Fara í efni

Ræktun og pökkun matjurta

Ræktendur matjurta í  atvinnuskyni eiga skv. matvælalögum að skrá starfsemi sína hjá heilbrigðiseftirlitinu á því svæði þar sem ræktandi er. Heiðbrigðiseftirlitið heldur skrá um ræktendur matjurta. Einnig skal tilkynna breytingar á starfseminni til viðkomand heilbrigðiseftirlits s.s. ræktun óskyldra tegunda og stöðvun starfsemi. 

Hollustuhættir

Með matjurtarækt er átt við ræktun matjurta hvort sem það er útiræktun, inniræktun eða ræktun á korni til manneldis og telst slík ræktun til frumframleiðslu.

Allir þeir sem stunda matjurtarækt þurfa að kynna sér almenn ákvæði um hollustuhætti við frumframleiðslu og tengda starfsemi sem sett eru fram í I. viðauka reglugerðar EB nr. 852/2004 um hollustuhætti sem varða matvæli en sú reglugerð var innleidd  með reglugerð nr. 103/2010. 

Almenn ákvæði um hollustuhætti og kröfur um varnir gegn hvers konar mengun frumframleiðsluvara eru settar fram í 2. og 3. tölulið undir II. lið A- hluta viðaukans.  Undir 5. tölulið  eru settar fram kröfur til þeirra sem framleiða eða skera upp plöntuafurðir.

Ræktendur matjurta skulu eftir því sem við á gera eftirfarandi ráðstafanir sbr 5. tölulið í I. viðauka reglugerðarinnar:

  1. Halda skal aðstöðu, búnaði og flutningstækjum hreinum
  2. Tryggja að plöntuafurðir séu hreinar og framleiðsla þeirra fari fram við hollustusamleg skilyrði
  3. Nota neysluvatn eða annað hreint vatn til að fyrirbyggja mengun afurða
  4. Sjá til þess að starfsfólk fái fræðslu um hættur og að starfsfólk sé heilbrigt 
  5. Hindra mengun afurða af völdum húsdýra og meindýra 
  6. Koma í veg fyrir mengun af völdum úrgangs og hættulegra efna. 
  7. Taka tillit til rannsóknaniðurstaðna sem varða matvælaöryggi, þ.e bregðast við niðurstöðum með úrbótum og eða stöðvun dreifingar /innköllun eftir því sem ástæða er til.  
  8. Nota plöntuverndarvörur s.s. illgresis-, sveppa og skordýraeyða á ábyrgan hátt 

Ræktendur matjurta skulu skrá sbr. 7. og 9. tölulið í I. viðauka reglugerðarinnar:

  1. Alla notkun plöntuverndar- og sæfivara
  2. Öll tilvik sjúkdóma eða skaðvalda sem geta haft áhrif á matvælaöryggi
  3. Allar niðurstöður rannsókna 

Skráning á notkun varnarefna (plöntuverndar- og sæfivara) fellst í skráningu á vöruheiti, dagsetningu notkunar, á hvaða hluta ræktunar (svæði) efnin eru notuð og uppskerufresti (tími frá notkun þar til uppskera má fara fram).  Mikilvægt er að ræktendur matjurta  sannreyni að efnin séu á lista yfir skráð varnarefni og þekki hvernig eigi að nota efnin og geti gert grein fyrir blöndun þeirra.  Lista yfir skráð varnarefni má finna á vef Umhverfisstofnunar en þar er listi yfir markaðsleyfi og tímabundundna skráningu plöntuverndarvara

Rekjanleiki

Ræktendur skulu tryggja rekjanleika sbr. grein 13 a í lögum um matvæli. Þeir skulu geta tilgreint þá aðila sem þeir hafa fengið aðföng frá s.s. útsæði, ungplöntur, fræ og plöntuverndarvörur. Einnig skulu þeir geta tilgreint kaupendur afurða og þannig tryggja rekjanleika í báðar áttir en slíkt er nauðsynlegt til að geta brugðist við frávikum  s.s.  stöðva dreifingu afurða ef þörf er á.

Meðhöndlun og pökkun matjurta

Starfsleyfi

Þeir sem  meðhöndla og pakka matjurtum í neytendaumbúðir skulu hafa starfsleyfi frá Heilbrigðiseftirliti sveitarfélagsins. 

