Fara í efni

Handþvottur

Með handþvotti verndar þú heilsu þína og annarra

Gott hreinlæti er mjög mikilvægt til þess að hindra mengun/smit frá okkur sjálfum yfir í mat. Það getur m.a. borist mikið af örverum með höndum milli matvæla og frá umhverfi yfir í matvæli. Þetta á ekki bara við í matvælafyrirtækjum heldur einnig heima í eldhúsi og hvar sem verið er með matvæli.

Þess vegna þarf að þvo hendur:

  • áður en maður byrjar að meðhöndla matvæli
  • milli meðhöndlunar, hrárra matvæla t.d. kjöts, grænmetis, og matar sem er tilbúinn til neyslu
  • eftir salernisferð 
  • eftir hósta eða snertingu við nef
  • eftir meðhöndlun sára

Handklæði og tauþurrkur verða fljótt mjög menguð að bakteríum, og geta því verið að dreifa bakteríum. Í matvælafyrirtækjum er skylt að nota pappírsþurrkur. Það getur líka verið nauðsynlegt að hætta alveg að útbúa eða meðhöndla mat ef maður er með sár/ígerð á höndum, eða ef sá sem meðhöndlar matvælin er með magakveisu sem getur þá smitast til þeirra sem borða matinn. 

Það er mjög mikilvægt að hindra svona smitleið í matvælafyrirtækjum.

Svona þvær maður hendur...

  • Takið hringa af.
  • Skolið hendur undir rennandi volgu vatni.
  • Dreifið og núið sápu vel um hendurnar og þvoið þær þannig í 10-15 sekúndur.
  • Passið að þvo vel fingurgóma og naglasvæði.
  • Það getur verið nauðsynlegt að þvo handleggi ef þeir koma í snertingu við matvæli.
  • Skolið alla sápu af höndunum með rennandi vatni.
  • Þurrkið með pappírsþurrku.
  • Notið gerileyði, ef matvælafyrirtækið mælir svo fyrir.
  • Hanska þarf að þvo líka eins og hendur.

Handþvottur skiptir afskaplega miklu máli því hendurnar koma víða við t.d. þar sem mengunarefni eru að finna s.s. þvottaefni, olíuvörur, bensín, en einnig þar sem fjöldi baktería er að finna t.d. í saur, jarðvegi, á dýrum, en einnig á hlutum sem við snertum með höndunum sem berast svo í matinn sem við borðum. Það er því mikil hætta á að hendur beri með sér smit yfir í matvæli.

Útskýrið þetta vel fyrir börnunum
Þvoið hendur áður en farið er að borða
Uppfært 08.04.2025
Getum við bætt efni síðunnar?