Fara í efni

Smitsjúkdómar í hundum

Hundafár

Hundafár er alvarlegur sjúkdómur í hundum og þekkist hann einnig í mörgum öðrum tegundum kjötæta, þ.á.m. villtum hundum, refum, sléttuúlfum, pöndum, úlfum, frettum, skunkum, þvottabjörnum, stórum kattardýrum, selum og sumum tegundum prímata. Sýnt hefur verið fram á smit í köttum en slíkt má líklega rekja til náinna samskipta við hunda eða blóðgjafa úr smituðum köttum. Smit í köttum eru talin einkennalaus. Veiran hefur áhrif á öll líffærakerfi og hjá óbólusettum dýrum er dánartíðni há.

Orsök: Paramyxoviridae genus morbilli

Meðgöngutími: Allt að 6 vikur en í flestum tilfellum 1-4 vikur.

Einkenni: Einkennandi fyrir sjúkdóminn er tvífasa hiti; 3-6 dögum eftir smit kemur fram hækkaður líkamshiti og svo aftur nokkrum dögum síðar ásamt fleiri einkennum eins og útferð úr augum og nefi, hósti, jafnvel lungnabólga, slappleiki, lystarleysi og uppköst. Veiran leggst á taugakerfið og þá koma fram einkenni eins og vöðvakrampar og hundurinn hallar höfðinu og gengur í hringi. Í sumum tilfellum koma einkenni fyrst fram einhverjum vikum eftir smit og þá frá taugakerfi. Sjúkdómurinn er oft banvænn. Hjá hundum sem ná sér getur veiran fundist áfram í æða- og lithimnu augans, miðtaugakerfinu, eitlum og þófum þrátt fyrir að veirunni hafi verið útrýmt úr flestum líffærum og blóðinu. Þetta getur framkallað sk. „old dog encephalitis“ sem lýsir sér með einkennum frá taugakerfi sem geta staðið í nokkrar vikur og endar jafnan með dauða. Fólk er ekki móttækilegt fyrir hundafári.

Smitleið: Mjög smitandi – dropasmit - beint eða óbeint. Veiran lifir í nokkrar klukkustundir við herbergishita en lengur í kulda/raka.

Útbreiðsla: Fyrirfinnst um allan heim. Hefur komið upp á Íslandi nokkrum sinnum með alvarlegum afleiðingum, síðast á 7. áratug síðustu aldar. Telst ekki landlægt á Íslandi.

Greining: Veirugreining úr stroki úr nösum eða hornhimnu eða í blóði. Mótefnamæling.

Meðhöndlun: Stuðningsmeðferð. Fylgikvillar geta verið varanlegir og valdið sjúkdómi árum síðar.

Flær

Orsök: Fleiri tegundir finnast af flóm (>2200 tegundir) en aðeins nokkrar tegundir smita helst hunda og ketti og þá helst Ctenocephalides canis (hundaflóin), Ctenocephalides felis (kattaflóin) og Pulex simulans (minni spendýr).

Móttækilegar dýrategundir: Ólíkar tegundir flóa geta smitað ólíkar tegundir hýsla, en þrífast helst á sínum aðalhýsli

Meðgöngutími: Allt eftir umhverfisaðstæðum getur lífsferill verið frá 2 vikum til eitt ár. En við dæmigerðar aðstæður innandyra getur flóin klárað lífsferil á 3-8 vikum. Lirfustigið varir 5-11 daga en getur orðið allt að 2-3 vikur eftir umhverfi og aðgengi að næringu. Forstig fullorðinna flóa geta legið í dvala í allt að ár þar til hún kemst í snertingu við smitnæmt dýr kemur. Við góð skilyrði getur fullorðin fló lifað í allt að 2 vikur áður en hún þarf blóð.

Einkenni: Flær geta ert húðina og valdið flóaofnæmi, bæði í dýrum og á fólki. Flær geta líka borið með sér bakteríusjúkdóma og sníkjudýr. Kattflóin getur fjölgað sér bæði á hundum og köttum.

Smitleið: Lirfur þola ekki raka undir 50% í lengri tíma. Geta hoppað milli hýsla eða borist frá smituðu umhverfi.

Útbreiðsla: Um allan heim

Greining: Við kembingu eða t.d. límbandssýni. Saur flóanna oft áberandi á dýrum með mikið smit.

Meðhöndlun: Sníkjudýrameðhöndlun með lyfjum sem ná til flóa

Hundaherpes

Hundaherpes veldur vægum öndunarfæraeinkennum hjá fullorðnum hundum en hins vegar alvarlegum veikindum hjá nýfæddum hvolpum, auk fósturláta. Önnur dýr úr hundaætt geta einnig smitast af hundaherpes.

Orsök: Herpesviridae

Meðgöngutími: 6-10 dagar

Einkenni: Fósturlát eða alvarleg veikindi hjá nýfæddum hvolpum með dánartíðni yfir 80% (fading puppy syndrome). Hvolparnir hætta að drekka, væla mikið og verða mjög slappir með auman og þaninn kvið og linar hægðir. Einnig sjást öndunarfæraeinkenni og útferð úr nösum. Helstu einkenni hjá heldri hundum er útferð úr nösum en algengt er að smitberar séu heilbrigðir. Fólk er ekki móttækilegt fyrir hundaherpes.

Smitleið: Frá móður til fósturs í fæðingarvegi eða með vessum úr munni/nefi frá móður eða öðrum smituðum hundum. Veiran er óstöðug í umhverfinu og því er sjaldnast um að ræða óbeint smit.

Útbreiðsla: Fyrirfinnst um allan heim, þ.m.t. á Íslandi. Algengi mótefna (seroprevalens) 20-98%, fer eftir svæðum.

Greining: Krufning, veirugreining.

Meðhöndlun: Stuðningsmeðhöndlun.

Smitandi lifrarbólga í hundum

Smitandi lifrarbólga finnst um heim allan en er haldið niðri með bólusetningum víðast hvar.

Orsök:Adenoviridae / canine mastadenovirus 1

Meðgöngutími: 4-9 dagar

Einkenni: Helstu einkenni eru lystarleysi, hálsbólga, uppköst, niðurgangur, þorsti, hár hiti, eymsli í kviðarholi og hósti, hvarmabólga, blóðstorkuvandamál og jafnvel krampar og meðvitundarleysi. Bjúgur í hornhimnu kemur fram hjá u.þ.b. fjórðungi hunda í bata. Dánartíðni er 10-30% og hæst hjá mjög ungum hundum. Fólk er ekki móttækilegt fyrir smitandi lifrarbólgu.

Smitleið: Frá hundi til hunds beint eða óbeint með saur, þvagi og öðrum vessum. Hundar geta skilið veiruna út í þvagi í allt að 6 mánuði eftir smit.

Útbreiðsla: Fyrirfinnst um allan heim, einnig á Íslandi. Sjúkdómurinn er talinn hafa borist til Íslands snemma á 9. áratug síðustu aldar.

