Fara í efni

Smitsjúkdómar í svínum

Leptóspíra í svínum

Sýking með Leptospira veldur fyrst og fremst frjósemisvandamálum í gyltum. Sjúk­dómur­inn hefur greinst í mörgum löndum en vitneskja um tíðni hans og áhrif er helst sprottin úr rekstri stórra svínabúa á norðlægum slóðum, í Ástralíu, Brasilíu og Argen­tínu.

Sjúkdómurinn getur verið einkennalaus en helst koma einkenni fram í svínum ef þau hafa ekki smitast áður eða ef mótefni gegn sjúkdómnum eru dvínandi í dýrunum. Þá getur hann verið skæður og valdið miklu tjóni. Helst ber á fósturlátum, dauðfæddum eða veikburða grísum.

Orsök sjúkdómsins

Leptospira bakterían veldur sjúkdómnum en til eru um 300 tegundir af henni. Hver tegund kallast sermisgerð en þær eru flokkaðar í um 20 - 30 sermishópa sem greina má í sundur með mótefnaprófi.

Bakteríurnar sjálfar eru mjóslegnar og gormlaga. Þær geta smitast á milli dýrategunda og í menn og geta valdið alverlegum sjúkdómstilfellum. Gera má ráð fyrir því að með auk­inni lausagöngu gyltna úti sem inni verði smit algengara í svínum og að smitálag verði meira í umhverfi.

Útbreiðsla og vægi

Faraldsfærði sjúkdómsins í svínum er mjög flókin þar sem þau geta sýkst af hvaða afbrigði Leptospira bakteríunnar sem er. Reynslan sýnir þó að það eru fáir sermis­hópar sem eru staðbundnir eða landlægir. Ennfremur virðast ákveðnar sermis­­gerðir halda sig við sömu tegund á sömu svæðum. Þannig má finna sömu sermis­gerð í mörgum svínum á tilteknu svæði eða þá sermisgerð sem er algeng í öðrum dýrum á svæðinu. Hvort úr verður alvarlegur sjúkdómur fer eftir aðstæðum hverju sinni.

Algeng afbrigði Leptospira í svínum tilheyra Pomona, Australis og Tarassovi sermishópunum á meðan önnur afbirgði bakteríunnar sem greinast tilfallandi tilheyra Canicola, Icterohaemorrhagiae og Grippotyphosa sermishópunum.

Sýking með Leptospira pomona er best rannsökuð enda algengust í svínum á heims­vísu. Sýking með þessari sermisgerð hefur því oft verið notuð sem módel til þess að skýra út Leptospira sýkingar í svínum. Mörg pomona afbrigði hafa aðlagað sig svín­um.

Sem dæmi um lönd þar sem Leptospira pomona sýkingar hafa verið algengar má nefna Norður og Suður Ameríku, Ástralíu, Nýja Sjáland, hluta af Asíu og Austur og mið Evrópu. Bakterían er enn landlæg í mörgum þessara landa.

Í Danmörku eru nokkrar sermisgerðir bakteríunnar algengar í nokkrum tegundum músa, rottum, hundum, köttum, sauðfé og hugsanlega rándýrum af minni gerðinni.

Ekki er vitað um hvort mótefni gegn Leptospira megi finna í blóði svína hér á landi enda engin slík rannsókn farið fram.

Upplýsingar um hversu oft Leptospira sýkingar eru orsök fósturláta eru ekki til reiðu en ef svo væri hlýtur þáttur þeirra í þeim að vera mjög breytilegur á milli landa. Fer það fyrst og fremst eftir sýkingartíðni bakteríunnar, útbreiðslu hennar og hvernig brugðist er við sýkingum hverju sinni.

