Fara í efni

Nýfæði

Nýfæði er samheiti yfir matvæli sem ekki voru hefðbundin neysluvara í ríkjum Evrópusambandsins fyrir 15. maí 1997 þegar reglugerð ESB um nýfæði tók gildi. Þetta eru t.d. matvæli sem framleidd eru með nýjum aðferðum, matvæli sem hafa nýstárlegu hlutverki að gegna í mataræði eða matvæli sem ekki eru á markaði á ESB svæðinu þó þau þekkist í öðrum heimshlutum. Skordýr og chiafræ eru dæmi um nýjar tegundir matvæla sem komið hafa á markað á undanförnum árum.

Til að verja neytendur fyrir hugsanlegum hættulegum áhrifum af matvælum sem ekki hafa verið á markaði í Evrópu áður þarf að sækja um leyfi til að setja þau á markað.

Reglur um nýfæði hafa verið i gildi innan Evrópusambandsins í meira en 20 ár. Fyrsta reglugerð ESB var innleidd á Íslandi 2015. Samkvæmt reglugerðinni þarf að fara fram áhættumat og leyfisveiting fyrir matvælum og hráefni til matvælaframleiðslu sem ekki hefur verið neytt í umtalsverðum mæli innan sambandsins áður en reglugerðin tók gildi (1997).

Áhættumat verndar neytandann

Ástæða þess að áhættumeta þarf matvæli og veita leyfi fyrir notkun þeirra, er að tryggja þarf öryggi matvælanna og neytandinn þarf að vera upplýstur um það sem hann kaupir. Sumar tegundir jurta geta til dæmis innihaldið hættuleg náttúruleg eiturefni. Önnur matvæli geta innihaldið efni sem eru hættuleg fyrir þá sem eru með ofnæmi og óþol. Auk þess geta sum þessara matvæla haft lágt næringargildi.

Gefa þarf leyfi fyrir nýfæði

Þegar fyrirtæki sækir um leyfi fyrir nýfæði þarf það að sýna fram á að matvælin séu örugg til neyslu. Leyfið er veitt fyrirtækinu sem sækir um fyrir tiltekna tegund matvæla. Ef önnur fyrirtæki vilja selja sömu vöru verða þau að sýna fram á að þeirra vara sé sambærileg við þá vöru sem fékk leyfi. 

Nokkur dæmi um nýfæði:

  • Olía framleidd úr örþörungum
  • Chiafræ (Salvia hispanica)
  • Skordýr
  • Noni-djús
  • Ýmsar plöntur og  kryddjurtir sem notaðar eru í fæðubótarefni.

Nýjar framleiðsluaðferðir svo sem notkun á útfjólubláu ljósi til að auka D-vítamín innihald í matvælum og svokölluð nanótækni eru aðferðir sem þarfnast leyfisveitinga.

Chiafræ - ný notkun

Chiafræ teljast nýfæði innan Evrópusambandsins. Framkvæmdastjórn ESB hefur veitt leyfi fyrir notkun þeirra eins og þau koma fyrir eða til notkunar í ýmsar tegundir matvæla, s.s. morgunkorn, bökunarvörur, ávaxtasafa og matarolíu.

Ef notkunin er önnur en sú sem veitt er leyfi fyrir þarf fyrirtæki að sækja um nýtt leyfi. Dæmi um þetta væri ef fyrirtæki vildi fá að nota chiafræ í brauð í meira magni en leyft er eða í aðra tegund matvæla s.s. kornstöng (bar) eða marmelaði.  

Skordýr þarf að áhættugreina

Skordýr og skordýrahlutar eða vörur sem eru unnar úr þeim eru dæmi um nýfæði. Í ESB hefur þeirra ekki verið neytt í nógu langan tíma til að hægt sé að fullyrða að þau séu skaðlaus.

Um það bil tíu skordýrategundir hafa lengi verið á markaði ESB en ekkert fyrirtæki eða eftirlitsstofnun innan sambandsins hefur getað sýnt frammá hversu algeng þau hafa verið á markaði. Þess vegna telur framkvæmdastjórn ESB að skordýr og skordýrahlutar teljist nýfæði.

Þetta þýðir að þó að skordýr geti mjög vel verið góður matur, verður að áhættumeta þau og veita leyfi fyrir þeim áður en hægt er að setja þau á markað. Það er heldur ekki leyfilegt að rækta skordýr til notkunar í matvæli áður en þau hafa verið rannsökuð og samþykkt.

Innflutningur, sala, markaðssetning og ræktun heilla eða unninna skordýra sem nota á sem matvæli er bannaður þar til leyfi hefur verið veitt fyrir notkun skordýranna skv. reglugerð um nýfæði eða að sýnt hefur verið fram á neyslu skordýranna á ESB svæðinu fyrir árið 1997. Þetta eru tilmæli Framkvæmdarstjórnar ESB. Í sumum löndum ESB (til dæmis í Bretlandi, Belgíu, Hollandi, Danmörku og Finnlandi) var eldri reglugerð um nýfæði túlkuð  þannig að heil skordýr teldust ekki nýfæði. Í þessum löndum má selja heil skordýr án sérstaks samþykkis. Frá 1. janúar 2018 tók ný reglugerð gildi og samkvæmt henni teljast heil skordýr nýfæði. Ísland fylgir þeim tilælum ESB að skordýr verði að skoða og samþykkja áður en hægt er að nota þau sem matvæli.

Það er ákveðnum spurningum ósvarað er varðar hættu á ofnæmi, þungmálmum og náttúrulegum eiturefnum í skordýrum. Í skýrslu evrópsku matvælaöryggisstofnunarinnar (EFSA) frá 2015, er lýst hættunni sem gæti tengst skordýrum sem matvælum. Þar kemur m.a. fram að áhættan er mismunandi milli skordýrategunda og hreinlæti við framleiðsluna.

Eins og með önnur matvæli af dýraupprunna, verður að framleiða skordýr í framleiðsluaðstöðu sem tryggir hollustu og matvælaöryggi og hún þarf að vera samþykkt af ESB.

Uppfært 28.07.2022
Getum við bætt efni síðunnar?