Flutningar og sjúkdómavarnir í sauðfé og geitum
Varðandi kaup og sölu líflamba 2024
Umsóknareyðublöð er að finna á Þjónustugátt Matvælastofnunar (innskráning með rafrænum skilríkjum) - umsóknir og tilkynningar þegar opið er fyrir umsóknir.
Frestur til þess að skila inn umsóknum um kaup á líflömbum er liðinn. Hann var framlengdur frá 1. júlí til 20. ágúst í ár (2024).
Um tvenns konar umsóknir var að ræða:
- 2.09 Kaup á líflömbum af líflambasölusvæðum
- 2.45 Kaup á líflömbum með verndandi/mögulega verndandi arfgerðir af öðrum svæðum en líflambasölusvæðum
Frestur til þess að skila inn umsóknum um sölu líflamba er liðinn. Hann var framlengdur frá 1. mai til 1. júlí í ár (2024).
Um tvenns konar umsóknir var að ræða:
- 2.11 Sala líflamba af líflambasölusvæðum
- 2.46 Sala líflamba með verndandi/mögulega verndandi arfgerðir af öðrum svæðum en líflambasölusvæðum
Til að hindra útbreiðslu sjúkdóma þurfa sauðfjárbændur og geitaeigendur að:
- Virða reglur um flutning sauðfjár og geita milli varnarhólfa.
- Kynna sér lög um dýrasjúkdóma, reglugerðir um útrýmingu á riðuveiki, garnaveiki, flutning líflamba milli landsvæða; og auglýsingu um varnarlínur vegna sauðfjársjúkdóma
- Skrá alla flutninga og tryggja að hjarðbók gefi rétta mynd af stöðu hjarðarinnar.
- Halda utan um sjúkdóma- og lyfjaskráningar.
- Nota lágþrýstiþvott í stað háþrýstiþvotts við þrif á fjárhúsum til að hindra úðasmit.
- Stunda ábyrgar smitvarnir í tengslum við sauðfé og geitur; handþvottur (sótthreinsun með handspritti eingöngu er ekki nægjanlegt, ætíð skal þvo hendur fyrst) og stígvélaþvottur er afar mikilvægur til að draga úr líkum á dreifingu smitefna.
- Hafa samband við héraðsdýralækni ef grunur um alvarlegan sjúkdóm á borð við riðuveiki vaknar.
Nánari upplýsingar:
Líflambaflutningar - söluaðilar líflamba og -geita
Áður en sótt er um leyfi til kaupa á lömbum eða kiðum til lífs þarf að sækja um mark og bæjarnúmer sé það ekki til á nafni umsækjanda. Því verður úthlutað á búsnúmer sé það til en annars verður því einnig úthlutað.
Minnispunktar fyrir seljendur
- Mikilvægt er að flutningstæki séu vel þrifin og sótthreinsuð í heimahéraði, áður en flutningsferð hefst. Seljandi getur krafið þann sem kemur að sækja lömbin um vottorð dýralæknis um þrif og sótthreinsun á flutningstækinu. Til að forðast smit sem mögulega getur borist með flutningstækjum er mælt með að seljendur fari ekki upp í flutningstækið og bílstjórar, og aðrir sem með bílnum koma, fari ekki inn í fjárhús. Ef það er hins vegar óhjákvæmilegt ættu þeir að vera íklæddir hreinum hlífðarfatnaði og hreinum skóm eða skóhlífum.
- Seljandi skal skrá sölu lambanna í Fjárvís. Bændasamtökin skila MAST skýrslu um viðskipti með sauðfé árlega.
- Athugið að mikilvægt er að fullorðnu fé af bænum sé lógað í sláturhúsi eða hausum skilað inn til sýnatöku. (Sjá 5. gr. reglugerðar um flutning líflamba milli landsvæða, nr. 550/2008 og 7. gr. reglugerðar um útrýmingu á riðuveiki og bætur vegna niðurskurðar). Hafið samband við héraðsdýralækni um fyrirkomulag sýnatöku úr fé sem lógað er heima á þessu ári, ef um slíkt er að ræða.
