Fara í efni

Efnaleifar í dýraafurðum

Hér má sjá niðurstöður mælinga á aðskotaefnum og lyfjaleifum í dýraafurðum: 

Fyrstu greiningar á sláturafurðum á vegum yfirdýralæknis voru gerðar árið 1974, en þá voru greind klórkolefnissambönd í mör fullorðins fjár. Þetta var gert til að kanna hvort leifar af baðlyfinu Gammatox (virka efnið Lindan) fyndust í afurðunum eftir þrifabaðanirnar svokölluðu. 

Svo í byrjun níunda áratugarins var magn blýs og kadmíums greint í lifur og kjöti lamba.

En reglubundið eftirlit með aðskotaefnum og lyfjaleifum í búfjárafurðum hófst hér á landi árið 1989. 

Frá árinu 2012 hefur Matvælastofnun útbúið árlega áætlun um eftirlit með efnaleifum og aðskotaefnum í afurðum dýra samkvæmt reglum Evrópusambandsins (tilskipun 96/23 sem innleidd var í íslenska löggjöf með reglugerð 30/2012 um eftirlit með efnaleifum í afurðum dýra) og eru þær samþykktar af eftirlitsstofnun EFTA og matvælaeftirlitsdeild bandaríska landbúnaðarráðuneytisins. Slík samþykki eru nauðsynleg til þess að afurðarstöðvar hér á landi fái útflutningsleyfi á Evrópusambands- og Bandaríkjamarkað. 

Sérgreinadýralæknir heilbrigðiseftirlits sér um gerð hinnar árlegu áætlunar og heldur utan um niðurstöður og viðbrögð við jákvæðum sýnum. Umdæmisskrifstofur Matvælastofnunar sjá um sýnatöku búfjárafurða í sláturhúsum, eggjapökkunarstöðvum, fiskeldistöðvum og á bændabýlum. 

Í áætluninni koma fram þeir flokkar efnaleifa eða efna sem leita skal að í frumframleiðslu og frumframleiðsluafurðum með greiningum í lifandi dýrum, afurðum, fóðri og drykkjarvatni. Flokkarnir eru eftirfarandi:

Flokkur A - Vaxtarstýriefni og óleyfileg efni

  1. Stilben
  2. Efni með skjaldkirtilsheftandi virkni
  3. Sterar
  4. Resorcyclicsýrulaktón
  5. Beta-örvar
  6. Efnasambönd sem má ekki gefa búfé (t.d. klóramfenikól og nítrófúran)

Flokkur B - Dýralyf og mengunarefni

  1. Sýkladrepandi efni
  2. Önnur dýralyf
    a. Sníklalyf
    b. Hníslalyf
    c. Karbamat og pýretróíð
    d. Róandi lyf
    e. Bólgueyðandi lyf (NSAID)
    f. Önnur efni með lyfjavirkni (t.d. barksterar)
  3. Önnur efni og aðskotaefni
    a. Lífræn klórsambönd
    b. Lífræn fosfórsambönd
    c. Kemísk frumefni (þungmálmar)
    d. Sveppaeitur
    e. Litarefni
    f. Önnur efni

Reiknaður er lágmarksfjölda sýna árlega út frá framleiðslutölum árið áður:

  • Nautgripir: 0,4% þeirra nautgripa sem slátrað var á árinu á undan.
  • Svín: 0,05% þeirra svína sem slátrað var á árinu á undan.
  • Sauð- og geitfé: 0,05% af þeim kindum og geitum sem var slátrað á árinu á undan.
  • Hross: Ræðst af þeim vandamálum sem upp koma.
  • Alifuglar: 1 sýni fyrir hver 200 tonn af ársframleiðslu. Lágmark 200 sýni
  • Eldisfiskar: 1 sýni fyrir hver 100 tonn af ársframleiðslu.
  • Mjólk: 1 sýni fyrir hver 15.000 tonn af ársframleiðslu mjólkur. Lágmark 300 sýni
  • Egg: 1 sýni fyrir hver 1.000 tonn af ársframleiðslu eggja til neyslu. Lágmark 200 sýni.
  • Hreindýr: 10 þungamálma sýni tekin á hverju ári. 

