Garnaveiki
Garnaveiki er ólæknandi smitsjúkdómur, sem leggst á öll jórturdýr: sauðfé, geitur, nautgripi og hreindýr. Orsökin er lífseig baktería af berklaflokki (Mycobacterium paratuberculosis). Hún veldur bólgum í mjógörn og oft einnig í langa, ristli og lifur. Sýklarnir berast út með saurnum og geta lifað í umhverfinu mánuðum saman. Bakterían er mjög harðger, þolir t.d. mörg sótthreinsiefni. Sýking verður um munn með saurmenguðu fóðri og vatni. Meðgöngutími í fé er 1-2 ár eða lengri. Meðgöngutími í kúm er 2 ½ ár eða lengri.
- Listi yfir staðfest garnaveikitilfelli síðustu 10 ára
- Upplýsingar um garnaveikitilfelli í landupplýsingakerfi Matvælastofnunar
Einkenni garnaveiki
Einkenni garnaveiki eru hægfara vanþrif, skituköst og deyfð þrátt fyrir sæmilega átlyst. Best er að fylgjast með þrifum (vigta) til að finna smitbera. Þar sem veikin kemur upp í óbólusettu fé getur verið margt um ,,heilbrigða” smitbera. Það eru kindur sem hafa tekið smit en sýna ekki einkenni enn. Þessir einstaklinga eru þó að dreifa smitefni í miklu magni í umhverfi sitt. Garnaveiki er ólæknandi og dregur sýkt dýr óhjákvæmilega til dauða. Það getur hins vegar tekið langan tíma, oftast mánuði, eftir að fyrstu einkenni koma fram. Skilyrðislaust ætti að taka sýni úr öllum gripum sem lógað er vegna sjúkdóma eða vanþrifa, eða drepast af óþekktum orsökum.
Smitdreifing
Smitdreifing milli bæja verður fyrst og fremst við flutning á sýktum gripum frá garnaveikismitaðri hjörð. Einnig getur smit borist milli bæja með óhreinum skófatnaði. Ekki er hægt að útiloka smitdreifingu með heyi og/eða samnýtingu landbúnaðartækja. Nagdýr og vissar fuglategundir geta hýst bakteríuna og verið smitberar án þess að sýna sjúkdómseinkenni.
Innan hjarðar verður smitdreifing frá fullorðnum dýrum og frá umhverfinu yfir í ungviði, einkum á húsi með saurmengun í drykkjarvatni og jötum, síður úti í haga nema smitmagn í umhverfinu sé þeim mun meira.
Næmi gagnvart smiti minnkar með aldrinum. Fóstur og ungdýr upp að fjögurra mánaða aldri eru móttækilegust. Eldri dýr smitast síður þó svo að þau geti sýkst ef smitálagið er mikið.
Greining
Greining sjúkdómsins í einstökum dýrum er miklum vandkvæðum bundin vegna þess að sjúkdómurinn þróast mismunandi í hverjum einstaklingi og svörun greiningarprófa er háð því á hvaða stigi sjúkdómurinn er. Ekkert greiningarpróf í lifandi dýrum gefur hundrað prósent tryggingu fyrir því að einstaklingur sé ekki smitaður þrátt fyrir að útkoman sé neikvæð.
Á vissu stigi sjúkdómsins má finna bakteríuna í saurnum. Þó í mjög litlum mæli í upphafi sýkingar og síðar meir er útskilnaður mjög sveiflukenndur. Bakterían sést þá í smásjá eftir sérstaka sýklalitun á slími úr saur eða slímhúð. Það afbrigði sýkilsins sem veldur sjúkdómnum hér á landi hefur reynst óræktanlegt í rannsóknarstofu. Blóðpróf, sem mæla mótefni gegn sýklunum er önnur greiningaraðferð. Prófið er ónákvæmt, hentar betur sem hjarðpróf en einstaklingspróf. Blóðpróf er ónothæft á bólusett fé nema til að kanna bólusetningarárangur. Það greinir ekki á milli mótefna, sem myndast við bólusetningu og mótefna frá sýkingu með bakteríunni.
Eftirlitsdýralæknar í sláturhúsum skoða mjógörnina við langann og garnaeitlana í fullorðnum kindum og nautgripum. Sjái þeir einhverjar breytingar senda þeir sýni til Tilraunastöðvar Háskólans að Keldum til nánari rannsóknar.
Bólusetning gegn garnaveiki
Bólusetja skal öll ásetningslömb og kið á garnaveikisvæðum eins snemma hausts og mögulegt er og skal bólusetningu lokið fyrir 31.12. ár hvert. Óheimilt er að hafa óbólusett lömb/kið með eldra fé í sömu fjárhúskró eða í þröngum beitarhólfum að hausti.
Bólusetja skal undir húð, milli skinns og hörunds, aftast og efst í snögga blettinn innan við hægri olnboga.