µg/day.

f The UL for adults does not apply during pregnancy or lactation.

g The UL for adults does not apply for postmenopausal women, here the SCF recommends a maximum intake of 1500µg.

h The UL does not apply for subjects with blood coagulation defects caused by vitamin K deficiency or by malabsorption or due to therapy with anticoagulants.

i The UL established for iodine does not apply to populations with iodine deficiency disorders.

 

Önnur efni í matvælum

 er í vinnslu!

Ýmis ákvæði sem gilda um íblöndun bætiefna

Merkingar og merking næringaryfirlýsinga

Í merkingu, kynningu og auglýsingu á matvælum, sem vítamínum og steinefnum hefur verið blandað í, skal ekki fullyrt eða gefið í skyn að nægilegt magn næringarefna fáist ekki úr rétt samsettri og fjölbreyttri fæðu. Nánar um það hérna.

Reglugerðin krefst auk þess að öll matvæli þar sem vítamínum og steinefnum og öðrum efnum hefur verið bætt í, skal merkja með næringargildi. Hvernig merkingin skal vera er að finna hérna.

Hreinleikaskilyrði

Um vítamínsamsetningar og steinefni, sem eru tilgreind í II. viðauka reglugerðar nr. 327/2010 gilda þau hreinleikaskilyrði sem sett eru í löggjöf Bandalagsins um sömu efni þegar þau eru notuð við framleiðslu matvæla í öðrum tilgangi en þeim sem þessi reglugerð tekur til.

Séu engar Evrópusambandsreglur fyrir hendi gilda almennt viðurkennd hreinleikaskilyrði sem alþjóðastofnanir mæla með þar til slík skilyrði verða samþykkt og er heimilt að viðhalda landsreglum sem setja strangari hreinleikaskilyrði.

 Tilkynningarskylda

Ákvæði um tilkynningarskyldu er ekki lengur í gildi. Hún var felld brott með reglugerð reglugerð nr. 206/2021. 

Eftirlit og ábyrgð matvælafyrirtækis

Eftirlit

Matvælastofnun og heilbrigðisnefndir sveitarfélaga undir yfirumsjón Matvælastofnunar fara með eftirlit með því að ákvæðum reglugerðar nr. 327/2010 sé framfylgt í samræmi við 6. og 22. gr. laga nr. 93/1995 um matvæli.

Ábyrgð matvælafyrirtækja
Matvælafyrirtækin, þ.e. stjórnendur þeirra, bera ávallt ábyrgð á því að matvælin sem þau framleiða og/eða markaðssetja séu í samræmi við gildandi matvælalög.

Ef stjórnendum matvælafyrirtækis yfirsést reglur sem gilda um eigin framleiðslu, innflutning eða dreifingu er slíkt ekki á ábyrgð eftirlitsaðila. Það er því mikilvægt að kynna sér vel gildandi reglugerðir áður en markaðssetning matvara hefst á íslenskum markaði. Á heimasíðu Matvælastofnunar er að finna lög og reglugerðir sem gilda um matvæli, sjá nánar hérna.

Stjórnendur matvælafyrirtækja skulu hafa í huga að starfsemi fyrirtækja sem standa að framleiðslu, innflutningi og dreifingu matvæla eru háð starfsleyfi heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga og í sumum tilvikum háð starfsleyfi Matvælastofnunar. Leita skal til viðkomandi heilbrigðiseftirlits svæða þar sem fyrirtæki er skráð og til Matvælastofnunar þegar við á. Sjá nánar hérna.

Íblöndun koffíns í matvæli

Algengt er að koffíni sé blandað í drykkjarvörur og stundum í önnur matvæli vegna þeirra lífeðlisfræðilegu áhrifa sem það hefur. Það er þá ýmist notað á formi hreins íblandaðs koffíns (e. caffeine anhydrous) eða sem jurtir eða útdráttur (e. extract) af jurtum sem innihalda koffín s.s. kaffibaunir, grænt te, guarana, yerba maté og kakóbaunir.

Koffín verkar fyrst og fremst örvandi á líkamann í gegnum miðtaugakerfið.  Sjá upplýsingasíðu Matvælastofnunar um áhrif koffíns.

