Fara í efni

Aukaafurðir dýra

Aukaafurð dýra er í stuttu máli sá hluti dýrs sem ekki er notaður í matvæli.

Aukaafurðir dýra verða helst til við veiðar og frum- og matvælaframleiðslu, í náttúrunni, á sveitabæjum, í fiskeldi, við slátrun og við vinnslu á mjólkurafurðum. Að auki verður til mikið magn af aukaafurðum á veitingastöðum, matvörubúðum og inni á heimilum. Fólki, dýrum og umhverfinu getur stafað áhætta af aukaafurðunum, og þessa áhættu má minnka annað hvort með því að afurðunum sé fargað á öruggan hátt eða með því að nota þær í ýmsum tilgangi á öruggan hátt.

Megintilgangur regluverks um aukaafurðir dýra er að koma í veg fyrir eða takmarka áhættu fyrir lýðheilsu og dýraheilsu tengdum slíkum afurðum. Í regluverkinu er lögð áhersla á að sérstakt tillit sé tekið að tryggja fæðukeðjuna með því að forðast mögulegar uppsprettur smits í gegnum fóður fyrir húsdýra.

Almennt

Samkvæmt 10. gr. laga nr. 93/1995, um matvæli skulu matvælafyrirtæki haga starfsemi sinn í samræmi við reglur um almenna hollustuhætti og tryggja að matvæli óhreinkist ekki eða spillist á annan hátt. Stjórnandi matvælafyrirtækis ber ábyrgð á að uppfylltar séu kröfur laga og stjónvaldsreglna sem gilda um starfsemi þess á hverjum tíma skv. 8. gr. b. laga nr. 93/1995, um matvæli.

Reglur um almenna hollustuhætti er að finna í reglugerð nr. 103/2010 um gildistöku reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 852/2004 um hollustuhætti sem varða matvæli og reglugerð nr. 104/2010 um gildistöku reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 853/2004 um sérstakar reglur um hollustuhætti sem varða matvæli úr dýraríkinu.

Markmið löggjafar um hollustuhætti matvæla er að fyrirbyggja, sem frekast er unnt, framleiðslu á matvælum sem eru óhrein, spillt eða óörugg, þ.e. heilsuspillandi eða óhæf til neyslu og veita neytendum öfluga vernd með tilliti til öryggis matvæla. Samkvæmt 8. gr. a. laga nr. 93/1995, um matvæli er óheimilt að markaðssetja matvæli sem ekki eru örugg, þ.e. heilsuspillandi eða óhæf til neyslu.

Í IX. kafla viðauka II í reglugerð nr. 852/2004/EB segir að matvælaframleiðendur skuli ekki taka við innihaldsefnum eða hráefnum, öðrum en lifandi dýrum, eða öðrum efnum, sem eru notuð við vinnslu varanna, ef vitað er að þau séu eða ætla má að þau séu menguð sníklum, sýklum eða eiturefnum, niðurbrotsefnum eða framandi efnum í þeim mæli að fullunna varan verði óhæf til neyslu þótt stjórnandi matvælafyrirtækisins hafi beitt eðlilegum, hollustusamlegum flokkunaraðferðum og/eða undirbúnings- eða vinnsluaðferðum.

Jafnframt segir að hráefni og öll innihaldsefni, sem eru geymd í matvælafyrirtæki, skulu geymd við viðeigandi skilyrði sem varna því að þau spillist eða mengist, sem og að á öllum stigum framleiðslu, vinnslu og dreifingar skulu matvælin varin gegn mengun sem líklegt er að geri þau óhæf til neyslu, skaðleg heilsu eða svo menguð að ekki er eðlilegt að telja þau hæf til neyslu í því ástandi.

Þá segir að hráefni, innihaldsefni og hálfunnar og fullunnar vörur, sem líklegt er að stuðli að fjölgun sjúkdómsvaldandi örvera eða myndun eiturefna skulu ekki geymd við hitastig sem getur haft heilbrigðisáhættu í för með sér. Kæling matvæla skal vera órofin.

