Glúten
Glútenlaus og glútenskert
Leggja þarf sérstaka áherslu á ofnæmis- og óþolsvaldandi efni í innihaldslýsingu sem tilgreind eru í viðauka II í reglugerð nr. 1169/2011. Það má gera með sérstakri leturgerð, s.s. með annars konar bakgrunnslit eða feitletrun. Efst á lista eru kornvörur sem innihalda glúten, það er hveiti, rúgur, bygg, hafrar, spelt, taumhveiti (kamut) eða blendingar þeirra og afurðir úr þeim.
Glúten er prótein sem finnst í korntegundum eins og hveiti, rúgi, byggi, höfrum eða víxluðum yrkjum af þeim og afleiðum. Þegar talað er um hveiti er átt við allar tegundir af ættkvíslinni Triticum.
Matvæli má merkja með orðunum glútenlaus eða glútenskert að eftirfarandi skilyrðum uppfylltum:
- Glútenlaus - Má aðeins nota um matvæli sem innihalda ekki meira en 20 mg/kg af glúteni.
- Afar lítið glúteninnihald - Má aðeins nota um matvæli sem gerð eru úr, eða innihalda, eitt eða fleiri innihaldsefni úr hveiti, rúgi, byggi, höfrum eða víxluðum yrkjum, sem hafa verið sérstaklega unnin til að draga úr glúteni, sem innihalda ekki meira en 100 mg/kg af glúteni í matvælum.
Viðbótarkröfur varðandi matvæli sem innihalda hafra
Hafrar í matvælum sem eru kynnt sem glútenlaus eða með afar lítið glúteninnihald verða að hafa verið sérstaklega framleiddir, tilreiddir og/eða unnir þannig að komið sé í veg fyrir mengun af hveiti, rúgi, byggi eða víxluðum yrkjum af þeim. Glúteninnihald slíkra hafra má ekki fara yfir 20 mg/kg.
Ekki má merkja með „glútenlaus“ eða „glútenskert“ í eftirfarandi tilvikum:
- Þegar um ungbarnablöndur og stoðblöndur er að ræða, skv. 4. gr. EB reglugerð nr. 828/2014,
- Þegar um er að ræða vörur sem innihalda venjulega ekki glúten getur það verið villandi að merkja sem glútenlaus eða glútenskert. Samkvæmt 7. gr. í EB reglugerð nr. 1169/2011 þá mega matvælaupplýsingar ekki vera villandi þannig að gefið sé í skyn að matvælin búi yfir sérstökum sérkennum þegar reyndin er sú að öll svipuð matvæli búa yfir þessum sérkennum, einkum með því að leggja sérstaka áherslu á að í þeim séu eða séu ekki tiltekin innihaldsefni og/eða næringarefni.