Eftirlitsheimsóknir
Bóndinn eða umráðamaðurinn er ábyrgur fyrir því að lögum og reglum um velferð dýra og framleiðslu fóðurs og matvæla sé fylgt. Matvælastofnun fer með eftirlit með því hvort reglunum er fylgt. Eftirlitið er byggt á áhættu- og eftirlitsflokkun þar sem þunga eftirlitsins er beint þangað sem áhætta er mest og frammistaða verst. Eftirlitsmenn framkvæma eftirlit skv. skoðunarhandbókum. Áhættuflokkun og skoðunarhandbækur eru í stöðugri endurskoðun.
- Eftirlitsmaður gerir ekki boð á undan sér verði því við komið. Annars á að boða eftirlitið með eins stuttum fyrirvara og hægt er
- Bónda/umráðamanni er skylt að veita eftirlitsmanni aðgang að öllum eftirlitsskyldum hlutum búsins/aðstöðunnar og þeim pappírum og tölvugögnum sem á að hafa eftirlit með
- Eftirlitsmaður hefur heimild til að taka myndir á eftirlitsstað
- Í lok heimsóknar greinir eftirlitsmaður bónda/umráðamanni frá helstu frávikum
- Að heimsókn lokinni skrifar eftirlitsmaður skýrslu um heimsóknina. Vinnuregla er að skýrsla sé skrifuð og send innan viku frá heimsókn, en hún missir ekki gildi sitt þótt það gerist síðar. Bóndi/umráðamaður fær skýrsluna afhenta í gegnum stafrænt pósthólf á island.is um leið og henni er lokið.
- Bóndi/umráðamaður kvittar ekki fyrir heimsóknina á vettvangi en hann hefur andmælarétt skv. stjórnsýslulögum um það sem fram kemur í skýrslunni. Eftirlitsmanni ber að svara þeim andmælum skriflega innan tilskilins tíma
- Umráðamanni er skylt að veita Matvælastofnun aðstoð við sýnatöku vegna skimunar fyrir sjúkdómum
- Breyta má sýnatökuheimsókn í eftirlitsheimsókn en gera þarf bónda/umráðamanni skýra grein fyrir því