Fara í efni

Geymsluþol

Reglur um merkingu geymsluþols matvæla koma fram í reglugerð nr. 1294/2014 um miðlun upplýsinga um matvæli til neytenda sem innleiðir reglugerð Evrópusambandsins nr. 1169/2011

Samkvæmt 9. grein 1. tl. f) í ESB reglugerð nr. 1169/2011 er skylt að merkja dagsetningu lágmarksgeymsluþols eða síðasta notkunardag. Nánari ákvæði eru í 24. grein og viðauka X.

Í reglugerð 1294/2014 (landsákvæðum) varða 5., 6. og 10. grein geymsluþolsmerkingar og geymsluskilyrði.

Lágmarksgeymsluþol - Best fyrir

Lágmarksgeymsluþol („best fyrir“) segir til um hve lengi matvara heldur eiginleikum sínum. Margt getur takmarkað þann tíma t.d. þornun, rakadrægni, þránun, seigja, bragð- og litarbreytingar. Einnig skemmdir af völdum örvera þannig að matur súrnar, fúlnar, myglar o.s.frv.

Merkingin gefur til kynna þann tíma sem matvörurnar standast þær gæðakröfur sem ábyrgðaraðili/framleiðandi vörunnar gerir til þeirra.

Matvörur sem eru merktar með lágmarksgeymsluþoli:

  • mega ekki að vera hættulegar heilsu fólks þó að uppgefinn geymsluþolstími sé liðinn
  • má selja áfram eftir að uppgefnu geymsluþoli lýkur, séu þær í neysluhæfu ástandi. Seljandi skal aðgreina þær frá annarri vöru
  • eru hæfar til neyslu ef þær líta eðlilega út, lykta og smakkast eðlilega. Uppfylli matvörur þetta eru neytendur hvattir til að nýta þær vel þó geymsluþolstími sé liðinn, til að minnka matarsóun

Síðasti notkunardagur

Síðasti notkunardagur er notaður á matvörur sem eru mjög viðkvæmar fyrir örveruvexti þannig að sjúkdómsvaldandi örverur geta fjölgað sér á geymslutímanum og varan þannig orðið hættuleg heilsu, sé hún notuð eftir síðasta notkunardag. Það sem skiptir máli er að varan getur valdið hættu, þó að hún virðist vera í lagi hvað útlit, lykt og bragð varðar. Merkja skal allar kælivörur með 5 daga geymsluþol eða styttra með síðasta notkunardegi. Auk þess skal merkja aðrar matvörur sem eru örverufræðilega viðkvæmar sbr. ofangreint með þessari merkingu.

Framsetning geymsluþols

Geymsluþol matvöru á að gefa upp með degi, mánuði og ári, í þessari röð. Þó gildir eftirfarandi:  

  • Matvara með geymsluþol minna en 3 mánuði – nóg að merkja dag og mánuð 
  • Matvara með geymsluþol 3 – 18 mánuði – nóg að merkja mánuð og ár
  • Matvara með geymsluþol yfir 18 mánuði – nóg að merkja ár 

Heimilt er að vísa í hvar á umbúðum má sjá dagsetningu ef dagsetning kemur ekki í beinu framhaldi af merkingunni. Það er engin regla um á hvaða formi slík tilvísun er, en hún má ekki vera villandi þ.e.a.s. neytandinn má ekki vera í vafa um hvað er geymsluþolsdagsetning. Til dæmis er hægt að merkja: „Best fyrir: Sjá botn dósarinnar“, „Best fyrir: Sjá tappa flöskunnar“ eða „Síðasti notkunardagur: Sjá hinn miðann“. Skammstafanir eins og B.F. ætti ekki að nota nema að skýring á merkingunni sé annarsstaðar á umbúðum.

Ábyrgð og geymsluþolsathuganir

  • Fyrirtæki sem merkir sér matvöru er ábyrgt fyrir merkingum/upplýsingum um vöruna og ber ábyrgð á að geymsluþol hennar sé rétt metið og rétt merkt.
  • Við ákvörðun á geymsluþoli þarf að leggja faglegt mat á vöruna og þarf sá sem það gerir að hafa þekkingu á hráefnum, vinnsluferli, hreinlæti við framleiðslu, geymsluskilyrðum, samsetningu og eiginleikum vörunnar.
  • Þegar geymsluþolsathuganir eru framkvæmdar þarf að taka tillit til fyrirsjáanlegra skilyrða hvað varðar dreifingu, geymslu- og notkunar vörunnar og tyggja þarf að viðmiðanir varðandi öryggi matvæla séu uppfylltar. Ekki er því raunhæft að miða við að vara sé allan geymslutímann við kjörhitastig (0-4°C) þegar athuganir á geymsluþoli eru gerðar. Eðlilegt gæti verið að miðað sé að við að varan sé þrjá fjórðu hluta geymslutímans við 4-5°C en einn fjórða hluta við 7-8°C en það getur þó verið breytilegt eftir árstíðum og þarf að taka tillit til þess einnig.

Aðrir en ábyrgðaraðili hafa ekki heimild til að lengja geymsluþol matvöru með endurmerkingu eða umpökkun. Komi af einhverjum ástæðum upp þörf til að lengja geymsluþol s.s. vegna mistaka skal hafa samráð við eftirlitsaðila fyrirtækisins (heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga eða Matvælastofnun) áður en það er gert.

Ítarefni

Uppfært 24.01.2020
Getum við bætt efni síðunnar?