Fara í efni

Þjálfun dýra

Hundar og önnur gæludýr

Hvort sem um er að ræða hvolpauppeldi, fullorðna hunda eða önnur gæludýr þá skal þjálfun á hvaða aldri sem er alltaf vera á þann hátt að velferð dýrsins sé varðveitt. Það er auðvitað nauðsynlegt að hundar læri rétta umgengni og samskipti við bæði fólk og önnur dýr, og hundum sé einhver takmörk sett svo þeir verði verði öruggir og góðir þátttakendur í samfélaginu sjálfum sér og öðrum til ánægju. Kennslu- og þjálfunaraðferðir skulu fyrst og fremst byggja á jákvæðri styrkingu, enda eru það þær aðferðir sem gefa bestan og langvirkastan árangur. Í fyrsta fasa þjálfunar gefur það hratt árangur að verðlauna hvert lítið skref fram á við. Einnig er mikilvægt að venja dýr við ólíkar aðstæður og umhverfi eins snemma og tök eru á. Mælt er með að fara með hvolpa á hvolpanámskeið og er það yfirleitt góð þjálfun fyrir bæði umráðamann og hvolp. Sveitarfélögin hafa flest einnig gefið afslátt á skráningargjöldum ef vottorði um námskeið frá viðurkenndum aðilum er vísað fram.

Við þjálfun og vinnu er óheimilt að nota hvers konar tæki eða tól, eða beita þau dýr sem þjálfa skal, neinum þeim aðferðum eða þvingunum sem valda þeim sársauka eða hræðslu. Notkun, sala og dreifing á hverskonar búnaði sem getur gefið dýri rafstuð, hálsólar með göddum eða hvössum köntun, eða annar útbúnaður sem getur valdið verulegum óþægindum er bannaður. Hálsól skal vera úr þannig efni og þannig gerð að hún geti ekki herst að hálsi eða skaða dýrið á annan hátt.

Við þjálfun, keppni, vinnu til gagns og sýningar skal þess gætt að ofbjóða ekki þoli og þreki dýrs. Fyrir vinnu, keppni og sýningar skal gæta þess að dýrið hafi hlotið viðeigandi undirbúning og þjálfun. Verja skal dýrið fyrir óþarfa áreiti og koma í veg fyrir aðstæður sem gætu valdið óþarfa ótta, óþægindum eða skaða. Gæta þarf t.d. að hávaða á keppnis-, vinnu- eða sýningarsvæði fari að jafnaði ekki yfir 65 dB.

Það er auðvitað mikilvægt að allir hundaeigendur þjálfi hundinn þannig að hann sé ávallt undir góðri stjórn umráðamanns. Umráðamaður hunda skal sýna öðrum þá virðingu og tillitsemi að hundurinn sé ekki að koma að fólki sem ekki óskar þess. Það er auðvitað augljóst að umráðamaður þarf einnig að tryggja að hundurinn sé ekki hættulegur fólki né dýrum, eða valdi þeim hræðslu, tjóni eða truflun, hvort sem er önnur gæludýr, búfénaður eða villt dýr.

Tamningar og þjálfun hrossa eða annars búfénaðar

Hver sá sem þjálfar dýr, notar þau í keppni og sýningar eða á annan hátt skal tryggja að þau:
    a. hafi til þess líkamlegt heilbrigði og hafi hlotið viðeigandi þjálfun,
    b. hafi ekki verið meðhöndluð með lyfjum sem deyfa sjúkdómseinkenni eða auka afkastagetu þannig að það samræmist ekki velferð þeirra,
    c. séu ekki markvisst beitt meðferð sem veldur þeim skaða eða óþarfa ótta.

Ekki má nota búnað eða aðferðir við tamningu, þjálfun, keppni eða sýningar sem valda hrossum skaða eða óþarfa ótta. Óheimilt er að þvinga hross í höfuðburð með búnaði sem gefur ekki eftir eða að uppgefa hross með bindingum eða öðrum þvingunum. Notkun á mélum með tunguboga og vogarafli er bönnuð á stórmótum, hvers kyns keppnum og sýningum.

Það gildir öll dýr að þjálfunaraðferðir sem byggja á jákvæðri styrkingu gefa bestan og mest langvarandi árangur! 

 

Uppfært 04.02.2020
Getum við bætt efni síðunnar?