Fullyrðingar
Fullyrðingar er varða matvæli eru algengar á umbúðum, í auglýsingum, á netsíðum og víðar. Strangar reglur gilda um notkun fullyrðinga en því miður er algengt að sjá ólöglegar fullyrðingar í notkun. Algengt er að fullyrðingar vísi til þess að varan eða innihaldsefni hennar hafi jákvæð áhrif í næringarfræðilegum eða heilsufarslegum skilningi. Slíkar fullyrðingar nefnast næringar- og heilsufullyrðingar.
Næringar- og heilsufullyrðingar
Næringarfullyrðingar eru fullyrðingar um jákvætt næringarlegt gildi matvæla. Þetta eru t.d. fullyrðingar um að matvæli innihaldi næringarefni eins og vítamín, steinefni, prótein eða trefjar, og fullyrðingar um næringarefni sem fjarlægð eru úr matvælum eða magn þeirra skert, þar sem þau eru almennt ekki talin æskileg til neyslu í miklu magni, eins og t.d. mettuð fita eða viðbættur sykur.
Heilsufullyrðingar eru fullyrðingar um að tengsl séu milli heilbrigðis/heilsu og ákveðins matvælaflokks, ákveðinnar matvöru eða eins af innihaldsefnum þeirra.
Fullyrðingar sem ekki eru næringar- eða heilsufullyrðingar
Um fullyrðingar er varða matvæli, sem ekki eru næringar- eða heilsufullyrðingar gilda ákvæði í matvælalögum og öðrum reglugerðum.
Dæmi um þannig fullyrðingar eru:
„Án litarefna“, „Án rotvarnarefna“, „Gerlaus“, „Inniheldur heilkorn“.
Þegar slíkar fullyrðingar eru notaðar er mikilvægt að hafa í huga ákvæðið um að ekki skuli gefa í skyn að matvæli hafi tiltekin sérkenni ef öll sambærileg matvæli hafa í raun þessi sérkenni. Sem dæmi þá væri ekki heimilt að fullyrða „án rotvarnarefna“ um frosinn fisk, þar sem óheimilt er að nota rotvarnarefni í frosinn fisk og því ljóst að öll sambærileg matvæli hafa þann eiginleika að vera „án rotvarnarefna.“
Reglur um næringar- og heilsufullyrðingar
Reglugerð Evrópusambandsins (ESB) nr. 1924/2006 um næringar- og heilsufullyrðingar var gefin út í ESB í desember 2006 og tók þar gildi 1. júlí 2007. Með henni voru settar fyrstu samræmdu reglurnar um notkun fullyrðinga í aðildarlöndunum. Reglugerðin tók gildi á Íslandi þann 28. apríl 2010 með reglugerð nr. 406/2010.
Megin þema reglugerðarinnar er að aðeins er leyfilegt að nota þær næringar- og heilsufullyrðingar sem eru á viðeigandi listum yfir leyfilegar næringar- eða heilsufullyrðingar og með þeim skilyrðum sem sett eru fyrir notkun hverrar fullyrðingar, ásamt nokkrum almennum skilyrðum. Það er framkvæmdastjórn Evrópusambandsins sem tekur ákvörðun um hvaða fullyrðingar komast á lista yfir leyfilegar næringar- og heilsufullyrðingar, að fengnu mati frá Matvælaöryggisstofnun Evrópu (EFSA).
Tilkynning á næringar- eða heilsufullyrðingu
Fullyrðingaskrá Evrópusambandsins
Til að halda utan um leyfilegar næringar- og heilsufullyrðingar hefur framkvæmdastjórn Evrópusambandsins komið á fót fullyrðingaskrá. Upplýsingar í fullyrðingaskránni eru á ensku.
Fullyrðingaskráin er aðgengileg almenningi og gildir skráin um allt Evrópusambandið. Í hennikemur eftirfarandi fram:
- listi yfir leyfilegar næringarfullyrðingar og skilyrðin sem gilda um þær,
- listar yfir leyfilegar heilsufullyrðingar og skilyrðin sem gilda um notkun þeirra,
- listi yfir heilsufullyrðingar, sem hefur verið hafnað, ásamt ástæðum fyrir höfnun þeirra,
- heilsufullyrðingar, sem eru leyfðar á grundvelli gagna, sem njóta einkaleyfisverndar, eru skráðar í sérstökum viðauka við fullyrðingaskrána.