Í reglugerð nr. 853/2004/EB segir varðandi lagarafurðir að við aðgerðir á borð við hausun og slægingu skuli fylgja reglum um hollustuhætti. Ef unnt er, í tæknilegu og viðskiptalegu tilliti, að slægja afurðirnar skal það gert eins skjótt og unnt er eftir veiði og löndun þeirra. Ef fiskur er hausaður og/eða slægður um borð skal það gert skv. reglum um hollustuhætti og sem fyrst eftir veiði og skulu afurðir strax þvegnar vandlega með drykkjarhæfu vatni eða hreinu vatni. Þegar svo er skulu innyfli og þeir hlutar af fisknum sem gætu verið heilsuspillandi, skilin frá sem fyrst og haldið aðskildum frá afurðum sem eru ætlaðar til manneldis. Lifur og hrogn, sem ætluð eru til manneldis, skal geyma undir ís. Matvælastofnun hefur litið svo á að þessi meðferð eigi við um meðferð afla/hráefnis bæði um borð í fiskiskipum og við hausun og slægingu á landi.

Ef litið er til skilgreiningar á slógi þá er um að ræða líffæri fiska sem skilin eru frá kviðarholinu þegar fiskur er slægður. Slóg inniheldur lifur, hrogn, svil, gallblöðru, maga og skúflanga. Ljóst er því að nýting slógs skv. framangreindri skilgreiningu er heimil við matvælavinnslu, svo framarlega sem meðferð hráefnisins sé í samræmi við hollustuhætti sem kveðið er á um í lögum um matvæli og reglugerðum settum á grundvelli laganna.

Það verður þó að gera þann fyrirvara á notkun á slógi við matvælavinnslu að matvælafyrirtæki er óheimilt að taka við hráefnum ef vitað er að þau séu eða ætla má að þau séu menguð af sníklum, sýklum eða eiturefnum, niðurbrotsefnum eða framandi efnum í þeim mæli að fullunnin vara verði óhæf til neyslu þótt beitt hafi verið eðlilegum, hollustusamlegum flokkunaraðferðum og/eða undirbúnings- eða vinnsluaðferðum. Ljóst er að innihald meltingavegar fellur hér undir og af þeim sökum verður að gera kröfu um að innihald meltingavegar sé skilið frá ef nýta á aðra hluta slógsins til matvælavinnslu.

Ef slíkur aðskilnaður er ekki gerður hjá viðkomandi matvælafyrirtæki þar sem hráefnið fellur til þarf að flokka það sem aukaafurðir dýra og aðskilja frá öðru hráefni sem nota á við matvælavinnslu og merkja sem aukaafurðir dýra.

Í inngangsorðum reglugerðar (EB) 1069/2009 um aukaafurðir dýra segir að mikilvægt sé að ákveða upphafspunkt á vistferli aukaafurða úr dýrum þar sem kröfurnar í reglugerðinni taka gildi. Þegar hráefnið telst vera orðið aukaafurð úr dýrum má það ekki koma aftur inn í matvælaferlið.

Í 4. gr. reglugerðarinnar segir að um leið og aukaafurðir úr dýrum eða afleiddar afurðir, sem falla undir gildissvið þessarar reglugerðar, verða til hjá rekstraraðilum skulu þeir auðkenna þær og sjá til þess að farið sé með þær í samræmi við þessa reglugerð (upphafspunktur). Í þessu felst skv. 2. mgr. 4. gr. að rekstraraðilar skulu, innan fyrirtækja undir sinni stjórn, sjá til þess á öllum stigum söfnunar, flutnings, meðferðar, meðhöndlunar, ummyndunar, vinnslu, geymslu, setningar á markað, dreifingar, notkunar og förgunar að aukaafurðir úr dýrum og afleiddar afurðir uppfylli þær kröfur í reglugerð nr. 1069/2009/EB.

Í þessu felst að þó slóg (hluti þess) sé hæft til manneldis þá er ekki heimilt að nýta það sem hráefni til matvælaframleiðslu eftir að búið er að taka tilgreina það sem aukaafurðir dýra. Við slíkan upphafspunkt gildir regluverkið um aukaafurðir dýra um hráefnið, þ.m.t. að hráefnið sé merkt sem slíkt og að viðskiptaskjöl séu gefin út í samræmi við 1069/2009/EB þegar hráefnið er sent frá viðkomandi vinnsluaðila til 3ja aðila.

