Fara í efni

Viðvörunarkerfi fyrir matvæli og fóður

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

  Viðvörunarkerfi Evrópu fyrir matvæli og fóður (RASFF - Rapid Alert System for Food and Feed), sem er tengslanet Evrópu-sambandsins og EFTA-ríkjanna um öryggi matvæla og neytendavernd, er  30 ára í ár. Í tilefni af þessu var nýr leitarvefur fyrir almenning “RASFF-window” opnaður í júlí.

Á Íslandi er það Matvælastofnun (MAST) sem sér um að vakta viðvörunarkerfið og senda tilkynningar, sem þá berast til annarra Evrópuríkja, ef hættulegar vörur finnast hér á markaði.

Alþjóðleg ráðstefna var haldin í Brussel í júlí í tengslum við 30 ára afmæli RASFF-kerfisins.  Það byrjaði með samvinnu nokkurra Evrópuþjóða árið 1979 eftir að  appelsínur frá Ísrael, sem  höfðu verið sprautaðar með kvikasilfri í hryðjuverkaskyni, fóru á markaði í Evrópu. Nú gefst almenningi kostur á að fara inn á leitarvefinn “RASFF-Window” og skoða allar tilkynningar sem birtar hafa verið í kerfinu. Almenningur hefur þó takmarkaðan aðgang því ekki er hægt að sjá vöruheiti eða nafn framleiðanda vörunnar.

Ársskýrsla RASFF fyrir árið 2008 var birt 14. júlí sl. Skýrslan hefur að geyma stutta lýsingu á RASFF-kerfinu og starfsreglum þess, ásamt því að draga fram nokkrar helstu niðurstöður ársins. Samkvæmt ársskýrslunni eru langflestar tilkynningar um myglueitur í hnetum, fíkjum og fræjum, en einnig fannst myglueitur  í morgunkorni og hrísgjónum. Díoxín fannst í írsku svínkjöti og kjötvörum og var kjöt innkallað í 54 löndum, þ.á.m. 27 Evrópuríkjum sem tengjast RASFF-kerfinu. Sannaði kerfið sig þá með hröðu upplýsingaflæði, þ.e. tölvupósti á milli landa. Ein sending af beikoni hafði  komið til Íslands og síðar á árinu varð innköllun  á pólskri kjúklingakæfu sem innihélt svínafitu frá Írlandi.

Flæði óæskilegra efna úr eldhúsáhöldum úr plasti yfir í matvæli hefur verið áberandi í tilkynningum og var einkum um að ræða vörur frá Asíu. Tilkynningar um varnarefnaleifar í grænmeti og ávöxtum yfir leyfilegum mörkum voru í 78 tilvikum og þar af voru 32 tilkynningar um tyrkneskar perur. Þá var tilkynnt um tvo faraldra sem mátti rekja til skelfiskseitrana í Evrópu og veiktust samtals 25 manns. Þá má geta þess að sólblómaolía frá Úkraínu sem menguð var af iðnaðarolíu var seld til 39 landa, þ.á.m. 19 ríkja innan RASFF-kerfisins.

Í september 2008 greindist melamín í þurrmjólk frá Kína og síðan í fjölmörgum vörutegundum. Til að hindra innflutning mengaðra vörutegunda voru hér á landi settar reglur sem banna eða takmarka innflutning á matvælum og fóðri frá Kína eða með uppruna í Kína og sem innihalda mjólk, mjólkurafurðir, soja, sojaafurðir eða hjartarsalt. Engar vörur með melamíni hafa fundist á Íslandi. Í melamínmálinu var samvinna RASFF við INFOSAN, sem er alþjóðlegt tengslanet sem sér um matvælaöryggi innan WHO (Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar).

Ítarefni





Getum við bætt efni síðunnar?