- Samkvæmt 5. gr. reglugerðar nr. 550/2008 um flutning líflamba milli landsvæða, heldur sauðfjárbóndi söluleyfi milli ára án umsóknar, svo lengi sem hann uppfyllir skilyrði reglugerðarinnar. Tilkynna þarf Matvælastofnun ef óskað er að söluleyfi verði fellt niður og mun stofnunin þá taka nafn búsins af lista yfir bú sem hafa leyfi til að selja líflömb.
Minnispunktar fyrir kaupendur
- Mikilvægt er að flutningstæki séu vel þrifin og sótthreinsuð í heimahéraði áður en flutningsferð hefst. Sá sem sækir lömbin skal sjá til þess að flutningstækin séu þrifin og sótthreinsuð og skal hreinsunin tekin út og vottuð af dýralækni. Framvísa skal staðfestingu, sé þess óskað. (Sjá 7. gr. reglugerðar um flutning líflamba milli landsvæða, nr. 550/2008). Til að forðast smit sem mögulega getur borist með flutningstækjum er mælt með að seljendur fari ekki upp í flutningstækið og bílstjórar, og aðrir sem með bílnum koma, fari ekki inn í fjárhús. Ef það er hins vegar óhjákvæmilegt ættu þeir að íklæðast hreinum hlífðarfatnaði og hreinum skóm eða skóhlífum.
- Kaupendur eru hvattir til þess að fá dýralækni til að meðhöndla lömbin með langverkandi sníkjudýralyfi strax við eða fyrir heimkomu og bólusetja gegn garnaveiki ef kaupandi er á svæði þar sem það er skylda. Minnt er á að láta bólusetja öll ásetningslömb sem fyrst.
- Kaupandi skal endurmerkja lömbin og tilkynna Bændasamtökum Íslands um einstaklingsmerki þeirra og bæjarnúmer. Bændasamtökin skila MAST skýrslu um viðskipti með sauðfé árlega.
- Kaupandi ber allan kostnað af viðskiptum með líflömb, þ.m.t. flutning, sbr. þó sérákvæði hér að neðan þegar um er að ræða fjárskipti í kjölfar niðurskurðar vegna riðuveiki.
Til viðbótar fyrir þá sem eru að kaupa fé vegna fjárskipta
- Samanber 16. gr. reglugerðar nr. 651/2001 um útrýmingu á riðuveiki og bætur vegna niðurskurðar greiðir ríkissjóður 90% flutningskostnaðar á líflömbum vegna fjárskipta. Flutningsaðili skal senda sérstakan reikning til Matvælastofnunar, stílaðan á Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið, Skúlagötu 4, 150 Reykjavík, kt. 570269-1869, sem nemur 90 % af flutningskostnaði vegna líflamba viðkomandi kaupanda. Matvælastofnun sendir reikninginn áritaðan til ráðuneytisins, sem annast greiðsluna.
- Vegna hættu á að riðusmit viðhaldist eru fjáreigendur beðnir að virða eftirfarandi tilmæli:
- Fé skal ekki flutt til lífs frá fjárskiptabæjum á aðra bæi.
- Fé frá öðrum bæjum skal ekki tekið til lífs inn í hjörðina.
- Ráðlegt er að kaupa ásetningslömb fyrstu 3-5 árin frá líflambasölubæjum, ekki setja á heimafædd lömb.
- Aðskilja skal eins og unnt er líffé frá fjárskiptabæjum og fé annarra bæja í flutningum og við aðra meðferð fyrstu árin eða eins lengi og unnt er. Girðingum skal vel við haldið. Lóga skal fé sem lendir á flakki eða fer í aðra afrétti en hina eiginlegu.
- Fylgjast skal vel með heilsufari nýja stofnsins, halda skrá um öll vanhöld og veikindi og hafa samband við héraðsdýralækni ef kindur sýna grunsamleg einkenni.
Ítarefni
Almennar reglur um flutninga á lifandi sauðfé
Í auglýsingu um varnarlínur vegna sauðfjársjúkdóma er landinu skipt upp í varnarsvæði. Vegna ólíkrar sjúkdómastöðu í þessum varnarsvæðum gilda mismunandi reglur um flutninga á lifandi fé frá og innan þessara svæða.