Leptospira bratislava

Gerðar hafa verið kannanir víðsvegar í heiminum á útbreiðslu mótefna í blóði svína gegn Leptospira bratislava. Birt gögn gefa til kynna að mótefni séu útbreidd í svínum í Þýskalandi, Bretlandi, Tékkóslóvakíu (sem þá var og hét), Hollandi, Svíþjóð, Dan­mörku, USA, Kanada og nú síðast í Noregi, þar sem mótefni greindust á 40 búum af 193. Þar sem fá sýni (5) voru skoðuð frá hverju búi má gera ráð fyrir að fleiri bú hefðu greinst jákvæð ef fleiri sýni hefðu verið skoðuð. Mótefni sem mældust reyndust öll lág í þessari skimun.

Í dönskum svínum voru greind um 10 tilfelli á árunum 2000 og 2001 og var um fóstur­lát að ræða í öllum tilvikunum. Þau voru fyrst og fremst á lausagöngubúunum þar sem gyltur höfðu meiri möguleika á að smita hverjar aðra.

Ófrjósemi í gyltum (mikið um uppbeiðsli og lítil got) hefur verið tengd við sýkingar með Leptospira bratislava. Sýnt var fram á þetta í rannsókn árið 1981, en þá sýndu Englendingarnir Hathaway og Little fram á marktækt samhengi á milli hárra mótefna­gilda í blóði gegn Leptospira bratislava og ófrjósemi í gyltum. Sýnt var einnig fram á vægi sjúkdómsins á búi þegar hluti gyltnanna var bólusettur við Lepotspira bratislava sýkingu en hinn ekki. Frjósemi var betri hjá bólusettum gyltum. Þetta sýndi fram á að bakterían var að valda ófrjósemi á viðkomandi búi.

Í danskri rannsókn kom fram að á 21 búi þar sem mótefni mældust gegn Leptospira bratislava var gothlutfall 4% lægra og 0,16 fleiri dauðfæddir grísir samanborið við 9 bú án mótefna við sömu bakteríu. Ekki var þó marktækur munur á milli þessar gyltu­hópa sem þýðir í raun að enginn marktækur munur sé til staðar, einungis tilhneiging.

Erfitt er að meta fjárhaglegt tjón þegar svín sýkjast af Leptospira bratislava, fyrst og fremst vegna óljósra einkenna. Í Danmörku er þó gefið í skyn að reikna megi með að uppbeiðslishlutfall gyltna aukist um 20% vegna sýkingarinnar. Svo mikil aukning í uppbeiðslum hefur einnig áhrif á hópstærð gyltnanna, veldur tíðari endurnýjun þeirra, eykur útgjöld vegna lyfjameðhöndlana og hugsanlegra bólusetninga.

Smit

Smit berst í svín helst með þrenns konar hætti, þ.e. með sýktum aðkeyptum dýrum, úr sýktu innra umhverfi og með snertingu við smit úr t.d. meindýrum. Hversu algengt það er að önnur dýr beri smit með sér eins og minni rándýr eða meindýr fer eftir fjöl­breytileika lífríkisins á hverjum stað. Sem dæmi má nefna að skúnkur er algengur smit­beri í svín í Noður Ameríku.

Bakterían getur smitað svínin um slímhimnur t.d. í munni, nefi eða augum, en einnig um rispur í húð og við tilhleypingu (um leg). Einum til tveimur dögum eftir sýkingu kemur tímabil sem varað getur allt að einni viku, þar sem bakterían er í blóði dýranna. Á þessum tíma má rækta hana úr mörgum líffærum og jafnvel mænuvökva. Þessu tímabili lýkur eins og áður segir eftir u.þ.b. 7 daga en mótefni í blóði má greina 5 - 10 dögum eftir sýkingu.

Mótefni í blóði ná hámarki 3 vikum eftir sýkingu. Hámarksmagn getur verið mismun­andi en gildi frá 1:1000 - 1:100,000 eru algeng. Eftir u.þ.b. 3 vikna tímabil í hámarki fer mótefnamagn lækk­andi og geta lág mótefni mælst í mörg ár í blóði svínanna eftir sýkingu. Fari gildi í sýnum undir 1:100 eru þau talin neikvæð.

Eftir smit skilst batkerían út með þvagi og sæði og getur útskilnaður varað lengi. Bakt­­erí­an þarf raka í umhverfinu til þess að lifa af aðstæður.