Greining: Veirugreining í blóðsýni eða mótefnamæling.

Meðhöndlun: Stuðningsmeðhöndlun. Hundar sem ná sér mynda mótefni.

 Smáveirusótt

Smáveirusótt finnst um heim allan en er haldið niðri með bólusetningum.

Orsök: Parvoviridae / canine parvovirus

Meðgöngutími: 4-7 dagar

Einkenni: Uppköst, niðurgangur, vökvaþurrð, dánartíðni er 10-30% en hærri án réttrar meðhöndlunar. Fólk er ekki móttækilegt fyrir smáveirusótt.

Smitleið: Bein eða óbein, veiran skilst út í miklu magni í saur og er mjög stöðug og getur lifað lengi í umhverfinu. Því er mjög mikilvægt að það fari fram þrif og sótthreinsun þar sem veikir hundar hafa verið.

Útbreiðsla: Einn algengasti veirusjúkdómurinn í hundum um allan heim. Greindist fyrst á Íslandi árið 1992.

Greining: Veirugreining í saur eða blóði, mótefnamæling.

Meðhöndlun: Stuðningsmeðhöndlun. Hundar sem ná sér mynda mótefni.

 Hundainflúensa

Hundainflúensa er veirusjúkdómur sem á uppruna að rekja til hestainflúensu. Árið 2004 kom upp óþekktur öndunarfærasjúkdómur hjá hundum í Bandaríkjunum. Hann reyndist vera af völdum hestainflúensuveirunnar (H3N8) sem hefur verið þekkt í hrossum í um 50 ár. Talið er að veiran hafi aðlagast hundum og telst hún nú vera sértæk m.t.t. hunda (e. dog specific).

Orsök: Orthomyxoviridae / canine influenza A H3N8 og H3N2

Meðgöngutími: 1-5 dagar

Einkenni: Væg einkenni frá öndunarfærum, einstaka hundar fá lungnabólgu. Smitaðir hundar verða útsettari fyrir tækifærissýkingum sem geta valdið alvarlegari einkennum. Smitberar geta verið einkennalausir (low mortality, high morbidity)

Smitleið: Loftsmit er helsta smitleiðin og berst veiran á milli hunda t.d. við hósta. Sýktur hundur getur smitað í 1-2 vikur eftir að hann smitast. Einnig getur verið um óbeint smit að ræða og getur veiran lifað í allt að 48 tíma í umhverfinu.

Útbreiðsla: H3N8 kom upprunalega frá hrossum en kom fram í hundum í Bandaríkjunum árið 2004. Annar stofn, H3N2 greindist upphaflega í S-Kóreu árið 2007 og hefur einnig fundist í Kína, Tælandi, Kanada og í Bandaríkjunum árið 2015. Hundainflúensa virðist ekki hafa borist til Evrópu.

Greining: Mótefnagreining, veirugreining. Mótefnasvörun getur komið seint fram eftir smit og niðurstaða veirugreiningar getur verið fölsk neikvæð.

Meðhöndlun: Stuðningsmeðhöndlun.

 Parainflúensa

Parainflúensa er bráðsmitandi og algengasta orsök barkabólgu í hundum og einn orsakavaldur kennelhósta.

Orsök: Paramyxoviridae / Canine Parainfluenza Virus

Meðgöngutími: 1-8 dagar

Einkenni: Veiran leggst á efri öndunarfæri og helstu einkenni eru þurr hósti og útferð úr nefi. Í einhverjum tilfellum slappleiki og lystarleysi. Einkenni vara jafnan í 10-21 dag. Smitaðir hundar verða útsettari fyrir tækifærissýkingum sem geta valdið alvarlegri einkennum.

Smitleið: Bráðsmitandi og berst hratt á milli hunda sem vistaðir eru í sama húsnæði eins og t.d. á hundahótelum. Veiran berst með útferð úr nefi t.d. með hósta.

Útbreiðsla: Parainflúensa finnst um allan heim, einnig á Íslandi.

Greining: Veirugreining, mótefnamæling. Mótefni greinast í sermi 10 dögum eftir smit en hverfa nokkrum vikum síðar.

Meðhöndlun: Alla jafna þarf ekki meðhöndlun, nema ef um er að ræða ónæmisbælda einstaklinga eða tækifærissýkingar sem valda alvarlegri öndunarfæraeinkennum.

 Hundaæði

Hundaæði (e. Rabies) er banvænn sjúkdómur sem borist getur í margar tegundir spendýra og þar á meðal menn. Hundaæði er sá sjúkdómur sem vegur þyngst hvað varðar mótvægisaðgerðir, þ.e. skilyrði vegna flutnings hunda og katta á milli landa.

Orsök: Rhabdoviridae / lyssavirus

Meðgöngutími: Nokkrir dagar og allt að 6 mánuðir (jafnvel lengri, en skilgreining OIE er 6 mán.) Rannsóknir hafa sýnt að meðgöngutími hjá hundum og köttum er á bilinu 9-60 dagar. Bitstaður og veirumagn hefur hér mest að segja. Ef bit er nálægt höfði koma einkenni fram fyrr en ef bitið er á útlim.

Einkenni: Sjúkdómurinn er banvænn og einkenni eru frá taugakerfi; heilahimnu-, heila- og mænubólga. Dæmi um einkenni eru vatnsfælni, aukin munnvatnsframleiðsla, máttminnkun eða lömun, hegðunarbreytingar, hár hiti og að lokum öndunarstopp og dauði, að jafnaði 10-12 dögum eftir að einkenni koma fram.

Smitleið: Bit af sýktu dýri, einnig getur smit borist með líkamsvessum í brotna húð, t.d. þegar sýkt dýr sleikja sár/slímhúðir. Smitdreifing hjá sýktum dýrum getur hafist um 15 dögum áður en sjúkdómseinkenni þeirra koma fram.

Útbreiðsla: Hundaæði er útbreiddur sjúkdómur og finnst í öllum heimsálfum nema í Ástralíu og á Suðurskautslandinu. Árlega láta 55.000-70.000 manns lífið af völdum hundaæðis, aðallega í Asíu og Afríku. Hundar eru valdir að 99% tilfella af hundaæði í fólki. Hundaæðistilfelli í Evrópu eru ýmist vegna smits frá villtu dýri á svæðinu (villtir/heimilislausir hundar) eða vegna innflutnings á smituðu dýri frá svæði þar sem sjúkdómurinn er landlægur. Í löndum þar sem hundaæði er landlægt er algengi mismunandi og veltur það fyrst og fremst á hversu vel tekst að fylgja eftir áætlunum um útrýmingu sjúkdómsins. Í löndum og á svæðum þar sem hundaæði finnst eingöngu í villtum dýrum (Bandaríkjunum, Kanada og V-Evrópu) hafa skipulagðar bólusetningar gæludýra dregið úr tilfellum af hundaæði í þéttbýli. í Evrópusambandinu hefur áætlunum um útrýmingu hundaæðis dregið verulega úr fjölda hundaæðistilfella á undanförnum aratugum. Frá 2004-2016 kom upp 21 hundaæðistilfelli (í dýrum) í kjölfar innflutnings til ESB. Gott aðgengi að hundaæðisbóluefni hefur auðveldað alþjóðlega flutninga með dýr frá löndum þar sem hundaæði finnst. Bólusetningar skila oftast tilætluðum árangri en til þess að ganga úr skugga um árangur bólusetningar er mótefnamæling nauðsynleg.