Hámarksgildi

Samkvæmt reglugerð nr.  327/2010  um gildistöku reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 1925/2006. (sbr. breyting nr. 453/2014) eru almenn hámarksgildi fyrir koffín sem bætt er í matvæli í þeim tilgangi að ná fram lífeðlisfræðilegum áhrifum eftirfarandi:

Tegundir matvæla

Hámarksmagn koffíns (þ.m.t. íblöndun kjarna/útdrátta náttúrulegra koffíngjafa)

Áfengi

0 mg/l

Drykkjarvörur (aðrar en áfengi)

320 mg/l

Fæðubótarefni

300 mg í ráðlögðum daglegum neysluskammti

Önnur matvæli

150 mg/kg

 

Hámarksgildi taka til heildarmagns koffíns í vörum og breytir þá engu hvort um er að ræða íblöndun hreins koffíns, útdrátta (e. extract) eða náttúrulega koffíngjafa.  Óheimilt er að framleiða, markaðssetja eða flytja inn vörur með íblönduðu koffíni þar sem heildarmagnið er meira en kemur fram í töflunni að ofan, nema með sérstöku leyfi frá Matvælastofnun. Upplýsingar um hvernig sótt er um leyfi fyrir koffínríka orkudrykki er að finna undir Leyfi.

Ber að hafa í huga að allar vörur sem innihalda koffín umfram 150 mg/l (að undanskildum te- og kaffidrykkjum þegar heiti þeirra inniheldur hugtakið „kaffi“ eða „te“) skulu samkvæmt reglugerð nr. 1294/2014 merktar með eftirfarandi orðum, á íslensku:

Inniheldur mikið af koffíni. Ekki æskilegt fyrir börn eða barnshafandi konur eða konur með barn á brjósti. 
Þar á eftir upplýsingar um magn koffíns í mg/100 mL.

Auk þess að merkja eins og að ofan, eru gerðar sértakar kröfur um varúðarmerkingar til koffínríkra orkudrykkja, þ.e. sem innihalda meira en 320 mg koffín í liter. Upplýsingar um sértakar kröfur  til koffínríkra orkudrykkja er að finna hér að neðan.

Kröfur til koffínríkra orkudrykkja

Frá 1. janúar 2015 hefur verið hægt að sækja um leyfi til framleiðslu, markaðssetningar eða innflutnings drykkjarvara (annarra en áfengis) sem innihalda koffín umfram 320 mg/l (32 mg/100ml). Hámarksgildi taka til heildarmagns koffíns í vörum og breytir þá engu hvort um er að ræða íblöndun hreins koffíns, útdrátta (e. extract) eða náttúrulegra koffíngjafa.

Drykkjavörur sem fengið hafa leyfi frá Matvælastofnun bera auk þess sérstakar varúðarmerkingar og geta verið háðar skilyrðum um markaðssetningu. Kröfur og skilyrði fyrir hverja vöru fara eftir því hvaða upplýsingar koma fram á umbúðum og hvernig varan er markaðssett í heild sinni. Ákvörðun Matvælastofnunnar um leyfi byggist á áhættumati frá RÍN (Rannsóknarstofu Háskóla Íslands í næringarfræði) en allar umsóknir sem berast stofnuninni eru sendar RÍN til umsagnar.

RÍN leggur vísindaálit Matvælaöryggisstofnunar Evrópu (EFSA) um öryggi koffíns sem og aðrar heimildir, bæði erlendar og innlendar, til grundvallar faglegu mati.

Sérhvert leyfi er bundið tiltekinni vöru, þ.e. stærð dósar og bragðtegunda sem sótt var um. Ekki er leyfilegt að breyta eða fjarlæga merkingar sem Matvælastofnun setur kröfur um við leyfisveitingu og skal fyrirtæki sjá til þess að upplýsingarnar séu réttar og að markaðssetning vörunnar sé ekki villandi.

Eftirlit á markaði er í höndum Heilbrigðiseftirlits sveitafélaga. Þau skulu, hvert á sínu svæði, fylgja því eftir að kröfur og skilyrði sem Matvælastofnun hefur sett fyrir leyfisveitingu fyrir viðkomandi vöru séu uppfyllt. Leyfishafi, þ.e. fyrirtæki sem sækir um markaðssetningu vöru, ber ábyrgð á að koma upplýsingum um sölubann á vöru til barna yngri en 18 ára eða öðrum takmörkunum á dreifingu sem Matvælastofnun setur, á framfæri við smásöluaðila.

Helstu varúðarmerkingar sem kröfur hafa verið gerðar um að skuli koma á umbúðum vara á framhlið, á íslensku og í leturstærð a.m.k. 3 mm:

MJÖG HÁTT KOFFÍNINNIHALD (og magn koffíns í neyslueiningunni (dósinni) í mg og í 100 ml.)

