Fara í efni

Varnir gegn sjúkdómum í svínum

Allur innflutningur á lifandi búfé til Íslands er bannaður. 

Vegna landfræðilegrar einangrunar og strangra innflutningsreglna hefur Ísland sloppið að mestu við alvarlega smitsjúkdóma í dýrum. Það er skylda okkar allra að standa vörð um góða sjúkdómastöðu og leita allra leiða til að hindra að varhugaverð smitefni berist til landsins. 

Þegar ferðast er milli landa er nauðsynlegt að gæta ítrustu smitvarna! Hafi aðilar verið á svínabúum eða sýningum erlendis, þar sem svín hafa verið eða komist í snertingu við hugsanlegt smit sem getur borist í svín hérlendis, skulu þeir ekki fara inn á svínabú eða vera í snertingu við svín fyrr en í fyrsta lagi 48 klst. eftir komu til landsins. 

Matvælastofnun hvetur svínabændur til þess að verja dýrin og búið sitt. Svínabændur eru hvattir til þess að vera fyrirmyndir í að sýna smitgát og takmarka umferð inn á búin hjá sér eins og kostur er.

Til að hindra útbreiðslu sjúkdóma þurfa svínabændur að:

  1. Vera með góðar smitvarnir
  2. Uppfylla lög um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim nr. 25/1993 og reglugerð 560/2010 um innflutning á djúpfrystu svínasæði
  3. Tilkynna um grun um smitsjúkdóm eða áður óþekktan sjúkdóm til Matvælastofnunnar, hverjum þeim dýralækni sem til næst eða lögreglu
  4. Skrá niður heimsóknir á búin og tryggja rekjanleika

Hér fyrir neðan eru smitvarnarráð fyrir svínabændur á íslensku og ensku sem hægt er að hengja upp á búunum

smitvarnarrad-svinabaendur.pdf

biosecurity-pig-farms.pdf

Sjúkdómaskimun

Samkvæmt lögum um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim nr. 25/1993, ber hverjum þeim sem hefur ástæðu til að ætla að dýr sé haldið smitsjúkdómi sem lögin ná yfir eða áður óþekktan sjúkdóm að tilkynna það hverjum þeim dýralækni sem til næst eða lögreglu. Þessi vöktun dýraeigenda og almennings ásamt vakandi augum dýralækna er gífurlega mikilvæg í því skyni að koma í veg fyrir að nýir smitsjúkdómar breiðist út. Sumir sjúkdómar eru þó þess eðlis að dýrin geta verið sýkt án þess að sjúkdómseinkenni komi fram, þá þarf að vakta með sýnatökum. Matvælastofnun metur hvaða sjúkdóma er mest þörf á að vakta hverju sinni. Við matið er tekið tillit til mögulegra smitleiða og sjúkdómastöðu í nágrannalöndum okkar og þeim löndum sem við eigum viðskipti við, jafnframt er farið eftir reglum Alþjóða dýraheilbrigðisstofnunarinnar (OIE) og viðskiptalanda okkar eftir því sem við á. 
 

Hér er að finna upplýsingar um niðurstöður reglubundinnar sýnatöku í búfé á undanförnum árum:

 

Varnir gegn smiti MÓSA (e. MRSA) á íslenskum svínabúum

Eftirlit með salmonellu í svínarækt

Eftirlit með salmonellu í svínum fer samkvæmt landsáætlun um varnir og viðbrögð við salmonellu í svínarækt og afurðum svína:

Eftirlit með salmonellu í svínarækt er með þrennum hætti:

  1. Kjötsafasýni - Fylgst er með mótefnum gegn salmonellu í kjötsafa allt árið. Mótefni myndast í flestum tilvikum gegn salmonellu í svínum þegar þau verða fyrir smiti. Með því að mæla styrk mótefna í kjötsafa allt árið um kring má fylgjast með breytingum í magni þeirra og meta hvort smitálag salmonellu á svínabúunum sé hverfandi, lítið eða mikið.
  2. Stroksýni - Leitað er að salmonellu á yfirborði svínaskrokka við hverja slátrun. Við flutning svína í sláturhús, við bið þeirra í sláturrétt eða við slátrunina, geta þau smitast og skrokkarnir mengast af salmonellu. Svín sem eru laus við smit geta mengast með þessum hætti. Svín sem bera í sér salmonellu geta mengað flutningstæki, sláturhús og aðra skrokka. Því er nauðsynlegt að fylgjast með yfirborðsmengun skrokka til þess að koma í veg fyrir eins og kostur er, að mengað svínakjöt fari á markað.
  3. Saursýni - Til að greina hvaða sermisgerðir salmonellu eru að finna á viðkomandi búi. Að öllu jöfnu eru ekki tekin saursýni. Ef miklar breytingar eiga sér stað t.d. í móefnamælingu (titer) á kjötsafa, gæti verið ástæða til frekari rannsókna á sermisgerðum sem eru til staðar á búunum. Þá getur verið mikilvægt er að fá vitneskju um sermisgerðirnar og lyfjanæmi þeirra, því sumar eru meinvirkari en aðrar. Vitneskja um sermisgerðirnar eru einnig mikilvægar þegar rekja þarf smitið og getur þá þurft að greina erfðaefni þeirra í því samhengi.