Greining: veirugreining, mótefnamæling. Mótefni vegna smits koma fram eftir að klínísk einkenni koma fram og mælast þá töluvert hærri en mótefni eftir bólusetningu.

Meðhöndlun: Endurtekin bólusetning eftir smit og áður en einkenni koma fram hefur gefið mjög góðan árangur. Þegar einkenni eru komin fram er finnst engin meðhöndlun. Sjúklingurinn fær stuðningsmeðferð en sjúkdómurinn er ávallt banvænn.

 Leptospírusýking

Hundar eru aðalhýslar Leptospírusýkinga (Canine leptospirosis) en margar aðrar spendýrategundir geta einnig smitast. Einkenni eru allt frá því að vera mild til að valda líffærabilunum og dauða.

Orsök: Bakterían Leptospira, sem til eru 21 stofn af og 250 undirstofnar.

Móttækilegar dýrategundir: Svo til öll spendýr geta sýkst af Leptospira, þ.m.t. fólk. Sýkingin er þó mjög sjaldgæf í köttum.

Meðgöngutími: 7-12 dagar.

Einkenni: Sýking getur verið allt frá því að vera einkennalaus eða væg, uppí það að valda alvarlegum skemmdum á líffærum og dauða. Algeng einkenni eru slappleiki, lystarleysi, uppköst, vökvaþurrð og eymsli í baki vegna bólgu í nýrum.

Smitleið: Bakterían getur leynst í líkamanum og frískir smitberar geta skilið bakteríuna út með þvagi og útferð frá æxlunarfærum í marga mánuði eða ár.

Útbreiðsla: Algeng víða um heim en hefur hvorki greinst í hundum né köttum á Íslandi.

Greining: Próf til að greina bakteríuna í blóði, þvagi og vefjum. Próf til að greina mótefni.

Meðhöndlun: Sýklalyf og stuðningsmeðferð.

Nánari upplýsingar: Merck Veterinary Manual

 Brúsellusýking

Orsök: Bakterían Brucella canis.

Móttækilegar dýrategundir: Hundar eru helstu smitberar Brucella canis. Kettir virðast ekki vera mjög móttækilegir fyrir brúsellu en þó hefur verið tilkynnt um tilfelli af greiningum á mótefnum gegn Brucella canis í köttum í Suður-Ameríku. Fólk getur sýkst af B. canis en sýkingar eru sjaldgæfar.

Meðgöngutími: Breytilegur frá tveimur vikum til margra mánaða.

Einkenni: Fósturlát á þriðja hluta meðgöngu, sýking í æxlunarfærum karldýra og ófrjósemi. Mjög erfitt að meðhöndla.

Smitleið: Bakterían smitast auðveldlega milli hunda sem eru saman í lokuðu rými. Smitið berst um munn og við pörun.

Útbreiðsla: Bakterían er algeng víða um heim en hefur ekki greinst hér á landi.

Greining: Bakteríuræktun og mótefnamælingar. Mótefnasvörun oftast komin fram innan 8-12 vikna frá sýkingu.

Meðhöndlun: Vegna smithættu fyrir aðra hunda og fólk er almennt mælt með aflífun á sýktum hundum eða einangrun þar til líkaminn hefur unnið á sýkingunni, sem tekur að meðaltali 2-3 ár. Sýklalyfjameðhöndlun tryggir ekki upprætingu smitefnisins.

Nánari upplýsingar: Merck Veterinary Manual

 Borrelíusýking

Borrelíusýking (e. Borreliosis/Lyme disease) er bakteríusýking sem berst með mítlum (e. ticks).

Orsök: Bakterían Borrelia burgdorferi sensu lato complex. Innan þessa complex eru 19 arfgerðir, af þeim hefur aðeins verið sýnt fram á að B. burgdorferi sensu stricto valdi sýkingum í húsdýrum.

Móttækilegar dýrategundir: Hundar, hestar og líklega kettir geta sýkst af borrelíu, sem og fólk.

Meðgöngutími: Bakterían berst með mítlum (ticks) og berst í dýrið sem mítillinn festir sig á eftir 1-2 daga. Margir dagar eða vikur geta liðið þar til einkenni koma fram.

Einkenni: Algengustu einkenni í hundum eru helti sem kemur og fer, hiti, slappleiki, stækkun á eitlum með eða án bólginna og aumra liða. Einkenni hjá köttum eru svipuð og í hundum. Í sumum tilfellum getur sýkingin valdið nýrnabilun.

Smitleið: Bakterían berst með mítlum af tegundinni Ixodes. Borrelíusýking hefur hvorki greinst í hundum né köttum hér á landi.

Útbreiðsla: Algeng víða um heim.

Greining: Mótefnamælingar. Mótefnin koma ekki fram fyrr en 4-6 vikum eftir að bakterían berst í líkamann. Útilokað er að greina borrelíusýkingu eingöngu með blóðprófum vegna langs meðgöngutíma, viðvarandi mótefna í mánuði og jafnvel mörg ár og tengslaleysis milli mótefnamyndunar og klíniskrar einkenna.

Nánari upplýsingar: Merck Veterinary Manual

 Rickettsíusýking

Rickettsíusýking (e. Rocky Mountain Spotted Fever, Flea-Borne Spotted Fever) er bakteríusýking sem berst í ýmsar dýrategundir með mítlum. Hér er fjallað um sýkinguna í hundum og köttum.

Orsök: Í hundum: Bakterían Rickettsia rickettsii. Í köttum: Bakterían Rickettsia felis.

Móttækilegar dýrategundir: Ýmsar dýrategundir geta sýkst af Rickettsia, þ.m.t. hundar og kettir, en hver rickettsíutegund á sér sína eigin dýrategund og smitbera. Fólk getur sýkst við bit af völdum mítla, flóa og lúsa sem hafa áður bitið sýkt dýr.

Meðgöngutími: 2 – 10 dagar.

Einkenni: Sjúkdómseinkenni í hundum geta verið hiti, lystarleysi, stækkanir á eitlum, liðabólgur, hósti, kviðverkir, uppköst, niðurgangur og bjúgur á höfði eða útlimum. Sýking í köttum er oftast einkennalaus.