Tilgangurinn með þessu er að gera neytendum kleift að greina á milli drykkjavara annars vegar með hátt innihald koffíns og hins vegar með MJÖG HÁTT koffíninnihald. Drykkjavörur sem hafa fengið leyfi frá Matvælastofnun innihalda á bilinu 180 – 200 mg koffín í neyslueiningu. Þetta er mjög mikið koffín og því æskilegt að þessar upplýsingar séu auðlesanlegar. Þess vegna hefur stofnunin einnig sett lágmarksleturstæð (3mm). Þannig geta neytendur gert skýran greinarmun á þessum vörum og drykkjavörum sem innihalda mun minna koffín.

Ekki selt börnum undir 18 ára aldri

Íslensk börn drekka að meðaltali mikið af gosdrykkjum, meira en börn á hinum Norðurlöndunum. Heilsu barna getur verið ógnað vegna þessara drykkja þar sem að með neyslu þeirra geta þau á stuttum tíma innbyrt það magn koffíns sem gæti valdið bráðum eitrunaráhrifum. Umræddar drykkjavörur eru markaðssettar sem bragðbættir kolsýrðir drykkir og er það mat stofnunarinnar að það verði að líta svo á að þessar drykkjavörur séu í samkeppni við aðra gosdrykki og höfði sérstaklega til barna. Matvælastofnun hefur ákveðið að markaðssetning varanna eigi því að einskorðast við fullorðna og sala/aðgangur barna að þessum vörum sé bannaður einstaklingum undir 18 ára. Vörur sem innihalda svo mikið magn af koffíni eru heilsuspillandi fyrir börn og uppfylla þannig ekki 8. gr. a. laga um matvæli.

Helstu varúðarmerkingar sem skulu koma fram á umbúðum vara á íslensku, eftir því sem við á:
Neytið drykkjarins ekki með öðrum koffíngjöfum
Hámarks skammtur:  X dósir á dag
Drekkið ekki meira en eina dós samhliða mikilli líkamlegri áreynslu (eða sambærileg)
Blandið ekki með áfengi

Sölubann

Ekki má selja vöruna til barna yngri en 18 ára og er það á ábyrgð söluaðila (leyfishafa) að koma þeim upplýsingum á framfæri við smásöluaðila. Matvælastofnun gerir kröfur um að leyfishafi upplýsi smásöluaðila, þ.e. verslanir eða sölustaði um þetta bann og geri ráðstafanir í verslunum/sölustöðum þannig að vörurnar séu ekki aðgengilegar börnum undir 18 ára.

Matvælastofnun krefst þess einnig, við leyfisveitingu,  að fá upplýsingar um þau tilmæli og/eða upplýsingar sem verða gefnar og þau gögn sem verða notuð við markaðssetningu vöru í verslunum/sölustöðum. Þetta getur verið mismunandi eftir stærð verslana og því mikilvægt að fá samræmingu eins og kostur er og þannig tryggja markaðseftirlit og öryggi neytenda.

Drykkjavörur með leyfi frá Matvælastofnun:

Leyfisumsókn -
Dagsetning

Heiti vara

Fyrirtæki/leyfishafi

Koffínmagn /dós

Koffínmagn /100 ml

Myndir

 22.02.2017

Celsius

Fitnes Akademían ehf.

200 mg/355 ml

56 mg

 Mynd 1Mynd 2

 

AminoPro

RJC Framleiðsla ehf.

180 mg/330 ml

55 mg

 Mynd 1Mynd 2

 31.08.2017

Moose Juice

Einstök Matvara ehf.

100 mg/250 ml

40 mg

 Mynd 1

 11.10.2017

Clean Drink

Líkami & Lífsstíll

180 mg/330 ml

55 mg

 Mynd 1Mynd 2

 

Clean Drink

Ó. Johnson & Kaaber ehf.

180 mg/330 ml

55 mg

 
 16.10.2017

Nocco 180 mg

Core ehf.

180 mg/330 ml

55 mg

 Mynd 1Mynd 2

  Gainomax Aðföng ehf. 180 mg/330 ml 55 mg  

3.05.2021 Celcius Myndform ehf. 200 mg/355 ml 55 mg  
18.10.2021 3D Energy Drink Medes ehf. 200 mg/473 ml 42 mg  

 

 

 

Uppfært 04.08.2022
Getum við bætt efni síðunnar?