Ef riðuveiki greinist á bæ er varnarsvæðið talið sýkt í 20 ár frá næstu áramótum þess árs sem síðasta tilfelli er staðfest. Ósýkt varnarsvæði eru svæði þar sem riða hefur ekki greinst síðastliðin 20 ár.
Varnarsvæðum er hægt að skipta upp í fjóra flokka:
- Líflambasölusvæði – til þessara svæða teljast varnarhólf sem aldrei hefur greinst riða og garnaveiki ekki greinst síðastliðin 10 ár. Smitálag vegna riðuveiki á aðliggjandi sóttvarnarsvæðum skal einnig vera lítið.
- Ósýkt varnarsvæði - til þessara svæða teljast varnarhólf þar sem riða hefur ekki fundist sl. 20 ár.
- Sýkt varnarsvæði - til þessara svæða teljast varnarhólf þar sem riða hefur greinst á sl. 20 árum og ekki er gerður greinarmunur á sýktum og ósýktum svæðum innan hólfsins.
- Svæðisskipt varnarsvæði - þar sem hólfinu er skipt upp í sýkt og ósýkt svæði og ólíkar reglur gilda um flutning á lifandi fé eftir því hvort um er að ræða fé á sýkta eða ósýkta svæðinu.
Eftirfarandi reglur gilda um flutninga á lifandi fé frá og innan þessara flokka varnarsvæða:
1. Líflambasölusvæði
- Snæfellsneshólf
- Vestfjarðahólf eystra
- Norðausturhólf (N-Þingeyjarsýsluhluta hólfsins)
- Öræfahólf
Þetta einu svæðin sem flytja má líflömb frá, yfir varnarlínur, með leyfi frá Matvælastofnun. Hvorki er leyfilegt að flytja líffé inn í þessi líflambasöluhólf né á milli þeirra til að verja þau eftir fremsta megni gegn smitsjúkdómum.
2. Ósýkt varnarsvæði
- Vesturlandshólf
- Dalahólf
- Vestfjarðahólf vestra
- Grímseyjarhólf
- Eyjafjarðarhólf
- Norðausturhólf (önnur svæði en líflambasöluhlutinn)
- Héraðshólf
- Austfjarðahólf
- Suðausturlandshólf
- Eyjafjalla- og Vestur-Skaftafellssýsluhólf
- Rangárvallahólf
- Grímsnes- og Laugardalshólf
- Vestmannaeyjahólf
- Skjálfandahólf
Engar takmarkanir eru settar á flutninga með lifandi fé milli hjarða innan þessara svæða. Hinsvegar þarf að sækja um til MAST ef flytja á fé inn á þessi svæði sbr. reglugerð nr. 550/2008 um flutning líflamba milli landsvæða, með síðari breytingum.
3. Sýkt varnarsvæði
- Miðfjarðarhólf
- Vatnsneshólf
- Húna- og Skagahólf
- Tröllaskagahólf
- Suðurfjarðahólf
- Hreppa-, Skeiða- og Flóahólf
- Biskupstungnahólf
Allir flutningar á fé milli hjarða innan þessara svæða og frá þeim (yfir varnarlínur) eru bannaðir, sbr. reglugerð nr. 651/2001. Til að kaupa líffé inn á sýkt varnarsvæði þarf að sækja um leyfi til Matvælastofnunar, sbr. reglugerð nr. 550/2008.
Verklagsreglur fyrir flutning á lömbum með verndandi og mögulega verndandi arfgerðir m.t.t riðu (apríl 2024)
Lögum samkvæmt er bannað að flytja sauðfé yfir varnarlínur og milli bæja í sýktum varnarhólfum, en Matvælastofnun hefur þó heimild til að leyfa flutninga sé sótt um það sérstaklega. Í ljósi þess að hafin er ræktun á verndandi arfgerðum í baráttunni við riðu hafa verið settar verklagsreglur um afgreiðslu umsókna varðandi sölu og flutning á líflömbum með þessar arfgerðir sem koma fram hér að neðan.
