Innflutningur katta
Hvað þarf að gera til að flytja kött til Íslands?
Fylgdu eftirfarandi leiðbeiningum til að flytja kött til landsins. Ef eitthvað er óljóst er hægt að ræða við okkur í gegnum netspjallið neðst til hægri á síðunni. Netspjallið er opið/birt alla virka daga frá kl 9-12 og 13-15. Auk þess má senda fyrirspurnir með tölvupósti til petimport@mast.is
Vegna upplýsinga um flutning/flug katta milli landa þá skal leita til flugfélaga sem flytja dýr. Matvælastofnun hefur ekki slíkar upplýsingar. Minnt er á að að leyfilegur komutími er kl. 6-17 á fyrirfram ákveðnum komutímum einangrunarstöðvanna.
Óheimilt að flytja dýr til Íslands í farþegarýmum flugvéla
Breyting hefur verið gerð á reglugerð um innflutning hunda og katta, sem m.a. felur í sér að ekki verður lengur heimilt að flytja hunda og ketti til landsins í farþegarými flugvéla.
Nýleg dæmi eru um ólöglegan innflutning hunda sem fluttir voru með þessum hætti og komust þá farþegarnir óáreittir með hundana út í gegnum flugstöðina. Það er alvarlegt brot á þeim innflutningsskilyrðum sem hér gilda.
Breytingin tekur gildi 11. apríl 2024. Áfram verður þó heimilt að flytja vottaða hjálparhunda í farþegarými og hunda og ketti sem aðeins millilenda á Íslandi.
1. Kanna útflutningsland og skilyrði
Eingöngu má flytja ketti til Íslands frá viðurkenndu útflutningslandi sbr. viðauka við reglugerð nr. 200/2020. Viðurkennd útflutningslönd eru flokkuð í tvo flokka m.t.t. hundaæðis (e. rabies). Í landaflokki 1 eru lönd án hundaæðis. Í landaflokki 2 eru lönd þar sem hundaæði finnst ekki eða er haldið vel í skefjum. Kettir sem fyrirhugað er að flytja til landsins skulu hafa dvalið í viðurkenndu útflutningslandi síðustu 6 mánuði fyrir innflutning eða frá fæðingu.
- Kettir sem fluttir eru inn frá landaflokki 1 geta uppfyllt innflutningsskilyrði í fyrsta lagi við u.þ.b. 4,5 mánaða aldur.
- Kettir sem fluttir eru inn frá landaflokki 2 geta uppfyllt innflutningsskilyrði í fyrsta lagi við u.þ.b. 7 mánaða aldur.
Landaflokkur 1
- Lönd þar sem hundaæði hefur aldrei greinst
- Lönd sem uppfylla skilgreiningu OIE á rabies free country, m.a. má hundaæði ekki hafa komið upp í landinu sl. 2 ár.
- Austurríki, Ástralía, Belgía, Bretland, Búlgaría, Danmörk, Eistland, Finnland, Frakkland, Færeyjar, Grikkland, Holland, Írland, Ítalía, Japan, Króatía, Kýpur, Lettland, Liechtenstein, Litháen, Lúxemborg, Malta, Noregur (að Svalbarða frátöldum), Portúgal, Sameinuðu arabísku furstadæmin, Singapore, Slóvenía, Spánn, Sviss, Svíþjóð, Tékkland, Þýskaland.
Landaflokkur 2
- Lönd þar sem hundaæði finnst og er tilkynningarskylt og haldið vel í skefjum miðað við þær upplýsingar sem Matvælastofnun hefur.
- Bandaríkin, Bosnía-Hersegóvina, Grænland, Kanada, Pólland, Rúmenía, Serbía, Slóvakía, Taívan, Tyrkland, Ungverjaland.
- Hætta á hundaæðissmiti er meiri í löndum í landaflokki 2 og því er undirbúningur vegna innflutnings tímafrekari. Allir hundar og kettir skulu bólusettir gegn hundaæði. 30 dögum síðar skal taka blóðprufu og mæla mótefni til að staðfesta að bólusetningin hafi skilað árangri. En þar sem meðgöngutími hundaæðisveirunnar getur verið mjög langur þurfa að líða 90 dagar eftir mótefnamælinguna til þess að ganga úr skugga um að dýrið beri ekki einkenni hundaæðis áður en það er flutt til Íslands. Þessar reglur eru í fullu samræmi við ráðleggingar Alþjóðadýraheilbrigðisstofnunarinnar (OIE) um varnir gegn hundaæði.