Fyrir liggja fordæmi þar sem reynt hefur á heimildir Matvælastofnunar til að stöðva nýtingu á slógi sem innihélt innihald meltingavegar við matvælaframleiðslu. Í úrskurði atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins frá 10. janúar 2013 staðfesti ráðuneytið ákvörðun stofnunarinnar varðandi móttöku matvælafyrirtækis á hráefni sem innihélt hryggi, hausa og slóg (innyfli með innihaldi meltingavegar) samblandað í kari.

Matvælastofnun byggði ákvörðun sína á að slíkt hráefni væri óhæft til manneldis og slíkt hráefni sem félli úr matvælakeðjunni yrði ekki talið hæft til manneldis að nýju – engu breytti þótt endanleg afurð kynni að vera án hættulegra örvera. Ráðuneytið féllst á röksemdir stofnunarinnar með svohljóðandi rökstuðningi; „Ráðuneytið telur að notkun hráefnisins, þar sem blandað er saman hrygg, haus og innyflum í fiskikari og það flutt með því móti, uppfylli ekki kröfur laga. Líkindi séu fyrir því að slík matvæli spillist. Þegar innihald meltingavegar fisks blandast við þann hluta, sem ætlað er til manneldis, þá spillir það matvælunum bæði með meltingarensímum og miklu magni örvera. Það flýtir einnig mjög fyrir niðurbroti sem flýtir rotnun og þar með skemmdum. Meðhöndlun af þessu tagi veldur því að varan, sem unnin er úr hráefninu, er mun líklegri til þess að valda matareitrunum vegna örvera sem berast í flök og hausa við meðhöndlun og vinnslu.“

Matvælafyrirtæki er því óheimilt að nýta hráefni sem hefur mengast af innihaldi meltingavegar eða þar sem líkindi eru fyrir að slík mengun hafi átt sér stað.

Með vísan til framangreinds er gengið út frá því að innihald meltingavegar hafi ekki verið skilið frá öðru hráefni/öðrum líffærum í slógi sem hæft er til matvælavinnslu eða að hráefnið sé mengað af innihaldi meltingavegar.

Þeim starfsstöðvum einum er heimilt að taka við aukaafurðum dýra til frekari vinnslu sem hafa til þess starfsleyfi skv. 13. gr. laga nr. 25/1993 og eru á lista Matvælastofnunar yfir samþykktar starfsstöðvar til slíkrar vinnslu.

Starfsstöðvar sem einungis eru með leyfi til matvælaframleiðslu skv. lögum nr. 93/1995 er því óheimilt að taka við aukaafurðum dýra til frekari vinnslu, þ.m.t. slóg með innihaldi meltingavegar, hráefni sem mengast hefur af innihaldi meltingavegar og öðru hráefni sem aðrir framleiðendur hafa skilgreint sem aukaafurðir dýra.

Reglugerðin

Reglugerðirnar sem fjalla um aukaafurðir dýra eru samræmdar innan EES svæðisins. Það þýðir að meðhöndlun þessara afurða skal vera eins í öllum löndum innan svæðisins. Regluverkið í málaflokknum er innleitt með reglugerð (EU) nr. 1069/2009 (aðalreglugerð) og reglugerð (EU) nr. 142/2011 (framkvæmdarreglugerð). Sú síðastnefnda inniheldur nánari útlistun á reglunum sem koma fram í (EU) nr. 1069/2009 og á þann hátt virkjar hún aðalreglugerðina. Þessar reglugerðir eru innleiddar á Íslandi með reglugerð nr. 674/2017 um heilbrigðisreglur að því er varðar aukaafurðir úr dýrum og afleiddar afurðir sem ekki eru ætlaðar til manneldis.

Upphafspunktur

Ástæður þess að dýraafurð er ekki hæf til manneldis geta verið margar, þar með talið að afurðin sjálf henti ekki eins og beint og skinn eða að matarreglugerðirnar heimili ekki slíka notkun. Það getur líka verið að afurðin sé upphaflega hentug til manneldis, en að eigandinn af ýmsum ástæðum velji að nota ekki vöruna til slíkrar notkunar.

Burtséð frá því hver ástæðan fyrir því að dýraafurðin verður ekki notuð til manneldis er, tekur reglugerðin um aukaafurðir við þegar sú ákvörðun hefur verið tekin. Afleiðingin af þessu er að afurðina verður að vinna í samræmi við aukaafurðarreglugerðir og ekki er hægt að „uppfæra“ það sem hæft til manneldis að nýju. Ákvörðunin er óafturkræf.