Bakterían getur einnig smitað fólk. Í Danmörku eru 3 - 4 slík tilfelli á ári og er algeng­ast að þar sé á ferðinni Leptospira icterohaemorrhagiae. Smit er oftast rakið til rotta.

Einkenni

Leptospira smit er oftast einkennalaust í fólki og dýrum. Þó koma stöku sinnum fram bráð einkenni svo sem hiti, tímabundið listarleysi og deyfð. Þessi einkenni eru gjarnan væg og ekki eftir þeim tekið. Ef bakterían sest að í lifur og nýrum getur borið á gulu.

Langvinn einkenni í gyltum eru fósturlát, andvana eða veikburða grísir. Mjög algengt er að fóstrin drepist á mismunandi tíma í leginu og eru þau því misstór við fósturlátið. Fóstrin eru oft brúnni og þurrari samanborið við fóstur úr gyltu sem sýkst hafa af parvo­veirunni. Fósturlát geta átt sér stað eftir sjötugasta dag meðgöngu en eru algeng­ust á síðustu 2 - 3 vikum meðgöngunnar. Fósturlát og fæðing andavana grísa á sér oftast stað u.þ.b. 1 - 4 vikum eftir sýkingu. Langvinn einkenni koma helst fram í svínum eins og hér er lýst eftir sýkingu með Leptospira pomona og felst tjón vegna sjúkdómsins fyrst og fremst í þeim.

Sýking með Leptospira bratislava virðist vera frábrugðin öðrum Leptospira tegundum sem sýkja svín að því leyti að hún sest langvarandi að í eggjaleiðurum og legi gyltna og í kynfærum galta. Ef bakterían sest að í kynfæri galtanna getur hún borist með sæði í langan tíma.

Þegar smit á sér stað í gyltum getur allt að helmingur þeirra látið fóstrunum. Lítur út fyrir að gyltur verði ónæmar fyrir smiti eftir sýkingu og er þess vegna ráðlagt að slátra ekki þeim gyltum sem hafa smitast. Eftir fósturlátin getur hinsvegar borið á hærri tíðni uppbeiðsla en vanalega. Hormónakerfi gyltunnar upplifir lífeðlisfærðilega fósturlátin sem got en þar sem engin mjólkurframleiðsla á sér stað með viðeigandi hormónastarf­semi dregur það verulega úr frjósemi.

Krufning

Breytingar í líffærum gyltna og galtna má sjá í þeim líffærum þar sem bakterían hefur sest að, svo sem nýrum og lifur. Þessar breytingar eru þó oftast vægar. Fóstur eru misstór við fósturlát þar sem þau hafa drepist á mismunandi tíma eins og áður er nefnt. Þau eru ekki öll eins á litin og geta sum verið svört, brún eða gulleit. Oft er um mikinn bjúg að ræða í vefjum fóstranna ásamt öðrum breytingum sem tengja má við rotnun þeirra í legi.

Greining

Ræktun á Leptospira úr líffærum er erfið og tekur margar vikur. Erfiðleikar í ræktun felast m.a. í því að aðrar batkeríutegundir geta komið í veg fyrir vöxt þeirra. Sé hins vegar sýnt fram á bakteríuna með ræktun er það öruggt merki um sýkingu.

Af þessum ástæðum eru oft aðrar greiningaaðferðir nýttar. Mótefnamælingar í blóði geta verið mjög hjálplegar, sérstaklega ef hægt er að sýna fram á hækkun þeirra í blóði frá einu sýni til annars, teknum með u.þ.b. 2 vikna millibili. Þá er oftast um nýsýkingu að ræða.

Mótefnmæling í blóði svína á einkennalausum búum er fyrst og fremst notuð til þess að kanna hvort svínin hafi komist í snertingu við bakteríuna. Þá mælast oftast lág mót­efni ef þau greinast.

