Fara í efni

Eigendaskipti á dýrum

Við eigendaskipti á dýrum er afar mikilvægt að dýr séu rétt merkt og skráð til að tryggja að þau komist til síns heima ef þau sleppa. Merkingar og skráningarskylda hvílir á umráðamanni og skylt er að einstaklingsmerkja kanínur, ketti, hunda, geitur, hross, nautgripi, sauðfé og svín.

Gæludýr

Hunda, ketti og kanínur skal örmerkja skv. alþjóðlegum ISO-staðli og skrá í viðurkenndan gagnagrunn innan 12 vikna aldurs. Hægt er að láta örmerkja og skrá hjá dýralæknum. Einn gagnagrunnur er viðurkenndur fyrir gæludýr, www.dyraaudkenni.is. Umráðamanni ber að tryggja að upplýsingarnar séu réttar á hverjum tíma í gegnum aðgang sinn að Dýraauðkenni. Við eigendaskipti getur umráðamaður við innskráningu í Dýraauðkenni yfirfært eignarhald á dýrinu til nýs umráðamanns. Einnig er hægt að leita aðstoðar hjá dýralæknum eða starfsmanni Dýraauðkennis ef þörf er á.

Þó ekki sé skylt að undirrita kaup- eða yfirtöku samning við eigendaskipti á dýrum, er sterklega mælt með því til að enginn vafi leiki á öllum atriðum sem varða eigendaskiptin. Á vefsíðu Dýrahjálpar Ísland er að finna staðlaðan samning sem Dýrahjálp mælir sterklega með að sé notaður við eigendaskipti þeirra dýr sem eru ekki í umsjá Dýrahjálpar Íslands. Samningurinn tryggir mörg atriði sem er gott að hafa á hreinu við eigendaskipti gæludýra. Til dæmis hafa allir aðilar upplýsingar um nýja eigendur/fyrri eiganda ef eitthvað kemur upp á. Ættleiðingarsamningur Dýrahjálpar.

Ræktunarfélög hunda og katta hafa einnig oft aðgengilega slíka samninga (Hundaræktarfélag Ísland eigendaskipti, Kynjakettir eigendaskipti)

 Hross

Skylt er að örmerkja öll hross fyrir 10 mánaða aldur og skulu öll hross skráð í WorldFeng (www.worldfengur.com), sjá Merking og skráning. Við eigendaskipti er afar mikilvægt að breyting sé gerð á skráningu í WorldFeng í gegnum heimarétt eiganda.

Við eigendaskipti á hrossum er ekki síður mikilvægt að gera kaupsamning þar sem oft er um stærri fjárhæðir að ræða. Nokkrir aðilar hafa saman sett upp tillögu að stöðluðum kaupsamning fyrir eigendaskipti á hrossum sem hægt er að nýta.   

Uppfært 04.02.2020
Getum við bætt efni síðunnar?