Áhættuflokkun

Aukaafurðir úr dýrum eru settar í einn af þremur flokkum, sem munu veita mikilvægar leiðbeiningar um hvernig meðhöndla eigi afurðina og hvernig nota má hana síðar. Í þessari flokkun er tengsl við fæðukeðjuna grundvöllur þar sem það er lykilatriðið er að halda afurðum sem skal ekki fara inn í fæðukeðjuna fjarri henni.

Flokkunin myndar fyrsta skrefið í að tryggja að aukaafurðir dýra séu öruggar miðað við fyrirhugaða notkun.

Áhættuflokkur 1

Áhættuflokkur 1 er hæsti áhættuflokkurinn og inniheldur efni sem talið er mikilvægt að halda langt frá fæðukeðjunni. Slíkt efni samanstendur í fyrsta lagi af dýrum eða hlutum dýra sem grunur leikur á um að sé smitað af smitandi heilahrörnun (TSE) eða mengað af bönnuðum efnum. Að auki flokkast sem eftirfarandi sem áhættuflokkur 1:

  • Gæludýr, ásamt dýrum frá dýragörðum og sirkusum
  • Tilraunadýr
  • Villt dýr sem grunur leikur á að séu smituð af sjúkdómum sem smitast í menn eða dýr
  • Sérstakt áhættuefni (SRM)
  • Dýraafurðir sem innihalda bönnuð efni og viss aukaefni sem eru yfir leyfilegum mörkum
  • Dýraafurðir sem safnað var við meðhöndlun skólps frá starfstöðvum sem vinna efni í áhættuflokki 1 og öðrum fyrirtækjum þar sem sérstakt áhættuefni er fjarlægt.
  • Eldhúsúrgangur frá flutningsfyrirtækjum í alþjóða flutningum

Áhættuflokkur 2

Efni í flokki 2 er einnig talið mikil áhættuefni og inniheldur:

  • Húsdýraúrgang og innihald meltingarvegar
  • Dýravefur sem safnað er við meðhöndlun skólps frá öðrum sláturhúsum en þeim sem fjarlægja sérstakt áhættuefni eða hjá vinnslustöðvum fyrir efni í flokki 2
  • Aukaafurðir dýra sem innihalda lyfjaleifar eða mengandi efni sem er yfir leyfilegum mörkum
  • Dýraafurðir sem eru lýstar óhæfar til manneldis vegna innihalds aðskotaefna
  • Dýraafurðir, að undanskildum efnum í áhættuflokki 1, sem eru innfluttar frá þriðju ríkjum og sem uppfylla ekki dýralæknakröfur fyrir innflutning
  • Dýr og hlutar dýra sem deyja á annan hátt en við slátrun til manneldis, þ.á.m. dýr sem eru aflífum til að útrýma smitsjúkdómum
  • Vörur skilgreindar sem óhæfar til manneldis á grundvelli aðskotaefna

Að auki flokkast sem áhættuflokkur 2 allar dýraafurðir sem hvorki eru skilgreindar sem áhættuflokkur 1 eða áhættuflokkur 3. Áhættuflokkur 2 er því safnflokkur fyrir afurðir sem eru ekki skilgreindar í hina áhættuflokkana.

Áhættuflokkur 3

Efni í flokki 3 er talið efni sem telst bera litla áhættu og er aðeins hægt að nota hluta þess í fæðukeðjunni sem fóður fyrir dýr sem framleiða matvæli. Flokkurinn inniheldur í grunninn dýr eða hluta dýra sem teljast hæf til manneldis en sem af viðskiptalegum ástæðum á ekki að nýta til manneldis. Að auki flokkast eftirfarandi sem áhættuflokkur 3:

