Aðferðir við músa- og rottuveiðar
Í lögum um velferð dýra er kveðið á um að við eyðingu meindýra sé óheimilt að beita aðferðum sem valda þeim óþarfa limlestingum eða kvölum. Jafnframt segir í lögunum að dýr skuli aflífuð með skjótum og sársaukalausum hætti. Þetta þarf að hafa í huga þegar valin er leið til að fanga og aflífa mýs og rottur.
Notkun á ýmsum tækjum sem eru á boðstólum í verslunum brjóta gegn þessum skilyrðum. Sem dæmi má nefna límbakka en dauðastríð þeirra dýra sem lenda í slíkum gildrum er átakanlegt. Drekkingargildrur eru annað dæmi en það getur tekið dýrin langan tíma að gefast upp í þeim. Í þessu sambandi er rétt að benda á að í lögum um velferð dýra segir m.a. að hver sá sem kynnir starfsaðferðir er varða dýrahald eða dreifir tækjum, tólum og hvers konar útbúnaði varðandi dýrahald ber ábyrgð á að það sé ekki andstætt velferð dýra.
Til eru vandaðar smelligildrur sem tryggja yfirleitt skjóta aflífun með sem minnstum sársauka. Nauðsynlegt er að vitja þeirra a.m.k. daglega bæði til að aflífa þau dýr sem ef til vill hafa ekki lent rétt í gildrunni og einnig til að fylgjast með að gildran sé virk. Svokölluð músahótel eru gildrur sem miða að því að fanga mýs án þess að valda þeim skaða. Slíkum gildrum þarf líka að fylgjast með daglega til að aflífa þau dýr sem þar lenda (t.d. með kröftugu höfuðhöggi) eða sleppa músunum út. Nú eru til á markaði smelligildrur og músahótel með búnaði sem sendir notanda tilkynningu í síma eða tölvu um að dýr séu í gildrunni og þá er hægt að vitja strax um gildruna og bregðast við. Slíkar gildrur eru mannúðlegri í notkun en þær sem dýr getur þurft að þjást í fram að næstu vitjun. Notkun á eitri í æti orkar tvímælis hvað dýravelferðarsjónarmið varðar, því dýrin eru veik og þjást í töluverðan tíma áður en þau drepast. Nánari upplýsingar um aðferðir við að deyða mýs og rottur má sjá hér fyrir neðan.
Rétt er að benda á að óheimilt er að veiða hagamýs utanhúss samkvæmt lögum um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.
Munið að mýs og rottur eru skyni gæddar verur, finna til og hafa sama rétt og önnur dýr samkvæmt lögum um velferð dýra.
Algengustu aðferðir við að deyða mýs og rottur
Leyfilegar aðferðir
Smelligildrur
Besta tæki og aðferð við músa-og rottuveiðar hvað dýravelferð varðar er góð smelligildra sem eftirlit er haft með a.m.k. einu sinni á dag.
Ýmsar tegundir eru til af smelligildrum og eru þær af mjög misjöfnum gæðum. Hvort og hversu mikið dýrin þjást fer eftir krafti gildrunnar, hversu vel hún hittir dýrið og hversu oft gildrunnar er vitjað.
Músahótel (lífgildrur)
Hvort og hversu mikið dýrin þjást við að lenda í gildru sem þær komast ekki út úr, fer m.a. eftir því hversu oft gildrunnar er vitjað, þ.e.a.s. hversu lengi músin er í gildrunni áður en henni er sleppt út eða hún tekin og aflífuð, og þá hvort hún sé aflífuð með skjótum og sársaukalausum hætti.
Eitur í æti
Algengustu eiturefni sem notuð eru virka þannig að þau hindra eðlilega storknun blóðs. Dýrin fá því innri blæðingar og drepast á frekar löngum tíma.
Það orkar tvímælis að nota eitrað æti til að drepa mýs og rottur, m.a. vegna þess að algengt er að það líði 1-3 dagar áður en dýrið drepst og mest allan þann tíma er það veikt. Jafnframt vegna þess að mýs og rottur eiga til að bera efnin út í náttúruna, t.d. til að safna forða og að fóðra ungana sína, og þar geta önnur dýr komist í eitrið. Einnig má nefna að hætt er við að eitrað æti sem sett er utan við hús geti laðað mýs og rottur að húsunum. Í þessu sambandi er líka rétt að benda á að hagamýs eru friðaðar utandyra.
Óleyfilegar aðferðir
Límbakkar/límgildrur og drekkingargildrur
Gildrur sem gera það að verkum að dýrin festast í þeim án þess að drepast samstundis eru alfarið í andstöðu við það grundvallarákvæði laga um velferð dýra að þau skuli aflífuð með skjótum og sársaukalausum hætti. Þetta á t.d. við um límgildrur og drekkingargildrur.
Í lögum um velferð dýra segir m.a. að hver sá sem kynnir starfsaðferðir er varða dýrahald eða dreifir tækjum, tólum og hvers konar útbúnaði varðandi dýrahald ber ábyrgð á að það sé ekki andstætt velferð dýra. Þetta á m.a. við um búnað til veiða og aflífunar á músum og rottum.