Lífræn framleiðsla
Lífræn ræktun er aðferð til landbúnaðarframleiðslu sem stefnir að því að framleiða hráefni í matinn okkar með náttúrulegum efnum og aðferðum. Þetta þýðir að lífræn ræktun reynist hafa lítil áhrif á umhverfið þar sem reglurnar hvetja til:
- ábyrgrar notkunar á orku og náttúruauðlindum
- viðhaldi fjölbreytileika tegunda
- vernda vistkerfi svæðisins
- bæta frjósemi jarðvegarins náttúrulega
- viðhalda vatnsgæðum á svæðinu
Til viðbótar setja reglur um lífræna ræktun miklar kröfur til dýravelferðar og skylda bændur til að uppfylla ákveðnar þarfir dýranna vegna eðlislægrar hegðunar þeirra.
Reglugerðir EES um lífræna framleiðslu eru skrifaðar með það í huga að setja skýran ramma fyrir framleiðslu lífrænna vara á EES svæðinu. Þetta er gert til að fullnægja kröfum neytenda um lífrænar vörur sem hægt er að treysta og um leið skapa sanngjarnan markað fyrir frameiðendur dreifingaraðila og aðra markaðsaðila.
Merkja má matvæli með Evrópulaufinu ef ræktun og framleiðsla uppfyllir kröfur reglugerða EES og það hefur verið vottað af til þess bæru yfirvaldi. Hér á landi er einn aðili með faggildingu til að votta lífræna framleiðslu. Það er Vottunarstofan Tún og Matvælastofnun hefur framselt eftirlit og vottun til þeirra.
Löggjöfin
Þann 1. janúar 2022 tók gildi ný löggjöf í Evrópusambandinu um lífræna framleiðslu. Ísland og Noregur hafa unnið að innleiðingu þessarar löggjafar og hún tók gildi hérlendis í mars 2023. Í innleiðingarferlinu voru lög nr. 162/1994 um lífræna landbúnaðarframleliðslu lögð niður og ákvæði um lífræna framleiðslu færð inn í lög nr. 93/1995 um matvæli og lög um áburð, fóður og sáðvöru nr. 22/1994.
Um var að ræða endurskoðun á löggjöf Evrópusambandsins frá 2007, en þetta er gert til að bregðast við breytingum sem eru að verða við hraðan vöxt í lífrænni ræktun og þróun í framleiðslu um allan heim. Löggjöfin er endurskrifuð til að tryggja betur jafna samkeppni milli bænda hvar sem þeir eru staðsettir í heiminum og um leið koma í veg fyrir svind og viðhalda trausti neytenda með eftirfarandi aðgerðum.
- Framleiðslureglur eru einfaldaðar og horfið er frá fjölda undanþáguheimilda og tilslakana í áföngum
- Eftirlitskerfið er styrkt meðal annars með meiri varúðarráðstöfunum og eftirliti með allri virðiskeðjunni, hjá matvælavinnslum, heildsölum og innflytjendum.
- Framleiðendur í löndum utan Evrópu þurfa að uppfylla sömu reglur og þeir sem framleiða vottaðar lífrænar vörur innan Evrópu.
- Reglurnar ná yfir fleiri vörur (þ.e. salt bývax, kork, ull) og settar eru fleiri framleiðslureglur (þ.e. dádýr, kanínur, og alifuglar)
- Vottun er gerð auðveldari fyrir litla bændur með hópvottun sem hefur verið stunduð í löndum utan Evrópu.
- Samræmd nálgun er á að draga úr hættu á mengun fyrir slysni með varnarefnum t.d. frá nágrönnum
- Undanþágur fyrir ræktun í pottum og afmörkuðum beðum í gróðurhúsum verða aflagðar í skrefum.
Hér er hægt að nálgast reglugerðina á ensku og öðrum tungumálum Evrópusambandsins á Eur-Lex með uppfærslum (breytingum).
EUR-LEX - EU 2018/848
Hér er hún í íslenskri þýðingu, án uppfærslna.
Íslenskur texti reglugerðar EU 2018/848
Yfirlit yfir innleiðingu á ítarlegum reglum um lífræna framleiðslu er svo að finna hér:
https://www.mast.is/is/annad/lifraen-framleidsla/loggjof-um-lifraena-framleidslu
Fyrirkomulag vottunar og eftirlits með lífrænni framleiðslu:
Matvælastofnun hefur framselt vottun og eftirlit með lífrænni framleiðslu til sjálfstætt starfandi vottunarstofu. Vottunarstofan Tún er eini aðilinn sem hefur faggildingu til að votta lífræna framleiðslu á Íslandi en fleiri hafa ekki sóst eftir að sinna þessu verkefni hérlendis.
Allir sem rækta, framleiða, geyma, dreifa, selja eða flytja, lífrænt vottuð matvæli eða fóður, inn eða út úr landinu skulu hafa vottun frá faggildri vottunarstofu.
Allir sem rækta, framleiða, geyma, dreifa, selja eða flytja, lífrænt vottuð matvæli eða fóður, inn eða út úr landinu skulu hafa vottun frá faggildri vottunarstofu.
Undanþága frá vottunarskyldu er fyrir smásöluaðila sem eingöngu afhenda neytendum forpakkaða vöru á sölustað og geyma vörurnar á staðnum í tengslum við söluna.
Vottun um lífræna framleiðslu kemur ekki í staðin fyrir hefðbundið starfsleyfi til matvælavinnslu frá Mast eða heilbrigðisnefnd viðkomandi sveitarfélags eftir því sem við á.
Faggildingarsvið Hugverkastofu faggildir vottunarstofur fyrir lífræna framleiðslu. Matvælastofnun fer með yfirumsjón með vottunarstofum og sér um eftirlit með innflutningi lífrænna vara frá löndum utan EES.
Meira um vottunarskyldu og fyrirkomulag vottunar og eftirlits er að finna hér:
https://www.mast.is/is/annad/lifraen-framleidsla/vottunarkrafan