Afrísk svínapest

Afrísk svínapest er bráðsmitandi drepsótt í svínum og hefur dreifst með villtum svínum um Asíu, Afríku og Evrópu. Ekki er til nein meðhöndlun við sjúkdómnum og ekki er hægt að verjast honum með bólusetningum. Veiran sem veldur sjúkdómnum er ekki hættuleg fyrir fólk eða önnur dýr en veldur svínum þjáningum og dauða. Tjón fyrir landbúnað þar sem sjúkdómurinn kemur upp er gífurlegt.

Veiran sem veldur afrískri svínapest getur m.a. borist með sýktum svínum og sæði, hráu kjöti af sýktum dýrum, farartækjum, búnaði, fatnaði o.fl. Þeir sem geta borið veiruna á milli landa eru helst svínabændur/starfsfólk, veiðimenn og ferðamenn. Hér á eftir koma leiðbeiningar um hvernig ber að forðast að bera veiruna á milli landa.

Tilmæli til svínabænda eru:

  • Hafið stranga stjórn á aðgangi og umgangi gesta og starfsfólks á búinu. Þeir sem hafa verið eða komist í snertingu við hugsanlegt smit sem getur borist í svín hérlendis, skulu ekki fara inn á svínabú eða vera í snertingu við svín fyrr en í fyrsta lagi 48 klst. eftir komu til landsins.
  • Fóðrið ekki svín með matarúrgangi og passið að matvæli sem geta innihaldið veiruna fari ekki inn á búið.
  • Þrífið og sótthreinsið öll tæki og tól sem farið er með inn á búið.

Tilmæli til ferðamanna eru:

 

  • Ekki hafa meðferðis matvörur sem innihalda svínakjöt, eins og skinku og pylsur 
  • Ef þú ert með þessar matvörur, verður þú að framvísa þeim í tollinum (eins og gildir um allar dýraafurðir)
  • Ef þú ferð í göngu, lautarferð eða jafnvel á veiðar, forðastu alla snertingu við svín og ekki láta nein dýr komast í matarafgangana þína
  • Og gleymdu ekki að þvo skóna þína vel áður en þú ferð heim 

Veiðimenn eru meðal þeirra sem þurfa sérstaklega að gæta sín á að dreifa ekki veirunni. Þeir sem fara til Evrópu eða annarra heimshluta á villisvínaveiðar þurfa að gæta ýtrustu smitvarna til að koma í veg fyrir að bera afríska svínapest milli landa. Pestin er í hraðri útbreiðslu og mikil ógn stafar af henni fyrir svínarækt í heiminum. Smit getur borist með matvælum, fatnaði og ýmsum tækjum og tólum.

Tilmæli til þeirra sem fara á villisvínaveiðar eru:

  • Kynnið ykkur vel þær smitvarnareglur sem gilda í veiðilandinu.
  • Þrífið og sótthreinsið tæki og skó áður en veiðilandið er yfirgefið.
  • Þvoið notaðan fatnað í veiðilandinu. Sé það ekki mögulegt skal setja hann í poka og þvo í þvottavél án tafar þegar heim er komið eða fara með í hreinsun.
  • Farið ekki á svínabú að nauðsynjalausu, hvorki innanlands né erlendis.
  • Kynnið ykkur vel þær reglur sem gilda um innflutning á kjöti og veiðiminjar. Þær má finna á heimasíðu Matvælastofnunar, www.mast.is.

Af hverju er bannað að fóðra búfénað með afgöngum úr eldhúsinu?

Smitefni getur borist í menn og dýr á margan hátt. Ein leið er með fóðri. Fóður skal vera heilnæmt og ekki innihalda skaðlegar örverur eða efnasambönd. 

Flestum þykir eðlilegt að fóðra frístundarhænur og svín með afgöngum sem falla til í eldhúsinu. Það spornar við matarsóun og minnkar rusl á heimilinu. Hins vegar er bannað samkvæmt lögum að gefa búfé dýraafurðir og eldhúsúrgang því það er ein helsta smitleið margra alvarlega smitsjúkdóma í dýr. Sem dæmi má nefna að vírusinn sem veldur afrískri svínapest, getur lifað í frosnu kjöti í mörg ár og í þurrkuðu kjöti í marga mánuði. Afrísk svínapest er í hraðri útbreiðslu um Evrópu, Asíu og Afríku og hefur nú þegar valdið gífurlegu efnahagslegu tjóni. 

Hvað segja lögin? 

