Íblöndun
Almennt um íblöndun
Margvísleg næringarefni og önnur innihaldsefni eru notuð í mörgum tilgangi við matvælaframleiðslu. Til dæmis getur vítamíni verið bætt í matvæli með það markmið í huga að auka næringargildi þeirra en á sama tíma getur sama vítamín verið notað í matvæli sem aukaefni. Talað er um íblöndun (e. food fortification) þegar næringarefnum, þ.e. vítamínum og steinefnum (þ.m.t. snefilefni), er aukalega bætt í matvæli við framleiðslu þeirra. Magn vítamína og/eða steinefna í matvörum er í þessum tilvikum þar af leiðandi hærra en í upprunalegum matvælum.
Auk vítamína og steinefna er gjarnan öðrum efnum blandað í matvæli og má þar m.a. nefna (lífsnauðsynlegar) amínó- eða fitusýrur, trefjar, bætibakteríur (próbíotika), bætibakteríuörvandi efni (prebíótika) eða plöntu- og jurtaútdráttur eins og koffín.
Á markaði eru mörg matvæli þar sem vítamínum og steinefnum eða öðrum efnum hafa verið blandað í en algengustu matvælaflokkarnir eru drykkjarvörur og morgunkorn. Til dæmis eru vítamín A, C og E mikið notuð í ávaxtasafa, B-vítamín í vatnsdrykki og koffín í svokallaða orkudrykki. D-vítamíni er oft bætt í mjólk og mjólkurvörur og þar sem ekki fæst nægjanlegt magn af joði úr almennri fæðu er algengt að bæta því í matarsalt.