Með sérstakri litun á sýnum úr fóstrum má sýna fram á með smásjárskoðun sýkingu með Leptospira bakteríum. Í þessum tilgangi er ágætt að senda til rann­sókna 2 - 3 fóstur eða dauðfædda grísi úr 2 - 3 gotum eða fósturlátum

Ávallt er þó mikilvægt að meta einkenni og hegðun fósturláta svo sem tímasetningu þeirra og útlit fóstranna. Ef einkenni eru klassísk eins og hér hefur verið lýst ætti grunur um Leptospira sýkingu að vakna.

Meðhöndlun

Þar sem sýkingar hafa greinst í öðrum löndum hefur verið brugðist við með lyfja­með­höndlunum, bólusetningum og stjórnun á þeim þáttum sem skipta máli í út­breiðslu sjúk­dómsins. Bóluefni eru ekki tiltæk í mörgum vestrænum löndum og hætta er á ónæmi bakteríunnar í öðrum, svo viðbrögð geta verið ýmsum erfiðleikum háð. Vörn við sjúkdómnum eftir bólusetningu er oftast mjög stutt og hún varla 100% örugg. Reikna má með við bestu skilyrði að ónæmi vari í u.þ.b. 3 mánuði. Bólu­setning dreg­ur hins vegar verulega úr tíðni sjúkdómsins innan búsins en útrýmir honum ekki.

Sýklalyf ein og sér munu ekki uppræta svínasérhæfðar Leptospira sýkingar úr smitbera eða úr svínahjörðum. Þrátt fyrir fullyrðingar sumra greinahöfunda um slíkt að annað hvort streptomycin gefið í vöðva (25 mg/kg) eða inntekið tetracyclin (800 g/tonn fóður) muni uppræta sýkingu úr dýrunum hafa aðrir greinarhöfundar greint frá því að slíkar aðferðir dugi ekki.

Þegar fóstur­lát eiga sér stað og sjúkdómurinn hefur verið greindur er talið best að dæla 25 mg/kg af streptomycini í vöðva allra dýra og hefja bólusetningar strax. Ef bóluefni eru ekki fáanleg er mælt með meðhöndlun í fóðri með klór- eða oxytetra­cyclini, 600 g/tonn fóður. Lyfin eru annaðhvort gefin stöðugt í fóðri eða með eins mánaðar millibili. Einnig er gefinn upp möguleiki á að meðhöndla dýrin í 4 vikur í senn, tvisvar sinnum á ári, vor og haust. Hvort þessum aðferðum yrði beitt hér á landi er ekki víst.

Smit beint eða óbeint í önnur dýr, villt sem tamin, eru fyrirbyggð með sem tryggust­um hætti. Þar sem smit berst einungis með þvagi, sæði og fóstrum/fylgjum má oft stöðva smitdreifingu innan búsins með góðu hreinlæti.

Þar sem Leptospira er zoonosa (smit getur borist í fólk) er mikilvægt að upplýsa starfs­fólk um þá hættu ef smit berst inn á bú. Ef einhver einkenni koma fram í fólki sem minna á flensu, svo sem hiti, höfuðverkur, eymsli í vöðvum eða verkir í kviðarholi ber að hafa samband við lækni strax og skýra honum frá hugsanlegri hættu á Leptospira smiti. Algengast er að alvarlegar sýkingar í fólki séu af völdum Lepto­spira icterohaemorrhagiae en hún er ekki algeng í svínum.

Viðbrögð hér á landi

Bakterían hefur ekki greinst í dýrum hér á landi svo fullvíst sé. Fyrir um 25 árum síðan eða í kringum 1980 vaknaði grunur um Leptospira sýkingu í hundum á Álftanesi, Bessastaðahreppi (Helga Finnsdóttir/Brynjólfur Sandholt, munnleg heimild). Einnig hafa mótefni við Leptospira mælst í innfluttum hundum (Aðalbjörg Jónsdóttir, munnleg heimild).

