Brexit - innflutningur frá Bretlandi
29.12.2020: Samningur ESB og Bretlands hefur ekki áhrif á heilbrigðisskilyrði vegna innflutnings dýraafurða frá Bretlandi til Íslands (EES), þ.e. Bretland hefur stöðu þriðja ríkis og skulu dýraafurðir og önnur eftirlitsskyld matvæli frá Bretlandi standast kröfur matvælalöggjafar ESB.
Þann 31. desember 2020 lýkur aðlögunartímabili vegna útgöngu Bretlands úr ESB. Ef ekki nást sérstakir samningar um annað mun Bretland verða skilgreint sem þriðja ríki gagnvart ESB/EES frá og með 1. janúar 2021. Það felur m.a. í sér að dýraafurðir (búfjár- og sjávarafurðir) verða ekki lengur í frjálsu flæði á milli Bretlands og EES og þar með Íslands.
Innflutningur eftirlitsskyldra afurða frá Bretlandi til Íslands verður því með sama hætti og annar innflutningur frá 3. ríkjum.
- Eftirlitsskyldar vörur eru allar dýraafurðir, t.d. kjöt (hrátt, hitameðhöndlað eða unnið), mjólk, ostar, mjólkurprótein (whey og casein prótein), egg, samsettar vörur eins og majones, pizza með kjötáleggi, tilbúnir réttir sem innihalda kjöt eða fisk ofl., aukaafurðir (ABP) og fóður sem inniheldur dýraafurðir. Ýmsar vörur úr jurtaríkinu eru einnig eftirlitsskyldar, svo sem tilteknar tegundir af hnetum, grænmeti, kryddi og tei skv. ákvörðun ESB.
- Skilyrði vegna innflutnings dýraafurða frá þriðju ríkjum.
- Skilyrði vegna innflutnings tiltekinna matvæla sem ekki eru úr dýraríkinu, frá þriðju ríkjum.
- Heilbrigðisvottorð til nota með afurðum frá Bretlandi til Íslands (EES) - leitarvél á vef breskra yfirvalda
- Merkingar á vörum frá Bretlandi taka breytingum. Starfsstöðvar í Bretlandi munu frá og með 1. janúar ekki lengur nota merkinguna EC heldur munu vörur verða merktar samþykkisnúmer viðkomandi starfsstöðvar og "GB" eða "United Kingdom".
Leiðbeiningar á vef Matvælastofnunar snúa eingöngu að skilyrðum varðandi dýraheilbrigði og matvælalöggjöf. Hvað varðar tollamál þessu tengt er vísað á Skattinn.