Þörungaeitur í skelfiski
Flestir þekkja munnmælin:
Það er óhætt að neyta kræklings sem tíndur er í mánuðum sem hafa „r“ í nafni sínu
Þessi munnmæli eru ekki rétt. Hins vegar er rétt að sjaldan eru eitraðir þörungar til staðar í teljandi mæli í umræddum mánuðum. Ef kræklingur á tilteknu svæði er yfir mörkum í eitri að hausti, losnar hann sjaldnast við eitrið fyrr en þörungablóminn hefst aftur að vori og þá er hann ekki neysluhæfur allan veturinn. Ef hins vegar tiltekinn eitraður þörungur blómstrar einnig upp að vori þá helst eitrið í skelinni fram eftir sumri og jafnvel aftur fram á hausti. Það hefur t.d. oft verið raunin í Hvalfirði.
Ath.: Matvælastofnun hefur eftirlit með ræktunarsvæðum bláskelja (kræklings) en ekki er mögulegt að hafa eftirlit með skeljatínslusvæðum.
Ræktunarsvæði: Matvælastofnun birtir hér eftirlitsniðurstöður á ræktunarsvæðum bláskelja (kræklings) fyrir þörungaeitur og eiturþörunga jafnóðum og þær koma í hús. Þessar niðurstöður segja til um hvort skel á tilteknu svæði sé neysluhæf og svæðið opið til nýtingar.
Skeljatínslusvæði: Því fylgir ávalt áhætta að neyta skelja sem safnað er við skeljatínslu og er það alltaf gert á eigin ábyrgð. Til að meta áhættu á að eitur sé í skel er hægt að nýta sér niðurstöður vöktunar frá vöktuðum ræktunarsvæðum, ef það er í nágrenninu. Þær eru að finna í tengli hér undir. Sýni eru tekin til að hægt sé að gefa út uppskeruleyfi og á sumrin (frá byrjun maí til loka september) gilda niðurstöðurnar að hámarki í 12 daga frá sýnatökudegi og að vetrarlagi að hámarki í 4 vikur. Óvissan eykst eftir því sem tíminn lengist hlutfallslega frá dagsetningu sýnatöku.
- Niðurstöður vöktunar á eiturþörungum í sjó og þörungaeitri í skel 2024
- Niðurstöður vöktunar á eiturþörungum í sjó og þörungaeitri í skel 2023
- Niðurstöður vöktunar á eiturþörungum í sjó og þörungaeitri í skel 2022
- Niðurstöður vöktunar á eiturþörungum í sjó og þörungaeitri í skel 2021
- Niðurstöður vöktunar á eiturþörungum í sjó og þörungaeitri í skel 2020
- Yfirlit yfir niðurstöður eftirlits með skelfiski frá 2011 til 2019
Nánari upplýsingar gefur fagsviðstjóri skeldýrasviðs hjá Matvælastofnun.
Opnun / lokun ræktunarsvæða
Eitt svæði er opið fyrir veiðar á villtum kræklingi og er uppskeruheimild gefin út til Þórishóma ehf, Hamraendar 5, Stykkishólmi. Samþykkisnúmer A690.
Síðast uppfært 14.11.2024
Tínsla og neysla kræklings/bláskelja frá skeljatínslusvæðum:
- Hvalfjörður: – Ekki vitað um ástandið.
- Önnur svæði: – Ekki vitað um ástand á öðrum svæðum.
Framleiðslusvæði (Ræktunar- og veiðisvæði):
Svæði | Flokkun | Tegund | Staða svæðis / athugasemdir |
Breiðafjörður (Þorskafjörður) | A | Kræklingur | Opið |
Breiðafjörður (Kiðey) | A | Kræklingur | Lokað |
Breiðafjörður (Króksfjörður) | A | Kræklingur | Lokað |
Faxaflói (Stakksfjörður) | A | Kræklingur | Lokað |
Steingrímsfjörður (Hella) | A | Kræklingur | Lokað |
Saltvík (Húsavík) | A | Ostrur | Lokað |
PSP (Paralytic Shellfish Poisoning): Saxitoxin
Neysla á PSP eitruðum skelfiskafurðum getur valdið lömun í mönnum. Eitrunareinkennin koma fram 2-12 tímum eftir neyslu, en þau eru allt frá doða í munni til lömunar og geta leitt til dauða vegna öndunarlömunar. PSP eitur eru hópur af 15 náskyldum efnum sem eru mismikið eitruð og eru þau kölluð saxitoxin. PSP hefur greinst yfir hættumörkum hér við land í skelfiski 1992, 1993 og 2009 en þá í 10 falt leyfilegu magni í Eyjafirði og 6 falt yfir mörkum í Breiðafirði. Árið 2010 greinist PSP eitur í Eyjafirði yfir mörkum í kræklingi og svo fjórfalt yfir mörkum sumarið 2016 í Breiðafirði og yfir mörkum í Steingrímsfirði bæði 2018 og 2019. PSP eitranir hafa ekki komið upp í mönnum á Íslandi svo vitað sé.
DSP (Diarrhetic Shellfish Poisoning): Lipophilic toxins
Lipophilic toxins hafa verið greind niður í nokkrar eiturgerðir, Okadaic acid og afleiður þess mynda sameiginlega "OA-group toxins". Þessi eiturefni eru fituleysanleg og hitaþolin og þau valda DSP eitrunum. (EFSA.Europa 2008). DSP hefur helst orðið vart í Evrópu og Japan, og hefur skráðum tilfellum af skelfiskeitrunum af nýjum svæðum farið fjölgandi.
- Okadaic acid hópur; OA, DTX1, DTX2, DTX3
- Pectenotoxins; PTX1, og PTX2s
- Yessotoxins; YTXs.
- Azaspiracid; AZP
AZP er að jafnaði lengi að hverfa úr skelfiski eða allt að 6 mánuði, sérstaklega þegar það kemur upp að vetrarlagi. AZP hefur greinst í kræklingi og ostrum.
ASP (Amnesic Shellfish Poisoning): Domoic sýra
Þrjá tegundir Pseudo-nitzschia finnast hér við land tegundir sem geta valdið ASP eitrun, en þeir finnast á hverju ári á þeim svæðum sem fylgst er með hér við land. Pseudo-nitzschia virðast þurfa ákveðin skilyrði til þess að blómstra og er því mjög mikill áramunur er á magni þeirra í svifinu.
Eitrunareinkenni af ASP koma fram nokkrum dögum eftir neyslu en þau eru einkum minnisleysi, ógleði og niðurgangur og geta verið banvæn. Eitrið sem veldur þessum ASP áhrifum er domoic sýra (DA). ASP hefur aldrei greinst í skelfiski hér við land svo staðfest sé, en það er þekkt að aðeins sumir stofnar Pseudo-nitzschia tegunda mynda ASP-eitur og aðrir ekki.
Ítarefni
- Fyrirkomulag áhættumiðaðs eftirlits með framleiðslusvæðum og heilnæmiskannanir
- Ræktunarleyfi fyrir skel
- Upplýsingasíða Matvælastofnunar um eftirlit með skelfiski
- Leiðbeiningar Matvælastofnunar um uppskeru og veiðar á skeldýrum
- Leiðbeiningar Matvælastofnunar um heilnæmiskönnun á framleiðslu- og veiðisvæðum samloka