Fersk matvæli
Hvað eru fersk matvæli?
Orðið ferskt getur verið gagnlegt fyrir neytendur þar sem það auðveldar fólki að gera greinarmun á vörum sem seldar eru fljótt eftir uppskeru eða framleiðslu og öðrum vörum. Nútímadreifing og geymsluaðferðir auka verulega geymsluþol matvæla og því er orðið mjög erfitt að ákvarða hvenær er rétt að nota orðið ferskt.
Orðið ferskt getur verið gagnlegt til að átta sig á því hvaða vörur hafa ekki farið í gegnum neina vinnsluferla að undanskilinni kælingu, stjórnun á andrúmslofti, skolun og snyrtingu.
Orðið ferskt er oft notað í orðasamböndum sem höfða til tilfinninga, án þess að hafa nokkra sérstaka merkingu t.d. freistandi ferskt eða brakandi ferskt. Ljóst þarf að vera hver tilgangurinn með því að nota orðið ferskt er og forðast að nota orðið til þess að lýsa einhverju sem stenst ekki raunveruleika.
Samkvæmt reglugerð nr. 1294/2014 um miðlun upplýsinga um matvæli til neytenda, skulu matvælaupplýsingar ekki vera blekkjandi fyrir neytendur. Því skal aðeins nota orðið ferskt þegar augljóst er hvað átt er við með því.
Æskilegt er að merking og aðrar upplýsingar um matvæli hafi nánari lýsingu á hvað átt er við með orðinu ferskt. Þá getur neytandi áttað sig betur á mismun milli matvara.
Dæmi: Vara sem heitir „Ferskt ávaxtasalat“ er með lýsingu sem segir að það sé „aðeins búið til úr ferskum ávöxtum“, þ.e. í salatið voru ekki notaðir niðursoðnir eða þurrkaðir ávextir.
Ávextir og grænmeti
Orðið ferskt er nú almennt notað um ávexti og grænmeti sem ekki hafa verið meðhöndluð sérstaklega með vinnsluaðferðum eins og þurrkun, niðursuðu eða frystingu. Slík notkun er vel ásættanleg þar sem hún hefur ákveðna merkingu í hugum fólks, þó svo að ávextir og grænmeti fari í gegnum lágmarksmeðhöndlun eins og skolun og/eða snyrtingu.
Fiskur
Notkun á orðinu ferskt til að lýsa kældum eða ísuðum fiski er einnig ásættanleg, en ekki þegar átt er við frystan fisk.
Í huga neytenda er kjöt eða fiskur sem hefur verið fryst og selt uppþídd ekki ferskvara. Því er ekki rétt að nota orðið ferskt um slíkar vörur.
Ávaxtasafi
Ávaxtasafar sem framleiddir eru úr þykkni má ekki kalla ferskan ávaxtasafa.
Orðið ferskt ætti einungis að nota fyrir safa sem eru beint úr ávextinum (þ.e. ekki framleiddir úr þykkni) þegar stuttur tími er á milli þess sem safinn er kreistur og pakkaður. Síðasta neysludag ætti að merkja innan við 2 vikum frá því safinn er kreistur.
Ef ávaxtasafi er merktur „ferskur“ og hann hefur verið gerilsneyddur skulu upplýsingar um hitameðhöndlun koma fram sem hluti af fullyrðingunni t.d. „ferskur nýkreistur appelsínusafi, gerilsneyddur“.
Ferskt pasta
Það hefur skapast hefð fyrir því að nota hugtakið „ferskt pasta“ fyrir pasta sem hefur stutt geymsluþol. En þar sem neytandi skilur hvað átt er við með hugtakinu í þessu tilviki þá telst það ekki villandi merking.
Frosin matvæli/innihaldsefni
Aðeins má nota orðið ferskt um frosin matvæli ef samhengið er rétt, t.d.:
„Frosið ferskt“ gefur til kynna að matvælin voru fersk (t.d. ný uppskera) þegar þau voru fryst.
„Framleitt úr ferskum hráefnum“ ætti aðeins að nota þegar innhaldsefnin sem notuð eru í vöruna hafa ekki verið unnin (t.d. þurrkuð, frostþurrkuð, frosin, þykkt, reykt, niðursoðin o.s.frv.)
„Framleidd með fersku X“ ætti aðeins að nota þegar X er innihaldsefni sem hefur ekki verið unnið og varan innheldur ekki sama innihaldsefni sem hefur verið unnið sérstaklega til viðbótar. T.d. matvæli sem er lýst „framleitt úr ferskum tómötum“ en varan innheldur einnig niðursoðna tómata.
Ferskt bragð
Lýsinguna „ferskt bragð“ ætti að ekki að nota þar sem það getur villt um fyrir neytendum. Hugtök eins og „með bragði af fersku X“ (t.d. „með bragði af ferskri sítrónu“) ætti aðeins að nota ef varan inniheldur ferskt X og bragðið sem verið er að lýsa er að öllu leyti eða mestu leyti frá fersku X.
Kæld matvæli
Aukin sala á kældum matvælum hefur orðið til þess að orðið ferskt er notað til að gefa til kynna stutt geymsluþol í kæligeymslu og vekja sérstaka athygli á muninum miðað við hefðbundin matvæli með langt geymsluþol. Dæmi um slíkar vörur eru kaldar súpur og sósur með bragð og áferð sem gefa til kynna að varan sé ekki eins mikið unnin og sambærileg vara sem seld er í niðursuðudósum eða flöskum, ávaxtasafi sem er nýkreistur sem er jafnvel gerilsneyddur. Í þessum tilvikum hefur varan stutt geymsluþol jafnvel þegar hún er geymd í kæli og það á vel við að nota orðið fersk um þær þar sem neytendur skilja hvað átt er við.