Smitleið: Rickettsia rickettsii berst með mítlum, aðallega af tegundinni Dermacentor variabilis (ameríski hundamítillinn) og D. andersoni (Rocky Mountain skógarmítillinn) en hefur líka fundist í Rhipicephalus sanguineus (brúni hundamítillinn). Rickettsia felis berst aðallega með flóm.

Útbreiðsla: Landlæg í Norður-, Suður- og Miðameríku. Rickettsia hefur hvorki greinst í hundum né köttum hér á landi.

Greining: Ekki er hægt að greina sýkinguna með algengum rannsóknaraðferðum. Til að rækta bakteríuna þarf sérhæfð æti sem ekki eru auðfengin.

Meðhöndlun: Sýklalyfjameðhöndlun og stuðningsmeðferð.

Nánari upplýsingar: Merck Veterinary Manual

 

 Ehrlichiusýking

Ehrlichiusýking (e. Ehrlichiosis) er bakteríusýking sem herjar á hunda, ketti (og fólk).

Orsök: Bakterían Ehrlichia canis og aðrar undirgerðir.

Móttækilegar dýrategundir: Hundar, kettir og fólk geta sýkst af Ehrilichia.

Meðgöngutími: 5-14 dagar.

Einkenni: Bæði eru um að ræða sýkingar sem vara stutt og langvarandi sýkingar. Einkenni þeirra sýkinga sem vara stutt eru hiti, bólgur í eitlum víða í líkamanum, stækkun á milta og fækkun blóðflagna. Jafnframt lystarleysi, deyfð, þróttleysi, stífleiki, bjúgur í útlimum og nára, hósti eða öndunarerfiðleikar. Einkenni langvarandi sýkingar eru stækkun á milta, nýrnabilun, bólgur í lungum, augum, heila og mænu.

Smitleið: Berst með mítlum af tegundinni Rhipicephalus sanguineus (brúni hundamítillinn).

Útbreiðsla: Finnst víða um heim. Ehrlichia hefur hvorki greinst í hundum né köttum hér á landi.

Greining: Klínisk einkenni,talning á blóðflögum (í nánast öllum tilfellum veldur sýkingin blóðflagnafæð), leit að bakteríunni í hvítum blóðkornum og mótefnamælingar.

Meðhöndlun: Sýklalyfjameðhöndlun og stuðningsmeðferð.

Nánari upplýsingar: Merck Veterinary Manual

 Bordetellusýking

Bordetellusýking (e. Canine cough/Feline bordetellosis) er algeng bakteríusýking í hundum og köttum se, veldur viðvarandi hósta, hita og slappleika.

Orsök: Bakterían Bordetella bronchiseptica.

Móttækilegar dýrategundir: Bæði hundar og kettir geta sýkst af Bordetella. Fólk getur einnig sýkst en það er sjaldgæft.

Meðgöngutími: 2-14 dagar.

Einkenni: Viðvarandi hósti, hiti og slappleiki.

Smitleið: Bráðsmitandi. Loftborið og snertismit. Mjög harðger, lifir lengi í umhverfinu.

Útbreiðsla: Algeng um allan heim.

Greining: Klínisk einkenni og saga

Meðhöndlun: Stuðningsmeðferð. Sýklalyfjameðhöndlun í alvarlegum tilfellum.

Nánari upplýsingar: Merck Veterinary Manual

 Leishmania

Orsök: Leishmania er sníkjudýr sem lifir í frumum (trypanosomatid). Um er að ræða fleiri undirtegundir (>23) sem geta valdið fjölbreyttri flóru af sjúkdómum, allir kallaðir leishmaníusýking.

Móttækilegar dýrategundir: Sjúkdómurinn sést helst í hundum, fólki og nagdýrum, en kettir, hestar og önnur spendýr geta smitast. Ef kettir smitast sýna þeir oftast bæði húðform og almenna sýkingu. Flestar undirtegundir eru súnur.

Meðgöngutími: Meðgöngutími getur verið frá mánuði og til fleiri ára.

Einkenni: Einkenni geta verið breytileg, allt frá staðbundnum húðsjúkdómi yfir í að ná til flestra innri líffæra. Sjúkdómurinn getur verið frá því að vera einkennalítill yfir í að vera banvænn.

Smitleið: Smit berst fyrst og fremst með sérstökum tegundum af sandflugum. Leishmania lifir í tveimur hýslum, sandflugu sem smitast af stigi leishmaníusýkingu sem er utan fruma, og svo í spendýrum þar sem sníkjudýrið þorskast og fer inn í frumur. Hundar sem bera leishmaníu geta smitað sandflugur. Smit getur borist með blóðgjöf. Smit frá móður til afkvæma hefur verið lýst, en talið sjaldgæft. Smit getur borist með sæði og við pörun. Dæmi eru talin vera um að smit geti borist milli hunda. Smit getur borist frá hundum í fólk en fólk smitast oftast ef það er bitið af sandflugu sem hefur bitið sýktan hund eða fólk.

Útbreiðsla: Leishmaníusýking í fólki og hundum er víða í Afríku, hluta af Asíu, Suður-Evrópu og Suður- og Mið-Ameríku. Mest er útbreiðsla er við Miðjarðarhafið, í Mið-Austurlöndum og Suður-Ameríku. Smitsvæði finnast einnig við Miðjarðahafið, Afríku, hlutum Indlands, hlutum Kína og öðrum svæðum í Asíu. Hefur einnig greinst í USA. Alþjóðlega er talið um 1,5 milljón manns greinist á ári með húðleishmaníusýkingu og um 500 þúsund með líffæraleishmaníusýkingu.

Greining: Einfaldast er að greina smit við smásjárskoðun á lituðu stroki frá húð, eða úr beinmerg eða stækkuðum eitlum. Næmi við greiningu er þó frekar lítil (30% eitla og 60% beinmerg). Mælt er með mótefnamælingum. Flúorljómun (IFAT) hefur um 96% næmi (sensitivity) og 98% sértæki (specificity) sem er svipað og með ELISA. ELISA er hægt að nota við greiningar á eldri og nýrri gerð leishmaníusýkingu með næmi allt að 86-99%. PCR frá eitlum og beinmerg er mjög næm, en talin vera of mikið inngrip fyrir rútínugreiningu. Sýni tekin frá blóði eru ekki eins næm, en eru talin ásættanleg með mótefnamælingum, sérstaklega RT-PCR.

Meðhöndlun: Hundar eru ólíklegir til að losna við smit þrátt fyrir meðhöndlun.

 Bitormar

Orsök: Þráðormar- Nematoda- tegund Bitormar. Í hundum er algengast Ancylostoma caninum en Ancylostoma braziliense og Ancylostoma ceylanicum eru skyldar tegundir og lífshringrás svipuð og hjá A caninum. A braziliense finnst í hundum og köttum í trópískum og subtrópískum svæðum. A ceylanicum eru sumstaðar í Asíu.

