Innflutningur
Allur innflutningur á lifandi búfé til Íslands er bannaður
Sjá einnig:
Innflutningur reiðfatnaðar og reiðtygja
Vegna landfræðilegrar einangrunar og strangra innflutningsreglna hefur Ísland sloppið að mestu við alvarlega smitsjúkdóma í dýrum. Það er skylda okkar að standa vörð um góða sjúkdómastöðu og leita allra leiða til að hindra að varhugaverð smitefni berist til landsins.
Þegar ferðast er milli landa er nauðsynlegt að gæta ítrustu smitvarna!
- Óheimilt er að flytja til landsins:
- Notuð reiðtygi, s.s. hnakka, beisli, múla, hlífar, dýnur, yfirbreiðslur, píska o.s.frv.
- Notaða reiðhanska - Þvottur og sótthreinsun:
- Notaðan reiðfatnað skal þvo í þvottavél eða þurrhreinsa í efnalaug áður en komið er til landsins
- Notaðan reiðfatnað sem ekki er hægt að þvo í þvottavél eða þurrhreinsa í efnalaug, skal hreinsa og sótthreinsa með eftirfarandi hætti:
- Þvo mjög vel með sápuvatni
- Þurrka
- Úða með 2% VirkonS® (20g í hvern lítra af vatni)
- Geyma í a.m.k. 5 daga áður en búnaðurinn er notaður í umhverfi hesta hér á landi
Hestamenn sem ekki eru í aðstöðu til að þrífa og sótthreinsa notaðan reiðfatnað áður en komið er til landsins geta framvísað óhreinan reiðfatnað í „rauða hliðinu“ í tollinum í lokuðum plastpokum. (Með reiðfatnaði er átt við reiðbuxur hverskonar, reiðjakka, –úlpur, -skó, –stígvél og -hjálma en þessa þjónustu má einnig nýta fyrir annan fatnað og skófatnað sem notaður hefur verið í umhverfi hesta erlendis . Ekki er þó tekið við leður- og vaxjökkum.) Viðkomandi hestamenn skulu gera vart við sig í „rauða hliðinu“ í flugstöðinni og framvísa fatnaðinum þar til tollvarða. Tollverðir sjá til þess að fatnaðurinn, ásamt upplýsingum um eiganda, fari í sérstaka kassa sem þeir hafa í sinni vörslu þar til þeir eru sóttir af fatahreinsuninni. Að lokinni hreinsun verður fatnaðurinn sendur í póstkröfu til eiganda.
Komi farþegar með óhreinan reiðfatnað í græna hliðið við tollgæslu á Keflavíkurflugvelli eða verði vísir að því að vera með óhreinan reiðfatnað við tollskoðun í græna hliðinu, verður litið á slíkt sem smygl. Varningurinn er þá gerður upptækur og viðkomandi kærður. Sama á við um sendingar sem innihalda óhreinan reiðfatnað og koma til landsins með pósti, skipa- eða flugfrakt.
Ráðstöfun þessi tekur ekki til notaðra reiðtygja, reiðhanska eða annars búnaðar sem notaður hefur verið í hestamennsku enda er innflutningur á slíkum varningi óheimill.
Hér að neðan eru uppfærðar reglur (frá júlí 2023) um smitvarnir við komu hestamanna til landsins (á ensku). Skjalið er til í .pdf og .png útgáfum.
Innflutningshöft á hrossum og hrossasæði
Eins og kunnugt er hefur íslenski hrossastofninn verið laus við marga alvarlega smitsjúkdóma. Má þar nefna hestainflúensu og kverkeitlabólgu auk alvarlegra herpessýkinga sem valda bæði öndunarfærasýkingum og fósturláti. Þessir sjúkdómar eru allir landlægir í nágrannalöndum okkar og eiga sinn þátt í að hestahaldið þar verður aldrei jafn frjálslegt, einfalt og auðvelt og hér á landi. Eðlilega er spurt hvort nauðsynlegt sé að viðhalda þessari stöðu. Hún kostar okkur nokkra einangrun frá umheiminum sem felst í banni við innflutningi lifandi hesta, notaðra reiðtygja og kröfu um sótthreinsun notaðs reiðfatnaðar.
