Dýralæknaráð
Hlutverk
Hlutverk ráðsins er að vera Matvælastofnun til ráðgjafar í málefnum dýralækna.
Dýralæknaráð starfar samkvæmt 4. gr. laga nr. 66/1998, um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr, sem er svo hljóðandi:
Ráðherra skipar dýralæknaráð sem skipað er fjórum dýralæknum til fimm ára í senn og er Matvælastofnun til ráðuneytis. Skal einn tilnefndur af Bændasamtökum Íslands, annar af stjórn Dýralæknafélags Íslands, þriðji af stjórn Tilraunastöðvar Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum og fjórði án tilnefningar og skal hann jafnframt vera formaður ráðsins. Varamenn skulu tilnefndir á sama hátt.
Ráðið skal ávallt fjalla um innflutning búfjár og erfðaefnis þess sé hans óskað. Einnig skal ráðið fjalla um innflutning annarra dýra, búfjárafurða og aðra þætti er snerta heilbrigðismál dýra og dýraafurða þegar þess er óskað af ráðherra eða Matvælastofnun. Ráðinu er heimilt, ef aðstæður krefja, að kalla sérfræðinga til ráðuneytis.
Sömu aðilar og taldir eru í 2. mgr. geta vísað ágreiningsmálum varðandi dýralæknisþjónustu til ráðsins. Við úrlausn þeirra ágreiningsmála skal ráðherra kalla til starfa með ráðinu lögfræðing sem fullnægir skilyrðum um skipan til starfa héraðsdómara.
Ráðið skal halda gerðabók um störf sín.
Skipan
Ráðherra skipar dýralæknaráð eftir tilnefningum til fimm ára í senn.
Dýralæknaráðið er nú svo skipað 2023-2028:
Aðalmenn
- Mia Hellsten, formaður, skipuð án tilnefningar
- Gísli Sverrir Halldórsson, varamaður skipaður án tilnefningar, er skipaður í ráðið þar til Bændasamtök Íslands tilnefna í ráðið
- Jón Kolbeinn Jónsson, tilnefndur af Dýralæknafélagi Íslands
- Kristbjörg Sara Thorarensen, tilnefnd af Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum
Varamenn
- Elísabet Hrönn Fjóludóttir, tilnefnd af Dýralæknafélagi Íslands
- Vilhjálmur Svansson, tilnefndur af Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum
Fundargerðir / erindi lögð fyrir ráðið tekin til umfjöllunar
- Erindi barst 24. ágúst 2016: Yfirdýralæknir óskar eftir umsögn dýralæknaráðs um væntanlega umsókn dýralæknis til ANR um tímabundið dýralæknaleyfi. Um er að ræða dýralækni sem hefur dýralæknismenntun og leyfi utan Evrópska efnahagssvæðisins. Yfirdýralæknir óskar eftir flýtimeðferð.
Erindi svarað 25. ágúst 2014: Í niðurlagi svarsins segir: „Í ljósi ofangreindra upplýsinga telur dýralæknaráð að ekkert mæli gegn því að --- fái leyfi til að starfa tímabundið sem dýralæknir í sláturhúsi undir stjórn héraðsdýralæknis.“ - Erindi barst 13. maí 2014: ANR óskar eftir að dýralæknaráð fjalli um innflutning á erfðaefni nautgripa frá Noregi.
Erindi svarað 1. júlí 2014: Í niðurlagi svarsins segir: „Dýralæknaráð álítur ekki ásættanlegt að taka þá áhættu sem innflutningur á erfðaefni beint til bænda hefði í för með sér fyrir heilbrigði dýra. Gera þyrfti skýlausa kröfu um einangrun þeirra kúa sem erfðaefnið er notað í og ströng skilyrði um smitvarnir og eftirlit, kæmi til þess að innflutningur yrði leyfður. Jafnframt ætti innflutningurinn að byggja á fósturvísum fremur en sæði, þar sem mun minni hætta er á að smitefni berist með þeim en sæðinu.“ - Erindi barst 25. nóvember 2013: ANR óskar eftir umsögn dýralæknaráðs um umsókn til að stunda dýralækningar á Íslandi frá dýralækni með menntun utan Evrópska efnahagssvæðisins.
Erindi svarað 17. desember 2013: Í niðurlagi svarsins segir: „Á grundvelli þessa telur dýralæknaráð ekkert því til fyrirstöðu að --- sé veitt leyfi til að stunda dýralækningar á Íslandi.“ - Erindi barst 2. júlí 2013: ANR óskar eftir umsögn dýralæknaráðs um umsókn til að stunda dýralækningar á Íslandi frá dýralækni með menntun utan Evrópska efnahagssvæðisins.
Erindi svarað 21. október 2013: Í niðurlagi svarsins segir: „Á grundvelli þessara gagna telur dýralæknaráð að menntun --- sé sambærileg við menntun dýralækna frá dýralæknaháskólum innan Evrópska efnahagssvæðisins og telur ekkert því til fyrirstöðu að --- sé veitt leyfi til að stunda dýralækningar á Íslandi.“ - Erindi barst 2. júlí 2013: ANR óskar eftir umsögn dýralæknaráðs um umsókn til að stunda dýralækningar á Íslandi frá dýralækni með menntun utan Evrópska efnahagssvæðisins.
Erindi svarað 18. nóvember 2013: Í niðurlagi svarsins segir: „Á grundvelli þessara upplýsinga er það álit dýralæknaráðs að --- hafi ekki fullnægjandi menntun til að vera veitt leyfi til að stunda dýralækningar á Íslandi.“