Fyrirhuguðum innflutningi á svínum frá Noregi 2. mars 2004 var frestað af Yfirdýra­lækni þar sem mótefni gegn Leptospira bratislava mældust í blóði 4 svína frá 1 búi og 2 svína frá öðru búi. Meginástæðan var sú að vitneskja um tilvist og útbreiðslu Leptospira er ekki fyrir hendi hér á landi, hvorki í svínum né öðrum dýrategundum. Mikilvægt er því að kanna sem fyrst hvort greina megi mótefni við Leptospira í blóði íslenskra svína svo meta megi frekar stöðu mála í ljósi þeirra niðurstaðna. Líklegt er að innflutningur frá Noregi verði heimilaður ef mótefni mælast í blóði svína hér á landi.

Heimildir

  1. W.A. Ellis, Diseases of Swine, 7unda útgáfa, 1992, 42. kafli, Leptospirosis, bls. 529 - 536.
  2. Flemming Thorup, Info svin. Leptospirose.
  3. Flemming Thorup, Info svin. Leptospira bratislava.
  4. B.Lium, J.Åkerstedt, P.O.Hofmo, Prevalenve of antibodies against Leptostpira spp. in Norwegian pigs (Óbirt)

PMWS í svínum

Sjúkdómurinn PMWS (Postweaning Multisystemic Wasting Syndrome) hefur nú í fyrsta sinn verið greindur í svínum hér á landi. Hann hefur ekki fengið íslenskt nafn ennþá. Sjúkdómsgreiningin var staðfest í febrúar 2006 en ætla má að einkenni hafi komið fram í grísunum sumarið 2005.

Grunur um sjúkdóminn vaknaði í byrjun janúar 2006 og voru grísir krufðir á Keldum í framhaldi af því. Breytingar fundust í vefjum sem minntu á PMWS. Sjúkdómsgreining var staðfest í Danmörku á Danmarks födevareförskning (DFVF).

Talið er að PMWS sé af völdum porcine circoveiru týpu 2 (PCV2). Einkenni eru mörg, en helst er um almenn vanþrif og hor að ræða í 5 - 16 vikna gömlum fráfæru- og eldisgrísum. Einkennandi er að vanhöld aukast eftir fráfærur. Veiran er mjög algeng í svínum, einnig í heilbrigðum grísum. Svín geta hýst veiruna til fjölda ára án einkenna, en þau koma ekki fram nema veiran sé til staðar. PCV2 smitar hvorki menn né önnur dýr.

Almennt um PMWS

Inngangur

Talið er að heilkenni þetta sé af völdum PCV2 (porcine circovirus type 2). Einkenni eru m.a. almenn vanþrif, hor, öndunarerfiðleikar, skita og aukin vanhöld í 5 - 16 vikna grísum. Ýmis önnur einkenni eða aðrir sjúkdómar (t.d. sortuexem) geta komið fram í fráfærugrísunum því veiran virðist herja á ónæmiskerfi þeirra. Heilkenni þetta var fyrst greint í Kanada 1991 en hefur greinst hin síðari ár í flestum löndum sem stunda mikla svínarækt. Talsvert tjón hefur hlotist af sjúkdómnum.

Orsakir

Margt er óljóst um sjúkdóminn. Þó er fræðiheimurinn sammála um að circoveiran verði að vera til staðar ef sjúkdómseinkenni eigi að koma fram. Hlutfallslega eru það fá svín af þeim sem sýkjast sem sýna einkenni. Svín geta einnig verið smituð af veirunni án einkenna. Hefur þetta valdið ýmsum kenningum, svo sem að veirurnar séu ekki allar jafn meinvirkar eða að um annað smitefni sé að ræða sem ekki hefur verið uppgötvað ennþá. Veiran getur haldið meinvirkni sinni í langan tíma í umhverfi. Hún þolir þurrk, lágt sýrustig og hita nokkuð vel.