Móttækilegar dýrategundir: Mjög breytilegt eftir tegund orma. Sjá hættugreiningu (hazard identification) frá Nýja Sjálandi https://www.mpi.govt.nz/dmsdocument/2796/send

Meðgöngutími: Egg finnast í saur um.þ.b. 2-3 vikum eftir smit.

Einkenni: Bit ormanna í þarmaslímhúð getur valdið tapi á próteinum og rauðum blóðkornum svo blóðleysi er oft mest áberandi einkenni. Þarmabólgur, vanþrif, lágt serum prótein, blóðleysi (anaemia), stundum bráð blæðandi þarmabólga og lungnabólga eftir ferðalag lirfa í lungum eru helstu afleiðingar mikilla sýkingar. Getur endað í dauða dýrs. Sjúkdómurinn getur verið frá því að vera einkennalítill til að geta valdið dauða.

Smitleið: Berst í móttækileg dýr frá umhverfi en einnig í hvolpa gegnum leg í meðgöngu og í mjólk frá sýktum tíkum með lirfustig í dvala sem lifna við meðgöngu og fara yfir í júgurvef. Sýking gegnum húð er líka möguleg. Lirfur bitorma, en þá helst A braziliense geta farið í gegnum húð á fólki en komast ekki í blóðrásina. Veldur cutaneus larva migrans. Dæmi um að fólk smitist um munn.

Útbreiðsla: Ancylostoma/Uncinaria Hefur fundist í innfluttum hundum í einangrunarstöð nánast árlega síðustu ár. Uncinaria hefur fundist í villtum refum hér á landi.

Greining: Skimun í saur og PCR

Meðhöndlun: Virk sníkjudýralyf á bitorma: dichlorvos, fenbendazole, flubendazole, mebendazole, nitroscanate, piperazine, pyrantel, milbemycin, moxidectin, diethylcarbamazine, oxibendazole, and ivermectin.

 Strongyloides spp

Orsök: Þráðormar - nematoda- tegund Strongyloides spp

Móttækilegar dýrategundir: Hundar, kettir, fólk

Meðgöngutími: Egg geta fundist í saur u.þ.b. 7-10 dögum eftir sýkingu

Einkenni: Einkenni geta verið væg eða engin, en einnig geta komið framvæg lungnaeinkenni, kviðverkir, ógleði og niðurgangur. Hundar geta einnig sýnt vanþrif, megurð og hægari vaxtarhraða. Við alvarlegri tilfelli geta hundar fengið hita og slæma öndunarfærasýkingu. Sýking er ekki talin hættuleg fólki nema fyrir einstaklinga með ónæmisbælingu vegna sjúkdóma eða lyfja.

Smitleið: Lirfur ormsins lifa í jarðvegi og geta smitað fólk og dýr í gegnum heila húð en einnig um meltingarveg. Lífsferill ormsins er flóknari en hjá flestum þráðormum og fer hann í gegnum tvo mismunandi lífsferla, annarsvegar í jarðvegi og hinsvegar í hýsli. Eftir smit í gegnum húð eða sjálfssmit í gegnum meltingarveg, berast lirfur í gegnum blóðrás í lungu og svo aftur í þarm þar sem fullorðinn ormur þroskast og verpir eggjum. Eggin klekjast flest í lirfustig áður en þau berast út með saur. Getur smitast frá tík til hvolpa á spena gegnum mjólk.

Útbreiðsla: S stercoralis lifir aðallega í fólki, en finnst einnig í hundum, köttum og öpum og smit getur borist milli manna og dýra. Ekki er vitað hvort sama gerð ormsins smiti fólk og dýr, en ekki er hægt að útiloka það. Ormurinn er algengur í Suður- og Austur-Evrópu, en hefur einnig reglulega greinst í Norður-Evrópu og á Norðurlöndunum, Afríku, Asíu og Mið- og Suður-Ameríku og suðausturhluta Norður-Ameríku.

Greining: Skimun í saur og PCR

Meðhöndlun: Virk sníkjudýralyf á Strongyloides m.a, fenbendazole (í 5 daga 2x með 4 vikna millibili), og ivermectin (2x með 4 vikna millibili). Thiabendazole í þeim skömmtum sem virkar gegn orminum (3 dagar í einu vikulega) getur hinsvegar valdið eitrun.

 Hjartaormur

Orsök: Þráðormar- Nematoda- tegund Angiostrongylus vasorum stundum kallaður „franski“ hjartaormurinn, eða hundalungnaormur og er sníkjudýr refa og hunda.

Móttækilegar dýrategundir: Hundar, refir

Meðgöngutími: 6-10 vikur. Fullorðinn ormur getur lifað í um 2 ár.

Einkenni: Einkenni hjartaormasýkingar eru misalvarleg en algengust eru hósti, mæði, slappleiki og lystarleysi (Canine pulmonary angiostrongylosis CPA). Alvarlegar sýkingar geta leitt til dauða. Fullorðnir ormar halda sig í lungnaslagæðum og í hægri hlið hjartans en lirfur ormsins ferðast í um lungnavefinn og valda þar skemmdum.

Smitleið: Hjartaormurinn sýkir refi og hunda en millihýslar ormsins eru ýmsar sniglategundir. Ormurinn er ekki sértækur á sniglategundir og hugsanlegt er að íslenskar sniglategundar gætu hentað sem millihýslar. Talið er að smit berist í hunda og refi þegar þeir éta smitaða snigla, eða slím frá sniglum (sem t.d. halda sig í grasi) en smit getur ekki borist beint frá hundi til hunds. Fólki stafar ekki hætta af hjartaorminum.

Útbreiðsla: Hjartaormurinn finnst víða í Evrópu, Ameríku og Afríku og svo virðist sem útbreiðsla hans sé að aukast en sú aukning er talin tengjast hlýnandi loftslagi og auknum ferðalögum fólks með hunda.

Greining: Skimun í saur og ELISA

Meðhöndlun: Meðferð sem virkar á hjartaorminn Dirofilaria immitis virkar í flestum tilfellum ekki á þennan hjartaorm. Á síðustu 10 árumhefurorðið algengara að nota fenbendazole í skömmtum frá 20-50 mg/kg í 5–21 daga og hefur verið mælt með í stað levamisole and ivermectin sem meðferð.

 Tunguormur

Kettir, hundar, refir og aðrar kjötætur eru aðalhýslar þessa orms en öll spendýr geta verið millihýslar og er því talin til súna.

Orsök: Linguatala serrata. Er í raun ekki “sannur ormur” (helminth) heldur crustacean eins og rækjur og krabbadýr. Hinsvegar hegðar þetta sníkjudýr sér mjög líkt ormum.

Móttækilegar dýrategundir: Getur smitað bæði hunda og ketti.