Tekið skal fram að leyfi eru gefin út til eins árs í senn.
Við afgreiðslu umsókna verður tekið tillit til stöðu garnaveiki á því svæði sem umsóknarbær er á, til þess að minnka hættu á útbreiðslu hennar. Bú í varnarhólfum þar sem ekki er bólusett við garnaveiki munu ekki fá leyfi til þess að kaupa frá búum í varnarhólfum þar sem bólusett er við garnaveiki.
Flutningur lambanna skal fara fram áður en þau eru tekin á hús fyrir veturinn á fæðingarbúinu og er miðað við að flutningi sé lokið fyrir 20.október.
Við afgreiðslu umsókna um leyfi til sölu og kaupa á líflömbum mun Matvælastofnun taka mið af eftirfarandi.
1. Líflambasölusvæði:
Heimilt er að flytja af svæðinu lömb af öllum arfgerðum nema VRQ/x. Ekki er mælt með að flytja lömb með arfgerðina ARQ/ARQ þ.e. lömb af næmri arfgerð inn á riðusvæði.
2. Ósýkt svæði:
Heimilt er að flytja lömb af öllum arfgerðum nema VRQ/x milli bæja innan svæðisins.
Heimilt er að flytja lömb yfir varnarlínur inn í riðuhólf, að því tilskildu að þau séu með ARR/x (ef x er ekki VRQ) eða mögulega verndandi (MV) arfgerðirnar: T137/x (ef x er ekki VRQ), AHQ/AHQ, AHQ/C151 eða C151/C151.
3. Svæði innan riðuhólfs þar sem liðin eru meira en 7 ár síðan síðasta riðutilfelli var greint:
Heimilt er að flytja lömb yfir varnarlínur inn í riðuhólf og milli bæja innan hólfsins að því tilskildu að þau séu með ARR/x (ef x er ekki VRQ) eða mögulega verndandi (MV) arfgerðirnar: T137/x (ef x er ekki VRQ), AHQ/AHQ, AHQ/C151 eða C151/C151.
4. Svæði innan riðuhólfs þar sem riða hefur greinst á síðustu 7 árum:
Óheimilt er að flytja lömb út af svæðinu nema hrúta á sæðingastöðvar og að því tilskildu að þeir séu með ARR/x (ef x er ekki VRQ).
Riðubær: bær þar sem riða hefur verið staðfest og opinberar takmarkanir hvíla á.
Frá riðubæjum er ekki heimilt að flytja lömb fyrstu 2 árin eftir niðurskurð. Eftir það er leyfilegt að flytja ARR/ARR hrúta milli riðubæja í sama hólfi.
Áhættubær: bær sem hefur faraldsfræðilegar tengingar við riðubæ undangengin 7 ár fyrir staðfestingu riðunnar. Tengingarnar geta m.a. verið samgangur fólks og/eða fjár, samnýting aðhalds, fjárhúsa, tækja og tóla, fjárrag eða flutningar fjár. Matvælastofnun metur hvaða bæir falla hér undir.
Frá áhættubæjum er leyfilegt að flytja lömb með arfgerðirnar ARR/ARR og ARR/MV ásamt MV/MV (þar sem MV geta verið genasamsæturnar AHQ, T137 eða C151).
Aðrir bæir í riðuhólfi: þeir bæir í varnarhólfi þar sem riða hefur verið staðfest síðastliðin 7 ár, en eru hvorki riðubæir né áhættubæir.
Leyfilegt er að flytja lömb með ARR/x (ef x er ekki VRQ) til bæja innan hólfs með sömu eða verri stöðu gagnvart riðuveiki. Einnig er leyfilegt að flytja lömb með MV/MV arfgerð innan hólfs með sömu skilyrðum (þar sem MV geta verið genasamsæturnar AHQ, T137 eða C151).
Reglur um kaup sæðingastöðva:
Sæðingastöðvar hafa forgang um arfhreina ARR hrúta.
Sæðingastöðvum er heimilt að kaupa hrúta af öllum arfgerðum frá líflambasölusvæðum og ósýktum svæðum nema VRQ.
