Fara í efni

Vítamín og steinefni í fæðubótarefnum

Það hvaða vítamín og steinefni eru leyfileg í fæðubótarefnum og á hvaða formi er samræmt innan EES svæðis.  Hins vegar hafa ekki verið sett samræmd hámarksgildi fyrir vítamín og steinefnum í fæðubótarefnum innan Evrópu og þær reglur því ekki samræmdar

Leyfileg vítamín og steinefni

Listar yfir leyfileg vítamín og og steinefni í fæðubótarefnum og leyfileg form þeirra eru í reglugerð um fæðubótarefni. Eingöngu er leyfilegt að nota þau vítamín og steinefni (viðauki 1) og á því formi (viðauki 2) , sem talið er upp í reglugerðinni. Listinni er sá sami á öllu EES svæðinu og er settur fram í tilskipun um fæðubótarefni (2002/46/EC).

Samkvæmt reglugerðinni er einungis leyfilegt að nota 13 vítamín og 17 steinefni í fæðubótarefni. Töflur hér að neðan sýna hluta að viðaukanum og eru settar hér til nánari útskýringa.

Til dæmis er B6-vítamín einungis hægt að nota á forminu:

a) pýridoxínhýdróklóríð eða
b) pýridoxín-5'-fosfat eða
c) pýridoxal-5'-fosfat

og ekkert annað form vítamínsins er leyfilegt!

Viðaukar reglugerðar

Breytingar á viðaukanum

Viðaukum 1 og 2 hefur nú þegar verið brett nokkrum sinum þar sem nokkrum efnum hefur verið bætt við Sjá reglugerð um fæðubótarefni.

Leyfilegt magn vítamína og steinefna

Samkvæmt 5. gr. tilskipunar ESB 2002/46 /EC er gert ráð fyrir að Framkvæmdastjórnin samþykki hámarks- og lágmarksgildi fyrir vítamín og steinefni í fæðubótarefnum. Ekki hefur þó enn tekist að setja slík hámarksgildi. Þar til samþykktar verða sérstakar samræmdar reglur gilda landsbundnar reglur um næringarefni og önnur efni, sem hafa næringar- eða lífefnafræðileg áhrif, sem eru notuð í fæðubótarefni.

Lágmarksmagn vítamína og steinefna

Samkvæmt skilgreiningu skal fæðubótarefni innihalda hátt hlutfall af vítamínum eða steinefnum (e. nutrients) eða annars konar efnum (e. other substances) sem hafa næringar- eða lífeðlisfræðileg áhrif. Til þess að tryggja að fæðubótarefnin innihaldi umtalsvert magn vítamína og steinefna skal miða við a.m.k. það sem telst marktækt magn vítamína og steinefna skv. í 2. lið A. hluta XIII. viðauka reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 1169/2011 um miðlun upplýsinga um matvæli til neytenda (ísl. reglugerð nr. 1294/2014).

Marktækt magn vítamína og steinefna skv. reglugerð ESB nr. 1169/2011:

  • 15% af næringarviðmiðunargildum í 100 g eða 100 ml þegar um er að ræða vörur aðrar en drykkjavörur
  • 7,5% af næringarviðmiðunargildum í 100 ml þegar um er að ræða drykkjarvörur
  • 15% af næringarviðmiðunargildum í skammti ef pakkningin inniheldur einungis einn skammt.

Daglega viðmiðunarneyslu vítamína og steinefna (næringarviðmiðunargildi, NV) fyrir fullorðna má finna í töflu í XIII. viðauka við reglugerð ESB  nr. 1169/2011 og skal hún notuð til viðmiðunar við merkingar.

  • Fæðubótarefni þarf sem sagt að innihalda vítamín og/eða steinefni í magni sem nemur a.m.k. 15% af næringarviðmiðunargildum í ráðlögðum dagskammti.
Matvælastofnun telur að ef fæðubótarefni innihalda óverulegt eða of lítið magn af vítamínum eða steinefnum gagnist það neytendum ekki og telst því villandi að markaðssetja slíka vöru sem fæðubótarefni. Því skal fæðubótarefni innihalda ekki minna en það sem telst marktækt magn vítamína og steinefna skv. reglugerð.

Hámarksmagn vítamína og steinefna

Neysla vítamína og steinefna í of stórum skömmtum getur haft skaðleg áhrif á heilsu fólks og því er nauðsynlegt að setja efri öryggismörk fyrir þau í fæðubótarefnum eftir því sem við á. Á meðan engin samræmd efri mörk hafa verið sett fyrir vítamín og steinefni þurfa eftirlitsaðilar að meta hvernig hægt er að tryggja að fæðubótarefni séu ekki hættuleg heilsu manna vegna of mikils magns vítamína og/eða steinefna.