Meðgöngutími: Egg finnast í saur u.þ.b 6 mánuðum eftir sýkingu

Einkenni: Yfirleitt væg einkenni, en getur valdið ertingu í koki. Mikil sýking getur valdið bólgum í nefholi og koki og krónískum hnerra og hósta, rennsli og blæðingum úr nefi. Einnig er til dæmi um köfnun. Í millihýslum geta lirfur komið sér fyrir í líffærum og leitt til visceral linguatolosis. Hefur fundist í auga og lifur hjá mönnum.

Smitleið: Tunguormur notar millihýsla til að ná fullum þroska (helst grasbíta). Fullorðin L. serrata grefur framhlutann í nef-, háls- og munnholsslímhúðir þar sem ormurinn nærist á blóði og líkamsvessum. Kvendýr geta lifað í 2 ár og framleiða milljónir eggja. Eggin berast með nefrennsli og hnerra eða með saur ef þeim er kyngt. Ef eggin berast í millihýsil klekst út ferfætt lirfa í smágörnum sem fer í gegnum þarm og kemur sér fyrir í lungum, lifur og eitlum þar sem næsta þroskastig (nymph) þróast. Þegar vefurinn er étinn af endahýsli ferðast nymphan í munnhol og þroskast í fullorðinn orm. Fullorðin kvendýr byrja að verpa u.þ.b 6 mánuðum eftir smit.

Útbreiðsla: Finnst um allan heim, en sérstaklega í heitari löndum og er m.a landlæg í Mið-Austurlöndum. Þar er smit í fólki algengt.

Greining: Skimun eftir eggjum í saur eða útferð úr nefi. Egg geta þó verið skilin út í bylgjum og hefur það áhrif á næmi greiningar. Hægt er að sjá fullorðna orma í koki með kokspeglun.

Meðhöndlun: Engin dýralyf eru skráð til meðhöndlunar á tunguormi, né bóluefni. Ivermectin hefur sýnt einhver áhrif á skylda tegund, L. Arctica, sem finnst í hreindýrum. Mikilvægasta vörnin gegn smiti er að fóðra ekki ketti og hunda á hrámeti þar sem smit finnst, fjarlægja úrgang hunda og katt, handþvottur fyrir matmálstíma, skolun á grænmeti fyrir neyslu.

 Refasullur

Orsök: Bandormur – cestoda – tegund Echinococcus multilocularis

Móttækilegar dýrategundir: Hundar, kettir, refir og margvíslegir millihýslar

Meðgöngutími: Mánuðir og ár hjá millihýslum

Einkenni: Einkenni hjá hundum og köttum geta verið margvísleg, svo sem kláði við endaþarm, þyngdartap þrátt fyrir óbreytta matarlyst, eymsli í kvið, niðurgangur, slappleiki, blóðleysi, breytingar í húð og feldi. Nokkur tími getur liðið frá því hundur smitast og þar til einkenni koma fram. Einkenni hjá millihýslum fara eftir því hvar í líkamanum sullir myndast. Ólíkt E. graunulosus framleiðir E. multilocularis margar litlar blöðrur sem dreifast í innri líffæri.

Smitleið: Bandormurinn er fyrst og fremst bandormur refsins en getur líka smitað hunda og ketti. Fullorðnir ormar lifa í þörmum lokahýsla sem eru sem sagt refir, hundar og kettir. Þar verpa ormarnir eggjum sem berast út í umhverfið með saur. Millihýslar eru aðallega nagdýr en fólk getur einnig orðið „slysa“millihýslar ef þeir fá í sig egg. Er millihýsill innbyrðir egg klekst lirfa úr egginu sem smýgur í gegnum þarmavegginn og ferðast um blóðrásarkerfið til ýmissa líffæra en þó aðallega lifrar og lungna. Í þessum líffærum breytist lirfan í vökvafyllta blöðru (sull) sem stækkar smám saman og inni í henni myndast fjöldi bandormshausa og nýrra blaðra. Lokahýsillinn smitast við að innbyrða líffæri smitaðra millihýsla sem innihalda blöðrur. Í lokahýslinum losna bandormshausarnir úr blöðrunum og festa sig við slímhúð smáþarmanna og þroskast í fullorðna bandorma á 32 til 80 dögum. Í millihýslum getur tekið mörg ár áður en sullur verður áberandi og sérstaklega í einstaklingum með skert ónæmiskerfi. Lirfan kemur sér oftast fyrir í lifur og einkenni geta minnt á lifrarkrabbamein, með stækkun í lifur, höfuðverk, ógleði og kviðverki. Getur valdið alvarlegum veikindum og dauða.

Útbreiðsla: Finnst í Evrópu og norðurlöndum, Kanada, Kína og Síberíu

Greining: Smásjárskoðun og greining eggja í saur, mótefnamæling ELISA

Meðhöndlun: Lokahýslar: bandormalyf. Millihýslar: lyfjameðhöndlun og/eða skurðaðgerð.

 Ígulbandormur (sullaveiki)

Orsök: Bandormur – cestoda – tegund Echinococus granulosus, sk. ígulbandormur

Móttækilegar dýrategundir: Endahýsill hundar og skyldar tegundir (kettir og refir). Margvíslegir millihýslar m.a. sauðfé, fólk, nagdýr

Meðgöngutími: Smit hjá lokahýslum: 32-80 dagar. Smit hjá millihýslum: allt upp í 15 ár.

Einkenni: Einkenni hjá hundum geta verið margvísleg, svo sem kláði við endaþarm, þyngdartap þrátt fyrir óbreytta matarlyst, eymsli í kvið, niðurgangur, slappleiki, blóðleysi, breytingar í húð og feldi. Nokkur tími getur liðið frá því hundur smitast og þar til einkenni koma fram. Einkenni hjá millihýslum fara eftir því hvar í líkamanum sullir myndast. Sullir, sem eru þykkveggja blöðrur, geta orðið margir lítrar og geta haft alvarlegar afleiðingar fyrir hýsilinn.

Smitleið: Fullorðnir ormar lifa í þörmum lokahýsla sem eru hundar og refir. Þar verpa ormarnir eggjum sem berast út í umhverfið með saur. Millihýslar eru auk manna ýmsar grasætur s.s. sauðfé og nautgripir. Er millihýsill innbyrðir egg klekst lirfa úr egginu sem smýgur í gegnum þarmavegginn og ferðast um blóðrásarkerfið til ýmissa líffæra en þó aðallega lifrar og lungna. Í þessum líffærum breytist lirfan í vökvafyllta blöðru (sull) sem stækkar smám saman og inni í henni myndast fjöldi bandormshausa og nýrra blaðra. Lokahýsillinn smitast við að innbyrða líffæri smitaðra millihýsla sem innihalda blöðrur. Í lokahýslinum losna bandormshausarnir úr blöðrunum og festa sig við slímhúð smáþarmanna og þroskast í fullorðna bandorma á 32 til 80 dögum.