Sæðingastöðvum er heimilt að kaupa hrúta með ARR/x arfgerð frá svæðum sem tilgreind eru í lið 3 og 4 hér að ofan, að því tilskildu að hægt sé að halda hrútunum í einangrun á stöðvunum, x má ekki vera VRQ.
Söluaðilar lamba með verndandi arfgerðir
Flutningar yfir varnarlínur með hliðsjón af mismunandi stöðu varnarhólfa hvað varðar riðuveiki
Eins og þekkt er gilda strangar reglur um flutning á lifandi jórturdýrum, tækjum og ýmsum varningi yfir varnarlínur til þess að varna útbreiðslu dýrasjúkdóma, einkum riðu í sauðfé. Samkvæmt lögum um dýrasjúkdóma nr. 25/1993 er Matvælastofnun heimilt að takmarka eða banna flutning dýra, vöru eða tækja milli eða innan sóttvarnarsvæða, telji stofnunin að það valdi eða sé líklegt til að valda útbreiðslu sjúkdóma meðal dýra. Í reglugerð 651/2001 um riðuveiki og útrýmingu hennar koma fram helstu reglur sem gilda um flutninga:
- 4.gr. Óheimilt er að flytja sauðfé til lífs milli sóttvarnarsvæða nema með leyfi yfirdýralæknis (Matvælastofnunar).
- 4.gr. Af sýktu svæði og innan þess er almennt óheimilt að flytja sauðfé til lífs milli hjarða. Hægt er að sækja um sérstakt leyfi til Matvælastofnunar ef um er að ræða kindur með verndandi eða mögulega verndandi arfgerðir.
- 4.gr. Þá er óheimilt, nema með leyfi héraðsdýralæknis að flytja milli bæja innan sýktra svæða og áhættusvæða hvaðeina, sem getur borið smitefni milli staða svo sem hey, heyköggla, og hálm, húsdýraáburð , túnþökur og gróðurmold nema að uppfylltum eftirfarandi skilyrðum:
- hey sé allt í plöstuðum stórböggum eða rúllum,
- þökur séu aðeins notaðar á svæðum þar sem sauðfé kemst ekki að.
Þetta þýðir að ef versla skal með ofangreinda efnisflokka eða heyja tún í öðru varnarhólfi skal ávallt sækja um leyfi héraðsdýralæknis.
- 9.gr. Óheimilt er að flytja fjárklippur, markatengur, lyfjadælur og annan tækjabúnað, sem óhreinkast hefur af fé eða hugsanlega smitmengast á annan hátt á sýktu svæði til nota í landbúnaði á ósýktu svæði, án vottorðs frá héraðsdýralækni um að fullnægjandi sótthreinsun hafi átt sér stað. Þetta þýðir að ekki er leyfilegt að fara með þau tæki sem talin eru upp að ofan yfir varnarlínu nema með leyfi héraðsdýralæknis og að undangengnum þrifum og sótthreinsun.
- 9.gr. Aðilar sem fara milli sóttvarnarsvæða, sýktra svæða, áhættusvæða eða ósýktra svæða með tækjabúnað til landbúnaðarstarfa skulu fá leyfi héraðsdýralæknis og vottorð um að fullnægjandi sótthreinsun hafi átt sér stað. Þetta þýðir að aðilar s.s. jarðvinnsluverktakar og heyvinnuverktakar mega ekki fara með tæki sín yfir varnarlínur nema með leyfi héraðsdýralæknis og að undangengnum þrifum og sótthreinsun á tækjunum.
- Hafa ber í huga að héraðsdýralæknir vinnur úr öllum umsóknum í samráði við sérfræðinga stofnunarinnar í riðumálum og er ákvörðun tekin með hliðsjón af sjúkdómastöðu í viðkomandi varnarhólfum.