Lönd sem teljast ekki til viðurkenndra útflutningslanda
- Lönd þar sem hundaæði er landlægt og ekki tilkynningarskylt.
- Lönd þar sem hundaæði er landlægt og tillkynningarskylt en enn mikið vandamál.
- Lönd þar sem ítrekað hafa komið upp vandamál varðandi vottorð og önnur gögn vegna innflutnings dýra.
- Lönd þar sem alvarlegir dýrasjúkdómar koma upp sem ekki er mögulegt að verjast með bólusetningum, sýnatökum eða með einangrun.
- Lönd sem ekki hafa verið metin m.t.t. ofangreindra viðmiða.
-
Eftirtalin lönd hafa verið metin en teljast ekki til viðurkenndra útflutningslanda: Filippseyjar, Hvíta-Rússland, Indland, Kína, Mexíkó, Rússland, Tæland og Úkraína.
Innflutningur gæludýra vegna búferlaflutninga frá landi sem ekki telst til viðurkenndra útflutningslanda
Matvælastofnun getur heimilað innflutning á hundi eða ketti frá landi sem ekki telst til viðurkennds útflutningslands, ef um er að ræða búferlaflutninga og dýrið hefur verið í eigu og umsjá innflytjanda í a.m.k. sex mánuði fyrir innflutning. Þessu til staðfestingar skal leggja fram gögn sem Matvælastofnun metur gild. Hundur eða köttur sem fluttur er til Íslands á þessum forsendum skal uppfylla heilbrigðisskilyrði samkvæmt landaflokki 2. Sækja skal um leyfi til innflutnings í þjónustugátt MAST (umsókn nr. 2.33).
Reglulegt endurmat viðurkenndra útflutningslanda
Viðauki við reglugerð nr. 200/2020 um innflutning hunda og katta verður endurskoðaður tvisvar á ári (í september og í mars). Lönd sem þegar eru í viðaukanum eru þá endurmetin og sjúkdómastaða þeirra könnuð. Auk þess verða tekin til skoðunar lönd sem stofnunin hefur fengið sérstakar beiðnir um að meta, svo og lönd sem áður hafa verið metin en ekki viðurkennd. Stuðst er við sjúkdómalista á vef OIE (Alþjóðadýraheilbrigðisstofnunarinnar) sem er uppfærður reglulega auk vísindagreina um dýrasjúkdóma. Ef niðurstaða matsins felur í sér að gera þurfi breytingar á viðaukanum, þ.e. fjarlægja eða bæta við nýjum löndum eða flytja lönd á milli landaflokka, mun Matvælastofnun senda erindi þess efnis til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins.
Hægt er að óska eftir mati Matvælastofnunar á viðurkenndum útflutningslöndum sem ekki er að finna á viðauka við gildandi reglugerð um innflutning hunda og katta. Senda skal rökstudda beiðni þess efnis til petimport@mast.is.
2. Kanna hvort kötturinn sé hæfur til innflutnings
Óheimilt er að flytja inn:
- Kettlingafullar læður og læður með kettlinga á spena.
- Ketti sem hafa slasast eða undirgengist aðgerðir fyrir innflutning, allt fram að innflutningsdegi, og/eða þarfnast aukins eftirlits eða eftirmeðferðar af nokkru tagi, nema með sérstöku leyfi Matvælastofnunar.
3. Sækja um innflutningsleyfi
Innflytjandi ber ábyrgð á því að öll innflutningsskilyrði séu uppfyllt.
- Sækja skal um innflutningsleyfi í þjónustugátt MAST. Nota skal rafræn skilríki eða íslykil við innskráningu. Þeir sem búsettir eru erlendis og/eða hafa hvorki rafræn skilríki né íslykil geta notað enskt umsóknareyðublað. Eyðublaðið skal fyllt út, undirritað og sent til petimport@mast.is.
- Upplýsingar um útflutningsland, kattategund og örmerki kattar skulu liggja fyrir þegar sótt er um innflutningsleyfi.
- Þegar umsókn hefur borist Matvælastofnun fær umsækjandi senda greiðslubeiðni vegna eftirlitsgjalds að upphæð kr. 40.648. Gjaldið er vegna umsýslu, innflutningseftirlits á Keflavíkurflugvelli og útskriftarskoðunar í einangrun. Athugið að hér er um að ræða lágmarksgjald sem miðast við að fullnægjandi upplýsingar og gögn séu lögð fram innan viðeigandi tímaramma. Sé svo ekki getur það haft aukinn kostnað í för með sér og innheimt er fyrir slíkt skv. tímagjaldi.