Enginn vafi leikur á að framangreindar varúðarráðstafanir eiga ríkan þátt í að íslenski hrossastofninn er jafn frískur og raun ber vitni. En er mögulegt að halda sömu stöðu með því að leyfa innflutning hrossa í gegnum einangrunarstöð eða innflutning á sæði? Reynsla annara þjóða sýnir að einangrunarstöðvar eru ekki öruggar þó verulega dragi úr áhættunni sem fylgir innflutningi lifandi dýra. Þannig barst hestainflúensa í fyrsta sinn til Ástralíu á síðastliðnu ári og olli gríðarlegu tjóni. Er þá ótalinn kostnaðurinn við að byggja og reka slíka einangrunarstöð sem ég læt aðra um að meta.
Hvers virði er heilbrigði hrossastofnsins?
Hestainflúensa
Út frá reynslunni sem við höfum af hitasóttinni sem gekk yfir hrossastofninn 1998 (sem er þó mun vægari sjúkdómur) og reynslu Ástrala af nýlegum hestainflúensufaraldri, má gera ráð fyrir mjög miklu tjóni og að mjög erfitt yrði að stöðva útbreiðsluna.
Fyrst er til að taka að engin mótstaða er fyrir sjúkdómnum í hrossastofninum og hann því mjög móttækilegur. Í annan stað er þéttleiki hrossa mikill, bæði innan hesthúsahverfa og víða í beitarhólfum og þar sem samgangur hrossa er afar mikill hér á landi yrði útbreiðslan hröð. Helsta smitleiðin er loftborið smit milli hesta en allt að 5 dagar líða frá því smit á sér stað þar til einkenni koma fram. Lungnabólga er mjög algengur fylgikvilli.
Í harðindum hefði sjúkdómurinn vafalaust mikil áhrif á útigang, ekki síst þá hópa sem veikastir eru fyrir s.s. fylfullar hryssur, folöld og trippi. Í versta falli gæti sjúkdómurinn hoggið mjög stór skörð í hrossastofninn. Reiðhesta yrði ekki hægt að nota í a.m.k. mánuð eftir sýkinguna en þeir sem fengju fylgikvilla yrðu mun lengur frá. Í Ástralíu varð hærri dánartíðni en reiknað hafði verið með og það voru gjarnan mikið þjálfuð afkastahross sem fóru verst út úr veikindunum.
Útflutningur yrði stöðvaður á meðan faraldur geysaði í samræmi við alþjóðareglur og öll hestatengd starfsemi yrði í lágmarki í a.m.k. hálft ár. Kostnaður við varnaraðgerðir yrði gríðarlegur ef marka má reynslu Ástrala en líklega yrði að fara út í stórfelldar bólusetningar til að hindra útbreiðsluna og draga úr áhrifum sjúkdómsins. Þá eru ótaldar þjáningar þeirra hrossa sem verst færu út úr veikinni, kostnaður við meðhöndlanir og tilfinningalegt tjón.
Ef veikin yrði landlæg yrðum við að taka upp árlegar bólusetningar gegn henni.
Bólusetningar gegn hestainflúensu veita ekki örugga vörn og tiltölulega skammvinna. Kostnaður yrði umtalsverður eða a.m.k. 200- 300 milljónir árlega bara til viðhalds en tvöfalt meira kostar að grunnbólusetja. Því til viðbótar yrðu reglur um mótahald mun strangari og meiri líkur á að veikin setti stórmót úr skorðum. Í hvert sinn sem hún blossaði upp gæti þurft að stöðva útflutning tímabundið og skorður yrðu settar við flutningi hrossa innanlands. Þá er óljóst hvort útigangur hrossa að vetrarlagi, sem tíðkast hefur frá landnámi, gæti haldið áfram með sama hætti enda er heilbrigði hrossanna mikilvæg forsenda fyrir velferð þeirra í misjöfnum veðrum.
Aðrir sjúkdómar
Kverkeitlabólgu, sem er bakteríusýking, væri frekar hægt að einangra við einstaka bæi eða hesthúsaeiningar. Hrossin yrðu þó að sæta langvarandi einangrun og tjón þeirra sem yrðu fyrir veikinni því mjög mikið.
Ýmsa aðra sjúkdóma mætti nefna þó hér sé látið staðar numið að sinni.