Varnarhólf
Eins og flestir búfjáreigendur vita er landinu skipt upp í 25 varnarsvæði með svokölluðum varnarlínum sem ýmist eru girðingar eða náttúrulegar hindranir. Upphaflegur tilgangur þessa fyrirkomulags var að varna útbreiðslu sauðfjársjúkdóma sem borist höfðu með innflutningi á karakúlfé frá Þýskalandi árið 1933. Um var að ræða sjúkdómana garnaveiki og mæðiveiki (votamæði og þurramæði). Varnarhólfin voru liður í aðgerðum sem ráðist var í til útrýmingar á sjúkdómunum. Fé var fargað á sýktum svæðum og nýtt tekið í staðinn frá ósýktum svæðum. Votamæði var útrýmt árið 1952 en þurramæði árið 1965. Ekki tókst jafn vel til með garnaveiki og er hún enn til staðar. Eftir að bólusetning var tekin upp hefur tíðni garnaveiki þó minnkað mikið og hefur henni verið útrýmt á nokkrum svæðum.
Varnarlínurnar gegna einnig mikilvægu hlutverki í aðgerðum sem lúta að upprætingu riðuveiki. Sömuleiðis geta varnarlínurnar haft mikla þýðingu við að stemma stigu við útbreiðslu nýrra smitsjúkdóma. Til að auðvelda eftirlit eru mismunandi litir hafðir á eyrnamerkjum í sauðfé eftir því hvaða varnarhólfi þau tilheyra.
Strangar reglur gilda um flutning á lifandi jórturdýrum, tækjum og ýmsum varningi yfir varnarlínur. Samkvæmt lögum um dýrasjúkdóma er Matvælastofnun heimilt að takmarka eða banna flutning dýra, vöru eða tækja milli eða innan sóttvarnarsvæða telji stofnunin að það valdi eða sé líklegt til að valda útbreiðslu sjúkdóma meðal dýra. Í lögunum segir ennfremur að óheimilt sé að flytja sauðfé til lífs yfir varnarlínur, nema þegar um er að ræða endurnýjun bústofns vegna niðurskurðar af völdum sjúkdóma og/eða vegna búháttabreytinga. Þar segir einnig að sleppi sauðfé yfir varnarlínur skuli því slátrað. Nautgripi og geitur má aðeins flytja til lífs yfir varnarlínur að fram hafi farið sérstök rannsókn á heilbrigði þeirra. Nákvæmari ákvæði um flutning yfir varnarlínur er að finna í reglugerð um útrýmingu á riðuveiki og reglugerð um flutning líflamba.
Kortið sýnir með svörtum línum hvernig varnarlínurnar liggja. Brotalínur eru aukavarnarlínur og litirnir tákna svæðaskiptingu litamerkinga á sauðfé. Vegna niðurfellinga á varnarlínum geta fleiri litir verið innan hvers hólfs og sami litur beggja megin við varnarlínur.
Sýnatökur og smitvarnir gagnvart riðuveiki
Matvælastofnun vill minna sauðfjáreigendur á að láta taka sýni úr fullorðnu fé til riðuskimunar. Ef afföll verða á kindum þá er mikilvægt að hafa samband við héraðsdýralækni sem mun sjá til þess að sýnin séu tekin eða hann leiðbeinir við að senda hausa beint á Keldur. Sýnatökurnar og sendingarkostnaður í þessu samhengi er bændum að kostnaðarlausu.
Sýni úr öllu fullorðnu fé sem drepst eða er fellt af öðrum ástæðum en elli eða til fækkunar eru afar mikilvæg sýni til að reyna eins og kostur er að ná árangri í að útrýma riðu hér á landi. Aðgerðir til útrýmingar riðu hófust árið 1986 og hefur náðst verulegur árangur fram til þessa. Ef kind sýnir einkenni riðuveiki er eigendum og umráðamönnum sauðfjár skylt að tilkynna það héraðsdýralækni.
Á sýktum svæðum skal ekki hýsa aðkomufé né fóðra eða brynna því með heimafé, hvorki við fjárrag að hausti eða að vori né á öðrum tímum ársins. Ef hýsingin er óumflýjanleg með tilliti til velferðar fjárins skal ekki nota til þess fjárhús, hlöður eða fjós, heldur skal nota annan húsakost.