- Innflutningsleyfið er háð þeim skilyrðum að kötturinn uppfylli öll skilyrði vegna innflutnings skv. reglugerð nr. 200/2020.
- Innflutningsleyfið gildir í eitt ár frá útgáfu þess.
- Innflutningsleyfi eru eingöngu gefin út á ensku.
4. Panta pláss í einangrun
Innflytjandi skal sjálfur panta pláss í einangrun. Á Íslandi eru tvær samþykktar einangrunarstöðvar fyrir hunda og ketti. Þær eru einkareknar og skulu uppfylla skilyrði reglugerðar nr. 201/2020 um einangrun og einangrunarstöðvar fyrir gæludýr.
Dvalartími og komudagar í einangrun
- Innfluttir kettir skulu dvelja að lágmarki 14 daga í einangrun.
- Innflytjandi skal sjálfur panta pláss í einangrun fyrir sinn kött.
- Kettir skulu fluttir inn á samþykktum komudögum. Upplýsingar um komudaga/innritunardagsetningar má finna á vefsíðu viðkomandi einangrunarstöðvar.
- Innritað er í einangrun á 3-5 daga tímabili (á samþykktum komudögum) og dýr sem eru innrituð á sama tímabili dvelja samtímis í einangrunarstöð. Hvor einangrunarstöð tekur á móti nýjum hópi á að lágmarki 3ja vikna fresti.
- Þegar innflutningsdagsetning er ákvörðuð skal hafa í huga heilbrigðisskilyrði og tímafresti m.t.t. bólusetninga oþh.
Framlenging einangrunar
Vakni grunur um alvarlegan smitsjúkdóm í dýri í einangrun er Matvælastofnun heimilt að framlengja dvalartími, ýmist allra dýra eða eingöngu þess dýrs sem við á og fer það eftir eðli smitefnis.
5. Tryggja að heilbrigðiskröfur séu uppfylltar
Nauðsynlegt er að kynna sér heilbrigðiskröfur vel þegar innflutningur er undirbúinn til þess að tryggja að kötturinn uppfylli öll skilyrði þegar að innflutningi kemur. Gera má ráð fyrir að undirbúningur vegna innflutnings katta til Íslands taki frá nokkrum vikum til allt að 6 mánaða. Hér má sækja ítarlegar leiðbeiningar og vottorðseyðublöð sem nota skal vegna innflutnings.
Ábending vegna hundaæðis og innflutnings frá landaflokki 2
Hætta á hundaæðissmiti er meiri í löndum í landaflokki 2 og því er undirbúningur vegna innflutnings frá þeim löndum tímafrekari. Allir hundar og kettir skulu bólusettir gegn hundaæði. 30 dögum síðar skal taka blóðprufu og mæla mótefni til að staðfesta að bólusetningin hafi skilað árangri. En þar sem meðgöngutími hundaæðisveirunnar getur verið mjög langur þurfa að líða 90 dagar eftir mótefnamælinguna til þess að ganga úr skugga um að dýrið beri ekki einkenni hundaæðis áður en það er flutt til Íslands. Þessar reglur eru samkvæmt ráðleggingum Alþjóðadýraheilbrigðisstofnunarinnar (OIE) um varnir gegn hundaæði.
Landaflokkur 1
- Vottorð C1
- Leiðbeiningar C1 um heilbrigðisskilyrði og útfyllingu vottorðs
- Leiðbeiningar C1 á ensku
- Leiðbeiningar um sníkjudýrameðhöndlun katta fyrir innflutning (eingöngu á ensku)
Landaflokkur 2
- Vottorð C2
- Leiðbeiningar C2 um heilbrigðisskilyrði og útfyllingu vottorðs
- Leiðbeiningar C2 á ensku
- Leiðbeiningar um sníkjudýrameðhöndlun katta fyrir innflutning (eingöngu á ensku)
Senda skal skannað afrit af fullkáruðu, undirrituðu vottorði í síðasta lagi 5 dögum fyrir áætlaða innflutningsdagsetningu hundsins, til samþykktar, til petimport@mast.is.
