Tilkynningarskylt hundahald
Sum starfsemi með hunda er samkvæmt reglugerð um velferð gæludýra tilkynningaskyld til Matvælastofnunnar. Ekki eru gefin út nein starfsleyfi en óheimilt er að hefja starfsemina fyrr en liggur fyrir að skilyrði í reglugerð sem varðar starfsemina séu uppfyllt. Tilkynningaskyldri starfsemi er skipt upp í tímabundna starfsemi (sjá "Hundasýning") eða varanlega starfsemi (sjá "Varanlegt dýrahald eða þjónusta").
Hundasýning
Ef fyrirhugað er að halda hundasýningu skal tilkynna Matvælastofnun gegnum rafræna þjónustugátt á heimasíðu eigi síðar en 2 vikum áður en fyrirhuguð sýning er áætluð, með upplýsingum um m.a. staðsetningu, húsakost, búnað og viðeigandi öryggisráðstafanir varðandi brunavarnir. Óheimilt er að halda dýrasýningu áður en staðfesting Matvælastofnunar liggur fyrir um að skilyrði varðandi húsakost, búnað, öryggi og þekkingu sem sett eru í reglugerð um velferð gæludýra séu uppfyllt. Úttekt stofnunarinnar getur falist í eftirlitsheimsókn eða við rýni á skriflegum gögnum sem fylgja tilkynningunni.
Varanlegt dýrahald eða þjónusta
Umráðamanni dýrahalds sem talið er upp hér undir, ber að tilkynna Matvælastofnun um fyrirhugað dýrahald gegnum rafræna þjónustugátt á heimasíðu eigi síðar en þremur mánuðum áður en áætluð starfsemi hefst.
- Dýraathvarf
- Dýraaðstaða sveitarfélaga
- Dýradaggæsla
- Dýraendurhæfing
- Dýrahótel
- Dýraleiga
- Dýralæknaaðstaða
- Dýramiðlun
- Dýrasnyrting
- Dýrasýning
- Gæludýraverslun
- Umfangsmikið gæludýrahald:
- Hundahald með 10 eða fleiri hunda eldri en 12 mánaða
- Ræktun með 3 eða fleiri got á ári
- Útleiga á 3 eða fleiri hundum á ári.
Matvælastofnun skal taka út fyrirhugaða starfsemi innan þriggja mánaða frá móttöku tilkynningar. Úttekt stofnunarinnar getur falist í eftirlitsheimsókn eða við rýni á skriflegum gögnum sem fylgja tilkynningunni. Óheimilt er að hefja starfsemi áður en staðfesting Matvælastofnunar liggur fyrir um að skilyrði varðandi húsakost, búnað og þekkingu sem sett eru í reglugerð um velferð gæludýra séu uppfyllt.