Í umfjöllun um ásættanlegt hámarksmagn styðst Matvælastofnun við álit vísindanefnda Matvælaöryggisstofnunar Evrópu (EFSA, European Food Safety Authority) um efri öryggismörk (tolerable Upper Levels of intake, UL) fyrir vítamín og steinefni sem gefin voru út árið 2006.

  • UL eða efri öryggismörk er hámarksgildi fyrir heildarneyslu næringarefnis sem óhætt er að neyta daglega yfir lengri tíma, án þess að það sé talið hafa neikvæð áhrif á heilsu. Þau miðast yfirleitt við alla inntöku efnanna hvort sem er með fæðubótarefnum eða með öðrum matvælum. Gildin eru fyrir heilbrigða, fullorðna einstaklinga og gilda ekki endilega í þeim tilfellum þegar vítamín eða steinefni eru tekin undir eftirliti læknis.

Í töflunni hér að neðan eru viðmiðunargildi fyrir efri öryggismörk (UL) fyrir fullorðna fyrir vítamín og steinefni samkvæmt áliti EFSA. Fyrir þau vítamín og steinefni þar sem engin gildi eru, hefur ekki verið hægt að meta efri öryggismörk.

Vítamín / Steinefni   Efri öryggismörk á dag
A-vítamín µg 3000/1500 RE 1
D-vítamín µg 100
E-vítamín mg 300 alfaTJ 2
K-vítamín µg Engin efri mörk
C-vítamín mg Engin efri mörk
Þíamín (B1-vítamín) mg Engin efri mörk
Ríbóflavín (B2-vítamín) mg Engin efri mörk

Níasín (B3-vítamín)
nikótínsýra
nikótínamíð

mg


10
900

B6-vítamín (pýridoxín) mg 25
Fólinsýra µg 1000
B12-vítamín µg Engin efri mörk
Bíótín µg Engin efri mörk
Pantóþensýra (B5-vítamin) mg Engin efri mörk
Steinefni    
Kalíum mg Engin efri mörk
Klóríð mg Engin efri mörk
Kalsíum mg 2500
Fosfór mg Engin efri mörk
Magnesíum mg 250 4
Járn mg Engin efri mörk
Sink mg 25
Kopar mg 5
Mangan mg Engin efri mörk
Flúoríð mg 7
Selen µg 300
Króm µg Engin efri mörk
Mólýbden µg 600
Joð µg 600
Bór mg 10
Kísill (Silicon) mg Engin efri mörk

1. Viðmiðunargildin eiga aðeins við um retínól og retinýl ester. A-vítamín er gefið upp í retinoljafngildum (RE). 1 RE = 1 míkrógramm. Enn er verið að gefa upp í AE. 1 míkrógramm= 3,33 AE (alþjóðaeiningar). Þessi efri mörk taka ekki tillit til mögulegrar hættu á beinbrotum í viðkvæmum hópum. Nota skal 1500 µg sem viðmið fyrir konur eftir tíðahvörf sem eru í meiri áhættu að fá beinþynningu og verða fyrir beinbrotum.
2. E-vítamín er reiknað sem alfa-tókóferóljafngildi (TJ). 1 mg TJ = 1 mg d-alfatókóferól = 1,49 AE.
3. Gildir fyrir auðleysanleg Magnesíum sölt (t.d. klóríð, súlföt, aspartat, laktat) og samsett MgO í fæðubótarefni, vatni og vítamínbættra matvæli. Gildið væri þá eitthvað hærra fyrir torleystari form þar sem ekki fæst eins mikið nýtanlegt magnesíum úr þeim. Nákvæmari tölur fyrir torleystari sölt eru þó ekki til. Tekur ekki mið af magnesíum sem koma náttúralega í fæði/vatni.

Matvælastofnun telur ekki ásættanlegt að fæðubótarefni innihaldi meira af vítamíni eða steinefni í ráðlögðum daglegum neysluskammti, en sem nemur efri öryggismörkum, þar sem þau eru til. Ef magn næringarefna fer yfir efri öryggismörk telst það ekki vera í samræmi við 8. gr. a. laga um matvæli.

Til upplýsingar:
Vísindaálit EFSA - Efri öryggismörk fyrir vítamín og steinefni (2006)
Vísindaálit EFSA - Efri öryggismörk fyrir inntöku á D-vítamíni (2012)
Yfirlit - Efri öryggismörk EFSA (2018)

 

Uppfært 16.02.2023
Getum við bætt efni síðunnar?