Egg
Egg sem seld eru neytendum skulu vera með heila og ósprungna skurn. Þau eiga að vera hrein. Eggjum skal pakkað í hreinar umbúðir.
Sá sem þvær egg fyrir dreifingu skal hafa starfsleyfi frá Matvælastofnun til þvotta og pökkunar á eggjum. Þvottur getur eyðilagt náttúrlega vörn eggjanna gegn sýklum og eykur hættu á að smit komist inn í eggin og því er mikilvægt að rétt sé staðið að þvotti þeirra.
Geymsla
Geymsla fyrir egg skal vera hrein, þurr og laus við framandi lykt. Egg skulu varin gegn höggum og sólarljósi. Hitastig við geymslu eggja hjá framleiðanda skal vera að hámarki 12°C. Egg skal geyma og flytja við það hitastig (sem helst skal haldast jafnt) sem hentar best til að tryggja heilnæmi eggja*. Kjörhitastig eggja er því sem næst 12 °C í flutningi og við geymslu í verslun og æskilegt er að egg séu ekki geymd sem kælivara (0-4 °C) fyrr en þau eru komin í ísskáp neytandans. Ástæða þessa er að raki getur myndast á yfirborði eggja við hitasveiflur og aukið hættu á örverumengun eggja.
*Reglugerð 104/2010 (EB/853/2004 viðauki III X. Þáttur I. Kafli)
Geymsluþol og afhending á eggjum
Ekki má afhenda egg sem eru eldri en 21 dags gömul til neytenda. (Reglugerð EB/ 853/2004, viðauki III, 10 þáttur) Það er ekki krafa skv. lögum að merkja egg með síðasta afhendingardegi en slík dagsetning myndi stuðla að því að hægt sé að fylgjast með aldri eggja í verslunum.
Egg skal merkja með best fyrir dagsetningu.
Ábyrgðaraðili (framleiðandi eða dreifingaraðili) eggja ákvarðar geymsluþol og þar með ,best fyrir“ dagsetningu og getur hann veitt frekari leiðbeiningar um geymslu eggja.
Hafa skal í huga að egg geymast í lengri tíma ef þau hafa verið geymd á réttan hátt. Óþvegin egg hafa lengra geymsluþol en egg sem hafa verið þvegin. Við þvott skemmist himnan á eggjaskurninni en hún veitir egginu náttúrulega vörn gegn uppgufun og örverumengun.
Egg frá eggjaframleiðendum án starfsleyfis ætti ekki geyma lengi fram yfir „Best fyrir“ dagsetningu. Þessir framleiðendur þurfa ekki að taka sýni úr hænunum til vöktunar á salmonellu. Mælt er með að egg með óþekkta salmonellu stöðu séu ekki geymd lengur en 4 vikur frá varpi þar sem Salmonella, ef hún er til staðar, getur fjölgað sér með tímanum.
Merkingar
Ef egg eru seld í neytendaumbúðum skulu eftirfarandi upplýsingar vera á umbúðum
- Vöruheiti
- Nettóþyngd
- Geymsluskilyrði
- „Síðasti leyfði söludagur“ eða „Síðasti afhendingardagur“ er valkostur og skal hann þá vera 21 dagur frá varpi.
- Varpdagur er valkostur
- „Best fyrir“ dagsetning
- Heiti og heimilisfang ábyrgðaraðila
- Auðkennismerki sem inniheldur samþykkisnúmer pökkunarstöðvar
Sambærilegar upplýsingar skulu vera á umbúðum eða fylgiskjölum þegar egg eru afhent til stóreldhúsa í samræmi við reglur um upplýsingar um matvæli til stóreldhúsa eða til sölu í stykkjatali í smásöluverslunum. (Reglugerð nr. 1294/2014 um miðlun upplýsinga um matvæli til neytenda).
Ef egg frá framleiðendum án starfsleyfis eru seld á sveitamarkaði eða í eigin verslun framleiðanda skulu eftirfarandi upplýsingar vera á umbúðum
- Upplýsingar um nafn og heimilisfang framleiðanda
- „Síðasti leyfði söludagur“ eða „Síðasti afhendingardagur“ er valkostur og skal hann þá vera 21 dagur frá varpi
- Varpdagur er valkostur
- Best fyrir“ dagsetning skv. ákvörðun ábyrgðaraðila
Í eldhúsinu
Ávallt skal þvo hendur eftir meðhöndlun eggja við matreiðslu og er það mjög mikilvægt við meðhöndlun eggja sem ekki hafa verið þvegin.