Samkvæmt fóðurlögum og reglugerð nr. 674/2017 um aukaafurðir dýra er bannað að fóðra búfé, að loðdýrum undanskildum, með kjöti og öðrum dýraafurðum. Tilgangur þessa banns er að koma í veg fyrir að smit geti borist í dýr með smituðu dýrapróteini. Sérstök áhætta er á smiti þegar dýr éta afurðir frá sömu dýrategund, svokallaður kannibalismi, en bannið tekur sérstaklega á því. Reglurnar banna jafnframt notkun hvers kyns eldhússúrgangs sem fóður fyrir búfé, bæði frá heimilum og veitingastöðum.  

Þetta bann á bæði við um hráar og eldaðar matarleifar. Þó er heimilt að fóðra með grænmeti og öðrum matvælum úr plönturíkinu ef það hefur aldrei farið í eldhús. Dæmi um þetta er grænmeti úr garði. Ef grænmeti kemur beint úr garðinum er ekki hætta á krossmengun frá kjöti eða kjötsafa úr eldhúsinu. Í eldhúsinu er hætta á að kjöt innihaldi smitefni sem getur borist í önnur matvæli með snertingu eða með höndum, hönskum eða áhöldum. 

Mjólk, egg, dýrafita og fiskiolía eru undanskilin þessu banni séu þau meðhöndluð á ákveðinn hátt. Sérstakar reglur gilda einnig um matarafganga frá matvælafyrirtækjum, en ekki verður fjallað um þessi tvö atriði hér. 

Er þetta raunveruleg hætta fyrir okkur á Íslandi? 

Ástæða þessa banns er að með fóðrun á kjöti og öðrum dýraafurðum geta alvarlegir smitsjúkdómar borist í húsdýr hér á landi. Margir smitsjúkdómar, sem eru landlægir erlendis en þekkjast ekki hér, geta borist með kjöti. Svín geta t.d. smitast af afrískri svínapest, klassískri svínapest og gin- og klaufaveiki, sem getur svo borist í önnur klaufdýr, og alifuglar geta m.a. smitast af fuglaflensu og Newcastleveiki. Þess vegna er mikilvægt að búféð okkar komist ekki í snertingu við innflutt kjöt. 

Ekki er nóg að elda matarleifar fyrir fóðrun þó það minnki áhættuna. Ástæðan er sú að erfitt getur verið að tryggja rétt hitastig til að drepa smitefni við eldun. Mest hætta er þó á að grænmeti geti mengast frá hráu kjöti áður en kjötið er eldað,  t.d.  afskurður af grænmeti, hýði og ávaxtabörkur í vaski. 

Tveir alvarlegir smitsjúkdómar hafa borist í svín hér á landi þar sem hægt var að rekja smitið til eldhúsúrgangs sem svínin voru fóðruð með. Annars vegar svínapest (e. classical swine fever) sem kom upp árið 1942 og hins vegar blöðruþot (e. vesicular exanthema) árið 1955. 

Hvað gerist ef sjúkdómur kemur upp? 

Greinist tilkynningarskyldur sjúkdómur hér getur það haft alvarlegar afleiðingar í för með sér. Stór hluti dýra getur veikst og jafnvel drepist. Sjúkdómarnir geta valdið dýrunum miklum þjáningum. Setja þyrfti flutningsbann á smitaða búið og jafnvel stórt svæði í kringum það. Aflífa gæti þurft öll dýr á viðkomandi búi og hugsanlega stærri hóp til að hefta útbreiðslu sjúkdómsins. Þetta á t.d. við um gin- og klaufaveiki, afríska svínapest, klassíska svínapest, fuglaflensu og Newcastleveiki. 

Greining á alvarlegum dýrasjúkdómi hér á landi hefði líka áhrif á útflutning afurða úr landinu, til dæmis á lambakjöti. 

Gin- og klaufaveikifaraldurinn í Bretlandi árið 2001 er mjög gott dæmi um þá áhættu sem tekin er þegar dýrum er gefinn eldhúsúrgangur en útbreiðsla á veikinni var m.a. rakin til svínabús sem fóðraði með hitameðhöndluðum eldhúsúrgangi frá veitingastöðum. Þessi faraldur varð til þess að a.m.k. 6,5 milljónir dýra (nautgripir, sauðfé og svín) voru aflífuð og ársframleiðsla á búfjárafurðum á landsvísu í Bretlandi var 20% minni en áætlað var. Fjárhagslegt tjón landbúnaðar- og matvælageirans var um þrír milljarðar punda og ferðamálageirinn tapaði öðru eins. Heildarkostnaður fyrir þjóðina er talinn hafa verið um átta milljarðar punda. Ætla má að afleiðingar af slíkum faraldri hér á landi yrðu mjög alvarlegar, jafnvel óbætanlegar fyrir íslenska dýrastofna. 

Ítarefni

Uppfært 13.03.2024
Getum við bætt efni síðunnar?