Þættir sem hafa áhrif á PMWS

Helst má búast við því að einkenni komi fram í grísum á svínabúum þar sem streita eða álag á þá er mikið, enda gefur ónæmiskerfið eftir við slíkar aðstæður. Hér hafa fjölmargir umhverfis-þættir áhrif. Séu þessir þættir ekki eins og best verður á kosið hafa þeir áhrif á grísina, smit-álagið og sjúkdóminn sjálfan. Í þessu samhengi má nefna þætti eins og rangt hitastig, of litla eða mikla loftræstingu, of mikinn þéttleika, fráfærur of snemma, mikla flutninga, broddmjólk af skornum skammti, ranga fóðrun og svelti svo fátt eitt sé nefnt. Oft má finna þætti af þessu tagi sem komið hafa einkennum af stað. Aðrir sjúkdómar virðast einnig skipta máli á þann veg að þeir geta greitt fyrir einkennum PMWS.

Útbreiðsla

PCV2 er mjög útbreidd í grísum þar sem svínarækt er stunduð. Er hún í frískum sem sjúkum grísum. Hér á landi voru blóðsýni tekin úr svínum á 7 svínabúum árið 2001 og mældust mót-efni á 6 þeirra í svo til öllum sýnunum. Athyglisvert er að grísir á búinu sem mældust ekki með mótefni árið 2001, hafa nú verið greindir með sjúkdóminn. Hversu lengi veiran hefur verið í svínum hér á landi er hins vegar erfitt að fullyrða nokkuð um.

Smitdreifing

PCV2 dreifist fyrst og fremst með sölu á sýktum einkennalausum dýrum. Sýkt svín geta skilið út veiruna í margar vikur, eða í allt að 20 vikur. Veiran skilst út með saur, þvagi, slími og sæði. Geta fóstur jafnvel smitast í móðurkviði. Smit getur einnig dreifst með áhöldum, fatnaði og farartækjum hafi þau komist í snertingu við veiruna. Sennilega geta fuglar og meindýr einnig borið smit. Það er mikilvægt að muna að veiran er sennilega til staðar á flestum svína-búum landsins. Komi sjúkdómurinn fram er því að öllum líkindum ekki um nýsmit að ræða, heldur að einhverjir þættir í rekstri búsins hafi farið úrskeiðis. Ef munur er á meinvirkni veir-unnar á þetta ekki við. Lítið meinvirk veira getur verið í svínunum án þess að valda einkenn-um. Mótefni gegn henni má mæla í blóði. Veikist hins vegar svínin af meinvirkari veiru sem veldur einkennum er án efa um nýsmit að ræða.

Meingerð

Enn er of lítið vitað um meingerð veirunnar. Hún er þó talin veikja ónæmiskerfi gríssins með því að hafa skaðleg áhrif á ónæmisfrumurnar. Þetta hefur í för með sér að grísinn er móttæki-legri fyrir ýmsum öðrum sýklum (bakteríum og veirum).

Einkenni

Einkenni má sjá í fráfæru- og eldisgrísum á aldrinum 5 - 16 vikna. Fyrstu einkenni koma oftast fram 3 - 4 vikum eftir fráfærur. Helst ber á lystarleysi, vanþrifum og hægum vaxtar-hraða. Grísirnir verða mjög horaðir, fá úfið háralag og eru með innfallnar síður. Þessir grísir eru oft fölir og í sumum tilfellum geta þeir orðið gulir. Stundum ber á öndunarerfiðleikum, hósta og jafnvel vatnskenndri skitu. Eitlar (ln. inguinalis superficiales) undir kviði í klofi verða oft stórir og áberandi. Í móttækilegum hópi grísa geta 5 - 50% af þeim veikst en stór hluti þeirra sem veikjast drepast (20 - 80%), oft sökum annarra sýkinga í kjölfarið. Á góðum búum þar sem umhverfis- og stjórnunarþættir eru með ágætum og heilbrigði grísanna er almennt gott, eru einnig dæmi um að PMWS komi fram í einstaka grísum.

Aukinn dauði eftir fráfærur og horaðir grísir með bólgna eitla ættu að vekja sterkan grun um þetta heilkenni.

