Fara í efni

Útflutningur matvæla til einkaneyslu

Ýmsar takmarkanir eru á útflutningi matvæla sem innihalda dýraafurðir (þ.e. kjöt- og mjólkurvörur og egg) vegna sjúkdómavarna. Löggjöf er mismunandi eftir löndum og óheimil matvæli eru tekin af ferðamönnum við tollskoðun og getur það varðað sektum. Póstsendingum með óheimilum matvælum er ýmist hent eða þær endursendar. 

Því er mikilvægt er að kynna sér reglur um útflutning matvæla (dýraafurða) til einkaneyslu áður en slíkar vörur eru fluttar til útlanda, hvort sem um er að ræða matvæli sem höfð eru með í ferðalag eða sendar með pósti til vina/ættingja ytra. 

Evrópska efnahagssvæðið

Ferðamönnum er heimilt að taka með í farangri matvæli sem innihalda dýraafurðir til einkaneyslu til annarra landa innan EES (Evrópska efnahagssvæðisins). Sama gildir um matvæli sem send eru með pósti. 

Bandaríkin

Ferðamönnum er heimilt að taka með sér til Bandaríkjanna allt að 22,6 kg (50 pund) af lambakjöti til einkaneyslu. Athugið að kjötið þarf að vera í neytendapakkningum og merkt með auðkennismerki.

Einnig er heimilt að hafa meðferðis lítið magn af fiski, rækjum, skelfiski og öðrum sjávarafurðum (ýmist hráum, frystum, þurrkuðum, reyktum, soðnum eða niðursoðnum). Slíkar vörur skulu vera eingöngu til einkaneyslu og ekki til frekari sölu eða dreifingar í Bandaríkjunum.

Allir ferðamenn sem koma til Bandaríkjanna verða að gera skil gagnvart tolli á öllum matvælum sem þeir hafa í farangri sínum. Sé það ekki gert getur það varðað háum fjársektum.

ATH! Heimild þessi gildir eingöngu um kjöt sem ferðamenn hafa meðferðis í farangri sínum en ekki um matvæli (dýraafurðir) sem sendar eru með pósti. 

Önnur lönd

Víðast hvar er að finna upplýsingar um innflutning matvæla til einkaneyslu á opinberum vefsíðum viðkomandi landa. 

  • Bretland: Hafa má meðferðis (í farangri) mjólkurvörur, fisk og kjötvörur til einkaneyslu. Sérreglur gilda um svínakjöt en það má hafa í mesta lagi 2 kg af svínakjöti/svínakjötvörum. Tryggja skal að afgöngum af svínakjöti sé fargað tryggilega til að hindra útbreiðslu afrískrar svínapestar.  Upplýsingar á vef breskra yfirvalda
    Bresk stjórnvöld ætla að kynna nýjar reglur um innflutning dýraafurða í október 2023 í tilefni nýs landamæraeftirlits sem taka á gildi í skrefum frá og með 1. janúar 2024.

Neytendapakkningar og auðkennismerki

Fyrirtæki sem framleiða matvæli úr dýraafurðum skulu merkja vörur sínar með auðkennismerki sem inniheldur samþykkisnúmer framleiðanda. Það tryggir rekjanleika og staðfestir að leyfishafi uppfyllir kröfur Íslands og Evrópusambandsins. Auðkennismerkið er egglaga og þar koma fram orðin EFTA, IS (eða Ísland) og númer framleiðandans. Nánar um auðkennismerki og samþykkisnúmer.

Ávextir og grænmeti

Víða eru strangar reglur um innflutning á ávöxtum og grænmeti með það að markmiði að koma í veg fyrir dreifingu ýmissa plöntusjúkdóma. Mikilvægt er að ferðamenn afli sér upplýsinga um slíkar reglur.

Uppfært 08.11.2023
Getum við bætt efni síðunnar?