Fara í efni

Sýklalyfjaónæmi

Sýklalyfjaónæmi

Með sýklalyfjaónæmi er átt við að bakteríur þróa með sér þol fyrir sýklalyfjum sem þær voru áður næmar fyrir. Uppgötvun sýklalyfja er ein merkilegasta uppgötvun læknisfræðinnar en því miður fer ónæmi baktería vaxandi um allan heim. Ónæmar bakteríur virða engin landamæri og berast greiðlega á milli landa.

Alþjóðlegar stofnanir, s.s. WHO, WOAH, FAO og fleiri, hafa lýst því yfir að sýklalyfjaónæmi sé ein helsta heilbrigðisógn sem steðjar að mannkyni í dag.

Hvernig er verið að vakta sýklalyfjaónæmi?

Mikilvægt er að safna upplýsingum um sýklalyfjaónæmi hjá bakteríum sem valda súnum og bendibakteríum. Súnuvaldar sem eru ónæmir gegn mörgum sýklalyfjum geta reynst fólki hættulegir. Smiti fjölónæmir súnuvaldar fólk getur það haft alvarlegar afleiðingar í för með sér ef fá eða engin sýklalyf eru tiltæk til meðhöndlunar við þeim sýkingum.

Stofn telst vera fjölónæmur ef hann er ónæmur fyrir þremur eða fleiri sýklalyfjaflokkum. Skilgreining á sýklalyfjaflokkum er ekki samræmd á heimsvísu. Matvælastofnun notar skilgreiningu Matvælaöryggisstofnunar Evrópu (EFSA) sem birtist í árlegri sameiginlegri sýklalyfjaónæmisskýrslu með Sóttvarnastofnun Evrópu (ECDC).

Matvælastofnun fer með framkvæmd reglugerðar nr. 1000/2018 um vöktun á sýklalyfjaþoli, en sýklalyfjaþol er annað orð yfir sýklalyfjaónæmi. Þessi reglugerð byggir á ákvörðun Evrópusambandsins nr. 1729/2020 um sama efni. Tilgangur reglugerðarinnar er að setja nákvæmar reglur um vöktun á ónæmi gegn sýklalyfjum sbr. reglugerð nr. 1048/2011 um vöktun súna og súnuvalda. Samkvæmt ákvörðuninni eiga skimanir að fara fram í hverri dýrategund (svínum, nautgripum og alifuglum) annað hvert ár, þannig að sýklalyfjanæmi baktería úr svínum og afurðum svína og nautgripa
verði rannsakað að lágmarki eitt ár en úr alifuglum og afurðum þeirra næsta ár, og svo koll af kolli. Samkvæmt endurnýjaðri ákvörðun skal prófa sýklalyfjanæmi Salmonella, Campylobacter og E. coli bendibaktería. Einnig skal sérstaklega skima fyrir ESBL/AmpC/karbapenemasa myndun hjá E. coli. Næmispróf á bakteríustofnum úr dýrum eru gerð á sýkladeild Tilraunastöðvar Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum. 

Eftirlitsniðurstöður

Matvælastofnun og Embætti landlæknis gefa árlega út skýrslu um sýklalyfjanotkun og -næmi bakería hjá mönnum og dýrum á Íslandi. Skýrslan er einnig unnin í samstarfi við Landspítala, Lyfjastofnun, Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum og Umhverfisstofnun.

Eldri skýrslur

Uppfært 26.09.2024
Getum við bætt efni síðunnar?