Smitvarnir
Smitefnið sem veldur riðu kallast príon prótín. Smitefnið er afar lífsseigt og skilst út með öllum vessum frá kindinni. Það getur borist á milli bæja t.d. með:
- Lifandi kindum og kindahræjum
- Áhöldum (t.d. rúningsklippum)
- Landbúnaðartækjum
- Heyi
Mikilvægt er að sauðfjáreigendur séu vakandi gagnvart smitvörnum:
- Hreinn hlífðarfatnaður/vinnugalli
- Hreinn skóbúnaður/stígvél
- Reyna eftir bestu getu að þrífa og sótthreinsa öll áhöld, tæki og vinnufatnað/stígvél áður en farið er á milli bæja
Til þess að sótthreinsa skófatnað og áhöld er best að nota efni sem innihalda klór t.d. Virkon S sótthreinsiefni.
Það er á ábyrgð hvers bónda að standa vörð um sitt bú.
Bóndi ver þitt bú!
Bólusetning gegn garnaveiki
Hvers vegna er nauðsynlegt að bólusetja snemma?
Lömbin fæðast án mótefna gegn garnaveiki. Í broddi rétt bólusettrar kindar finnast kröftug mótefni gegn garnaveiki. Einni mínútu eftir að lambið hefur fengið brodd úr bólusettri móður mælast virk garnaveikimótefni í lambinu. Þau mótefni endast aðeins fram til haustrétta. Ef móðirin var ekki rétt bólusett, endast mótefnin skemur. Þegar mótefnin eru gengin til þurrðar er lambið óvarið gegn garnaveiki, þá þarf að bólusetja ásetningslambið. Mótefni sem lambið fær með réttri bólusetningu endast til æviloka. Ef lambið er ekki bólusett, smitast það í sýktu umhverfi og veikist eftir eitt til tvö ár eða verður smitberi árum saman og fer svo að sýna einkenni þegar á móti blæs. Ef veikin er komin langt á leið þegar bólusett er, getur lambið snarveikst og drepist úr veikinni á stuttum tíma.
Það er því góð regla að velja ásetningslömb snemma hausts, bólusetja sem allra fyrst og merkja þau jafnharðan, taka þau frá fullorðna fénu, setja þau á tún, sem jórturdýrum hefur ekki verið beitt á að vorinu, taka þau svo í hreinar stíur án snertingar við óhreinindi frá fullorðnu fé og tryggja þrifalega umgengni um hey og vatn.
Því miður er vönduð bólusetning ekki trygging fyrir því að garnaveiki hverfi úr bústofni. Bólusett dýr geta skilið út bakteríuna. Einnig virðist vera að ein og ein kind svari ekki bólusetningu. Í ljós hefur komið að 2–5% af hrútum sem hafa verið rannsakaðir vegna mögulegrar inntöku á sæðingastöð eru ekki með mótefni þó að þeir hafi verið bólusettir og greinileg merki finnist eftir bólusetninguna. Þessir gripir geta hæglega veikst ef smitefni er til staðar og þá er mikilvægt að restin af hjörðinni sé bólusett svo ekki verði hjarðsmit.
Rétt er að minna á að samkvæmt reglugerð nr. 911/2011 um garnaveiki og varnir gegn henni er umráðamönnum sauðfjár og geita á garnaveikisvæðum skylt að láta bólusetja öll ásetningslömb/kið til varnar garnaveiki á tímabilinu frá 15. ágúst til 31. desember ár hvert. Markmið reglugerðarinnar er að stuðla að útrýmingu garnaveiki í jórturdýrum með samstilltu átaki búfjáreigenda, Matvælastofnunar og dýralækna.
Óheimilt er að hafa óbólusett lömb/kið með eldra fé í sömu fjárhúskró eða í þröngum beitarhólfum að hausti.
Bólusetja skal undir húð, milli skinns og hörunds, aftast og efst í snögga blettinn innan við hægri olnboga.
Garnaveikisvæðin:
- Á Suðvesturlandi og Vesturlandi frá Markarfljóti að Hvammsfjarðarlínu úr Hvammsfirði í Hrútafjörð. Ekki er þó skylt að bólusetja á fjárskiptabæjum í Biskupstungum eða í Vestmannaeyjum.
