Kýlapest
Svokölluð kýlapest í sauðfé orsakast af bakteríunni Corynebacterium pseudotuberculosis og nefnist á ensku „caseous lymphadenitis“.
Einnig hefur það verið nefnt kýlapest, hér á landi, þegar bakterian Actinobacillus lignieresii, sem þekkt er sem orsakavaldur að „wooden tounge“ í nautgripum og öðrum jórturdýrum, myndar kýli í vefjum á höfði, hálsi, útlimum og í einstaka tilfellum innri líffærum. Bakterían er hluti af normalflóru á slímhimnu efri hluta meltingarvegar og veldur sjúkdómi þegar hún kemst að aðliggjandi vefjum vegna stungusára/áverka. Hún veldur þá staðbundnum sýkingum og getur breiðst út með sogæðakerfinu til annarra vefja.
„Caseous lymhadenitis“ eða eiginleg kýlapest er krónískur smitsjúkdómur (bakteríusjúkdómur) sem einkennist af kýlum í jaðareitlum og/eða innri eitlum og líffærum. Í kýlunum er einkennandi graftrarkennt efni sem er mjög þykkt og lyktarlaust. Kýlapestin eins og við þekkjum hana lýsir sér með einum eða fleiri graftrarkýlum í eða nálægt þreifanlegum eitlum – ytra form, en sýking í innri eitlum eða líffærum lýsir sér yfirleitt sem þyngdartap og vanþrif – innra form. Staðfesting sýkingar fer fram við ræktun á bakteríunni C. pseudotuberculosis úr graftrarkýlum. Auðvelt er að taka sýni með strokpinna og rannsókn er ekki kostnaðarsöm.
Besta leiðin til að losna við sjúkdóminn er með því að fjarlægja sjúk dýr úr hjörðinni og aflífa þau. Þar sem það gengur ekki er nauðsynlegt að einangra sjúk dýr og meðhöndla þau með viðeigandi sýklalyfjum þar til kýli eru gengin niður eða sár eftir sprunginn kýli eru orðin þurr. Kýlapest viðhelst á bæjum/svæðum með mengun umhverfis frá opnum kýlum, eða með hósta- og nefrennslissmiti frá dýrum með innra form sjúkdómsins. C. pseudotuberculosis getur lifað í umhverfi í allt að 8 mánuði.
Kýlapest finnst um heim allan, en er mis algeng eftir löndum/svæðum. Bæði ytra og innra form kýlapestar finnst hjá sauðfé og geitum, en ytra formið er algengara í geitum á meðan innra formið er algengara í sauðfé. Þótt hún sé algengust hjá sauðfé og geitum finnst hún einnig sporadiskt hjá öðrum dýrategundum og mönnum. Mikilvægt er að gæta vel að sóttvörnum við meðhöndlun sjúkra gripa, þar sem um mögulega súnu er að ræða, þ.e.a.s. að bakterían getur sýkt bæði dýr og menn.