Greining

Sýnatökur

Svo hægt sé að greina PMWS í grísum þurfa ákveðnar rannsóknir að fara fram. Það er ekki hægt að greina sjúkdóminn eingöngu út frá sjúkdómseinkennum, því margt annað getur verið á ferðinni sem veldur svipuðum einkennum. Ef vanhöld aukast nokkrum vikum eftir fráfærur (yfir 3 - 5%) og talsvert er um vanþrif í grísum án skýringa ætti að kanna hvort um PMWS geti verið að ræða.

Best er að senda til rannsókna 4 - 6 grísi þar sem breytingar í þeim geta verið mjög mismun-andi. Hafa skal samband við Keldur áður en grísir eru sendir til rannsókna. Í þessu samhengi má nefna að hér á landi fundust breytingar í aðeins 1 af 7 krufðum grísum sem uppfylltu öll skilyrðin sem þurfa að vera til staðar þegar sjúkdómurinn er staðfestur.

Krufningsmynd

Einkennandi er horað hræ, fölt og stundum gult. Eitlar eru stækkaðir. Lungu geta verið stór og stíf með dreifðum rauðum þéttum blettum og stundum með bjúg í millivef (interstitium). Nýru geta verið bólgin og með ljósa bletti í berki vegna bólgubreytinga. Lifrin getur verið ljós og þétt. Aðrar einkennandi breytingar eru vökvi í brjóst- og kviðarholi, bjúgur í miðmæti (media-stinum), garnahengi, víðgirnisvafningi og víðgirnisvegg. Ekki má gera ráð fyrir að allar þessar breytingar séu ávallt til staðar í sama einstaklingnum.

Smásjárskoðun

Svo greina megi sjúkdóminn með öruggum hætti verður m.a. smásjárskoðun að fara fram á vefjum. Algengustu breytingarnar má finna í eitlum og milta en þær breytingar eru mjög ein-kennandi fyrir sjúkdóminn. Má sjá tæmingu af eitlafrumum og eyðileggingu á eitlavef og íferð ákveðinna frumutegunda.

Staðfesting veirunnar

Svo unnt sé að staðfesta sjúkdóminn verður að sýna fram á veiruna í eitlavef sem í eru ein-kennandi breytingar. Ef ekki er hægt að sýna fram á þetta er sjúkdómurinn ekki staðfestur.

Sýna má fram á veiruna með sérstakri litun sem gerir hana áberandi í vefjasýnunum.

Mótefnamælingar eru ekki mikils virði þar sem allflestir grísir, sjúkir sem heilbrigðir, eru með mótefni gegn veirunni. Grísir á búi þar sem sjúkdómsins hefur aldrei orðið vart eru mjög lík-lega einnig með mótefni gegn veirunni. Sé hins vegar mögulegt að sýna fram á hækkun mót-efna í tveimur blóðsýnum í tengslum við sjúkdómseinkenni bendir það ákveðið til PMWS.

Álíka einkenni vegna annarra sjúkdóma

Hafa ber í huga að svelti, vatnsleysi, fóður- og fóðrunarágallar, magasár, langvinn lungna-bólga, kólísýkingar, þarmabólga og aðrir langvinnir sjúkdómar geta valdið svipuðum ein-kennum og sjást við PMWS.

Meðferð og fyrirbyggjandi aðgerðir

PMWS er ekki nefndur í viðaukum með lögum nr. 25/1993 um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim. Engar sérstakar kvaðir eru settar á svínabú þar sem sjúkdómurinn greinist að því undan-skildu að ekki verður heimilt að selja lífdýr eða sæði frá búunum.

Engin meðferð er til gegn veirunni, en ef grípa þarf til lyfjameðferðar beinist hún að þeim sýkingum sem upp kunna að koma. Fyrst og fremst verður að laga þá þætti sem betur mega fara í aðbúnaði, fóðrun og meðferð grísanna. Mikilvægt er að draga sem mest úr öllum streitu-völdum, blanda ekki saman grísum á mismunandi aldri, forðast eins og kostur er smit á milli grísanna og viðhalda mjög góðu hreinlæti.

Uppfært 18.03.2025
Getum við bætt efni síðunnar?