- Á Norðurlandi frá Húnaflóa að Skjálfandafljóti og einnig í Skútustaðahreppi. Ekki er þó skylt að bólusetja í Miðfjarðarhólfi eða í Grímsey.
- Á Austurlandi og Suðausturlandi, frá Smjörfjallalínu að Jökulsá á Breiðamerkursandi.
Koma ferðamanna og bænda á bæi
Á síðari árum hefur færst í vöxt að ferðamenn komi á bændabæi og nýti sér ferðaþjónustu bænda um lengri eða skemmri tíma.
Jafnframt hafa skipulagðar bændaferðir til útlanda færst í vöxt. Í slíkum ferðum er yfirleitt farið í heimsóknir á bóndabæi eða landbúnaðarsýningar þar sem dýr eru sýnd.
Með auknum straumi ferðamanna til landsins og ferðum bænda erlendis (og innanlands) er aukin hætta á útbreiðslu smitsjúkdóma í dýrum.
Eftirtalin atriði er vert að hafa í huga til að draga úr smithættu:
- Gestir skulu varast að hafa með sér grófbotna skó, stígvél eða annan búnað sem notaður hefur verið í umhverfi dýra.
- Komi gestir beint frá bóndabæ erlendis eða hafi verið í snertingu við dýr rétt fyrir komuna til landsins, er óæskilegt að þeir umgangist dýr á Íslandi fyrstu 48 klukkustundirnar.
- Við heimsókn í gripahús ættu allir gestir að klæðast hreinum utanyfirfötum og stígvélum eða skóhlífum, annað hvort einnota eða fatnaði búsins. Til viðbótar er gott að hafa sótthreinsandi skóbað við inngöngu í gripahúsin.
- Gott er að setja upp viðvörunarskilti á áberandi stöðum til að vekja fólk til umhugsunar.
- Dýrum skulu ekki gefnar matarleifar.
Ferðist fólk um landbúnaðarsvæði skal það setja öll föt, sem notuð eru við heimsóknir á bú, í plastpoka strax að lokinni notkun og þvo í þvottavél eða þurrhreinsa í efnalaug strax eftir heimkomu. Skófatnað þarf einnig að þrífa og síðan sótthreinsa með VirkonS® eða öðrum sambærilegum efnum, sem má fá hjá dýralæknum og verslunum sem selja vörur til landbúnaðarins. Klór er ekki virkt gegn öllum veirum t.d. gin- og klaufaveikiveiru.
Virðum reglur um innflutning á:
Bóndi ver þitt bú!
Enginn getur varið hann betur en þið sjálf og enginn ber meiri ábyrgð á því. Hleypið engum sem er að koma erlendis frá inn í fjósið, fjárhúsið, svínahúsið, hesthúsið, alifuglahúsið, kanínuhúsið, minkahúsið o.s.frv. nema nauðsynlegt sé og gætið þess að viðkomandi sýni smitgát. Verið sjálfir góð fyrirmynd.
Göngur og fjárrag
Nú þegar göngur og réttir fara í hönd vill Matvælasofnun minna á að fjárhús eru ekki réttir og bannað er á sýktum svæðum að nota þær til sundurdráttar á fé frá öðrum bæjum.
Skv. 4.gr reglugerðar nr 651/2001 um útrýmingu á riðuveiki segir:
Á sýktum svæðum skal ekki hýsa aðkomufé né fóðra eða brynna því með heimafé, hvorki við fjárrag haust og vor né á öðrum tímum. Ef hýsingin er óumflýjanleg af dýraverndarástæðum skal ekki nota til þess fjárhús, hlöður eða fjós. Hús eða svæði þar sem fé var hýst eða geymt skal sótthreinsa eftir notkun, telji héraðsdýralæknir það nauðsynlegt.
Sömu ákvæði gilda í raun gagnvart garnaveiki á garnaveikisvæðum. Og allir bændur ættu að hafa í huga að tekin er ákveðin áhætta í sjúkdómavörnum í hvert sinn sem aðkomufé er hleypt inn í fjárhús, hvar sem það er á landinu.