Viðurkenndar rannsóknarstofur vegna mælinga á mótefnum vegna hundaæðis
Allir kettir sem fluttir eru til landsins skulu vera bólusettir gegn hundaæði. Í fyrsta lagi 30 dögum eftir bólusetningu skal taka blóðsýni og senda á rannsóknarstofu þar sem mótefnamæling m.t.t. hundaæðis fer fram. Mælist mótefni jafnt og/eða hærra en 0,5 a.e./ml er heimilt að flytja dýrið til landsins. Ath! ef kötturinn kemur frá landi í landaflokki 2 þá má flytja hann til landsins í fyrsta lagi 90 dögum eftir sýnatöku. Ekki er krafa um slíkan biðtíma ef hundurinn kemur frá landi í landaflokki 1.
Eingöngu eru teknar gildar rannsóknarniðurstöður vegna hundaæðismótefnamælinga frá viðurkenndum rannsóknarstofum. Evrópusambandið birtir lista yfir þær rannsóknarstofur sem uppfylla skilyrði hvað þetta varðar. Bæði er um að ræða rannsóknarstofur innan og utan ESB. Athugið að nota má hvaða viðurkenndu rannsóknarstofu sem er, ekki er nauðsynlegt að nota rannsóknarstofu í viðkomandi útflutningslandi.
ATH! Okkur hjá Matvælastofnun hafa borist ábendingar þess efnis að vegna innrásar Rússlands í Úkraínu geti tekið lengri tíma en venjulega að fá niðurstöður úr mótefnamælingu gegn hundaæði. Í stað 2-3 vikna biðtíma getur tekið 4-8 vikur að fá niðurstöðurnar, þó það sé ekki algilt. Við hvetjum því innflytjendur til þess að sinna bólusetningu og mótefnamælingu við hundaæði tímanlega.
Viðurkenndar rannsóknarstofur m.t.t. mælinga á hundaæðismótefni
6. Reiknivél
Undirbúningur innflutnings kallar á nokkrar heimsóknir til dýralæknis í útflutningslandinu. Reiknivélin býr til dagatal sem tekur mið af landaflokki og komudegi kattar.
ATH! Okkur hjá Matvælastofnun hafa borist ábendingar þess efnis að vegna innrásar Rússlands í Úkraínu geti tekið lengri tíma en venjulega að fá niðurstöður úr mótefnamælingu gegn hundaæði. Í stað 2-3 vikna biðtíma getur tekið 4-8 vikur að fá niðurstöðurnar, þó það sé ekki algilt. Við hvetjum því innflytjendur til þess að sinna bólusetningu og mótefnamælingu við hundaæði tímanlega og taka ekki mið af reiknivélinni hér að neðan í blindni, þar sem hún sýnir einungis síðustu mögulegu dagsetningu fyrir bólusetningu og mótefnamælingu en þær má báðar gera fyrr í ferlinu (svo fremi sem gæludýrið hafi náð tilskildum aldri).
7. Gera ráðstafanir vegna flutnings til Íslands
Gera skal ráðstafanir vegna flugs til Íslands með góðum fyrirvara.
- Taka skal tillit til bólusetninga og mótefnamælingar m.t.t. tímafresta þegar innflutningsdagsetning er ákvörðuð.
- Eingöngu er heimilt að flytja ketti til landsins með flugi og Keflavíkurflugvöllur er eini samþykkti innflutningsstaðurinn fyrir gæludýr.
- Ef millilenda þarf með köttinn á leiðinni frá útflutningslandi til Íslands, skal innflytjandi kanna hvaða innflutningsskilyrði gilda í viðkomandi landi.
- Flugnúmer, komudag og komutíma skal skrá í heilbrigðis- og upprunavottorð.
- Leyfilegur komutími dýra er á milli kl. 06:00 og 17:00 á fyrirfram ákveðnum komudögum. Ef koma utan þess tíma er nauðsynleg þarf að sækja um leyfi með því að senda fyrirspurn í tölvupósti til petimport@mast.is, en slíkt leyfi er ekki alltaf veitt. MAST getur veitt leyfi fyrir komu á milli kl. 17:00 og 21:00 ef starfsfólk er tiltækt, en komur eftir þann tíma verða ekki samþykktar. Þetta felur í sér talsverðan aukakostnað fyrir innflytjanda þar sem innflutningseftirlit verður þá framkvæmt utan venjulegs vinnutíma. Gæludýrum er ekki leyft að dvelja á flugvellinum yfir nótt.