Þeir sem meðhöndla  og pakka matjurtum í neytendaumbúðir skulu fullnægja eftirfarandi kröfum sbr. I. kafla í II. viðauka reglugerðar nr. 103/2010 um gildistöku reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 852/2004 um hollustu er varða matvæli sem og aðrar reglugerðir sem eru tilgreindar undir viðkomandi liðum:

Hollustuhættir

  1. Halda skal athafnasvæðum þar sem matvæli eru meðhöndluð hreinum og í góðu standi.
  2. Skipulag athafnasvæða skal fyrirbyggja krossmengun, þ.m.t. loftborna mengun, koma í veg fyrir að óhreinindi safnist fyrir og vera þannig hannað að koma megi við góðum hollustuháttum.
  3. Gólf, loft, veggir, gluggar og dyr séu í góðu standi, auðvelt að þrífa og séu ekki úr óþéttum, íseygum eða eitruðum efnum. Þetta á líka við um alla yfirborðsfleti.
  4. Fullnægjandi aðstaða skal vera fyrir hendi til að þrífa, sótthreinsa og geyma áhöld og búnað, eftir því sem við á.
  5. Fullnægjandi aðstaða skal vera til að skola matvæli eftir því sem nauðsyn krefur.
  6. Lágmarka skal krossmengun, aðra mengun og útbreiðslu meindýra. Sérstakt pökkunarrými skal vera til staðar. Sama gildir um aðra meðhöndlun/vinnslusvæði matjurta
  7. Hæfilegur fjöldi handlauga ásamt viðeigandi búnaði, skal vera í pökkunarrými.
  8. Fjöldi vatnssalerna skal vera nægur og þau skulu tengd við skilvirkt frárennsliskerfi. Salerni mega ekki opnast beint inn í rými þar sem matvæli eru meðhöndluð. Þar skal vera næg loftræsting, náttúruleg eða vélræn.
  9. Loftræsting skal vera við hæfi og nægileg, annaðhvort náttúruleg eða vélræn. Forðast skal vélrænt streymi lofts frá menguðu svæði inn á hreint svæði. Loftræstikerfi skulu þannig byggð að auðvelt sé að komast að síum og öðrum hlutum sem þarf að hreinsa eða skipta um.
  10. Lýsing skal vera næg, náttúruleg eða vélræn, þar sem matvæli eru meðhöndluð.
  11. Umbúðageymslur skulu vera afmarkaðar.
  12. Ekki skal geyma eiturefni, hreinsiefni, sótthreinsiefni eða önnur hættuleg efni á svæðum þar sem matvæli eru meðhöndluð.
  13. Búnaður til hitastýringar, rakastýringar og stjórnunar á samsetningu andrúmslofts skal vera til staðar þar sem við á.
  14. Innra eftirlit skal vera í samræmi við starfsemina.  Sjá bækling um innra eftirlit sem finna má á vef Matvælastofnunar.
  15.  Búningsaðstaða skal vera fyrir starfsfólk, eftir því sem þörf krefur.
  16. Neyslu- og vinnsluvatn skal koma úr viðurkenndu vatnsbóli með starfsleyfi og uppfylla kröfur reglugerðar nr. 536/2001 um neysluvatn.
  17. Umbúðir matvæla skulu uppfylla kröfur reglugerðar nr. 398/2008 um efni og hluti sem snerta matvæli og skulu umbúðir og/eða fylgiskjöl þeirra vera auðkennd með áletrun sem lýsir notkunarsviði (merki sem sýnir glas og gaffal).
  18. Merkingar matvæla skulu uppfylla reglugerð nr. 1294/2014. Innpakkaðar matjurtir skulu m.a. þyngdarmerktar, merktar framleiðslulotu eða geymsluþoli, merktar uppruna og tegundarheiti (á líka við um kartöflur í lausasölu) o.fl.
  19. Rekjanleiki skal tryggður þannig að framleiðendur getir tilgreint hvaðan þeir fá aðföng og hverjum þeir selja afurðir sínar.   

Hér að ofan er vísað til lágmarkskrafna sem gerðar eru til starfseminnar hvað varðar lög um matvæli og reglugerðir sem settar eru með stoð í lögum um matvæli. Rekstaraðili  getur  jafnframt þurft að uppfylla ákvæði annarra laga og reglna sem um starfsemina gilda.

Framleiðandi ákvarðar geymsluþol vörunnar og ber ábyrgð á að matjurtir séu hæfar til neyslu út uppgefinn geymslutíma, að því tilskildu að matjurtirnar séu meðhöndlaðar rétt á öllum stigum dreifingar. Framleiðandi skal jafnframt geta sýnt fram á gæði vörunnar með niðurstöðu úr sýnatökum, sé eftir því kallað. 

Sýnatökur

Í reglugerð um örverufræðileg viðmið eru tilgreind örverufræðileg viðmið fyrir bauna- og fræspírur sem eru tilbúnar til neyslu og niðurskorið grænmeti tilbúið til neyslu. Framleiðendur eru hvattir til að kynna sér reglugerðina og leiðbeiningar Matvælastofnunar um reglugerðina og taka sýni til greiningar á þeim örverum sem tilgreindar eru fyrir matvælaflokkinn í reglugerðinni.  Leiðbeiningarnar má finna á vef Matvælastofnunar undir innra eftirlit

Uppfært 21.01.2020
Getum við bætt efni síðunnar?