Skelfiskur á veitingahúsum og verslunum
Vinsældir skelfisks hafa aukist undanfarin ár. Ferðamenn eru einnig áhugasamir um mat af svæðinu og því fjölgar veitingastöðum sem bjóða upp á íslenskan skelfisk þegar hann fæst. Ef skelfiski er safnað til matar þarf að ganga úr skugga um að ekki sé hætta á að hann sé eitraður vegna eitraðra svifþörunga sem hann hefur étið.
- Með skelfisk er hér átt við krækling / bláskel, ostrur, öðuskel, kúfskel, hörpudisk, önnur tvískelja lindýr sem taka til sín fæðu með því að sía hana og sæsnigla.
Skelfisk má eingöngu markaðssetja frá viðurkenndum aðilum. Skelfiskur framleiddur á Íslandi og í löndum sem eru á evrópska efnahagsvæðinu (EES) á að vera merktur með auðkennismerki sem gefur til kynna land þar sem pökkun fór fram og samþykkisnúmer starfstöðvarinnar. Auðkennismerkið gefur til kynna að starfsstöðin sé undir eftirliti viðkomandi stjórnvalds.
Skelfiskur sem er framleiddur í ríkjum utan EES skal merktur með samþykkisnúmeri / leyfisnúmeri starfstöðvarinnar sem pakkaði skelfisknum.
Á merkingum skelfisks skal koma fram upprunaland, tegund samloka á íslensku eða öðru viðurkenndu tungumáli og latneskt heiti, leyfisnúmer vinnslustöðvar, lotumerki, dagsetning pökkunar og geymslulþol eða yfirlýsingin: „Þessi skelfiskur skal vera lifandi við sölu“
Verslanir og veitingastaðir
Skyldur þeirra sem bjóða upp á skelfisk eins og krækling eru:
- Að bjóða eingöngu upp á skelfisk sem kemur frá viðurkenndum aðilum merktur með auðkennismerki eða samþykkisnúmeri sé skelfiskurinn frá löndum utan EES
- Að geyma merkimiða af skelfiski í 60 daga frá því boðið var upp á skelfiskinn til að tryggja rekjanleika ef upp koma veikindi hjá þeim sem neyttu.
Svifþörungar eru sumir eitraðir
Eitraðir svifþörungar geta sprottið upp á tímabilinu frá maí og fram eftir hausti. Skelfiskurinn sem étur eiturþörunga safnar í sig eitrinu án þess að það hafi áhrif á hann sjálfan. Eituráhrifanna gætir aftur á móti hjá þeim sem neyta skelfisks sem hefur safnað upp þörungaeitri.
Hvernig á að bregðast við skelfiskeitrun?
Skelfiskeitrun er mjög alvarleg og þarf að bregðast við henni skjótt.
Ef grunur er um skelfiskeitrun hafðu þá strax samband við lækni, næstu heilsugæslustöð eða sjúkrahús. Taktu skýrt fram að viðkomandi hafi neytt skelfisks.
Skelfiskeitrun
Aðallega er um að ræða þrenns konar eitrun sem menn þurfa að vera vakandi yfir hér við land.
- PSP eitrun (paralytic shelfish poisoning)
Veldur truflun á taugaboðum, doða í andliti og útlimum og getur valdið lömun og/eða öndunarerfiðleikum. Eitrunar verður vart fljótlega eftir neyslu eitraðs skelfisks. - DSP eitrun (diarrhetic shellfish poisoning)
Veldur ógleði, uppköstum, þrautum í kviðarholi og niðurgangi. Verður vart skömmu eftir neyslu eitraðs skelfisks. - ASP eitrun (amnesic shellfish poisoning)
Áhrif koma fram nokkrum dögum eftir neyslu eitraðs skelfisks og einkennast af ógleði, niðurgangi og minnisleysi.
Eftirlit á skelfisksvæðum
Framleiðendur vakta eitraða þörunga og þörungaeitur í skelfiski skv. fyrirmælum Matvælastofnunar.
Upplýsingar um niðurstöðurnar eru birtar jafnóðum á heimasíðu Matvælastofnunar, og þar er einnig hægt að nálgast nánari upplýsingar um eftirlit með skelfiski og leiðbeiningar fyrir ræktendur.