Matvælafyrirtæki mega nota heilsufullyrðingar sem eru tilgreindar á fullyrðingalistunum í samræmi við skilyrðin sem gilda um þær, svo framarlega sem notkun þeirra sé ekki takmörkuð með gagnavernd.
Íslenskir listar yfir leyfilegar næringar- og heilsufullyrðingar
Þessi síða er í vinnslu.
Umsókn um notkun nýrra heilsufullyrðinga
Sé heilsufullyrðing, sem framleiðandi eða innflytjandi hyggst nota á vöru sína, byggð á nýlega framkomnum rannsóknaniðurstöðum og ef hún er ekki á lista Evrópusambandsins yfir leyfilegar heilsufullyrðingar þarf að sækja um leyfi til notkunar hennar. Umsóknin fer þá í ákveðið ferli hjá Matvælaöryggisstofnun Evrópu (EFSA) og framkvæmdastjórn Evrópusambandsins. Framleiðandi eða innflytjandi fyllir út umsókn samkvæmt leiðbeiningum EFSA á þar til gerðum eyðublöðum sem nálgast má á heimasíðu EFSA og í samræmi við reglugerð Evrópusambandsins nr. 353/2008. Útfyllt umsókn er send til Matvælastofnunar sem fer yfir umsóknina áður en hún er send til EFSA sem metur fullyrðinguna eftir þeim vísindalegu gögnum sem henni fylgja.
Önnur ákvæði í lögum og reglugerðum sem taka til fullyrðinga
Í matvælalögum og öðrum reglugerðum er einnig að finna ákvæði sem snúa að fullyrðingum varðandi matvæli.
Í lögum nr. 93/1995, um matvæli:
- “Óheimilt er að hafa matvæli á boðstólum eða dreifa þeim þannig að þau blekki kaupanda að því er varðar uppruna, tegund, gæðaflokkun, samsetningu, magn, eðli eða áhrif“ (11. gr.).
- “Óheimilt er að villa um fyrir neytendum með merkingu, auglýsingu og framsetningu matvæla [...].” (18. gr.).
Í reglugerð nr. 1294/2014 um miðlun upplýsinga um matvæli til neytenda:
- Matvælaupplýsingar skulu ekki vera villandi hvað varðar sérkenni matvælanna og einkum eðli þeirra, auðkenni, eiginleika og samsetningu.
- Matvælum skulu ekki eignuð áhrif eða eiginleika sem þau búa ekki yfir.
- Ekki skal gefið í skyn að matvæli búi yfir sérstökum sérkennum þegar reyndin er sú að öll svipuð matvæli búa yfir þessum sérkennum, einkum með því að leggja sérstaka áherslu á að í þeim séu eða séu ekki tiltekin innihaldsefni og/eða næringarefni.
- Matvælaupplýsingar skulu ekki eigna matvælum þann eiginleika að koma í veg fyrir, vinna á eða lækna sjúkdóm í mönnum, né heldur vísa til slíkra eiginleika.
Í reglugerð nr. 624/2004, um fæðubótarefni:
- Óheimilt er í merkingu, auglýsingu og kynningu fæðubótarefna að staðhæfa eða gefa í skyn að nægilegt magn næringarefna fáist ekki almennt úr rétt samsettri eða fjölbreyttri fæðu.
- Óheimilt að eigna fæðubótarefnum þá eiginleika að fyrirbyggja, vinna á eða lækna sjúkdóma manna eða gefa í skyn slíka eiginleika.
Í lögum nr. 100/2020 um lyf:
- Óheimilt er við markaðssetningu almennrar vöru, s.s. fæðubótarefnis, að ætla henni eiginleika lyfs, þ.e. að vara er sögð búa yfir eiginleikum sem koma að gagni við meðferð sjúkdóma í mönnum eða dýrum eða við forvarnir gegn sjúkdómum.
- Áletranir sem eru sjúkdómsfullyrðingar og falla undir lyfjalög nr. 100/2020 eru ekki heimilar til notkunar við markaðssetningu matvæla og eru óheimilar á almennri vöru s.s. fæðubótarefnum og öðrum matvælum.