Útbreiðsla: Sjúkdómurinn finnst í Afríku, Evrópu, Asíu, Miðausturlöndum, Mið- og Suður-Ameríku og einstaka sinnum í Norður-Ameríku. Sullaveiki var vel þekkt hér á landi fyrr á öldum en hefur ekki greinst í sauðfé síðan árið 1979 þökk sé lögbundinni bandormahreinsun hunda og aukinni þekkingu á smitleiðum.

Greining: Smásjárgreining bandormaeggja í saur. Mótefnamæling ELISA.

Meðhöndlun: Lokahýslar: bandormalyf. Millihýslar: lyfjameðhöndlun og/eða skurðaðgerð.

 Ögður

Lungnaögður Paragonimus kellicotti og Paragonimus westermani (Trematoda) sem hafa hunda sem endahýsla lifa helst í blöðrum í lungum en geta einnig fundist í öðrum líffærum. Lifrarögður s.s Fasciola hepatica er ögðutegund sem hefur sauðfé sem endahýsil en önnur dýr svo sem hundar geta smitast

Orsök: Paragonimus kellicotti og Paragonimus westermani með hunda eða ketti sem endahýsil, Fasciola hepatica o.fl. er helst í sauðfé en getur einnig smita hunda.

Móttækilegar dýrategundir: Hundar, kettir, refir en margvíslegir millihýslar

Meðgöngutími:

Einkenni: Lungnaögður Paragonimus kellicotti og Paragonimus westermani sem hafa hunda sem endahýsla lifa helst í blöðrum í lungum en geta einnig fundist í öðrum líffærum. Smituð dýr geta fengið krónískan djúpan hósta og orðið veikburða þó oft geti sýkingin verið án mikilla einkenna. Lifrarögður svo sem F. hepatica geta valdið smituðum hundum litlum eða engum einkennum. Smitaðir hundar geta líka sýnt einkenni lifrarbólgu eða gallgangabólgu. Getur einnig valdið vefjaskaða og blæðingum. Hundarnir geta orðið blóðlitlir, tapað þyngd og ef sýking er alvarleg getur smit með lifrarögðum valdið dauða.

Smitleið: Eggin fara í gegnum blöðruvegginn, er hóstað upp og kyngt og finnast í saur. Paragonimus kellicotti og Paragonimus westermani nota nokkrar tegundir snigla sem helstu millihýsla en geta fundist í fisk og krabbadýrum. Sníkjudýrið býr um sig í blöðrum (cercariae) í millihýslum en þegar þær berast í endahýsil finnur það sér leið í lungun í gegnum þarma, kviðarhol og þind og þroskast í fullorðið dýr. F. hepatica notar einnig snigla sem millihýsla en hundar geta smitast við að drekka vatn eða éta gras sem inniheldur smitaða snigla, eða ef þeir fá hráa lifur með ungum lifrarögðum. Smit berst ekki úr hundum í fólk, en getur borist úr hundum í sauðfé.

Útbreiðsla: Hundaögður eru algengar í Kína, suðuaustur Asíu og Norður-Ameríku. Lifrarögður eru víða um heim, m.a. Englandi. Dæmi eru um að hundar sem hafi komið frá Englandi hafi greinst smitaðir af F. hepatica í einangrun við skimun á saur.

Greining: Fundur á eggjum við skimun á saur. Smit í lungum greinist með röntgenmyndum. Einnig er hægt að mæla mótefni.

Meðhöndlun: Fenbendazole (50 mg/kg/dag, PO, í 10–14 daga) eða minna æskileg meðhöndlun albendazole (25 mg/kg, PO, 2x á dag í 14 daga) minnkar fjölda eggja sem skiljast út og er líklegt yfir tíma að drepa ögðuna. Praziquantel (25 mg/kg, PO, þrisvar í 3 daga) getur líka virkað gegn lungnaögðum í hundum.

Lús

Orsök: Blóðsjúgandi lús (Linognathus setosus) og tvær tegundir af naglús (Trichodectes canis og Heterodoxus spiniger). Felicola subraostratus í köttum.

Móttækilegar dýrategundir: Lús er nokkuð sérhæfð á hýsla. Hver dýrategund hefur yfirleitt sína tegund lúsa.

Meðgöngutími: Allur lífsferill er á dýrinu. Það tekur um.þ.b. 3-4 vikur að þroskast frá nit í fullorðna lús. Lús lifir aðeins nokkra daga utan hýsils, en egg geta klakist út í 2-3 vikur.

Einkenni: Kláði og húðskaði eftir klór s.s. möguleg húðsýking.

Smitleið: Lús smitast við snertingu eða við snertingu við áhöld, beisli, ólar, bæli og staði sem dýr liggja á. Lúsin er tegundasérhæfð og lifir ekki nema á sínum hýsli. Lúsin festir egg sín (nit) á feldhárum þar sem þau klekjast út. Lús getur borið með sér smitsjúkdóma og innri sníkjudýr.

Útbreiðsla: Algeng um allan heim

Greining: Leit í feld eftir lús og nit.

Meðhöndlun: Virk sníkjudýralyf á lús. Þarf að endurtaka eftir 7-10 daga.

Brúni hundamítillinn

Brúni hundamítillinn hefur greinst í nokkur skipti á landinu og talinn hafa borist með ferðamönnum. Talið er að tekist hafi að útrýma hundamítlunum hér á landi.

Orsök: Brúni hundamítillinn Rhipicephalus sanguineus og ameríski hundamítillinn Dermacentor variabilis

Móttækilegar dýrategundir: Þrífast helst á hundum en getur leitað á aðrar tegundir þegar hann nær ekki á aðaltegundina.

Meðgöngutími: Brúni hundamítillinn lifir allan sinn lífsferil á dýrinu ólíkt fuglamítlunum sem greinast hér á landi. Ameríski hundamítillinn hefur gjarna lítil villt spendýr sem millihýsla en getur lifað allt að 2 ár á hvaða stigi sem er utan hýsils og hinn í allt að ár.

Einkenni: Dýr finna lítið fyrir mítlastungu en geta fengið ertingu umhverfis bitstað. Erlendis er þekkt að brúni hundamítillinn geti borið smitefnin Ehrlichia canis og Babesia canis sem valda sjúkdómum í hundum en þessi smitefni hafa ekki fundist hér á landi. Jafnframt er vitað að þessi mítill geti borið bakteríuna Rickettsia conorii, sem getur valdið sjúkdómi í fólki og er landlæg í löndum við Miðjarðarhafið (Mediterranean spotted fever) en hefur ekki fundist hér.