  • Hlutar slátraðra dýra sem teljast óhæfir til manneldis en sýna ekki merki um sjúkdóma sem geta smitast í menn eða dýr
  • Húðir og skinn, hófar/klaufir og horn, svíns burstar og fjaðrir frá dýrum sem er slátrað í sláturhúsum og teljast hæf til slátrunar til manneldis
  • Blóð frá öðrum dýrum en jórturdýrum sem er slátrað á sláturhúsum og teljast hæf til manneldis
  • Aukaafurðir dýra frá framleiðslu vara sem eru ætlaðar til neyslu, þ.á.m. fituhreinsuð bein og fitutólg
  • Vörur úr dýraríkinu eða matur úr dýraríkinu sem ekki er lengur talinn hæfur til manneldis af viðskiptalegum ástæðum
  • Gæludýrafóður og annað fóður úr dýraríkinu eða inniheldur aukaafurðir úr dýrum og er ekki lengur ætlað til fóðurs af viðskiptalegum ástæðum
  • Blóð, fylgjur, ull, fjaðri, hár, horn, hófar/klaufir og broddur frá dýrum sem ekki hafa sýnt nein merki um sjúkdóma sem geta smitast í menn eða dýr
  • Sjávardýr og hlutar þeirra, að undanskildum sjávarspendýrum, sem ekki hafa sýnt merki um sjúkdóma sem geta smitast í menn eða dýr
  • Aukaafurðir dýra frá sjávardýrum sem falla til á starfsstöðvum sem framleiða matvæli
  • Eldhúsúrgangur og matarafgangar frá heimilum og veisluþjónustum
  • Blöndun mismunandi áhættuflokka

Ef efnum í mismunandi flokkum er blandað saman verður að meðhöndla blönduna sem þann áhættuflokk sem efnið með mestu áhættuna flokkast í. Ef efnum í áhættuflokkum 2 og 3 er blandað saman við efni í áhættuflokki 1 telst allt efnið vera í áhættuflokki 1. Sömuleiðis hefði þurft að meðhöndla blönduna sem áhættuflokk 2 þegar efnum í áhættuflokki 3 er blandað við efnum í áhættuflokki 2.

Förgun og notkun aukaafurða úr dýrum

Leiðir til ráðstöfunar og notkunar aukaafurða úr dýrum eru mismunandi eftir flokknum og eru taldar upp í 12., 13. og 14. gr. reglugerðar um aukaafurðir dýra. Almennt, því hærri sem áhættuflokkurinn er, því færri valkostirnir til notkunar eru. Ítarlegar reglur um notkun og förgun er að finna í reglugerðinni.

Formleg skjöl

Við flutning aukaafurða dýra verður viðskiptaskjal að fylgja afurðunum og þetta er mikilvægt tæki til að rekja dýraefni til uppruna.

Viðskiptaskjalið verður að innihalda auðkenni efnisins bæði eigindlega og megindlega, hvaðan það kemur, hvert það er að fara og hverjir flytja það. Lýsing á dýraefninu ætti að gera stuttlega grein fyrir því hver er ástæðan fyrir því að það er flokkað eins og er. Það er sérstaklega mikilvægt ef flokkunin er byggð á því að efnið er mengað með aðskotahlutum eða efnum sem geta gert það óhentugt fyrir tilætlaða notkun.

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur samið sniðmát fyrir viðskiptaskjöl fyrir flutninga á EES svæðinu og það er einnig hægt að nota fyrir millilanda flutninga.

Skjalið verður að gefa út í að minnsta kosti þríriti. Frumritið verður að fylgja sendingu til loka ákvörðunarstaðar, eitt afrit á sendandi að geyma og eitt afrit á flutningsaðili að geyma. Skjalið verður að vera undirritað af ábyrgum aðila hjá sendanda.

Allir einstaklingar/öll fyrirtæki sem senda, flytja eða taka við aukaafurðum úr dýrum verða að geyma viðskiptaskjöl í að minnsta kosti tvö ár.

Flutningur

Aukaafurðir úr dýrum og unnar vörur verða að vera fluttar í nýjum, lokuðum umbúðum, eða í þöktum, lekaþéttum ílátum eða farartækjum. Ílát ættu að vera frátekin fyrir flutning á tiltekinni vöru þar sem það er nauðsynlegt til að forðast krossmengun.

Ökutæki, einnota gámar og allur annar endurnýtanlegur búnaður sem komist hefur í snertingu við aukaafurðir eða unnar vörur skal vera:

  • hreinsuð, þvegin og sótthreinsuð strax eftir notkun
  • geymd hrein
  • hreinn og þurr fyrir notkun.

Umbúðaefni verður að brenna eða farga á þann hátt sem ekki hefur í för með sér hættu á smiti eða hættu á krossmengun.

