Útflutningur búfjárafurða til 3. ríkja
Gerður er greinarmunur á útflutningi matvæla (dýraafurða) eftir því hvort varan er flutt til ríkis innan eða utan Evrópska efnahagssvæðisins (EES). Í EES löndum gildir sama matvælalöggjöfin og matvæli eru þar með í frjálsu flæði innan svæðisins. Því þarf ekki opinbert heilbrigðisvottorð með dýraafurðum til EES ríkja.
Kröfur sem gerðar eru um vottun vegna afurða sem fluttar eru til þriðju ríkja (landa utan EES) byggjast á skilyrðum sem viðkomandi móttökuríki gerir. Í sumum tilfellum hafa farið fram sérstakar viðræður á milli yfirvalda á Íslandi og móttökuríkja og jafnvel gerðar úttektir hér á landi áður en skilyrði og vottorðaform eru útfærð.
Opinber heilbrigðisvottorð - til hvers?
Opinbert heilbrigðisvottorð vegna útflutnings afurða er staðfesting frá yfirvöldum í útflutningslandi til yfirvalda í móttökuríki á eftirfarandi:
- Að framleiðandinn hafi starfsleyfi og lúti opinberu eftirliti.
- Að afurðirnar hafi verið framleiddar samkvæmt matvælalöggjöf ESB.
- Að afurðirnar uppfylli skilyrði móttökuríkis, þ.e. ef viðkomandi móttökuríki gerir sérkröfur.
Ekki er þörf á staðfestingu viðtakanda vöru í móttökuríki á vottorði (drögum) áður en það er gefið út. Hlutverk viðtakanda er að sjá til þess að sendandi á Íslandi sé með rétt nafn og heimilisfang viðtakanda. Þessar upplýsingar ættu að geta legið fyrir tímanlega.
Hleðslustaðfestingar
- Vottun búfjárafurða til manneldis byggir á útflutningseftirlit með viðkomandi sendingu, sk. hleðslustaðfestingu.
- Hleðslustaðfesting er framkvæmd af MAST og skal útflytjandi senda beiðni tímanlega og nota til þess viðeigandi eyðublöð.
- Beiðni um hleðslustaðfestingu skal send til MAST, þ.e. héraðsdýralæknis viðeigandi umdæmis
- Hleðslustaðfesting vegna útflutnings á kjöti og dýraafurðum öðrum en mjólk
- Hleðslustaðfesting vegna útflutnings á mjólkurvörum
Vottorðabeiðni - upplýsingar í vottorði
- Framleiðandi, útflytjandi eða miðlari óskar eftir vottorði.
- Sendandi skal vera með íslenska kennitölu. Aðili með kennitölu á Íslandi getur verið skráður sendandi í heilbrigðisvottorði fyrir hönd erlendra aðila
- Sá sem óskar eftir vottorði ber ábyrgð á því að allar upplýsingar í vottorðinu séu réttar. Innsláttarvillur geta skapað vandamál.
- Í þeim löndum þar sem farið er fram á sérstaka skráningu og samþykki móttökuríkis á framleiðanda (á t.d. við um fyrir lambakjöt til Kína) er sérstaklega mikilvægt að samræmi sé á milli uppgefinna upplýsinga í vottorði og því hvernig framleiðandi er skráður hjá móttökuríki.
- Fylla skal út alla nauðsynlega reiti í vottorði áður en beiðni er send.
Vottorð - útgáfa og afgreiðsla
- Vottorð eru afgreidd á virkum dögum á afgreiðslutíma inn- og útflutningsdeildar MAST (9-15).
- Senda skal beiðni um vottorð a.m.k. sólarhring (virkir dagar) áður en varan er send úr landi.
- Vottorð eru afgreidd svo fljótt sem unnt er, en MAST áskilur sér sólarhring til að gefa út vottorð, svo fremi sem allar nauðsynlegar upplýsingar og gögn liggi fyrir.
- Vottorð skulu gefin út áður en sending fer úr landi. Þegar óskað er eftir vottorði skal gefa upp stað og stund þar sem sendingin verður aðgengileg fyrir skoðun.
Algengar ástæður höfnunar vottorða/sendinga í móttökuríki
- Innsláttarvillur t.d. í heiti afurðar, heiti eða heimilisfangi framleiðanda, gáma- eða innsiglisnúmerum.
- Misræmi í skráningum framleiðanda í vottorði og á opinberum listum, þ.á.m. í skrám móttökuríkis.
- Misræmi í merkingum á vörum og starfsstöðvanúmeri í vottorði.
- Vottorð gefið út eftir að sending fer úr landi (sbr. dagsetningu á farmbréfi).
Leiðréttingar / yfirtökuvottorð
- Í undantekningartilfellum er þörf á leiðréttingu vottorða eftir að þau hafa verið gefin út.
- Inn- og útflutningsdeild metur hvert tilfelli fyrir sig og veitir nánari leiðbeiningar.
- Tekið er gjald fyrir endurútgáfu vottorða.
Sækja um vottorð
Senda skal beiðni um vottorð í þjónustugátt MAST. Ekki er tekið við beiðnum í gegnum tölvupóst. Sérstök vottorðaeyðublöð eiga við um hverja afurð / móttökuríki.
- Umsækjandi skráir sig í þjónustugátt MAST með rafrænum skilríkjum. Leiðbeiningar um innskráningu í þjónustugátt á vegum fyrirtækja.
- Í flipanum „Umsóknir/Tilkynningar“ skal velja „09 Heilbrigðisvottorð vegna útflutnings > 9.01 Umsókn um útflutningsvottorð".
- Velja skal viðeigandi móttökuríki, afurðaflokk og afurð og hvort vottorð verði sótt eða sent.
- Smella á sækja vottorð.
- Fylla út vottorðaeyðublað.
- Hengja útfyllt vottorðaeyðublað við umsókn, svo og fylgigögn ef þörf krefur.
- Útgefin vottorð eru afhent í móttöku inn- og útflutningsdeildar að Laugavegi 166 (1. hæð) í Reykjavík á afgreiðslutíma, ellegar send með almennum pósti sé þess óskað.
Fyrir vottorð til Bretlands (frá 31. janúar 2024) eru rafræn vottorð gefin út í gegnum TRACES. Nánari upplýsingar má finna á sér upplýsingasíðu um útflutning til Bretlands
Gjaldskrá
- Kostnaður greiðist af útflytjenda.
- Innheimt er fyrir vottorð skv. gjaldskrá MAST.
- Sama gjald er fyrir yfirtökuvottorð.
- Innheimt er fyrir einn mánuð í senn.