Vottunarskylda
Óheimilt er að nota hvers kyns orð hugtök eða myndir sem vísa í lífræna framleiðslu á merkingum umbúða, í auglýsingaefni eða viðskiptaskjölum nema framleiðslan uppfylli skilyrði í reglugerð um lífræna framleiðslu og hafi hlotið vottun til notkunar á vörumerkinu, sjá nánar í 13. grein (g) í lögum um matvæli nr. 93/1995.
Skráning rekstraraðila, vottun og undanþága frá vottunarkröfu er nánar skilgreind í reglugerð 205/2023um lífræna framleiðslu og merkingu lífrænt ræktaðra vara. Rekstraraðilar sem hyggja á framleiðslu, sölu eða dreifingu á lífrænum vörum skulu tilkynna starfsemi sína til Matvælastofnunar í gegnum þjónustugátt Mast á umsókn nr. 4.49
Reglurnar gilda um lífræna framleiðslu landbúnaðarafurða, lagareldisdýra, sjávargróðurs, matvæla og fóðurs, aðlögun að lífrænni framleiðslu og merkingu lífrænna vara. Reglugerðin gildir um öll stig framleiðslu, vinnslu, dreifingar og sölu, sem og innflutning á slíkum vörum frá löndum utan EES.
Fyrirkomulag vottunar og eftirlits með lífrænni framleiðslu
Matvælastofnun hefur framselt vottun og eftirlit með lífrænni framleiðslu til sjálfstætt starfandi vottunarstofu. Vottunarstofan Tún er eini aðilinn sem hefur faggildingu til að votta lífræna framleiðslu á Íslandi en fleiri hafa ekki sóst eftir að sinna þessu verkefni hérlendis.
Allir sem rækta, framleiða, geyma, dreifa, selja eða flytja, lífrænt vottuð matvæli eða fóður, inn eða út úr landinu skulu hafa vottun frá faggildri vottunarstofu.
Undanþága frá vottunarskyldu er fyrir smásöluaðila sem eingöngu afhenda neytendum forpakkaða vöru á sölustað og geyma vörurnar á staðnum í tengslum við söluna.
Vottun um lífræna framleiðslu kemur ekki í staðinn fyrir hefðbundið starfsleyfi til matvælavinnslu frá Mast eða heilbrigðisnefnd viðkomandi sveitarfélags eftir því sem við á.
Einkaleyfastofan faggildir vottunarstofur fyrir lífræna framleiðslu. Matvælastofnun fer með yfirumsjón með vottunarstofum og sér um eftirlit með innflutningi lífrænna vara frá löndum utan EES.
Undanþágur frá vottunarskyldu
Undanþága frá vottunarskyldu er fyrir smásöluaðila sem eingöngu afhenda neytendum forpakkaða vöru á sölustað og geyma vörurnar á staðnum í tengslum við söluna.
Undanþegnir vottum eru þeir sem eingöngu selja forpakkaðar lífrænar vörur beint til neytenda, (34. grein 2.lið (ESB) nr. 2018/848). Þetta eru þá sölustaðir eins og hverfisverslanir og sjoppur sem ekki eru með aðra starfsemi en að taka við, geyma og afhenda vörur til neytenda. Heildsalar og dreifingaraðilar, sem geyma vörur og dreifa áfram hvort sem það er til smásölu, á veitingastaði, í stóreldhús eða í netsölu, skulu allir vera undir sérstöku eftirliti með lífrænum vörum og með vottun. Þetta á við hvort sem þeir fá vörur eingöngu frá EES eða einnig frá þriðju löndum.
Íslandi er heimilt að undanskilja rekstraraðila sem selja ópakkaðar lífrænar vörur beint til lokaneytenda með sömu skilyrðum, og til viðbótar skilyrðum varðandi umfang sölunnar sem sett eru í 4. grein í reglugerð 205/2023 sem innleiðir (ESB) nr. 2018/848. Sjá nánar í 35. Grein, 8. lið (EU) nr. 2018/848.
Þeir sem telja sig vera undanþegna kröfunni um vottorð samkvæmt greinum 34(2) eða 35(8) skulu geta sýnt fram á að þeir uppfylli skilyrði undanþágunnar og að vörurnar sem þeir selja komi frá vottuðum aðila, sjá nánar 38. grein í (ESB) nr. 2018/848).
Vottorð
Mast og Tún geta flett upp vottorðum aðila á EES-svæðinu sem eiga framleiðsluvörur á markaði á Íslandi og sömuleiðis vottorðum aðila í þriðju ríkjum. Auk þess birtir Vottunarstofan Tún lista yfir vottaða rekstraraðila á heimasíðu sinni Lífrænt Vottaðir aðilar — Vottunarstofan Tún.
Hvað stendur fyrir utan reglur um lífræna framleiðslu?
Afurðir sem unnar eru úr villtum dýrum og lagardýrum falla ekki undir ákvæði þessarar reglugerðar. Þó geta matvæli sem einnig innihalda landbúnaðarafurðir verið vottuð hvað varðar þann hluta. Dæmi eru, niðursoðin þorsklifur með lífrænum sítrónusafa, Ansjósur niðursoðnar í lífrænni ólífuolíu. Ef allar landbúnaðarafurðir í vörunni eru vottaðar lífrænar má merkja þær sem lífrænar.
Reglugerðin tekur ekki til matvæla sem tilreidd eru í stóreldhúsum, s.s. veitingahúsum, mötuneytum, skólum, sjúkrahúsum og veitingaþjónustufyrirtækjum þar sem matvæli eru, sem þáttur í rekstrinum, tilreidd til að vera tilbúin til neyslu lokaneytenda.
Sömuleiðis nær reglugerðin ekki til framleiðslu eða markaðssetningu snyrtivara. Þær geta þó verið framleiddar úr vottuðum lífrænum landbúnaðarafurðum sem uppfylla allar reglur. Þrátt fyrir það eru snyrtivörur fyrir utan gildissvið matvælalaga og mega ekki nota vottunarmerki ESB, „græna laufið“ og eru ekki hluti af eftirlitskerfi með lífrænum matvælum.