Smitleið: Ameríski hundamítillinn hefur gjarna lítil villt spendýr sem millihýsla en getur lifað allt að 2 ár á hvaða stigi sem er utan hýsils og hinn í allt að ár. Brúni hundamítillinn er ekki ólíkur skógarmítlinum (Ixodes ricinus) og lundamítlinum (Ceratixodes uriae) í útliti en er frábrugðinn þeim að því leyti að hann getur farið í gegnum öll þroskastig og alið allan sinn aldur innanhúss. Hundamítillinn getur fjölgað sér hratt við hentugar aðstæður, t.d. í hlýju íbúðarhúsnæði. Hann getur komið sér fyrir í sprungum í veggjum og gólfi, bak við lista o.s.frv. og verpt þar eggjum. Lirfur hans nærast helst á blóði úr hundum en geta líka látið sér nægja önnur spendýr, t.d. nagdýr. Fullorðnir hundamítlar nærast helst á blóði úr hundum en geta líka farið á önnur dýr og menn. Að sumri til er orðið nokkuð algengt að vart verði við skógarmítla, og lundamítlar eru landlægir í sjófuglabyggðum, en óvanalegt er að finna mítla á gæludýrum á þessum árstíma nema ef um er að ræða mítla sem geta fjölgað sér innanhúss eins og hundamítillinn.

Útbreiðsla: Brúni hundamítillinn er algengur um allan heim. Ameríski hundamítillinn er fyrst og fremst á austurströnd Bandaríkjanna. Samkvæmt upplýsingum frá sérfræðingum á Keldum hefur Brúni hundamítillinn aðeins fundist fimm sinnum áður á hundum hér á landi (1978 – 2010) og þrisvar sinnum á innfluttum hundum í einangrunarstöð. Uppræting hefur tekist í öllum tilvikum og mítillinn því ekki talinn landlægur hér á landi.

Greining: Leit í feld eftir mítlum

Meðhöndlun: Virk sníkjudýralyf gegn mítlum. Þarf að endurtaka og þrífa ítrekað sérstaklega vel allt umhverfi innandyra. Samhliða meðhöndlun á hundum sem mítillinn greinist á þarf að ryksuga allt á heimilinu í hólf og gólf, sérstaklega staði sem mítlarnir geta leynst á s.s. í sprungum, undir listum, þröskuldum o.s.frv. Bæli hundsins, teppi, fatnað o.s.frv. þarf að þvo. Bent skal á að mítillinn þolir illa kulda þannig að frysting getur verið ráð í sumum tilvikum. Ef mikill fjöldi mítla er í húsnæðinu gæti þurft að leita til meindýraeyðis.

Húðsveppir (Microsporum og Trichophyton)

Orsök: Sveppategundirnar Microsporum canis, M. gypseum og Trichophyton mentagrophytes. Jafnframt þarf að hafa í huga að tegundin Trichophyton verrucosum sem veldur hringskyrfi í nautgripum, getur borist með hundum. Mikilvægt er að halda landinu lausu við hringskyrfi en tekist hefur að útrýma því í þau örfáu skipti sem það hefur komið upp.

Móttækilegar dýrategundir: Hundar, kettir en önnur spendýr s.s. fólk geta smitast.

Meðgöngutími: 7-21 dagur.

Einkenni: Hárlausir blettir með skorpumyndun og stundum hárslíðursbólgu og kýlum.

Smitleið: Snertismit, bæði frá sýktu dýri og ýmsum hlutum sem smitið getur hefur borist á frá sýktu dýri.

Útbreiðsla: Algeng víða um heim.

Greining: Skimun með Woods lampa, bein smásjárskoðun á hárum og húðskrapi, og ræktun.

Meðhöndlun: Útvortis meðhöndlun með sveppalyfjum (böðun) getur dugað í vægum tilfellum en í alvarlegri langvarandi tilfellum þarf lyfjameðferð.

Smitandi kynfæraæxli

Orsök: Æxlisfrumur. Um er að ræða traffrumuæxli ytri kynfæra hjá hundum (einnig úlfum, refum og skyldum tegundum)

Meðgöngutími: Æxlið er 4-6 mánuði að ná fullri stærð.

Einkenni: Blómkálslaga æxlisvöxtur á tippi og forhúð hjá rökkum og á skeið hjá tíkum. Auk þess útferð frá forhúð og þvagteppa. Blætt getur úr skeið. Einstaka sinnum er æxlisvöxtur á munni og nefi og þá geta komið fram blóðnasir og bólga í andliti. Æxlin geta gengið til baka vegna ónæmissvörunar. Meinvörp eru sjaldgæf nema hjá hvolpum og ónæmisbældum hundum. Meinvörp finnast þá helst í eitlum en einnig í húð, heila, augum, milta eistum og vöðvum.

Smitleið: Smitast á milli dýra við pörun eða önnur náin samskipti.

Útbreiðsla: Um er að ræða sjúkdóm með yfir 6000 ára sögu. Finnst út um allan heim, í a.m.k 90 löndum í öllum heimsálfum. Þar sem mikið er um lausa hunda (free-roaming) er sjúkdómurinn algengari en þar sem meira eftirlit er með hundahaldi og þar sem fleiri hundar eru geltir, eins og í Norður-Evrópu. Á Íslandi hefur aldrei verið staðfest greining á CTVT.

Greining: Vefjasýni.

Meðhöndlun: Æxlin geta gengið til baka. Þau eru oft ekki skurðtæk vegna staðsetningar. Krabbameinslyfjagjöf hefur gefið hvað bestan árangur. Stundum þarf einnig geislameðferð. Með réttri meðhöndlun eru batahorfur góðar en einnig vegna þess að nokkuð algengt er að æxlin gangi til baka af sjálfu sér.

Kláðamítill

Orsök: Smámítill af tegundinni Kláðamítill (lat: Sarcoptes scabiei (canis) eða aðrar Sarcoptes scabiei spp..

Móttækilegar dýrategundir: Margar tegundir eru af kláðamítlum(lat:Sarcoptes scabieispp.) og þó smámítlar séu frekar hýsilsérhæfðir, geta þeir smitað milli tegunda og í fólk.

Meðgöngutími: Smámítillinn lifir allan sinn lífsferil á hinum smitaða hundi (17-21 daga). Kvendýr grafa göng í húðina til að verpa eggjum. Tími frá smiti til fjölgunar smámítlanna getur verið frá 10 dögum til 8 vikna, eftir fjölda dýra sem bárust á hundinn við smit, heilsu hundsins o.fl.

Einkenni: Ekki allir hundar sýna einkenni smits. Algengara er þó að dýrið fái kláða sem virðist koma skyndilega. Húðin skaðast við klór og verður oft sýkt og skorpur myndast. Oftast mest áberandi á kvið, bringu, eyrum, olnbogum og fótum en getur dreifst um allan líkamann. Ómeðhöndlað getur heilsu og lífi hundsins verið ógnað.

Smitleið: Smámítllinn berst auðveldlega milli dýra við snertingu. Óbeint smit við að deila bæli er ekki eins algengt en getur komið fyrir.

Útbreiðsla: Um allan heim

Greining: Húðskrap, ryksuga feld og etv skimun í saur eða mótefnamælingar í blóði.

Meðhöndlun: Virk sníkjudýralyf á smámítla svo sem ivermectin, eða endurtekin böðun.

 

Uppfært 13.03.2025
Getum við bætt efni síðunnar?