Greiningarnar eru gerðar á erlendum rannsóknastofum. Rannsóknastofur sem greina sýni fyrir Matvælastofnun eru eftirfarandi:

Hér má sjá sýnatökuáæltun Matvælastofnunar fyrir árið 2023:

Heimildir til sýnatöku

Um framleiðslu og dreifingu matvæla er litið til laga nr. 93/1995 um matvæli. Tilgangur þeirra er að tryggja, eins og frekast er kostur: „gæði, öryggi og hollustu matvæla [...].“Þessu markmiði skal ná með ýmsu móti, m.a. opinberu eftirliti. Gildissvið matvælalaga er framleiðsla og dreifing matvæla á öllum stigum, þá taka lögin einnig til matvælaeftirlits hérlendis. Matvælaeftirlit hérlendis er í höndum Matvælastofnunar (MAST) og heilbrigðisnefnda sveitarfélaga, sem starfar að eftirliti með framleiðslu og dreifingu matvæla.

MAST sinnir stjórnsýslu, eftirliti, fræðslu og þjónustu við sjávarútveg, landbúnað, fyrirtæki og neytendur til þess að stuðla að heilbrigði og velferð dýra, heilbrigði plantna og öryggi, heilnæmi og gæðum plantna.

Samkvæmt 6. gr. laga um matvæli er það hlutverk MAST að annast opinbert eftirlit með m.a.: allri frumframleiðslu matvæla, (annara en matjurta), inn- og útflutningi búfjárafurða, kjötvinnslum og kjötpökkunarstöðum (að undaskildum kjötvinnslum sem starfræktar eru í smásöluverslunum - „smásala“ er nánar skilgreind í 4. gr. laga um matvæli), meðferð; skoðun og mati á sláturafurðum, heilbrigðisskoðun eldisfisks, meðferð; flutningi, geymslu, vinnslu og dreifingu sjávarafurða (að undanskilinni smásölu). Nánar má lesa um landsbundna eftirlitsáætlun MAST í samnefndri skýrslu frá 2017

Þar sem íslensk yfirvöld í matvælaeftirliti eru bundin af Samningnum um Evrópska efnahagssvæðið (EES) verður að líta til reglna Evrópusambandsins (ESB) um opinbert eftirlit. Hafa þær verið innleiddar í reglugerð nr. 106/2010 (ESB-reglugerð: 882/2004), nánar eru skilgreindar sértækar reglur opinbers eftirlits í reglugerð nr. 105/2010 (ESB-reglugerð: 854/2004). Um sýnatökur gilda ýmsar sértækar reglur. Um eftirlit með efnaleifum í afurðum dýra er kveðið á um í reglugerð nr. 30/2012 (ESB-reglugerðir nr. 23/96, 104/2006, 179/98, 153/89, og 47/97).

Um sýnatökur á framleiðslueiningum

Samkvæmt ofangreindum lögum og reglugerðum ber MAST ábyrgð á að opinbert eftirlit fari fram, m.a. með sýnatökum og að þær séu framkvæmdar á öllum stigum matvælaframleiðslu, bæði með reglulegu millibili og óreglulegu sem og með slemiburtaki. Það er einnig á ábyrgðarsviði MAST að sýnatökufólk sé faglega undirbúið og fylgi verklagsreglum sem gangi jafnt yfir alla sýnatökuþega. Samkvæmt 7. gr. rg. 30/2012 þá er MAST skuldbundið af því að allt eftirlit skuli vera án fyrirfram tilkynningar til sýnatökuþega. Það er enginn frumkvæðisskylda á MAST að tilkynna sérstaklega til sýnatökuþega að sýnataka hafi farið fram. Það er þó almenn verklagsregla MAST að gera grein fyrir viðveru sinni við sýnatökur. 

Samkvæmt 24. gr. laga um matvæli er matvælafyrirtækjum skylt að láta, endurgjaldslaust, nauðsynleg sýni til rannsókna og veita allar nauðsynlegar upplýsingar við framkvæmd eftirlitsins. Þá skal aðgangur eftirlitsaðila að þeim stöðum þar sem framleiðsla og dreifing matvæla á sér stað að vera óhindraður. 

Þeir aðilar sem sinna opinberu eftirliti eru bundnir þagnarskyldu um þau atriði sem varða framleiðslu- og verslunarleynd sem þeir kunna að komast að við eftirlit.

Ítarefni

Uppfært 30.06.2023
Getum við bætt efni síðunnar?