Reglugerðirnar kveða einnig á um við hvaða hitastig mismunandi vörur skal flytja undir:

  • Aukaafurðir dýra sem nota á sem fóður, hámark 7°C
  • Óunnið efni í flokki 3 sem skal nota í fóður, kælt, frosið eða sýrt

Ökutæki, sem notuð eru til slíkra flutninga, skulu hönnuð þannig að hægt sé að uppfylla kröfurnar og kanna þær.

Innflutningur og útflutningur aukaafurða dýra

Kröfurnar um viðskipti í aukaafurðareglugerðinni gilda bæði fyrir:

  • Viðskipti innan EES
  • Útflutning/innflutning til eða frá landi utan EES.

Aðildaríki ESB og EES geta sett höft á innflutning vissra afurða.

Viðauki XIV í reglugerð um aukaafurðir dýra fjallar um innflutning frá löndum utan EES.

Merkingar

Allar aukaafurðir úr dýrum og unnar afurðir verða að vera auðgreinanlegar meðan á söfnun og flutningi stendur og verður að halda afurðum í mismunandi flokkum aðskildum frá söfnun og allan flutning til ákvörðunarstaðar.

Umbúðir, ílát og/eða farartæki ættu að vera merkt bæði með texta og litakóða, eftir því hvaða flokki efnið sem flytja á tilheyrir. Þessi merking verður að vera skýr og varanleg, sem þýðir að hún verður að vera í ákveðinni stærð. Matvælastofnunin hefur í reynd gert ráð fyrir því að litakóðinn ætti að minnsta kosti að vera á stærð við A4 blað.

Umsókn um skráningu/samþykki

Allir þeir sem stunda viðskipti með aukaafurðir dýra og eru með lögheimili á Íslandi eiga að vera skráðir hjá Matvælastofnun.

Í þjónustugátt Matvælastofnunnar er að finna rafræna umsókn nr. 1.07 Skráning/Umsókn um vinnslu og/eða geymslu á aukaafurðum dýra.

Skráðar starfsstöðvar

Allir sem taka þátt í framleiðslu, flutningi, meðhöndlun, vinnslu, geymslu, sölu, dreifingu eða annarri notkun á aukaafurðum dýra eiga að vera skráðir hjá Matvælastofnun.

Skráningin skal innihalda starfsemi með dýraafurðir eða afleiddar afurðir sem upphafsefni og flokk afurða sem meðhöndlaðar eru.

Fyrirtæki sem eru í heild samþykkt samkvæmt reglugerðum um matvælaframleiðslu þurfa ekki frekari skráningu.

Samþykktar starfsstöðvar

Starfsstöðvar sem framkvæma meira en bara einfaldari meðhöndlun aukaafurða dýra eiga að vera samþykkt af Matvælastofnun. Krafan um samþykki nær yfir flestar þær athafnir sem tengjast meðhöndlun aukaafurða dýra og er grundvallar krafa.

Krafan um samþykkt nær m.a. yfir:

  • vinnslu dýraafurða með viðurkenndi aðferð
  • förgun sem úrgang
  • förgun eða endurvinnslu með sambrennslu
  • notkun sem eldsneyti í brennsluferli
  • framleiðslu fóðurs fyrir gæludýr
  • framleiðslu af lífrænum áburði eða jarðvegsbæti
  • umbreytingu í lífgas eða moltu
  • meðhöndlun svo sem flokkun, skurður, kæling, frysting, söltun, fjarlæging húðar eða sérstaks áhættuefnis
  • geymslu

Mikilvæg takmörkun á skyldunni til að vera samþykkt samkvæmt aukaafurðareglugerðunum er að fyrirtæki þar sem aukaafurðir koma til, sem allar eru samþykktar eða skráðar fyrir starfsemi samkvæmt reglugerð um matvælaheilbrigði, þurfa ekki samþykki samkvæmt aukaafurðarreglugerðinni fyrir sömu starfsemi.

Listar yfir starfstöðvar

Alþjóðlegur eldhúsúrgangur 

Leiðbeiningar þessar eru gefnar út af Umhverfisstofnun og Matvælastofnun og byggja á skilyrðum reglugerðar Evrópuþingsins og -ráðsins EB nr. 1069/2009 um heilbrigðisreglur að því er varðar aukaafurðir úr dýrum og afleiddar afurðir sem ekki eru ætlaðar til manneldis og um niðurfellingu á reglugerð (EB) nr. 1774/2002 (reglugerð um aukaafurðir úr dýrum). Reglugerðin var innleidd með reglugerð nr. 674/2017.

