Fara í efni

Efni og hlutir úr áli

Ál er mikið notað í umbúðir og áhöld sem ætlað er að snerta matvæli vegna margra ákjósanlegra eiginleika, sem dæmi má nefna áldósir fyrir drykki og niðursuðudósir. Álpappír er notaður við geymslu matvæla heima fyrir og í stóreldhúsum. Ál er auk þess notað í marglaga umbúðir. Kostir áls eru þeir að það er ódýrt, auðvelt í mótun, létt og ógegndræpt fyrir vökvum og lofttegundum. Ókostir þess eru að það er viðkvæmt fyrir hnjaski og getur tærst í súru umhverfi.

Ál í matvælum

Ál getur verið til staðar í matvælum af náttúrulegum ástæðum. Plöntur geta tekið upp ál úr jarðvegi og vatni. Óunnin matvæli geta innihaldið allt að 0,1 - 20 mg/kg af áli. Ál getur einnig borist yfir í matvæli úr eldhúsáhöldum og/eða umbúðum eins og álpappír og álílátum.

Ílát og áhöld úr áli

Forðast ber að nota álílát eða álpappír fyrir súr matvæli, svo sem sítrónur og ávaxtagrauta, eða niðurlögð matvæli þar sem sýra getur leyst upp ál.
 

Framleiðendur efna og hluta (ílát og áhöld) úr áli eiga að merkja sérstaklega ef um óhúðað ál er að ræða eða hafa leiðbeiningar um til hvers varan er ætluð.

Dæmi um merkingu gæti verið:

Upplýsingar til neytanda:
Notið áhaldið ekki til að geyma súr eða söltuð matvæli með hátt rakastig, hvorki fyrir né eftir matreiðslu.
Uppfært 29.01.2020
Getum við bætt efni síðunnar?