- Flutningsbúrið skal uppfylla IATA kröfur og vera nógu stórt til þess að kötturinn geti staðið í því, legið og snúið sér við. Búrið á að vera úr hörðu efni sem ekki getur fallið saman og sem auðvelt er að þrífa og sótthreinsa. Ef ekki er hægt að þrífa og sótthreinsa búrið verður því fargað að loknum innflutningi. Mjúk búr og töskur eru ekki leyfilegar. Nánar má sjá um kröfur til flutningsbúra fyrir gæludýr í reglugerð nr. 80/2016 um velferð gæludýra.
8. Senda gögn til MAST 5-10 dögum fyrir innflutning
Í síðasta lagi 5 dögum fyrir áætlaðan innflutningsdag skal senda til MAST skannað afrit undirritaðs heilbrigðis- og upprunavottorðs (C1 eða C2) ásamt rannsóknarniðurstöðum eins og við á, til skoðunar og samþykktar.
- Gögnin skulu send sem viðhengi með tölvupósti til petimport@mast.is.
- Berist gögnin síðar en 5 dögum (sólarhringum) fyrir áætlaðan komudag er stofnuninni heimilt að synja innflutningi.
- Gögn vegna innflutnings dýra eru yfirfarin á virkum dögum, á afgreiðslutíma MAST.
- Ef ekki eru gerðar athugasemdir við heilbrigðis- og upprunavottorð, er það undirritað og staðfest af og tilkynning þess efnis send innflytjanda.
- Ekki er heimilt að senda kött af stað til Íslands nema staðfesting hafi borist frá MAST um að innflutningur sé heimilaður.
9. Flug til Íslands
Flytja skal ketti sem farangur eða frakt. Ekki er gerð krafa um fylgdarmann. Mikilvægt er að sjá til þess að flutningsbúr uppfylli skilyrði og að öll nauðsynleg gögn fylgi hundinum.
Flutningsbúrið skal uppfylla IATA kröfur og vera nógu stórt til þess að kötturinn geti staðið í því, legið og snúið sér við. Búrið á að vera úr hörðu efni sem ekki getur fallið saman og sem auðvelt er að þrífa og sótthreinsa. Ef ekki er hægt að þrífa og sótthreinsa búrið verður því fargað að loknum innflutningi. Mjúk búr og töskur eru ekki leyfilegar. Nánar má sjá um kröfur til flutningsbúra fyrir gæludýr í reglugerð nr. 80/2016 um velferð gæludýra.
Eftirfarandi gögn skulu fylgja hundinum til Íslands (í umslagi sem límt er á búrið)
- Innflutningsleyfi (má vera afrit)
- Frumrit heilbrigðis- og upprunavottorðs (C1/C2)
- Frumrit (eða staðfest afrit) rannsóknarskýrslu vegna hundaæðismótefnamælingar
- Frumrit (eða staðfest afrit) rannsóknarskýrslu annarra rannsókna (FIV, FeLV)
Innflutningseftirlit
Við komu til Keflavíkurflugvallar eru kettir fluttir rakleiðis í móttökustöð gæludýra þar sem innflutningseftirlit fer fram. Eftirlitið felst í því að sannreyna örmerkisnúmer kattarins, að öll tilskilin gögn fylgi kettinum og að hann hafi ekki augljós einkenni smitsjúkdóms. Komi upp athugasemdir við innflutningseftirlit er haft samband við innflytjanda símleiðis. Að loknu innflutningseftirliti er kötturinn afhentur flutningsaðila viðkomandi einangrunarstöðvar sem flytur hann í einangrunarstöð.
Tollskýrsla
Hafi eigandi átt dýrið skemur en 12 mánuði ber honum að greiða virðisaukaskatt af kaupverði dýrsins við innflutning. Innflytjendum er skylt að leggja fram tollskýrslu hjá tollstjóra, þ.á.m. vörureikning þar sem fram koma upplýsingar um nöfn og heimili seljanda og kaupanda, útgáfustað og dag og hvenær sala fór fram. Ganga skal frá greiðslu áður en dýrið er útskrifað úr einangrun. Vinsamlegast hafið samband við Miðlun hjá Icelandair Cargo ehf. í tollskyrsla@icelandaircargo.is. Hafi innflytjandi átt dýrið lengur en 12 mánuði gæti hann þurft að leggja fram gögn því til staðfestingar.