Markmið leiðbeininganna er að skýra í hvaða tilfellum endurnýta má úrgang af dýrauppruna frá alþjóðlegum flutningstækjum og í hvaða tilfellum farga verði úrgangi af dýrauppruna frá þeim án endurnýtingar.

Hingað til hefur verið litið á allan eldhúsúrgang frá flutningstækjum á ferð til og frá Íslandi sem alþjóðlegan eldhúsúrgang. Nú telst eldhúsúrgangur frá flutningstækjum sem koma frá ríkjum innan Evrópska efnahagssvæðisins ekki sem alþjóðlegur eldhúsúrgangur og er því almennt hæfur til endurvinnslu.

Í reglugerð nr. 1069/2009/EB eru lagðar fram heilbrigðisreglur að því er varðar aukaafurðir úr dýrum og afleiddar afurðir sem ekki eru ætlaðar til manneldis, en þar undir heyrir m.a. úrgangur af dýrauppruna sem kemur frá flutningstækjum í alþjóðlegri umferð. Í reglugerðinni eru lagðar sérstakar kvaðir á meðhöndlun eldhúsúrgangs frá flutningatækjum í alþjóðlegri umferð (e. international catering waste). Slíkur úrgangur flokkast sem efni í 1. flokki sem þarf að farga með brennslu eða urðun í samræmi við 12. grein reglugerðarinnar.

Flutningstæki í alþjóðlegri umferð eru þau flutningstæki sem ferðast á milli Íslands og svæða utan evrópska efnahagssvæðisins, svokallaðra þriðju ríkja. Þar sem Ísland er EFTA ríki er það hluti af markaði evrópska efnahagssvæðisins og flutningar vöru á milli þeirra og Íslands teljast ekki sem alþjóðlegur flutningur í því samhengi sem reglugerðin kveður á um. Úrgangur frá flutningstækjum innan evrópska efnahagssvæðisins er því endurnýtanlegur á Íslandi.

Alþjóðlegur eldhúsúrgangur í skilningi 8. greinar (f) er allur sá úrgangur frá flutningstækjum í alþjóðlegri umferð sem inniheldur matvæli eða úrgang sem komist hefur í snertingu við matvæli úr dýraríkinu. Að öllu jöfnu þarf að brenna eða urða allan alþjóðlegan eldhúsúrgang samkvæmt 12. grein reglugerðar nr. 1069/2009/EB. Ef alþjóðlegur eldhúsúrgangur blandast saman við annan úrgang þarf einnig að brenna eða urða þann úrgang.

Matvæli úr dýraríkinu og umbúðir sem hafa verið í snertingu við þau og verða að úrgangi í flutningstæki í alþjóðlegri umferð, teljast að öllu jöfnu til alþjóðlegs eldhúsúrgangs. Hægt er að komast hjá því að eldhúsúrgangur verði að alþjóðlegum eldhúsúrgangi um borð í flutningstæki í alþjóðlegri umferð með því að halda úrgangsstraumum aðskildum. Sem dæmi gæti íslenskt flutningstæki aðeins boðið upp á matvörur frá evrópska efnahagssvæðinu og haldið þeim eldhúsúrgangi aðskildum frá öðrum úrgangi flutningstækisins. Þessi leið er háð því að í flutningstækinu séu sannanlega leiðir til að halda úrgangsstraumunum aðskildum og að ekki komi til sérstök smithætta vegna eldhúsúrgangsins umfram annan sambærilegan eldhúsúrgang.

Ef flokka á úrgang frá flutningstækjum í alþjóðlegri umferð er mikilvægt að það sé gert á þann hátt að ekki sé hætta á að úrgangur smitist af dýraafurðum. Matvælastofnun er eftirlitsaðili þegar kemur að flutningi dýraafurða milli landa og mun undantekningarlaust gera kröfu um að unnið sé eftir skýrum og sannanlegum verkferlum þegar kemur að flokkun úrgangs frá flutningstækjum í alþjóðlegri umferð.

Eftirlitshandbók